Hoppa yfir valmynd

Nr. 219/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 219/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110027

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. nóvember 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...], vera ríkisborgari Írak (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 13. janúar 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 4. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 21. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 12. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 29. nóvember 2019. Þá bárust kærunefnd gögn frá kæranda þann 16. janúar 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. maí 2020 ásamt talsmanni sínum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna hótana fyrrum eiginmanns eiginkonu sinnar og vegna trúleysis síns.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur í smábænum [...] í Kúrdistan og hafi lengst af verið búsettur þar. Á heimili móður kæranda hafi hann umgengst fjarskylda konu sem sé 16 árum yngri en hann. Tekist hafi með þeim ástir, þau hafi gifst árið 2014 og eignast saman dóttur ári síðar. Af ýmsum ástæðum hafi fjölskyldur þeirra beggja verið á móti ráðahagnum og feður þeirra afneitað þeim. Þau hafi þó notið verndar mæðra sinna. Eiginkona kæranda og barn þeirra búi nú á heimili tengdamóður hans við afar erfiðar ástæður. Kærandi hafi greint frá því að fyrrverandi eiginmaður eiginkonu kæranda, sem sé meðlimur í öryggissveitum Asayish, hafi ítrekað hótað honum ofbeldi og lífláti. Þá hafi kærandi og eiginkona hans orðið fyrir miklu aðkasti í samfélagi sínu. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hann hafi horfið frá íslam. Þá hafi kærandi tjáð talsmanni sínum að hann sé farinn að sækja kirkju hér á landi.

Varðandi málavexti vísar kærandi til greinargerðar sem lögð var fram til Útlendingastofnunar en í henni hafi komið fram að kærandi og eiginkona hans hafi haldið sambandi sínu leyndu til að byrja með þar sem þau hafi verið hrædd við fyrrverandi eiginmann hennar. Fljótlega eftir að það hafi orðið kunnugt að þau hafi gengið í hjónaband hafi fyrrverandi eiginmaður eiginkonu hans byrjað að hóta honum, bæði með öskrum að honum á almannafæri og símleiðis. Þar sem eiginkona hans hafi skilið við fyrrverandi eiginmann sinn í óþökk fjölskyldu sinnar hafi hún ekki getað leitað verndar, aðstoðar eða stuðnings þeirra. Þau hafi hins vegar verið velkomin heim til foreldra hans þar sem móðir hans hafi líkað við eiginkonu hans. Eftir að móðir kæranda hafi látist hafi faðir hans lýst því yfir að hann og eiginkona hans væru ekki velkomin á heimili hans og þyrftu að flytja úr fasteign í hans eigu.

Kærandi gerir í greinargerð nokkrar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugsemd við mat stofnunarinnar á því að misræmi hafi gætt í frásögn hans um upphaf samband hans við eiginkonu sína en kærandi telji að ráða megi af frásögn hans að þau hafi haldið sambandinu leyndu fram að giftingu þeirra. Kærandi gerir í öðru lagi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar að misræmi hafi verið á milli frásagnar hans og framlagðs skjals um fyrra hjónaband eiginkonu hans. Kærandi veki athygli á því að umrætt skjal sýni aðeins hvenær skilnaður milli þeirra hafi orðið lögformlegur en ekki hvenær þau hafi slitið sambandi sínu. Þá gerir kærandi í þriðja lagi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi talið skýringar hans á afdrifum síma hans í Grikklandi vera ótrúverðugar og fjarstæðukenndar. Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á frásögn hans um fyrrverandi eiginmann eiginkonu hans og að stofnunin hafi talið frásögn kæranda um hótanir hans vera óskýra. Að lokum gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki lagt til grundvallar að útskúfun fjölskyldna hans og eiginkonu hans, fordómar samfélagsins og hótanir teljist heiðurstengt ofbeldi.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Írak, stjórnmálaástand og skiptingu þjóðernisbrota í landinu. Þá er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála og vísar kærandi í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur máli sínu til stuðnings. Beri skýrslurnar með sér að í landinu tíðkist alvarleg mannréttindabrot. Þá er í greinargerð fjallað almennt um aðstæður á yfirráðasvæði Kúrda í Írak. Þá skorti löggæslu víða á yfirráðasvæði Kúrda í Írak og séu heimildir um að það hvort yfirvöld geti veitt vernd fari eftir því hver það sé sem standi að baki ofsóknum. Aðgengi að réttarkerfinu velti á því hvaða þjóðernis- eða trúarhópa sé um að ræða, hvaða ættbálki viðkomandi tilheyri og tengslum viðkomandi. Kærandi vísar til þess að sumir vopnaðir hópar í Kúrdistan hafi tengsl við háttsetta menn innan samfélagsins og séu þeir hópar látnir afskiptalausir af lögreglu og öðrum yfirvöldum. Þannig geti einstaklingar sem eigi í vandræðum með þá hópa ekki reitt sig á vernd yfirvalda þar sem hinir vopnuðu hópar séu í raun við völd.

Þá er í greinargerð kæranda fjallað um aðstæður trúleysingja í Írak og vísað til alþjóðlegra skýrslna því til stuðnings. Fram kemur í greinargerð kæranda að um 90% Kúrda séu súnní-múslimar. Stjórnarskrá Íraks kveði á um að íslam sé hin opinbera trú og skuli vera hornsteinn í allri lagasetningu ríkisins og að vernda skuli hið íslamska auðkenni íröksku þjóðarinnar. Þrátt fyrir réttinn til trúfrelsis kveði löggjöf landsins á um bann við trúskiptum múslima en heimili hins vegar einstaklingum sem hafi verið annarrar trúar að taka upp Íslam. Þröngar skorður séu settar í löggjöf landsins um skráningu og útgáfu persónuskilríkja, þeir einstaklingar sem ekki tilheyri lögbundinni trú geti ekki fengið útgefin persónuskilríki. Vegna þessa verði einstaklingar sem séu trúlausir, aðhyllist aðra trú eða skipti úr íslam yfir í aðra trú fyrir alvarlegri mismunun. Þá bendi heimildir til þess að trúleysingjar sem hafi orðið fyrir ofsóknum kjósi heldur að fara í felur eða leggja á flótta fremur en að leita til lögregluyfirvalda eftir aðstoð. Ástæða þess sé m.a. talin vera sú að samkvæmt refsilöggjöf Íraks sé hverskonar vanvirðing við íslam talin vera guðlast.

Jafnframt er í greinargerð umfjöllun um heiðurstengt ofbeldi í Írak og Kúrdistan. Vísar kærandi m.a. í samantekt frá árinu 2016 útgefna af innflytjenda- og flóttamannanefnd Kanada um heiðursmorð og heiðurstengt ofbeldi á yfirráðasvæði Kúrda í Írak. Samkvæmt gögnunum séu heiðurstengdar deilur algengar í Kúrdistan. Meðal þess sem kunni að vera álitið ganga gegn heiðri fjölskyldunnar sé kynlíf utan hjónabands, óviðeigandi klæðnaður og samskipti kvenna við karlmenn utan fjölskyldunnar. Þá séu heimildir um að enn sé það viðhorf ríkjandi í landinu að lög ættbálka séu sterkari en lög landsins og að leiðtogar ættbálkanna eigi að leysa fjölskyldudeilur. Þá séu heimildir um að karlmenn verði einnig fyrir heiðurstengdu ofbeldi.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna trúskipta sinna, sbr. b-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Sem trúlaus eða kristinn einstaklingur í Írak sem lúti ekki hefðum og siðum sem Íslam mæli fyrir um skeri kærandi sig úr hvað varði lífsviðhorf og framkomu og sé það til þess fallið að skapa honum aukna óvild samborgara hans og eigi hann á hættu útskúfun úr samfélaginu. Kærandi vísar til þess að skv. leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar sé ekki hægt að gera þær kröfur til hans að hann leyni trúleysi sínu eða trúarsannfæringu til að koma í veg fyrir ofsóknir á hendur sér. Þá byggir kærandi á því að vegna trúleysis/trúskipta sinna hafi hann ástæðu til að óttast opinbera sem og óopinbera aðila sem fallið geti undir c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi mótmælir mati Útlendingastofnunar á því að hann eigi ekki á hættu ofsóknir í Kúrdistan vegna trúleysis síns og vísar því til stuðnings m.a. í úrskurði kærunefndar í málum nr. 502/2018 frá 22. nóvember 2018 og nr. 558/2018 frá 13. desember 2018.

Í öðru lagi gerir kærandi kröfu um alþjóðlega vernd vegna aðildar sinnar að sérstökum þjóðfélagshópi, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að líta megi á þolendur heiðurstengds ofbeldis sem sérstakan þjóðfélagshóp í Írak því að slíkir einstaklingar hafi, eða séu taldir hafa, tekið þátt í athæfi sem fordæmt sé af samfélaginu og verði ekki til baka tekið. Kærandi hafi gifst fráskilinni konu í andstöðu við fjölskyldur þeirra beggja og hafi þau orðið fyrir aðkasti af hálfu fjölskyldnanna og samfélagsins í heild. Þá hafi kæranda verið hótað af fyrrverandi eiginmanni eiginkonu sinnar sem sé meðlimur í öryggissveitum stjórnvalda. Kærandi telji að yfirvöld hafi því hvorki vilja né getu til að veita honum vernd. Þá skipti stjórnvöld sér ekki af heiðurstengdu ofbeldi og lögreglan taki slíkt ofbeldi ekki alvarlega. Kærandi telur að ótti sinn við ofsóknir í heimaríki vegna trúarbragða og vegna aðildar að þjóðfélagshópi sé ástæðuríkur og um samsafn athafna í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga í ljósi þeirrar ólögmætu mismununar sem kærandi hafi verði fyrir í heimaríki vegna hjónabands síns sem og vegna trúleysis og trúskipta sinna.

Þá telur kærandi að með endursendingu hans til Íraks yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til vara gerir kærandi kröfu um viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir kröfu um viðbótarvernd á því að hann eigi á hættu að sæta dauða, ofbeldi, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki auk þess að eiga á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Kærandi vísar til þess að vegna trúleysis eða trúskipta hans hafi hann gengið á svig við þau íslömsku samfélagsgildi sem ríkjandi séu í heimaríki hans og hann muni mæta útskúfun, fordómum og ofbeldi geri hann trúskipti sín opinber þar í landi. Jafnframt myndi slík opinberun hans skerða möguleika hans á vernd hjá kúrdískum yfirvöldum. Með vísan til þess sem að framan er rakið í tengslum við aðalkröfu telur kærandi að hann geti átt von á meðferð í heimaríki sem lýst sé í 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærandi að íslenskum stjórnvöldum beri að forðast að byggja mat sitt á öryggisástandinu í Írak á samanburði við ástandið eins og það hafi verið þegar það hafi verið sem verst. Með tilliti til þess hve óstöðugt ástandið sé telur kærandi að ótímabært sé að líta svo á að stríðsástandi í landinu sé lokið eða að það sé að verða betra.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vísar kærandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu þar sem m.a. komi fram að grundvöllur mannúðardvalarleyfis geti verið alvarlegar aðstæður í heimaríki, s.s. viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með erfiðum félagslegum aðstæðum viðkomandi sé vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki. Kærandi telur að þegar aðstæður hans séu metnar heildstætt þá sé ljóst að félagslegar aðstæður hans í heimaríki verði afar erfiðar en hann standi frammi fyrir útskúfun, fordómum og mismununar vegna trúskipta sem og vegna hjónabands síns. Þrátt fyrir aðstoð tengdamóður kæranda þá njóti hann og eiginkona hans ekki stuðnings fjölskyldna sinna. Af þessum sökum telur kærandi að hann muni búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað afriti af írökskum skilríkjum sínum. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað auðkenni sitt með fullnægjandi hætti og því yrði leyst úr því á grundvelli trúverðugleikamats. Útlendingastofnun taldi að ekkert hefði komið fram sem gæfi tilefni til að draga þjóðerni kæranda í efa og lagði til grundvallar að hann væri ríkisborgari Íraks. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé írakskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Iraq (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Religious minorities (UK Home Office, uppfærð 8. október 2019);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Internal relocation, civil documentation and re-turns (UK Home Office, 27. maí 2020);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, uppfærð skýrsla 8. maí 2019);
  • Country Information and Guidance Iraq: Return/Internal relocation (UK Home Office, uppfærð skýrsla 19. nóvember 2018);
  • Country Report on Human Rights Practices 2019 - Iraq (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Fact Sheet Iraq 2018 (Bundesamt für Migration und Flüchtlinge, 2018);
  • DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Af-fairs and Trade, 9. október 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Iraq – Actors of Protection (European Asy-lum Support Office (EASO), nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2020 - Iraq (Freedom House, 4. febrúar 2020);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
  • Iraq – Apostasi og ateisme (Landinfo, 29. ágúst 2018);• Iraq 2019 Crime & Safety Report: Erbil (U.S. Department of State, Bureau of Diplomatic Se-curity, 1. mars 2019);
  • Iraq 2018 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 21. júní 2019);
  • Iraq - Security situation. EASO Country of Origin Information report (EASO, 1. mars 2019);
  • Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);
  • Iraq: Information on the treatment of atheists and apostates by society and authorities in Erbil; state protection available (2013-September 2016) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 2. september 2016);
  • Irak: Basisinfo (Landinfo, 28. september 2018);
  • Irak: Politi og rettsvesen i de tre kurdiskstyrte provinsene (KRI) (Landinfo, 27. október 2016);• Iraq: Police procedures in the Kurdistan region for issuing a notice to appear (summons) at a police station, including whether it is issued in writing to the individual at their residence; whether an arrest warrant follows if the notice to appear is unanswered by the individual (2013-November 2016) (Immigration and Refugee Board of Canada, 24. nóvember 2016);
  • Iraq: Requirement and procedures to obtain a police report in Kurdistan, both within the country and abroad; information on submitting a police complaint in the Kurdistan Region of Iraq; whether the police produces a written report when a complaint is made in person at a police station (2016-2017) (Immigration and Refugee Board of Canada, 26. apríl 2017);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Al-ternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Kurdistan Region of Iraq (KRI): Women and men in honour-related conflicts (Danish Immigration Service og Landinfo, 9. nóvember 2018);
  • Northen Iraq – Security situation and the situation for internally displaced persons (IDPs) in the disputed areas, incl. possibility to enter and access the Kurdistan Region of Iraq (KRI) (Danish Immigration Service og Landinfo, nóvember 2018);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
  • Thematic report: The Security Situation in Iraq - July 2016-November 2017 (version 4.0) (Mi-grationsverket, 18. desember 2017);
  • The Kurdistan Region of Iraq (KRI) Access, Possibility of Protection, Security and Humanitar-ian Situation (Danish Immigration Service, 1. apríl 2016);
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);
  • Upplýsingar af heimasíðu sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna heldur úti: www.unhcr.org (The United Nations High Commissioner for Refugees, The UN Refugee Agency);
  • Wilting in the Kurdish Sun – The Hopes and Fears of Religious Minorities in Northern Iraq (United States Commission on International Religious Freedom, maí 2017) og
  • World Report 2019 – Iraq (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með rúmlega 40 milljónir íbúa. Írak varð til eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar Þjóðabandalagið ákvarðaði núverandi landamæri Íraks. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá hafi íröksk yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Ráða má af framangreindum gögnum að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í framangreindum gögnum kemur fram að flestir Kúrdar í Írak búi í norðurhluta landsins. Áður en ráðist hafi verið inn í Írak árið 2003 hafi héruð í norðurhluta landsins lotið stjórn pólitískra yfirvalda Kúrda. Árið 2005 hafi Kúrdum verið tryggð svæðisbundin sjálfstjórn í stjórnarskrá Íraks og sé norð-austurhluti landsins skilgreindur sem sjálfsstjórnarhérað Kúrda (e. Kurdish Region of Iraq (KRI)). Sjálfstjórnarsvæði Kúrdistan samanstandi af fjórum héruðum (e. governorate); Sulaymaniyah, Erbil, Dahuk og Halabja. Löggæsla sé mun markvissari í KRI, sé það landsvæði borið saman við suður- og mið-Írak. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir svæðisstjórn Kúrda en ekki ríkisstjórn Íraks. Í Kúrdistan eru í gildi lög um meðferð sakamála nr. 23/1971. Í bók 2 í lögunum er að finna ákvæði um verklag lögreglu þegar refsiverður verknaður hefur átt sér stað. Samkvæmt ákvæði 43. gr. laganna skal lögreglumaður tilkynna rannsóknardómara og saksóknara um brot um leið og hann er upplýstur um eða verður var við að refsivert brot hafi verið framið. Þá kemur fram í 47. gr. framangreindra laga að sá einstaklingur sem brotið hefur verið gegn eða sá einstaklingur sem hefur vitneskju um refsivert brot geti leitað til rannsóknardómara; saksóknara eða lögreglu til að tilkynna um slíkt brot. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé Kúrdistan einnig með öryggissveitir sem nefnist Asayish. Hafi Asayish lögsögu yfir málum er varði ógnir við þjóðaröryggi, svo sem njósnastarfsemi, hryðjuverk og fíkniefniviðskipti. Hersveitir kúrdíska hersins, Peshmerga, tryggi að sjálfsstjórnarhéruð Kúrda séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í Írak. Hersveitir Kúrda og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn uppreisnarmönnum Daesh og annarra tengdra samtaka.

Af framangreindum gögnum má ráða að íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslímar og flestir þeirra séu sjía-múslímar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslímar en um 15% íbúa séu súnní-múslímskir Kúrdar og 24% súnní-múslimískir arabar. Sjía-múslímar séu ráðandi í suður- og austurhlutum landsins auk þess sem flestir íbúar höfuðborgarinnar Bagdad séu sjía-múslímar. Þá séu sjía-múslímsk samfélög í flestum landshlutum. Íbúar norður- og vesturhluta landsins séu flestir súnní-múslímar sem og íbúar miðsvæðisins, þó að undanskilinni Bagdad. Stjórnarskrá landsins tryggir trúfrelsi og flestir pólitískir leiðtogar hafa lýst yfir stuðningi við fjölbreytileika í trúarbrögðum. Einhverjir stjórnmálamenn fordæma þó veraldarhyggju og trúleysi. Þá er guðlast refsivert samkvæmt írökskum lögum. Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá ágúst 2018 kemur fram að í íröksku samfélagi séu einstaklingar skilgreindir út frá þeim trúarhópum sem þeir fæðist inn í og að litið sé með vanþóknun á trúleysi. Þá kemur fram í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2019 að íröksk skilríki tilgreini trú viðkomandi. Einu trúarbrögðin sem geti verið tilgreind á skilríkjum séu kristni, sabaean-mandean, jasídi og íslam. Einstaklingar sem séu annarrar trúar eða trúlausir geti eingöngu fengið útgefin skilríki ef þeir segist aðhyllast eitthvert framangreindra trúarbragða. Einstaklingar sem eigi ekki skilríki geti ekki skráð sig í hjúskap, innritað börn sín í ríkisrekna skóla, fengið útgefið vegabréf og tiltekna þjónustu frá hinu opinbera. Þá kemur m.a. fram í skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar frá árinu 2018 og norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá nóvember 2018 að það geti verið vandkvæðum bundið að ferðast milli staða í Írak án persónuskilríkja vegna fjölda eftirlitsstöðva þar sem einstaklingar án skilríkja eigi á hættu á að vera teknir höndum af vopnahópum.

Í skýrslu United States Commission on International Religous Freedom frá júní 2019 kemur fram að trúfrelsi sé verndað í drögum að stjórnskrá Kúrdistan, sem samin hafi verið af kúrdíska þinginu, og að það sé almennt virt af kúrdískum stjórnvöldum. Þá benda drögin til þess að pólitískur vilji sé til þess að styrkja stöðu minnihlutahópa enn frekar á svæðinu en þar sé m.a. að finna ákvæði er verndi rétt fólks til að iðka trú sína sem og annars konar réttindavernd fyrir minnihlutahópa. Fram kemur fram í skýrslu UK Home Office frá október 2019 um trúarlega minnihlutahópa í Írak að þrátt fyrir að mismunun og slæm meðferð á meðlimum þeirra eigi sér stað í Kúrdistan, þá séu slík tilvik öllu jöfnu færri þar en annars staðar í Írak. Þá kemur fram í áðurnefndri skýrslu að brot á trúfrelsi þekkist í Kúrdistan en þau séu hvorki kerfisbundin, viðvarandi né ómannúðleg. Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo eru talin upp nokkur dæmi um tilvik á undanförnum árum þar sem stjórnvöld í Kúrdistan og annars staðar í Írak hafi brugðist við trúleysi og gagnrýni á íslam með handtökum og öðru harðræði. Þar kemur jafnframt fram að þótt auðveldara sé fyrir einstaklinga að lýsa yfir trúleysi í Kúrdistan en annars staðar í Írak geti einstaklingar þar jafnframt þurft að þola viðbrögð við trúleysi bæði af hálfu stjórnvalda og annarra aðila. Þá séu dæmi um að fólk sem verði fyrir áreiti vegna trúleysis vilji frekar fara í felur en að leita til lögreglunnar. Í skýrslu bandarísku nefndarinnar um trúfrelsi í heiminum kemur fram að flestir íbúar Kúrdistan séu múslimar en þó samfélagið sé nokkuð íhaldssamt hvað trúarbrögð varði þá séu ekki allir trúræknir og t.a.m. sæki ekki allir múslimar mosku reglubundið. Í ofangreindri skýrslu UK Home Office kemur fram að einstaklingar sem skipti úr Íslam yfir í aðra trú kunni að mæta erfiðleikum innan síns samfélags og fjölskyldu, svo sem að verða útskúfað, hótað lífláti eða séu jafnvel drepnir. Mögulegar afleiðingar af trúskiptum séu breytilegar milli ættbálka og einstakra fjölskyldna og þá séu viðbrögð þeirra oft og tíðum alvarlegri á dreifbýlli svæðum og í Írak heldur en í Kúrdistan þar sem stjórnvöld og almenningur sé umburðarlyndari gagnvart einstaklingum sem skipti um trú. Samkvæmt sömu skýrslu hafi kúrdíska þingið sett lög til verndar réttindum trúarlegra minnihlutahópa árið 2015. Þá séu engar heimildir um að réttað hafi verið yfir einstaklingi vegna trúskipta hans. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að þrátt fyrir að einstaklingar sem skipti yfir í kristna trú njóti stuðnings stjórnvalda í Kúrdistan þá geti yfirvöld hins vegar ekki boðið þeim stöðuga vernd gagnvart mögulegri ógn frá þeirra eigin ættbálki eða fjölskyldu.

Þá má af framangreindum gögnum ráða að þeir sem aðhyllist kristna trú myndi stærsta trúarlega minnihlutahópinn í Írak og kjósi þeir gjarnan að dvelja í Kúrdistan þar sem þeir líti svo á að þar sé meira öryggi, umburðarlyndi og réttindavernd. Einstaklingar sem tilheyra trúarlegum minnihlutahópum í Írak, þ.m.t. kristnir, hafi orðið fyrir ofbeldi á grundvelli trúarskoðana og hafi bænastaðir þeirra verið skotmörk fyrir hryðjuverk. Þá hafi fulltrúar trúarlegra minnihlutahópa greint frá því að þeir hafi orðið fyrir áreiti og takmörkunum frá yfirvöldum í Írak. Trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá Íraks og hafa flestir pólitískir leiðtogar lýst yfir stuðningi við fjölbreytileika í trúarbrögðum. Þó er guðlast refsivert skv. 327. gr. írakskra hegningarlaga, en ákvæðið kveður á um að einstaklingur sem gerist sekur um guðlast geti verið gert að greiða sektargreiðslu eða afplána allt að þriggja ára fangelsisrefsingu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu Kúrdistan. Heiðursmorð sé yfirleitt morð á kvenkyns ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. Írakar tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin í menningunni. Séu konur í miklum meirihluta þeirra sem verði þolendur heiðursglæpa og þá yfirleitt fyrir að hafa, að mati fjölskyldna þeirra, fært skömm yfir fjölskylduna með einhverjum hætti. Einnig séu heimildir um að karlmenn eigi á hættu að verða þolendur heiðursglæpa en ástæður fyrir því séu einkum þegar karlmenn neiti að ganga í skipulagðan hjúskap, séu opinberlega samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir eða neiti að taka þátt í heiðurstengdu ofbeldi gegn öðrum. Í skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar frá nóvember 2018 segir m.a. að karlmenn sem eigi í samböndum utan hjúskapar séu ekki taldir smána heiður fjölskyldunnar og að karlmenn í slíkum aðstæðum eigi að venju til auðvelt með að komast hjá deilum. Hins vegar séu karlmenn undir þrýstingi um að giftast og dæmi séu um að menn hafi verið drepnir neiti þeir því. Þá segir að þegar karlmaður sé myrtur í heiðursdeilu eigi það frekar rætur að rekja til hefndar eða blóðhefndar en heiðurs fjölskyldunnar. Í slíkum málum séu báðar fjölskyldurnar vanalega samþykkar morðinu. Í gögnunum kemur fram að heiðursglæpir séu algengari á dreifbýlli svæðum en í stærri borgum í KRI. Árið 2002 hafi kúrdísk yfirvöld breytt írökskum hegningarlögum á þann veg að heiðursmorð séu skilgreind sem manndráp og gerendur því saksóttir á þeim grundvelli. Þá hafi verið samþykkt lög árið 2004 sem banni mildun refsinga fyrir heiðursglæpi. Hins vegar séu heimildir um að kúrdísk stjórnvöld hafi látið hjá líða að saksækja gerendur ofbeldisglæpa gegn konum, þar á meðal heiðursglæpa.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna hótana fyrrverandi eiginmanns eiginkonu sinnar. Kærandi kveðst ekki geta leitað til lögreglu vegna hótana þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar, sem kærandi kveður að heiti [...], sé meðlimur Asayish. Þá séu fjölskyldur kæranda og eiginkonu hans mótfallnar hjónabandi þeirra þar sem hún hafi verið gift áður. Af sömu ástæðu hafi kærandi og eiginkona hans orðið fyrir aðkasti af hálfu fólks í bænum sem þau búa í. Þá er einnig byggt á því í greinargerð að kærandi óttist heiðurstengt ofbeldi í heimaríki. Við málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann kröfu um alþjóðlega vernd jafnframt á því að hann ætti á hættu ofsóknir í heimaríki vegna þess að hann væri trúlaus. Í greinargerð sem lögð var fram til kærunefndar kemur fram að kærandi hafi snúist frá íslam til kristni og óttist ofsóknir í heimaríki af þeim sökum.

Til stuðnings málatilbúnaði sínum hefur kærandi lagt fram ýmis gögn, aðallega ljósmyndir af persónuskilríkjum hans og fjölskyldu hans og vottorð frá fyrrverandi vinnuveitanda hans í Sulaymaniyah. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum viðtala hans hjá Útlendingastofnun, framlögðum gögnum, viðtali hjá kærunefnd og gögnum frá norskum stjórnvöldum vegna umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í gögnum málsins var að finna upplýsingar um að kærandi hafi árið 2011 sótt um alþjóðlega vernd í Noregi. Við vinnslu málsins hjá kærunefnd óskaði kærunefnd eftir gögnum frá norskum stjórnvöldum vegna þeirrar umsóknar og bárust kærunefnd þann 6. mars 2020 m.a. afrit af umsóknarviðtali sem tekið var við kæranda hjá norsku útlendingastofnuninni. Í viðtalinu mátti sjá að upplýsingar sem kærandi gaf um nafn hans, nöfn foreldra og upplýsingar um fjölskylduhagi og fjölda systkina voru á skjön við upplýsingar sem hann hefur gefið hér á Íslandi um sig og fjölskyldu sína. Í viðtali hjá kærunefnd, dags. 7. maí 2020, var kærandi spurður að því hvers vegna hann hafi gefið upp allt aðrar upplýsingar í Noregi og út í annað misræmi t.d hvað varðaði frásögn kæranda í Noregi um dauða föður hans sem hann hafi sagt vera lifandi hjá íslenskum stjórnvöldum og mótfallinn hjúskap kæranda. Kærandi svaraði því að smyglarinn hafi ráðlagt honum að gefa rangar upplýsingar um sig og fjölskyldu sína í Noregi. Í endurriti viðtals kæranda hjá Útlendingastofnun má sjá að kærandi svaraði því aðspurður um hvers vegna hann hafi gefið upp annað nafn í Noregi að hann hafi viljað fá nýtt nafn og nýjan fæðingardag. Þegar litið er til svara kæranda varðandi upplýsingagjöf til norskra stjórnvalda liggur fyrir að hann hafi gert tilraun til að villa um fyrir norskum stjórnvöldum til að hafa áhrif á umsókn sína um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi því þar í landi byggt kröfu sína þar á ákveðinni frásögn um ástæður flótta frá heimaríki sem hafi ekki verið í neinum tengslum við auðkenni hans eða fjölskylduhagi sem hann hefur gefið upp við meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum. Er Það mat kærunefndar að framangreint misræmi sé ekki til þess fallið að styrkja trúverðugleika frásagnar kæranda fyrir íslenskum stjórnvöldum.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. september 2019 greindi kærandi frá því að fyrrverandi eiginmaður eiginkonu kæranda, [...], hafi byrjað að hóta sér í ágúst 2015, degi eftir að kærandi og eiginkona hans hafi gifst. Í sama viðtali kvað kærandi að maðurinn væri ekki háttsettur innan Asahyish heldur „bara óbreyttur Asayish liði“. Í viðtali hjá kærunefnd þann 14. maí 2020 kvað kærandi aðspurður að [...] væri í lögregluliði Asayish í [...] og að allir þekktu hann. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi aldrei hafa leitað til lögreglu þar sem [...] væri starfsmaður hjá Asayish og að það hefði því ekki borið árangur að kæra hann auk þess sem að fólk myndi frétta af því og ráðleggja kæranda að skilja. Því hafi kærandi talið flótta frá heimaríki vera öruggustu leiðina fyrir sig. Það er mat kærunefndar að framlögð gögn kæranda renni ekki stoðum undir frásögn kæranda af hótunum [...] í sinn garð eða starfi hans hjá Asayish. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki hafa gögn um hótanir [...] undir höndum þar sem lögreglan í Grikklandi hafi tekið síma hans, sem hafi innihaldið hótanir og upptökur af hótunum, og hent honum í sjóinn. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi ekki geta lagt fram gögn til stuðnings staðhæfingar hans um að umræddur maður starfi hjá Asayish. Að mati kærunefndar er ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu að kærandi sýni fram á með einhverjum hætti að sá einstaklingur sem hann kveðst óttast sé starfsmaður hjá Asayish, einkum í ljósi þess að hann hefur fullyrt, eins og áður segir, að það sé almenn vitneskja meðal fólks að sá maður starfi hjá Asayish. Þá byggir kærandi á því að framangreindur maður hafi áreitt kæranda og hótað honum í meira en þrjú ár án þess að hafa látið verða af hótunum sínum. Af gögnum málsins og framburði kæranda má ráða að hann hafi ekki yfirgefið heimaríki sitt í skyndi og verður ekki annað séð en að hann hafi haft nægan tíma til að afla gagna um mann sem hann kveður standa að baki ofsóknum gegn sér. Þar sem kærandi hefur ekki lagt fram eða vísað til gagna eða upplýsinga sem renna stoðum undir þá fullyrðingu að [...] sé meðlimur eða starfsmaður Asayish, er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að leggja þá staðhæfingu til grundvallar við úrlausn málsins.

Að mati kærunefndar er hins vegar ekki ástæða til að draga í efa að kærandi kunni að hafa orðið fyrir áreiti af hálfu manns sem hann kveður vera fyrrverandi eiginmann eiginkonu hans. Við meðferð málsins hefur kærandi hins vegar ekki borið fyrir sig að hafa sætt neinni meðferð af hálfu mannsins sem gæti fallið undir hugtakið ofsóknir. Með vísan til fyrri umfjöllunar verður ekki heldur talið að hann eigi slíkar ofsóknir á hættu. Eins og fram kemur að ofan er það mat kærunefndar að ekki hafi verið rennt stoðum undir þá fullyrðingu að sá maður sé starfsmaður Asayish sem geti leitt til þess að aðgengi kæranda að viðeigandi vernd stjórnvalda sé takmarkað. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hann hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda í heimaríki sínu eða hafi átt á hættu slíkar ofsóknir. Þrátt fyrir að gögn um Kúrdistan beri það með sér að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda geti verið að einhverju leyti ábótavant þá er það mat kærunefndar að kærandi eigi að geta leitað til yfirvalda verði hann fyrir refsiverðum brotum. Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki kæranda skorti vilja eða getu til að veita honum viðeigandi aðstoð eða vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir þær athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur eins og áður segir borið fyrir sig að eiga hættu á að verða fyrir heiðursofbeldi í heimaríki. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd um það hvaða einstaklingar hefðu eða myndu beita kæranda heiðursofbeldi svaraði hann því að gerandi í slíku ofbeldi yrði fyrrverandi eiginmaður eiginkonu hans. Kærandi greindi einnig frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hafa yfirgefið heimaríki vegna fjölskyldu sinnar sem hafi verið á móti hjónabandi hans og eiginkonu hans. Kvað kærandi að faðir hans og bræður hafi endalaust verið að skipta sér af öllu, bæði af hjónabandi hans og þá hafi þeir viljað að dóttir hans færi í umskurð. Hafi faðir hans skipað honum og eiginkonu hans að flytja af landareign fjölskyldunnar eftir að móðir hans hafi látist árið 2015. Með tilliti til ofangreindra upplýsinga um aðstæður í Kúrdistan og atvik er falla undir skilgreiningu á heiðursofbeldi er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi verið eða eigi á hættu að verða þolandi heiðursglæps í heimaríki sínu, hvorki af hálfu fyrrverandi eiginmanns eiginkonu hans né annarra einstaklinga eða að framangreind málsatvik um afskiptasemi og ósætti kæranda við fjölskyldu hans séu af því alvarleikastigi að þau jafngildi ofsóknum í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd jafnframt á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki, af hálfu samfélagsins sem og yfirvalda, þar sem hann hafi snúist til kristinnar trúar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 4. september 2019, kvaðst kærandi hafa verið trúlaus en hafi forðast umræður um trúarbrögð í heimaríki en kvaðst jafnframt virða öll trúarbrögð og vera forvitinn um þau. Sökum trúleysis síns gæti hann ekki reitt sig á viðeigandi vernd stjórnvalda. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar varðandi þá málsástæðu að ekki væri hægt að líkja saman aðstöðu kæranda, sem hafi ekki opinberlega hafnað íslam, við aðstöðu einstaklinga sem hefðu hafnað íslam sem sinni trú og að gögn málsins bentu ekki til þess að hann ætti á hættu ofsóknir í Kúrdistan vegna trúleysis hans. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda var birt fyrir honum þann 29. október 2019.

Mánuði síðar, þann 29. nóvember 2019, lagði kærandi fram greinargerð til kærunefndar útlendingamála til stuðnings kæru sinni á ákvörðun Útlendingastofnunar. Í greinargerðinni kom fram að kærandi hafi tjáð talsmanni sínum í ráðgjafarviðtali þann 14. október 2019 að hann væri byrjaður að sækja kirkju hér á landi. Var krafa kæranda um alþjóðlega vernd í greinargerð til kærunefndar því m.a. byggð á því að hann hefði ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sem trúlaus eða kristinn einstaklingur og hann hefði ástæðu til að óttast opinbera sem og óopinbera aðila, sbr. skilgreiningu í c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings málsástæðu sinni um að hafa tekið upp kristna trú lagði kærandi fram afrit af skírnarvottorði sínu frá [...], dags. 9. janúar 2020, og afrit af bréfi prests innflytjenda, dags. sama dag. Í bréfi prestsins kemur m.a. fram að kærandi hafi byrjað að sækja vikulega bænafundi í [...] í byrjun nóvember 2019 og hafi hann viljað læra meira um kristin gildi og því sótt sex vikna námskeið sem presturinn hafi haldið. Einnig kom fram í bréfinu að kærandi hafi sótt guðsþjónustur hjá honum í tvo mánuði og þá hafi kærandi tjáð prestinum að hann hafi sótt samkomur Votta Jehóva í sex mánuði þar sem hann hafi staðið í þeirri trú að um væri að ræða kristna kirkju. Kærandi hafi hætt að sækja þær samkomur þegar hann hafi áttað sig á því að ekki væri um venjulega kristna kirkju að ræða. Samkvæmt framansögðu liggur því fyrir í máli kæranda að hann hafi, stuttu eftir að hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd frá Útlendingastofnun, byrjað að sækja bænafundi í kristinni kirkju hér á landi. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi hafa fengið áhuga á kristinni trú eftir komu sína hingað til lands. Aðspurður um hvenær hann hafi uppgötvað kristna trú kvaðst kærandi hafa undanfarna fjóra mánuði sótt kristna kirkju en þar á undan hafi hann sótt samkomur Votta Jehóva. Í [...] hafi kærandi hitt kristið fólk vegna þess að margir kristnir einstaklingar búi í bænum. Aðspurður um hvort það hafi verið eitthvað ákveðið við kristna trú sem hafi höfðað til hans og af hverju trúin væri mikilvæg fyrir hann svaraði kærandi því að kristin trú væri friðsamleg öfugt við trúna í heimaríki sem væri skyldubundin og ofbeldisfull. Kærandi kvaðst munu iðka kristna trú í heimaríki. Aðspurður hvers vegna hann teldi það vera vandamál að vera kristinn í heimaríki hans svaraði hann því að það mætti ekki skipta um trú þar og þeir sem það gerðu yrðu taldir heiðingjar. Hins vegar mættu þeir sem væru fæddir inn í kristna trú vera kristnir.

Við meðferð málsins hefur kærunefnd litið til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varða kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli trúar (Guidelines on International Protection: Religion-Based Refugee Claims under Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, UN High Commissioner for Refugees, 28. apríl 2004).

Kærunefnd telur framangreinda upplýsingagjöf til norskra stjórnvalda sem og hvernig skyndileg kirkjusókn kæranda hér á landi kom til draga að mörgu leyti úr trúverðugleika kæranda varðandi trúskipti hans og því hversu mikil alvara liggi þeim að baki. Á hinn bóginn er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að draga í efa að kærandi hafi kynnt sér kristna trú hér á landi, enda hafi hann lagt fram gögn því til stuðnings og greint frá áhuga sínum á trúnni í viðtali hjá kærunefnd. Að mati kærunefndar verður hins vegar ekki ráðið af gögnum málsins og framburði kæranda að hann hafi í raun snúist til kristinnar trúar á þann hátt að endursending hans til heimaríkis setji hann í slíka hættu að hann teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá gefi upplýsingar í þeim gögnum ekki til kynna að kristnir einstaklingar verði sérstaklega fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda í Kúrdistan eða samfélagsins sem nái því marki að teljast ofsóknir. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Kúrdistan benda til þess að flestir kristnir einstaklingar í Írak velji að dveljast í Kúrdistan og að trúarleg fjölbreytni sé hvað mest þar. Þá fær sú staðhæfing kæranda að kristnir einstaklingar, þar á meðal þeir sem hafi snúist til kristinnar trúar frá Íslam, fái enga vernd frá lögreglu eða öðrum yfirvöldum í Kúrdistan heldur ekki stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað. Jafnframt má ráða af gögnum um aðstæður í Kúrdistan að þrátt fyrir að flestir íbúar þar séu múslimar og samfélagið sé nokkuð íhaldssamt þá séu ekki allir múslimar trúræknir og t.a.m. sæki þeir ekki allir mosku með reglubundnum hætti. Í ljósi þess sé ekki sjálfgefið að trúlausir einstaklingar skeri sig úr samfélaginu í Kúrdistan. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar, eins og hér háttar til, að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir á grundvelli trúleysis eða trúskipta í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Eins og rakið er í greinargerð kæranda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til Íraks sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa; þar sem ástandið er óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh-samtakanna eða þeim svæðum þar sem Daesh er enn við völd. Þá telur Flóttamannastofnun óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan Íraks. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimabær kæranda, [...] í Erbil héraði, sé á öruggu svæði í KRI. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem séu í sambærilegri stöðu og kærandi.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þrátt fyrir átök í Írak undanfarin ár er það mat kærunefndar að aðstæður í ríkinu séu ekki slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá sé heimabær kæranda, [...] í Erbil-héraði, á svæði Kúrdistan þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimsvæði sínu í Kúrdistan, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað eða að hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi ber fyrir sig að verði hann sendur aftur til heimaríkis muni bíða hans erfiðar félagslegar aðstæður þar. Kærandi telji að samfélagið og fjölskylda hans muni snúast gegn honum þar sem hann hafi snúist til kristinnar trúar. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki og ætluð trúskipti kæranda telur kærunefnd að aðstæður hans séu ekki slíkar að unnt sé að veita honum dvalarleyfi á þeim grundvelli. Þá verður einnig litið til þess að kærandi er heilsuhraustur og vinnufær [...] ára gamall karlmaður sem hafi verið fjárhagslega sjálfstæður og séð eiginkonu sinni og barni fyrir húsnæði og framfærslu áður en hann hafi yfirgefið heimaríki sitt.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kærunefndar

Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísaði kærandi annars vegar í úrskurði kærunefndar í málum nr. 502/2018 frá 22. nóvember 2018 og nr. 558/2018 frá 13. desember 2018.

Hvað varðar vísun kæranda í úrskurði kærunefndar þá er það mat nefndarinnar að málsatvik og aðstæður aðila þeirra mála séu ekki sambærileg þeim aðstæðum sem eiga við í máli kæranda.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 13. janúar 2019 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 460/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júlí 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta