Hoppa yfir valmynd

ÁLITSGERÐ nefndar skv. 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í máli nr. 4/2003.



Mál B.

1. Aðilar málsins.

Aðilar málsins eru ríkislögreglustjóri, kt. 530697-2079, Skúlagötu 21, Reykjavík og B. Steinar Adolfsson lögfræðingur rak málið f.h. ríkislögreglustjóra en Helgi Jóhannesson hrl. rak málið f.h. B.

2. Málavextir.
2.1. Málsmeðferð fyrir nefndinni.
Við meðferð málsins skipuðu nefndina Björg Thorarensen prófessor, formaður, Erna Guðmundsdóttir hdl., tilnefnd af samtökum ríkisstarfsmanna og Arnar Guðmundsson skólastjóri, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti.

Málið barst nefndinni með bréfi ríkislögreglustjóra dags. 7. apríl 2003. Með því var framsent afrit bréfs ríkislögreglustjóra dags. 3. apríl 2003 til B þar sem tilkynnt var að ríkislögreglustjóri hefði veitt honum lausn frá starfi lögreglumanns um stundarsakir og tæki lausnin gildi frá og með 4. apríl 2003. Þann 10. apríl 2003 sendi formaður nefndarinnar bréf til fjármálaráðuneytisins og óskaði þess að skipaðir yrðu tveir meðnefndarmenn til þess að fjalla um málið sbr. 2. og 3. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (hér eftir nefnd starfsmannalög). Sama dag var B tilkynnt með bréfi formanns að málið hefði verið sent nefndinni til meðferðar.

Með bréfi dags. 25. apríl 2003 tilkynnti fjármálaráðuneytið formanni nefndarinnar að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði upplýst að B hefði kært ákvörðun ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins og að kæran væri til meðferðar þar. Teldi ráðuneytið því ekki tímabært að tilnefna mann í nefndina á meðan ekki lægi fyrir staðfesting af hálfu ráðuneytisins um lausn B. Þann 23. júní 2003 staðfesti dómsmálaráðuneytið ákvörðun ríkislögreglustjóra um að veita B lausn frá störfum um stundarsakir. Með bréfi dags. 30. júní 2003 tilkynnti fjármálaráðuneytið um skipun nefndarinnar og hófst þá meðferð málsins fyrir henni. Við meðferð málsins óskaði nefndin m.a. eftir rannsóknargögnum frá ríkissaksóknara varðandi meint brot B sem þar voru til rannsóknar. Bárust nefndinni gögn ríkissaksóknara með bréfi dags. 14. ágúst 2003. Að lokinni gagnaöflun og framlagningu greinargerða aðila var málið reifað munnlega af umboðsmönnum þeirra fyrir nefndinni þann 8. september 2003.

2.2. Málsatvik.
B var skipaður lögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík 1. apríl 1994. Þann 18. mars 2003 barst ríkislögreglustjóra afrit af bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til ríkissaksóknara, dags. 14. mars, þar sem tilkynnt var um tvær kærur á hendur B vegna ætlaðrar ólögmætrar handtöku tveggja einstaklinga við Café Amsterdam í Hafnarstræti í Reykjavík þann 9. mars 2003 (lögreglumál nr. 010-2003-06104). Var ríkislögreglustjóra í sama bréfi tilkynnt um þrjár kærur á hendur A lögreglumanni sem kærður var vegna sömu atvika, en hann var auk þess kærður vegna ætlaðrar ólögmætrar handtöku manns á veitingahúsinu Nonna-bitar í Hafnarstræti í Reykjavík aðfararnótt 8. mars sl. (lögreglumál nr. 010-2003-06499). Hefur A einnig verið veitt lausn um stundarsakir og er sú ákvörðun til umfjöllunar í máli nefndarinnar nr. 3/2003.

Meðfylgjandi tilkynningu lögreglustjórans í Reykjavík til ríkislögreglustjóra voru afrit af málsgögnum ásamt myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél lögreglu sem sýnir handtökur B og A á [H] og [M] frá 9. mars. Þá gerði lögreglustjórinn einnig grein fyrir því mati sínu að hann teldi ekki forsvaranlegt að A starfaði sem lögreglumaður við embættið á meðan rannsókn ríkissaksóknara stæði yfir og mæltist til þess að ríkislögreglustjórinn leysti hann frá embætti um stundarsakir. Var sú afstaða hans einkum byggð á eftirfarandi atriðum:
- Mjög væri efast um að handtökur hefðu verið nauðsynlegar.
- Af myndbandsupptöku vegna atviksins 9. mars yrði ekki séð að lögmæt ástæða hefði verið til handtöku á [M].
- Af sömu upptöku yrði ekki séð að nauðsynlegt hefði verið að sprauta varnarúða á [SÞ].
- Lýsing á ástandi við handtökuna þann 9. mars, sérstaklega þar sem lýst er mikilli múgæsingu, bæri ekki saman við myndbandsupptöku. Í fljótu bragði hefði skýrsluhöfundur virst færa í stílinn til þess að réttlæta viðbrögð lögreglu.

Í fyrrgreindu bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til ríkislögreglustjóra var ekki sérstaklega vikið að þætti B í þessu sambandi að öðru leyti en því að tilkynnt var um kærur á hendur honum og að þær hefðu verið sendar ríkissaksóknara til meðferðar, sbr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Með meðfylgjandi afriti af bréfi lögreglustjórans til ríkissaksóknara frá 14. mars kemur fram að B og A séu kærðir fyrir meint refsivert brot við framkvæmd lögreglustarfa, er þeir höfðu afskipti af [H] og [M] í Tryggvagötu aðfararnótt 9. mars, en þau voru þá handtekin og færð á lögreglustöð sökuð um að hafa ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu. Einnig er þar tekið fram að eftir fyrstu skoðun á gögnum málsins sé ljóst að verulegt ósamræmi sé á milli þess sem fram komi í skýrslum lögreglumannanna annars vegar og framburða kærenda og þess sem kemur fram á myndbandsupptökunni hins vegar.

Í afriti málsgagna sem fylgdi með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til ríkislögreglustjóra 18. mars 2003 fylgdi frumskýrsla um atvikið við Café Amsterdam aðfararnótt 9. mars ásamt handtöku- og vistunarskýrslum, rituð af B og einnig fylgdi skýrsla rituð af A þar sem gerð er grein fyrir notkun úðavopna á vettvangi. Loks fylgdu lögregluskýrslur sem teknar voru af kærendunum [H] og [M] svo og myndbandsupptakan úr eftirlitsmyndavél lögreglunnar. Verður nú dregið saman efni þessara gagna, en á þeim byggði ríkislögreglustjóri ákvörðun sína um að veita B lausn frá störfum um stundarsakir.

Í skýrslu B um aðdragandann að handtökum [H] og [M] kemur fram að er þeir A hafi verið í Tryggvagötu hafi þeir veitt athygli pari sem stóð úti á miðri götunni, móts við skemmtistaðinn Amsterdam og stöðvaði umferð. Þegar þeim hafi verið sagt að fara af götunni hafi karlmaðurinn [H] orðið mjög æstur og hafi neitað að fara frá umferð og af götunni og byrjað að ausa svívirðingum í garð lögreglunnar. Hafi hann ekki verið ölvaður en ástand hans annarlegt. Þar sem ekki hafi verið hægt að tala um fyrir honum hafi hann verið færður í handjárn og í lögreglubifreiðina 10-151 sem komið hafði á staðinn skömmu eftir komu þeirra. Við það hafi [M] unnusta [H], sem var áberandi ölvuð, orðið mjög æst og veist að lögreglu með miklum látum. Hafi hún verið handjárnuð og færð í lögreglubifreiðina 10-267 [bifreið A og B]. Á skömmum tíma hafi myndast mikil múgæsing meðal fólks sem hefði verið inni á veitingastaðnum Amsterdam en komið út á götu til að skipta sér af störfum lögreglu. Ástandið hafi verið eldfimt og hefði einn karlmaður [SÞ], hávaxinn og sterklegur, haft sig mest í frammi og hvatt félaga sína til að ráðast á lögreglumennina. Þar sem fáir lögreglumenn voru á vettvangi og æsingur og ölvun manna er þar voru slíkur, hafi sá sem mest hafði sig í frammi [SÞ] verið úðaður með mace-úða. Við það hafi lögreglunni gefist svigrúm til að koma sér af vettvangi án þess að til frekari átaka kæmi.

Í gögnum málsins var sérstök skýrsla sem A gerði um aðdraganda þess að úðavopni var beitt og var þar jafnframt kærður [SÞ], sá sem mest hafði sig í frammi í afskiptum af lögreglumönnunum. Segir í skýrslu A að múgæsing hafi brotist út í hópi manna sem hefði komið út úr Café Amsterdam þegar [H] og [M] voru handtekin. Hann teldi að múgurinn hefði verið um og yfir 10 manns og margir þeirra greinilega rammir að afli og æstir auk þess sem mikil ölvun hefði verið á mannskapnum. Hefði mikill hiti verið í mönnum og mat hans væri að hefði lögreglan ekki náð að yfirgefa vettvang hið snarasta hefði soðið endanlega upp úr og fjöldaslagsmál brotist út. Hafi B séð um að færa [M] í lögreglubílinn, en hann sjálfur hefði séð um að vernda B meðan á því stóð. Hefði hann tekið upp mace-úða til öryggis þar sem hann hefði ekki átt annarra kosta völ sökum ástands á mannskapnum og honum hefði ekkert litist á að eiga í átökum við [SÞ]. Þegar B hefði sett stúlkuna í aftursætið og síðan sest í ökumannssæti bifreiðarinnar hefði hann ætlað að setjast í framsæti farþegamegin en þá hefði [SÞ] verið staddur beint fyrir framan bifreiðina og hefði hann hrækt í átt að sér. Er hann hefði séð að [SÞ] ætlaði að ráðast að lögreglubifreiðinni og með því móti að fá múginn með sér hefði hann sprautað um 2 sekúndna löngum mace-úða í andlit hans. Við það hefði hann náð að loka lögreglubifreiðinni og bifreiðin hefði komist af vettvangi. Af dagbókarfærslum lögreglunnar í Reykjavík þetta kvöld má sjá að þrír einstaklingar komu á miðborgarstöð lögreglunnar til að tilkynna að þeir hefðu fengið á sig mace-úða og var einn þeirra [SÞ].

Í skýrslu sem B gerði um handtöku á [H] og [M] kemur fram um meint brot þeirra að þau hafi ekki fylgt fyrirmælum lögreglu sbr. 19. gr. lögreglulaga og einnig er vísað til 21. gr. áfengislaga um ölvun á almannafæri. Ástæða handtöku er sögð vera að koma í veg fyrir áframhaldandi brot. Eftir u.þ.b. hálfrar klukkustundar vistun í fangaklefa á lögreglustöðinni á Hverfisgötu áttu þau viðræður við vakthafandi varðstjóra en voru að því búnu bæði látin laus.

Skýrslur voru teknar af kærendunum [H] og [M] þann 12. mars hjá lögreglunni í Reykjavík er þau lögðu fram kærur á hendur B og A . Er atburðarásinni þar lýst svo að þau hafi verið að reyna að ná í leigubifreið í Tryggvagötu og hafi gengið skáhallt út á götuna til að stöðva hana en hún hafi verið full af fólki og ökumaður hefði því ekki stöðvað hana. Í því hafi borið að lögreglubifreið sem ók vestur götuna og hafi ökumaður bifreiðarinnar [ B] skipað þeim að fara af götunni. Kvaðst [H] hafa svarað honum með einhverjum leiðindum, en þau hefðu verið farin af götunni upp á gangstétt framan við veitingastaðinn Café Amsterdam þegar lögreglubifreið A og B hafi snúið við og rennt upp að gangstéttinni þar sem þau stóðu. Í sama mund hafi önnur stór lögreglubifreið einnig komið að. Bar [H] því við í skýrslunni að A hafi komið út úr fyrri bifreiðinni, lagt hann á vélarlokið á henni og sett í handjárn, en hann hefði enga mótspyrnu sýnt. Í frásögn [M] kemur fram að hún hafi orðið mjög reið er [H] var handtekinn, en þá hafi lögreglumennirnir beitt hana harðræði. Báðar hendur hennar hafi verið settar aftur á bak og henni ýtt upp að lögreglubifreið þar sem hún hafi síðan verið handjárnuð og sett inn í minni lögreglubifreiðina. Hafi hún við þetta hlotið mar á handleggjum, úlnliðum, öxlum og fótum og liggi fyrir áverkavottorð þess efnis.

Afrit af myndbandsupptökunni sem fylgdi með gögnum lögreglustjórans í Reykjavík til ríkislögreglustjóra sem sýnir fyrrgreindar handtökur við Café Amsterdam hefur verið lagt fram við meðferð málsins fyrir nefndinni. Hefst myndskeiðið á því að B og A handtaka [H] á gangstétt á Tryggvagötu framan við veitingahúsið. Er [H] lagður fram á vélarhlíf minni lögreglubifreiðar sem lagt er við gangstéttina, hann handjárnaður og settur í stærri lögreglubíl, sem stendur þar nálægt. Þá sést hvar ber að tvo menn sem hafa sig í frammi gagnvart lögreglunni, annar hávaxinn og þreklegur [SÞ], en þeir virðast ganga upp að lögreglumönnunum í sömu mund og [M] er handtekinn. Einnig standa álengdar og fylgjast með atburðum, að því er virðist, tveir vegfarendur, karl og kona og hafa þau sig ekki í frammi. Loks virðist sem fimmti maðurinn standi aftan við minni lögreglubifeiðina, bifreið B og A og fylgist með þegar [M] er færð í þá bifreið. Þegar B er sestur í ökumannssæti bifreiðarinnar og í sömu mund og A sest í framsætið farþegamegin gengur [SÞ] fram fyrir hana og hallar sér yfir vélarhlífina en gengur síðan áfram upp á gangstétt. Ekki sést á myndinni það augnablik þar sem A beitti úðavopni en upptökunni lýkur með því að báðar lögreglubifreiðarnar sjást aka á brott.

Með bréfi ríkislögreglustjóra til B dags. 21. mars 2003 var honum tilkynnt að ríkislögreglustjórinn hefði til skoðunar hvort rétt væri að veita honum lausn frá störfum á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga vegna fyrrgreindra atvika. Var B gefinn kostur á að koma að gögnum og andmælum áður en ákvörðun yrði tekin og var honum veittur frestur í þessu skyni til 26. mars. Með bréfi til ríkislögreglustjóra dags. 25. mars óskaði Helgi Jóhannesson lögmaður B eftir afriti allra gagna í málinu og einnig var óskað eftir framlengingu andmælafrests í nokkra daga. Með bréfi dags. 25. mars tilkynnti ríkislögreglustjóri lögmanni B að þar sem rannsókn á málum þess síðarnefnda væri á forræði ríkissaksóknara yrði að beina beiðni um afhendingu gagna til hans. Með bréfinu fylgdi afrit fyrrgreinds bréfs lögreglustjórans í Reykjavík til ríkislögreglustjóra frá 18. mars 2003. Jafnframt var tilkynnt um að frestur til andmæla yrði framlengdur til 31. mars. Sneri lögmaður B sér þá til ríkissaksóknara og óskaði eftir því með bréfi dags. 26. mars að rannsóknargögn í málinu yrðu afhent honum. Með bréfi ríkissaksóknara dags. 27. mars var lögmanni B synjað um afhendingu rannsóknargagna. Var synjunin byggð á því að rannsókn væri ekki hafin en um hana giltu lög um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, þ. á m. um afhendingu gagna, sbr. og 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig var vísað til þess að ríkissaksóknari kæmi á engan hátt að því stjórnsýslumáli sem varðaði hugsanlega lausn B frá störfum. Sama dag ítrekaði lögmaður B beiðni sína til ríkislögreglustjóra, með vísan til svars ríkissaksóknara, að honum yrðu afhent rannsóknargögn í málinu og að frestur til andmæla yrði framlengdur. Barst honum svar ríkislögreglustjóra samdægurs, þar sem beiðni hans var hafnað með vísan til þess að ríkislögreglustjóri hefði ekki lagaheimild til að afhenda umbeðin rannsóknargögn. Var jafnframt hafnað beiðni hans um frekari framlengingu á fresti til andmæla.

Með bréfi dags. 28. mars 2003 bárust ríkislögreglustjóra andmæli B. Með bréfi ríkislögreglustjóra dags 3. apríl 2003 var B veitt lausn frá störfum um stundarsakir með vísan til 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga og tók lausnin gildi frá og með 4. apríl. Í bréfinu segir nánar um ástæður lausnar:

"Ríkissaksóknari hefur nú til rannsóknar kærur á hendur yður vegna ætlaðra refsiverðra brota í starfi. Kærur þessar eru vegna ætlaðrar ólögmætrar handtöku aðfararnótt 9. mars sl., sbr. mál nr. 010-2003-06104 er varðar handtöku tveggja einstaklinga við Cafe Amsterdam í Tryggvagötu í Reykjavík. Ríkislögreglustjóranum barst tilkynning um framkomnar kærur á hendur yður með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík dags. 18. mars. 2003, ásamt afriti af rannsóknargögnum, sem send höfðu verið til ríkissaksóknara. Meðal rannsóknargagna var myndbandsupptaka úr myndavélakerfi lögreglunnar sem sýnir handtökuna.

Verulegt ósamræmi er milli þess sem fram kemur í skýrslu yðar annars vegar og framburði kærenda og þess sem fram kemur á ofangreindri myndbandsupptöku hins vegar og leikur vafi á um lögmæti handtöku. Háttsemin kann að varða við 132. gr. og 158. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Með bréfi ríkislögreglustjórans, dags. 21. mars 2003 var yður kynnt að ríkislögreglustjórinn hefði til skoðunar hvort rétt væri að veita yður lausn frá störfum um stundarsakir á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. l 70/1996 og var yður gefinn kostur á að koma að andmælum yðar og gögnum áður en ákvörðun yrði tekin. Vakin var athygli yðar á því að auk ofangreinds máls hefði ríkissaksóknari til rannsóknar kæru á hendur lögreglumanni nr. 8725 vegna ætlaðrar ólögmætrar handtöku aðfararnótt 8. mars 2003 er varðar handtöku manns á veitingastaðnum Nonna-bitar í Hafnarstræti í Reykjavík. Samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu lögreglumannsins komuð þér einnig að þeirri handtöku og er það rannsóknarefni hvort háttsemi yðar varði refsingu skv. 132. gr. almennra hegningarlaga. "

Í bréfinu eru síðan nánar rakin fyrrgreind bréfaskipti lögmanns B við ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra í tengslum við beiðni um afhendingu gagna, en síðan segir.

"Í ljósi þess sem nú hefur verið rakið og að teknu tilliti til andmæla yðar, hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að veita yður lausn frá störfum um stundarsakir með vísan til 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. l 70/1996. Lausnin er veitt þar sem þér í ofangreindu máli nr. 010-2003-06104 eruð grunaðir um háttsemi sem kynni að hafa í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. "

Þann 10. júní 2003 gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur B og A fyrir ólöglegar handtökur, ranga skýrslugerð og brot í opinberu starfi. Er ákæran gegn B í tveimur liðum. Í fyrsta lagi er honum þar gefið að sök að hafa sem lögreglumaður ásamt A aðfararnótt sunnudagsins 9. mars 2003 handtekið [H] í Tryggvagötu framan við veitingastaðinn Café Amsterdam, og fært hann á lögreglustöðina við Hverfisgötu án nægilegra ástæðna eða tilefnis. Er þetta talið varða við 131. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 132. gr. sömu laga. Í öðru lagi er B ákærður fyrir ranga skýrslugerð með því að hafa í lögregluskýrslu dagsettri 9. mars 2003 sem m.a. fjallaði um handtöku [H], skráð ranglega að mikil múgæsing hafi myndast á vettvangi, ástandið verið mjög eldfimt og að notkun úðavopns hafi verið nauðsynlegt til að lögregla kæmist af vettvangi án þess að til frekari átaka kæmi. Er þetta talið varða við 146. gr. og 138. gr. almennra hegningarlaga.

3. Sjónarmið málsaðila.
Hér verður nánar lýst kröfum og röksemdum aðila sem fram koma í greinargerðum þeirra til nefndarinnar og við munnlega reifun málsins fyrir nefndinni 8. september 2003.

3.1. Sjónarmið ríkislögreglustjóra.
Í greinargerð ríkislögreglustjóra til nefndarinnar frá 5. ágúst 2003 er þess krafist að nefndin rannsaki mál B og láti í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið af ríkislögreglustjóranum að víkja B frá störfum um stundarsakir. Einnig er krafist staðfestingar nefndarinnar á því að skilyrði fyrir veitingu lausnar um stundarsakir hafi verið uppfyllt þegar ákvörðunin var tekin, að sakir þær sem bornar voru á B hafi verið fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar ríkislögreglustjórans og að rétt hafi verið staðið að framkvæmd hennar.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að ákvörðun um tímabundna lausn B byggi á 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga, þar sem fram komi að veita megi embættismanni lausn um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Úrræði 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. sé hliðsett því úrræði að krefjast í ákæru réttindasviptingar á grundvelli 68. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. 1. gr., sbr. d. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með því að beita úrræði 2. málsliðar opnist sú leið að fyrirbyggja að opinber starfsmaður sem sætir rannsókn eða ákæru geti gegnt starfi sínu á meðan, enda kunni slíkt að þykja óviðunandi. Mál viðkomandi starfsmanns fái meðferð fyrir nefndinni sem skuli fara með málið til enda, óháð því að opinber rannsókn sé gerð samhliða, sbr. orðalag 1. mgr. i.f. 27. gr. starfsmannalaganna þar sem segir að hægt sé að vísa máli til opinberrar rannsóknar samhliða meðferð nefndarinnar. Starfsreglur nefndarinnar geri ráð fyrir því sama, sbr. 19. gr. þeirra, þar sem segir að nefndin skuli halda áfram meðferð máls og ljúka því með álitsgerð þótt gefin hafi verið út ákæra þar sem krafist hafi verið sviptingar rétti til að gegna embætti.

Ríkislögreglustjóri vísar til þess að þegar ákvörðun var tekin um lausn B, hafi legið fyrir lögregluskýrslur hans í lögreglumáli nr. 010-2003-06104, myndbandsupptaka úr eftirlitsmyndavél lögreglu sem sýni handtökuna frá 9. mars og skýrslur kærenda. Auk þess hafi legið fyrir andmæli B. Það er mat ríkislögreglustjórans að fyrirliggjandi gögn málsins hafi fullnægt skilyrði 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. um grun um refsiverða háttsemi B.

Af hálfu ríkislögreglustjóra er bent á að samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga megi, ef opinber starfsmaður fremur refsiverðan verknað, svipta í opinberu máli á hendur honum réttindum til að rækja starfann. Í ákvæðinu sé ekki gerður greinarmunur á því hvort umræddur verknaður er framinn í starfi eða utan þess og velti niðurstaðan á mati á því hvort viðkomandi teljist hæfur eða verður til að gegna starfinu eftir dóminn. Orðalag 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga verði ekki skýrt þannig að það sé skilyrði að mál sæti opinberri ákæru, heldur rannsaki nefndin atvik og leggi á þau mat og setji fram rökstudda niðurstöðu um hvort hinn ætlaði refsiverði verknaður sé slíkur, ef sök sannist, að starfsmaðurinn teljist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann. Erfitt sé að draga almennar ályktanir um hversu alvarleg brot á refsilögum þurfi að vera til að skilyrðum 68. gr. sé fullnægt. Af dómasafni Hæstaréttar sé ekki að sjá að einhverntímann hafi komið til þess að embættismaður hafi verið sviptur embætti sínu með dómi skv. 1. mgr. 68. gr. Í álitum nefndar skv. 27. gr. starfsmannalaga hafi heldur ekki verið gerð sú krafa að embættismissis sé krafist í ákæru fyrir dómi. Er í því sambandi vísað til álita nefndarinnar í málum 1/2002, 2/2002 og 3/2002. Við mat á því hvaða hegðun falli undir 68. gr. almennra hegningarlaga verði m.a. að hafa til hliðsjónar ákvæði IV. kafla starfsmannalaga um skyldur ríkisstarfsmanna sem og III. kafla lögreglulaga nr. 90/1996 um skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa. Þá beri einnig að taka mið af kröfum 38. gr. lögreglulaga um inntöku nýnema í Lögregluskóla ríkisins, en skv. a-lið greinarinnar gildi það almenna hæfisskilyrði að lögreglumannsefni hafi ekki gerst brotleg við refsilög.

Ákvörðun um lausn B um stundarsakir hafi verið byggð á því að grunur hafi verið kominn fram um ætlaða refsiverða háttsemi hans sem fólgin væri í ólögmætri handtöku og eftirfarandi rangri skýrslugerð hans, en þessi háttsemi kunni að varða við 132. gr. og 158. gr. almennra hegningarlaga. Reynist þessar sakargiftir réttar telur ríkislögreglustjórinn að þessi brot séu svo alvarleg að B verði ekki talinn hæfur eða verður til að rækja starfa sinn sem lögreglumaður og þar með sé fullnægt seinna skilyrði 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna. Slík háttsemi feli í sér að B fullnægi ekki lengur almennu hæfisskilyrði sem krafist er til starfa í lögreglunni og með þeirri háttsemi sinni hafi hann svipt sjálfan sig trausti og virðingu sem nauðsynleg sé í starfi hans sem lögreglumaður. Ríkar kröfur séu gerðar til lögreglumanna vegna eðlis þeirra starfa sem þeir gegni og ekki megi undir neinum kringumstæðum leika vafi um sannleiksgildi skýrslna þeirra um atvik. Ríkislögreglustjóri telur engin áhrif hafa í þessu sambandi að í ákæru ríkissaksóknara frá 10. júní sl. sé ætluð refsiverð háttsemi B vegna ólögmætrar handtöku heimfærð til 131. gr. almennra hegningarlaga (132. gr. til vara) og röng skýrslugjöf heimfærð til 146. og 138. gr. laganna. Breyti þetta engu varðandi málarekstur fyrir nefndinni þar sem rannsókn hennar beinist fyrst og fremst að inntaki ætlaðrar háttsemi.

Hvað varðar andmælarétt B bendir ríkislögreglustjóri á að það sé vinnuregla hjá embættinu að gefa mönnum kost á að tjá sig áður en ákvörðun sé tekin á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga, sé þess nokkur kostur, þótt slíkt sé ekki skylt sbr. 4. mgr. i.f. 26. gr. starfsmannalaga. B hafi verið gefinn kostur á að koma að gögnum og andmælum áður en ákvörðun yrði tekin og hafi verið tekið tillit til þeirra áður en ákvörðun um lausn um stundarsakir var tekin. Hins vegar hefði ríkislögreglustjórinn ekki haft lagaheimild til að afhenda rannsóknargögn sem væru á forræði ríkissaksóknara. Bent er á að fyrrgreindri vinnureglu ríkislögreglustjórans um aukinn andmælarétt, geti fylgt lögbundinn takmarkaður upplýsingaréttur, sbr. 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ef mál ber að eins og háttar til í þessu máli. Löggjafinn hafi markað starfsmannamálum þennan farveg hvað varði andmæla- og upplýsingarétt og ríkislögreglustjórinn sé, líkt og önnur stjórnvöld, bundin af lögum við ákvarðanatöku sína. Loks bendir ríkislögreglustjóri á að í Hrd. 1999/4247 hafi Hæstiréttur staðfest að þar sem lausn um stundarsakir sé grundvölluð á 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga, þurfi ekki að gefa viðkomandi starfsmanni færi á að tjá sig um hana áður. Með vísan til þess telur ríkislögreglustjóri að málsmeðferð embættisins sé í einu og öllu í samræmi við fyrirmæli laga.

3.2. Sjónarmið B.
Af hálfu B er þess krafist að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið rétt að veita honum tímabundna lausn frá störfum.

Í greinargerð lögmanns B frá 29. ágúst 2003 er í fyrsta lagi bent á að í bréfi ríkislögreglustjóra frá 3. apríl 2003 þar sem B var veitt lausn um stundarsakir sé rætt um tvær handtökur, annars vegar handtöku sem A framkvæmdi á veitingahúsinu Nonna-bitum aðfararnótt 8. mars og hins vegar handtökur við veitingahúsið Café Amsterdam aðfararnótt 9. mars. Hafi hann ekki komið nálægt fyrri handtökunni, hvorki að ákvörðun um hana eða framkvæmd, og geti aðkoma hans að því þannig á engan hátt réttlætt tímabundna brottvikningu úr starfi. Því beinist röksemdir hans einvörðungu að því hvort grunur um brot hans á 132. og 158. gr. almennra hegningarlaga í tengslum við handtökurnar aðfararnótt 9. mars geti réttlætt lausn hans frá störfum um stundarsakir, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga.

B bendir á að varhugavert hljóti að teljast að hann hafi framkvæmt ólögmæta handtöku á [H] og [M] aðfararnótt 9. mars af ásetningi eða stórfelldu gáleysi svo sem 132. gr. áskilji. Verði framkvæmd handtöku þeirra talið áfátt að einhverju leyti, sé ekki sannað að um ásetning eða stórfellt gáleysi sé að ræða af hans hálfu en hafa beri í huga að um augnabliksákvörðun hafi verið að ræða sem lögreglumenn verði iðulega að taka í störfum sínum eðli þeirra samkvæmt.

Í bréfi ríkislögreglustjóra hafi komið fram að ósamræmis gætti milli þess sem fram kom í skýrslu hans annars vegar þar sem hann lýsti múgæsingu meðal fólks á vettvangi og eldfimu ástandi þar sem einn karlmaður hafði sig mest í frammi og hvatti félaga sína til að ráðast á lögreglu og hins vegar framburði [H] og [M] og upptöku úr myndavélakerfi lögreglunnar. Því er mótmælt af hálfu B að fyrrgreind myndaupptaka sé í ósamræmi við skýrslu hans þannig að grunur sé til staðar um ranga skýrslugjöf og brot gegn 158. gr. hgl. Þvert á móti styðji upptakan framburð hans, en því miður sýni hún ekki upphaf deilunnar sem leiddi til handtökunnar og hún geti ekki leitt í ljós hvernig atburðurinn átti sér stað í heild sinni. B viðurkennir að það megi gagnrýna hann fyrir óheppilegt orðalag er hann ritaði í skýrslu að múgæsing hafi myndast á skömmum tíma og að ástandið hafi verið eldfimt. Á myndbandsupptökunni sjáist að tveir menn hafi sig mest í frammi, annar þeirra sé [S.Þ], en ekki sést hvernig aðstæður voru fyrir utan ramma myndavélarinnar. B bendir líka á að [S.Þ.] hafi síðar tekið fram í skýrslu sinni hjá lögreglu að annar lögreglumannanna, þ.e. B, hafi ekki verið ókurteis og framkoma hans allt önnur en hins lögreglumannsins.

Með vísan til þessa heldur B því fram að háttsemi hans falli ekki undir 68. gr. almennu hegningarlaganna sem vísað er til í 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga. Í greinargerð með lögum nr. 31/1961 sem breyttu 68. gr. hafi verið tekið fram að heimild til að svipta opinberan starfsmann rétti til starfs skv. 1. mgr. 68. gr. hafi verið notuð hófsamlega og því ekki gefið tilefni til gagnrýni. Þessi ummæli gefi til kynna að túlka beri 1. mgr. 68. gr. þröngt.

B bendir á að ákvörðun ríkislögreglustjóra um að veita honum tímabundna lausn frá starfi sé afar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og að með því hafi bersýnilega verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefði verið mun eðlilegra að taka til athugunar hvort veita ætti áminningu og gefa honum þannig færi á að bæta ráð sitt yrði niðurstaðan sú að staðið hefði verið að handtökunum með ólöglegum hætti. Mjög varhugavert sé að víkja lögreglumönnum úr embætti með þessum hætti án þess að nokkuð haldbært liggi fyrir um hvort þeir hafi farið út fyrir valdheimildir sínar. Slíkt geti leitt til þess að lögreglumenn verði hræddir við að beita þeim við skyldustörf sín, er þeir halda uppi lögum og reglu, af ótta við að missa vinnuna. Sérstaklega eigi þetta við í því ástandi sem ævinlega skapist að nóttu til um helgar í miðbæ Reykjavíkur, en það sé varla vænlegt til að tryggja öryggi borgaranna.

B vísar til þess að í 1. og. 3. mgr. 97. gr og 98. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 séu lögreglu veittar heimildir til að handtaka einstakling að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 sé lögreglu heimilt að handtaka einstakling í tveimur tilvikum, þ. á m. ef maður ærist á almannafæri. Í 5. mgr. 15. gr. sömu laga sé lögreglu gert heimilt að krefjast þess að maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar. Ef það ætti ávallt að veita lögreglumönnum lausn frá störfum um stundarsakir þegar einhver telur að hann hafi verið beittur ólögmætri frelsissviptingu, færi lítið fyrir starfsöryggi lögreglumanna. Eitthvað haldbært þurfi að vera fyrir slíkum ásökunum, en í þessu máli sé því ekki fyrir að fara. Hann hafi handtekið tvo einstaklinga fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu með vísan til 19. gr. lögreglulaga. Sú atburðarás sem leiddi til handtökunnar hafi átt sér stað á örfáum mínútum og um augnabliksákvörðun hafi verið að ræða eins og áður segir.

Þær sakir sem bornar hafi verið á hann, hafi ekki verið fullnægjandi grundvöllur þeirrar ákvörðunar ríkislögreglustjóra að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir, og háttsemi hans hafi ekki verið með þeim hætti að hann verði ekki lengur hæfur til að gegna starfi lögreglumanns. Skýrsla hans um málið hafi verið í samræmi við myndbandsupptökuna og gerð í beinu framhaldi af atburðunum en kærurnar hafi ekki komið fram fyrr en seinna eða 12. mars. Einnig beri að taka fram að [H] og [M] hafi aðeins þurft að sæta lágmarks frelsisskerðingu eða um 40 mínútur. Þau hafi verið færð fyrir varðstjóra en að því loknu sleppt lausum.

Loks er af hálfu B bent á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Þótt viðurkennt yrði að hann hefði framkvæmt ólögmæta handtöku væri brottvikning hans úr starfi fyrir slík mistök í engu samræmi við málsmeðferð slíkra mála almennt hjá hinu opinbera. Fjölmargir dómar séu til um ólögmætar handtökur og væri ótrúlegt ef allir þeir lögreglumenn sem hafa komið að slíkum aðgerðum hefðu misst vinnuna af þeim sökum.

4. Niðurstaða nefndarinnar og rökstuðningur fyrir henni.
Í máli þessu krefst ríkislögreglustjóri þess að nefndin rannsaki mál B og leggi mat á hvort rétt hafi verið að veita honum lausn frá starfi um stundarsakir. Af hálfu B er þess krafist að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið rétt að veita honum tímabundna lausn frá störfum.

Nefndinni er ætlað ákveðið rannsóknarhlutverk, sbr. 1. mgr. 27. gr. starfsmannalaga sem kveður á um að þegar embættismanni hefur verið veitt lausn um stundarsakir skuli mál hans þá þegar rannsakað af henni svo upplýst verði hvort veita beri honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu. Vert er að árétta, eins og fram hefur komið í fyrri álitsgerðum nefndarinnar, að rannsóknarhlutverk hennar takmarkast við það markmið starfa hennar, sem fram kemur í niðurlagi 2. mgr. 27. gr. laganna, að láta í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja embættismanni frá um stundarsakir. Með vísan til þessa miðast rannsókn nefndarinnar við að leggja mat á það, hvort skilyrði fyrir veitingu lausnar um stundarsakir hafi verið uppfyllt þegar ákvörðunin var tekin og hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd stjórnvaldsákvörðunarinnar.

Nefndin hefur tekið fram í fyrri álitsgerðum sínum að niðurstaða hennar um að rétt hafi verið að víkja manni úr embætti um stundarsakir geti orðið grundvöllur undir síðari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds um það hvort starfsmaður skuli taka aftur við embætti sínu eða hvort víkja eigi honum að fullu. Sá grundvöllur sé þó ekki bindandi eins og fram kemur í 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Reynist ávirðingar sem embættismanni eru gefnar að sök ekki vera fyrir hendi, skal stjórnvaldið ekki víkja manni að fullu, þótt nefndin hafi talið rétt að víkja honum um stundarsakir. Vert er benda á að í dómi Hæstaréttar frá 10. apríl 2003 í máli nr. 338/2002 þar sem fallist var á að rétt hefði verið að veita starfsmanni lausn um stundarsakir á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga, kom fram að þegar mál starfsmanns er til rannsóknar að hætti opinberra mála, sé ekki þörf á að vísa því til nefndarinnar. Segir jafnframt í dóminum að meðferð nefndarinnar geti ekki leitt til sjálfstæðrar niðurstöðu nema lausn um stundarsakir sé jafnframt byggð á öðrum ástæðum en fram koma í niðurlagi 3. mgr. 26. gr. Loks virðist mega ráða af dóminum að ávirðingar sem starfsmaður er grunaður um teljist ekki sannaðar þannig að réttlætt geti frávikningu að fullu nema dómur hafi gengið í opinberu máli.

Ákvörðun ríkislögreglustjóra um að leysa B frá störfum er reist á 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna þar sem hann var grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Verða nú nánar skoðuð efnisleg skilyrði þeirrar ákvörðunar. Skilyrði fyrir því að stjórnvald beiti þessu ákvæði starfsmannalaganna eru samkvæmt hljóðan þess tvíþætt. Annars vegar að grunur liggi fyrir og hins vegar að háttsemin sé þessi eðlis að hún hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þegar ríkislögreglustjóri tók ákvörðun um að veita B lausn um stundarsakir lágu fyrir skýrslur B og A um aðdraganda og ástæður fyrir handtökunum 9. mars við Café Amsterdam, skýrslur kærenda og dagbókarfærslur lögreglunnar í Reykjavík um atvikin. Einnig lá fyrir myndbandsupptaka úr öryggismyndavélum lögreglunnar í Reykjavík af handtökunum. Loks lágu fyrir andmæli B sem honum var veittur kostur á setja fram áður en ákvörðunin var tekin, þrátt fyrir að ekki sé skylt að veita starfsmanni andmælarétt við þessar aðstæður, sbr. 4. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna. Hins vegar er ekki hægt að segja að andmælaréttur B hafi verið virkur í raun, þar sem honum var synjað um aðgang að þeim gögnum sem ákvörðunin var síðar reist á.

Var það mat ríkislögreglustjóra að atburðir sem sáust á fyrrgreindri myndbandsupptöku samrýmdust ekki þeirri lýsingu sem B hafði ritað í skýrslu um atburðina m.a. að mikil múgæsing hefði skapast og ástandið væri eldfimt.

Nefndin fellst á sjónarmið B að sérhver umkvörtun í garð lögreglumanna um að þeir hafi beitt ólögmætri frelsissviptingu, án haldbærra raka fyrir slíkum ásökunum, geti ekki leitt sjálfkrafa til þess að grunur falli á þá í skilningi 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga þannig að réttlætt geti lausn þeirra frá störfum um stundarsakir. Á hinn bóginn telur nefndin að atvik í þessu máli og fyrirliggjandi gögn þess beri með sér að verulegur vafi hafi leikið á því að tilefni hafi verið til eða meðalhófs hafi verið gætt í handtökum B á [H] og [M] aðfararnótt 9. mars eða að um augnabliksákvörðun hafi verið að ræða. Nefndin hefur farið ítarlega yfir margnefnda myndbandsupptöku og þykir henni sýnt að B hafi í skýrslu sinni, ekki farið rétt með eða a.m.k. ýkt verulega þær aðstæður sem þar voru uppi og með því réttlætt handtökurnar eftir á. Á myndbandinu sést einnig í víðara samhengi næsta umhverfi lögreglubifreiðar B og A í þann mund er þeir aka frá handtökustað en ekki er þar að sjá fleiri menn en sést höfðu í þrengri mynd af atburðunum. Af könnun gagnanna virðist einnig mega ráða að þau [H] og [M] höfðu þegar hlýtt fyrirmælum lögreglumannanna um að fara frá umferð og af götunni, þegar lögreglumennirnir óku bifreið sinni að gangstétt þar sem þau stóðu og handtóku þau. Í ljósi þessarar atburðarásar telur nefndin að tæplega hafi verið þörf á augnabliksákvörðun eins og B heldur fram.

Með vísan til þessa telur nefndin gögn málsins hafa leitt nægilega í ljós að grunur um að B hafi brotið gegn 132. gr. almennra hegningarlaga varðandi lögmæti handtöku og 158. gr. varðandi ranga skýrslugerð hafi verið reistur á haldbærum rökum þegar ríkislögreglustjóri ákvað að veita honum lausn frá störfum um stundarsakir, en síðan hefur verið gefin út ákæra á hendur B vegna þessara atburða. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt háttsemin hafi ekki verið heimfærð að öllu leyti undir sömu hegningarlagaákvæði í ákæru ríkissaksóknara frá 10. júní 2003, en þar er handtaka B á [H] talin varða við 131. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 132. gr. sömu laga og röng skýrslugerð hans talin varða við 146. gr. og 138. gr. almennra hegningarlaga, en hann er ekki ákærður fyrir handtöku á [M] eins og áður hefur komið fram. Að þessu gættu telur nefndin að uppfyllt sé fyrra skilyrði 2. málsl. 3. mgr. starfsmannalaganna um að grunur þurfi að vera til staðar um háttsemi starfsmanns.

Við mat á seinna skilyrði 2. málsl. 3. mgr. um það hvort umrædd háttsemi B hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga, byggir nefndin á því að hinn meinti refsiverði verknaður sé slíkur, ef sök sannast, að starfsmaðurinn teljist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann. Leggur nefndin þannig mat á skilyrðið út frá því hvert er eðli hins meinta brots. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt ríkissaksóknari hafi ekki krafist sviptingar embættis í opinbera málinu eins og ítrekað hefur komið fram í álitum nefndarinnar, t.d. í málum 1/2002, 2/2002 og 3/2002. Ákæruefnið varðar að mati nefndarinnar alvarleg brot lögreglumanns í starfi sem lúta að misbeitingu lögregluvalds og rangri skýrslugjöf eftir á. Nefndin telur að þau hegningarlagabrot sem B var grunaður um að hafa framið þegar ákvörðun var tekin um lausn hans væru til þess fallin að veikja traust almennings á störfum hans og lögreglunnar almennt, héldi hann áfram störfum, á meðan ekki væri skorið úr um hvort þær ávirðingar væru réttar. Verður því ekki hjá því komist að telja að slík háttsemi, ef sönn reyndist, leiddi til þess að hann teldist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann og hefði þannig í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Fellst nefndin þannig ekki á þau sjónarmið B að jafnvel þótt hann yrði sakfelldur fyrir þau brot sem hann er ákærður fyrir í opinbera málinu breyti það engu um hvort hann telst verður eða hæfur til að gegna áfram starfi lögreglumanns. Með vísan til þessa verður því fallist á að ríkislögreglustjóranum hafi verið rétt að veita B tímabundna lausn frá störfum á meðan mál hans var rannsakað.

Nefndin fellst ekki á að ríkislögreglustjóri hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga með því að veita B lausn um stundarsakir á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannlaga. Er hér um að ræða lögmælt bráðabirgðaúrræði sem lögin veita til þess að bregðast á skjótan hátt við aðstæðum sem þessum. Rök að baki þessari undantekningarreglu eru þau að ekki er forsvaranlegt að maður sem grunaður er að hafa framið brot í starfi sínu gegni starfinu á meðan slíkur grunur er til staðar. Á þetta ekki síst við um starfsstéttir sem eiga að halda uppi lögum og reglu í þjóðfélaginu og þurfa að njóta til þess trausts almennings. Telur nefndin því að ríkislögreglustjóra hafi ekki verið skylt að neyta vægari úrræða gagnvart B eins og áminningu.

Nefndin telur ekki sýnt fram á að með ákvörðun um að leysa B frá störfum hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og að málsmeðferð í máli hans sé í engu samræmi við meðferð slíkra mála almennt. Er ekki kunnugt um, þrátt fyrir eftirgrennslan nefndarinnar um upplýsingar frá ríkislögreglustjóra, að þau tilvik hafi komið upp að lögreglumenn hafi í senn verið grunaðir um ólögmæta handtöku og ranga skýrslugerð, þannig að jafna megi til þessa máls. Finnst ekkert dæmi þess aftur til ársins 1997, að ákæra hafi verið gefin út vegna sambærilegra atvika, en engar vísbendingar liggja fyrir um að meðferð annarra slíkra mála yrði með öðrum hætti en í þessu máli. Loks má benda á að undanfarin ár má finna ýmis dæmi þess að ríkislögreglustjóri hafi veitt lögreglumönnum lausn frá störfum um stundarsakir á grundvelli 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannlaganna, þótt meint brot hafi ekki verið framið í starfi. Að mati nefndarinnar er tæplega hægt að gera minni kröfur varðandi skilyrði ákvæðisins þegar til skoðunar er brot lögreglumanns í starfi eins og í þessu máli.

Á grundvelli þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða nefndarinnar að ríkislögreglustjóra hafi verið rétt að veita B lausn frá störfum um stundarsakir.


ÁLIT


Nefnd skv. 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, telur að ríkislögreglustjóra hafi verið rétt að veita B lögreglumanni við embætti lögreglustjórans í Reykjavík lausn frá störfum um stundarsakir þann 3. apríl 2003.


Þann 22. september 2003


___________________
Björg Thorarensen


__________________
Arnar Guðmundsson
__________________
Erna Guðmundsdóttir





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta