Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 10. október 1983

Árið 1983, mánudaginn 10. október, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Vegagerð ríkisins
                  gegn
                  Pétri Jónssyni
                  Egilsstöðum II
                  Suður-Múlasýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 11/10 1982, hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að metnar verði lögboðnar bætur vegna fyrirhugaðrar efnistöku Vegagerðarinnar úr námusvæði í svonefndu Þórsnesi, sem tilheyrir jörðinni Egilsstaðir II, Suður-Múlasýslu.

Þinglýstur eigandi jarðarinnar var sagður Pétur Jónsson til heimilis þar, en viðræður um efnistöku hafi farið fram við Jón Pétursson, héraðsdýralæknir.

Var í matsbeiðninni tekið fram, að fyrirhugað væri á sumrinu 1983, að leggja slitlag á Austurlandsveg, 3,6 km. á svonefndum Völlum sunnan við Egilsstaðakauptún. Rétta þurfi af og styrkja núverandi veg áður en slitlagið yrði lagt og beri því nauðsyn til að fá heimild til þess, að taka bæði óunnið efni úr Þórsnesi og að vinna þar efni í slitlag. Áætlað efnismagn í þessar framkvæmdir væri um 10 þús. rúmm.

Gert væri ráð fyrir að styrking nefndum vegarkafla færi fram haustið 1982, en samkomulag hafi ekki náðst um bætur fyrir efnistökuna og ekki sé fyrir hendi heimild til efnistöku á þessum stað. Þess var því farið á leit, að Matsnefndin heimilaði Vegagerð ríkisins með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 að taka allt að 12. þús. rúmm. af jarðefni úr námusvæði í Þórsnesi og vinna þar hluta af því efnismagni, þ.e.a.s. þann hluta sem nota ætti í sjálft slitlagið og geyma það þar til slitlagið yrði lagt.

Í viðbótarmatsbeiðni eignarnema dags. 8. mars 1983 var þess getið að Vegagerðin hafi farið þess á leit við Matsnefndina, að tekið yrði fyrir að meta bætur vegna fyrirhugaðrar efnistöku úr námusvæði í Þórsnesi, sem tilheyrir jörðinni Egilsstaðir II, Suður-Múlasýslu.

Er tekið fram, að til þess að takmarka ekki aðgang landeiganda að ákveðnum hlutum námusvæðisins hafi ekki verið beiðst eignarnáms á tilgreindum hluta þess, heldur óskað eftir heimild til töku á allt að 12 þús. rúmm. af jarðefni ásamt nauðsynlegri aðstöðu til þess, að sú jarðefnistaka gæti farið fram.

Nú hafi það komið fram að umboðsmaður eignarnámsþola hafi séð ástæðu til að nota þessa afstöðu eignarnema á þann veg að um formgalla væri að ræða í matsbeiðninni, þ.e. að ekki sé nægilega tilgreint hverjar væntanlegar eignaskerðingar verði vegna þessara framkvæmda.

Án þess að viðurkenna framangreint sjónarmið umboðsmanns eignarnámsþola að um formgalla sé að ræða kveðst eignarnemi nú leggja fram þá viðbót við matsbeiðni dags. 11. okt. 1982, að óskað sé eftir óskertum afnotum og umráðum yfir allt að 20 þús. m² lands úr námusvæðinu í Þórsnesi, sem nánar sé tilgreint, mælt og staðsett á framlögðu korti ásamt umferðarrétti að því svæði. Muni fyrirhuguð efnistaka ásamt vinnslu og geymslu efnisins fara fram á þessu svæði.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir á fundi Matsnefndar eignarnámsbóta 29. október 1982, en þann 11. nóvember 1982 lagði eignarnemi fram greinargerð af sinni hendi í málinu ásamt fleiri skjölum.

Í greinargerð eignarnema er tekið fram, að það sé krafa hans, að metnar verði lögboðnar bætur vegna fyrirhugaðrar efnistöku Vegagerðar ríkisins úr námusvæði í svonefndu Þórsnesi innan við Egilsstaði, skv. 10. kafla vegalaga nr. 6/1977, sbr. lög nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Jafnframt var þess farið á leit, að Matsnefnd eignarnámsbóta heimilaði Vegagerð ríkisins með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, að ráðast í þær framkvæmdir sem væru tilefni eignarnámsins, þ.e. umferðarrétt um námusvæðið og töku, vinnslu og geymslu efnisins þótt mati sé ekki lokið.

Lögmaður eignarnámsþola lagði fram greinargerð að hálfu umbj. síns á fundi Matsnefndarinnar 23. nóvember 1982 og varð um það samkomulag með aðilum málsins, að fyrst skyldi úrskurðað um formhlið málsins og kröfu eignarnema skv. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Um þetta efni var 10. maí 1983 kveðinn upp úrskurður í Matsnefndinni og segir í þeim úrskurði m.a. á þessa leið:

"Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefndinni 29. okt. 1982. Fyrir eignarnámsþola hefur flutt þetta mál Magnús Norðdahl cand. jur. vegna Atla Gíslasonar hdl. Hinn 23. nóv. 1982 lagði lögmaður eignarnámsþola fram greinargerð í málinu. Var þá reynd sátt með aðilum en án árangurs. Er að því loknu gerð svofelld bókun hjá nefndinni: "Aðilar eru sammála um og samþykkir því að fyrst verði úrskurðað um kröfu eignarnema skv. 14. gr. laga nr. 11/1973 og lögðu atriðið í úrskurð. Atriðið tekið til úrskurðar en eignarnámsþoli telur ástæðu til að gengið verði á vettvang áður en úrskurður gangi."

Hinn 5. maí 1983 var gengið á vettvang og landið og allar aðstæður skoðaðar. Viðstaddir vettvangsgöngu af hálfu eignarnema voru þeir Gunnar Gunnarsson hdl., Einar Þorvarðarson, umdæmisverkfræðingur, Hilmar Finnsson, umdæmistæknifræðingur og Magnús Sigurðsson, verkstjóri.

Af hálfu eignarnámsþola var viðstaddur Magnús Norðdahl cand. jur. vegna Atla Gíslasonar hdl.

Hinn 6. maí fór fram munnlegur málflutningur um ágreiningsefnið og lögðu aðilar það í úrskurð og atriðið tekið til úrskurðar hjá Matsnefndinni.

Lögmaður eignarnámsþola mótmælir matsbeiðni eignarnema og kröfu hans skv. 14. gr. laga nr. 11/1973 og krefst þess, aðallega að Matsnefndin vísi matsbeiðni eignarnema frá vegna formgalla. Til vara að kröfu eignarnema um töku efnis og hagnýtingu lands skv. 14. gr. verði hafnað og til þrautavara krefst hann tryggingar vegna væntanlegra bóta fyrir eignarnámið með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973.

Varðandi aðalkröfu sína vísar lögmaðurinn til 4. gr. laga nr. 11/1973 þar sem gerð sé sú krafa til eignarnema, að í matsbeiðni séu greindar ýtarlega þær eignaskerðingar, sem eignarnám hafi í för með sér. Samkvæmt matsbeiðni fari eignarnemi fram á mat á allt að 12000 rúmmetrum jarðefnis og jafnframt umráð á allt að 12000 rúmm. Telur eignarnámsþoli að gera þurfi þá kröfu til eignarnema að hann lýsi nákvæmlega því magni sem hann hyggist taka. Sú krafa sé ekki uppfyllt og eignarnámsþoli því skilinn eftir í óvissu um þær eignarskerðingar sem yfir vofi.

Þá er því haldið fram, að í matsbeiðni greini eignarnemi ekki hverjar aðrar eignarskerðingar eignarnámið hafi í för með sér. Samkvæmt beiðninni fari hann fram á afnot af landi eignarnámsþola til vinnslu jarðefna og geymslu þeirra. Sú náma sem taka eigi efnið úr sé í fullri notkun og úr henni sé selt til þeirra sem eftir því leiti. Eignarnemi geri enga grein fyrir því, hversu víðtæk not hann hyggst hafa af landi eignarnámsþola og að hvaða leyti afnot hans muni hefta eðlilegan aðgang eignarnámsþola að eign sinni.

Þá heldur lögmaður eignarnámsþola því fram, að skv. matsbeiðni sinni fari eignarnemi fram á sjálfdæmi um það magn, sem hann hyggist taka, þar sem í matsbeiðninni sé ekki gerð grein fyrir því með hvaða hætti hann hyggist tryggja eignarnámsþola að ekki sé tekið meira magn úr námunni en metið sé.

Eignarnámsþoli telur matsbeiðnina ekki uppfylla skilyrði 4. gr. laga 11/1973, þar sem beiðnin taki aðeins til töku á efni, en ekki vinnslu, geymslu og umferðarréttar.

Með viðbótarbeiðni sinni undir rekstri málsins hefur eignarnemi aukið við kröfur sínar, samkvæmt ábendingum eignarnámsþola, þótt hann telji það umfram nauðsyn, þannig að matsbeiðnin tekur nú til þeirra atriða sem eignarnámsþoli nefnir.

Þá hefur eignarnámsþoli haldið því fram, að efnistaka eignarnema takmarki efnissölu sína til annarra.

Þar sem eignarnemi hefur skv. uppdrætti, sem fyrir liggur í málinu, afmarkað athafnasvæði sitt, er ekki ástæða til að ætla að framkvæmdir eignarnema takmarki á nokkurn hátt sölu á efni til annarra.

Eignarnámsþoli telur, að eignarnemi hafi ekki beðið um mat á öllum þeim eignarskerðingum, sem eignarnáminu fylgi.

Við endanlegt mat á efni, jarðraski, o.fl. samkvæmt X. kafla vegalaga, mun nefndin meta allt það tjón, sem eignarnámsþoli hefur orðið fyrir við eignarnámið, m.a. með vettvangsskoðun, þannig að staðhæfingar aðila um það efni verða kannaðar og staðreyndar, svo eignarnámsþoli fái fullar bætur, eins og 67. grein stjórnarskrárinnar mælir fyrir um.

Um árabil hefir farið fram efnistaka á þessu svæði, bæði af hálfu eignarnema og annarra, og hefur nú þegar mikið efnismagn verið flutt burtu af staðnum. Með skoðun á landinu má allvel gera sér grein fyrir hvaða jarðrask efnistaka þessi hefur haft í för með sér.

Á þessum stað eru leirkenndir móar, lítt grasi grónir. Fletta þarf moldarlaginu, ca. 60 cm. þykku, þó eitthvað mismunandi, ofan af malarefninu, áður en næst til efnisins sem taka á.

Á þeim stað, sem eignarnemi í þessu máli óskar efnistöku á hefir fyrir alllöngu verið sléttað vegna notkunar landsins sem skeiðvallar, og er því nokkur hluti hins umbeðna svæðis nú vaxin valllendisgróðri, en um helmingur svæðisins eru gamlar gryfjur, sem Vegagerðin mun nota sem athafnasvæði.

Er matsbeiðni eignarnema ekki svo áfátt að ástæða sé til að vísa henni frá nefndinni, enda ber Matsnefndinni skylda til að kanna og kynna sér þau atriði, sem eignarnámsþoli hefur borið fyrir sig. Gildir það sama um óþægindi, óhagræði eða kostnað, sem eignarnámið kann að hafa í för með sér fyrir eignarnámsþola.

Eignarnámsþoli hefir krafist tryggingar verði umráðaréttur veittur yfir því svæði, sem eignarnemi fer fram á efnistöku á og umráðaréttar yfir. Í munnlegum flutningi málsins kvaðst lögmaður eignarnámsþola ekki fara fram á, að trygging yrði formlega innt af hendi heldur eingöngu, að ákveðin tryggingarupphæð yrði tiltekin í úrskurðinum.

Þar sem Vegagerðin framkvæmir samkvæmt vegalögum verk það sem hér um ræðir á ábyrgð ríkissjóðs Íslands, telur Matsnefndin ekki ástæðu til að úrskurða ákveðna tryggingu fyrir væntanlegum fébótum til eignarnámsþola í þessu máli og er það í samræmi við þá reglu, sem Matsnefnd eignarnámsbóta hefur beitt síðan 1973.

Matsnefndin getur ekki fallist á, að viðbótarmatsbeiðni eignarnema sé of seint framkomin og frávísa beri málinu af þeim sökum.

Í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977 segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breikkunar eða breytingar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vegar sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir.

Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Eignarnámsþoli telur erfitt fyrir sig að hafa eftirlit með því efnismagni, sem eignarnemi flytur af staðnum. Eignarnemi skýrir svo frá, að allt efnismagn sem flutt sé úr námunni sé a.m.k. tvítalið, bæði séu taldar skóflurnar sem á bílana fara, svo og bílarnir sjálfir taldir. Þá sé stundum efnishaugurinn sjálfur mældur þ.e. rúmmál haugsins sem laust efni.

Matsnefndinni er kunnugt um það bókhald sem eignarnemi heldur um flutning á efni úr malarnámum og telur nefndin ekki ástæðu til að tortryggja þá starfsmenn ríkisins, sem verk þetta vinna, eða gruna þá um sviksemi við talningu efnisins.

Í 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms segir, að þótt mati sé ekki lokið geti Matsnefnd heimilað eignarnema, að taka umráð verðmætis, sem taka eigi eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir, sem séu tilefni eignarnámsins.

Matsmenn telja að það muni ekki á neinn hátt torvelda framkvæmd efnismats á malarefni því, sem um ræðir og jarðraski, né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola, þótt Vegagerðinni verði veitt leyfi til þess að fá umráð þeirra 20000 m², sem eignarnemi gerir kröfu um.

Að svo vöxnu máli samþykkti Matsnefndin með samhljóða atkvæðum og með vísan til 14. gr. l. nr. 11/1973, að leyfa eignarnema nú þegar óskert afnot og umráð yfir þeim 20000 m² sem sýnd er á framlögðum uppdrætti, svo og umferðarrétt að og frá svæðinu, og heimila eignarnema töku á allt að 12000 rúmmetra efnismagni, vinnslu þess og geymslu á svæðinu og brottflutning efnisins af staðnum."

II.

F.h. eignarnámsþola í máli þessu Péturs Jónssonar hefur flutt málið Magnús Norðdahl, cand. juris. vegna Atla Gíslasonar hdl. Í greinargerð lögmannsins, sem fram var lögð í nefndinni 20. sept. 1983 segir á þessa leið: "F.h. umbjóðanda míns geri ég þær kröfur, að honum verði ekki metnar lægri bætur en kr. 290.000.- auk málskostnaðar skv. gjaldskrá L.M.F.Í. og framlögðum málskostnaðarreikning.

Gerður er fyrirvari um hækkun bóta fyrir efni vegna hækkunar markaðsverðs úr námu eignarnámsþola frá því að greinargerð þessi er lögð fram og þar til úrskurður gengur."

Lögmaðurinn kveðst gera kröfu til mats á grundvelli verðlags dagsins í dag enda beri eignarnemi áhættuna af verðhækkunum sem verði, þar sem hann hafi notið heimildar 14. gr. eignarnámslaga og fullnægt þeim rétti sínum, þrátt fyrir það að mat hafi ekki legið fyrir um fjárhæð bóta.

Þá kveðst lögmaðurinn leggja fram með greinargerð sinni kvittanir vegna efnissölu úr námu eignarnámsþola frá því í júní 1982 til dagsins í dag. Verð pr. rúmm. efnis hafi verið í júní 1982 kr. 16.50. Það verð hafi haldist óbreytt fram til áramóta. Engin sala hafi farið fram frá þeim tíma og þar til í maí 1983, en þá hafi verðið verið endurskoðað með tilliti til hækkunar á byggingarvísitölu. Verð hafi þá verið ákveðið kr. 19.80. Hinn 26. maí 1983 hafi verðlagningu verið breytt þannig að selt hafi verið einungis í heilum hlössum og hlassið selt á kr. 140.00. Miðað við 7 rúmm. á bíl hafi verðið nú verið kr. 20.00. Hafi það verð haldist óbreytt frá þeim tíma. Tekur lögmaðurinn fram að Vegagerð ríkisins reikni 6 rúmm. á bíl. Það verð gefi kr. 23.33 pr. rúmm.

Lögmaðurinn segir að á tímabilinu júní 1982 til ágúst 1983 hafi verið seldir alls 8252,50 rúmm. efnis úr námu eignarnámsþola. Það sé andvirði kr. 148.816.00.

Með framangreindum upplýsingum kveður lögmaður eignarnámsþola sannað með óvéfengjanlegum hætti að verðmæti þess efnis sem selt sé úr námu umbj. hans sé kr. 20.00 pr. rúmm. Því beri Matsnefndinni að leggja það verð til grundvallar mati sínu og ekki annað. Með vísan til framlagðra gagna sbr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 61. gr. vegalaga, sé krafist í málinu kr. 20.00 fyrir hvern eignarnumin rúmm. efnis eða samtals kr. 240.000.00. Tekur lögmaðurinn fram að um sé að ræða mjög gott efni til ýmissa nota, sem sjáist af því að efnið hafi eignarnemi notað til lagningar bundins slitlags á mikið ekinn þjóðveg.

Aðrar bótakröfur eignarnámsþola sundurliðar lögmaður hans þannig:

"A.   Eignarnemi fékk full og óskert afnot af 20.000.00 m² spildu í námu eignarnámsþola. Sanngjarnt endurgjald fyrir þau afnot er ekki lægra en kr. 10.000.00 enda geymir eignarnemi enn í dag hluta hins eignarnumda á svæðinu. Þar sem um er að ræða námu í fullri notkun er ljóst að umráð eignarnema skerða verulega afnot eignarnámsþola af námu sinni.

B.   Kr. 25.000.00 er krafist vegna eftirlits umboðsmanns eignarnámsþola meðan á efnistöku stóð. Haldið var uppi reglulegu eftirliti með athöfnum eignarnema dag hvern. Meðaltöl bíla tekin, magntalna aflað frá starfsmönnum eignarnema o.fl. Um er að ræða 2 x 3.5 km. akstur dag hvern auk vinnutaps umboðsmannsins Jóns Péturssonar héraðsdýralæknis á Egilsstöðum.

C.   Kr. 15.000.00 er krafist vegna landspjalla. Eignarnemi ruddi þeim jarðlögum sem hann skóf ofan af efninu ofan í þann hluta námunnar sem eignarnámsþoli var að nota og hefur ekki hirt um lagfæringu þess. Nauðsynlegt mun reynast að kaupa til þess verktaka."

Um rök fyrir ofanrituðum bótakröfum vísar lögmaðurinn til sömu raka og áður en að öðru leyti vísar hann til greinargerðar sinnar á mskj. nr. 6.

Lögmaður eignarnámsþola kveðst mótmæla öllum málsástæðum og kröfum eignarnema í málinu. Hann segir að hér sé um að ræða töku efnis úr námu í fullum rekstri. Sannað sé í málinu að mótað verðlag liggi fyrir á efni úr þessari námu. Þá mótmælir hann öllum magnafslætti á matsupphæðinni þar sem eignarnemi hafi í skjóli valds síns og heimilda eignarnámslaga þvingað eignarnema til þess að láta hið eignarnumda jarðefni af hendi. Magnafsláttur sé og verði valkvæð athöfn enda sé hann þá gefinn vegna langra og farsælla viðskipta eða til öflunar frekari viðskipta.

III.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta 29. okt. 1982. Hinn 5. maí 1983 var gengið á vettvang og landið og allar aðstæður skoðaðar. Hinn 10. maí 1983 var kveðinn upp úrskurður um formhlið málsins, og um kröfu eignarnema, samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973.

Leitað hefur verið um sættir í málinu en árangurslaust.

Hinn 20. september 1983 fór fram munnlegur málflutningur um efnishlið málsins og fjárhæð eignarnámsbóta.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977. Ber að meta til fébóta efnistöku sem eignarnemi hefur látið fara fram á árinu 1983 úr landi Egilsstaða II svo og landspjöll og jarðrask vegna þess.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið úr landi hans, hvort heldur sé grjót, möl, eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Svo sem fyrr segir er í þessu máli eingöngu um að ræða fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola. Enginn ágreiningur er um það í málinu, að jarðefni það sem tekið hefur verið hafi verið tekið úr óyrktu landi. Matsnefndin hefur skoðað landið hinn 5. maí 1983, en auk þess hafa tveir matsmanna áður gengið á vettvang og skoðað þetta land allt.

Á þeim stað er um ræðir í málinu eru leirkenndir móar, lítt grasi grónir. Fletta þarf af moldarlagi ca. 60 cm. þykku en þó eitthvað mismunandi, ofan af malarefninu áður en næst til efnisins, sem taka á. Auk þess er nokkur hluti svæðisins vaxinn valllendisgróðri, þar sem sléttað hafði verið fyrir alllöngu vegna notkunar landsins sem skeiðvallar en sem nú er löngu úr sögunni. Fallast ber á það með eignarnámsþola, að hann hafi beðið skaða við töku efnisins enda hefur verið bent á, að markaður sé fyrir efnið á nálægum stöðum, í nærsveitum Egilsstaða. Að vísu segir eignarnámsþoli, að Egilsstaðahreppur eigi sjálfur sínar námur og þurfi því ekki, að kaupa malarefni en Fellahreppur sé einn af stærstu efniskaupendum eignarnámsþola sumarið 1983. Hefur Fellahreppur skv. framlagðri kvittun keypt 311 hlöss af möl á kr. 140.00 hlassið en fengið 25% magnafslátt. Var því lýst yfir við munnlegan málflutning að Fellahreppur væri stór og vaxandi aðili og magnafslátturinn því gefinn í von um vaxandi viðskipti.

Samkvæmt ljósritum í málinu hafa aðrir kaupendur efnisins aðeins keypt mjög óverulegt magn efnis, aðeins eitt eða fáein hlöss og fyrir það greitt hæst kr. 20.00 pr. rúmm. eða kr. 140.00 pr. hlass.

Eignarnemi hefur upplýst í málinu að efnismagn það sem tekið hafi verið og um sé rætt í þessu máli séu 10746 rúmm. Sé þetta heildarmagn af unnu og óunnu efni, óþjappað efni. Segir eignarnemi að efniskaup hans séu ekkert sambærileg við þau efniskaup, sem aðrir hafa gert, sem séu mjög óveruleg, eitt eða fá hlöss, nema Fellahreppur sem keypt hafi 311 hlöss, eða 2177 rúmm. og fengið 25% magnafslátt.

Eignarnemi þurfi auk þess, að ýta moldarlagi ofan af efninu, og slétta síðan út og sá í svæðið að lokinni efnistöku, en þetta þurfi aðrir yfirleitt ekki að gera, jafnvel þótt einstaka efniskaupandi þurfi kannske að grafa sig niður í efnið eða ryðja upp holur, til að komast að efninu, eins og lögmaður eignarnámsþola skýrir frá, sbr. 3. mgr., 59. gr. vegalaga sem segir, að veghaldari skuli jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár, sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir.

Eignarnemi mótmælir því, að hann hafi hindrað efnissölu eignarnámsþola til annarra og er ósannað í málinu, að svo hafi verið.

Eignarnemi mótmælir því að greiða eignarnámsþola fyrir eftirlit með efnistökunni, þar sem hvort tveggja sé, að eftirlit hafi verið óþarft, og auk þess ekki sannað að um eitthvað eftirlit hafi verið að ræða.

Um það efni heldur lögmaður eignarnámsþola því fram, að maður frá umbjóðanda hans hafi komið einu sinni á dag í námuna og spurt verkstjóra eignarnema um magntölu efnis sem tekið hafi verið og meðaltöl bíla síðan verið tekin.

Hvað varðar tíma þann, sem eignarnemi hafi afnot af svæði sínu verður að telja upplýst, að það hafi verið frá 20. júní til fyrstu daganna í september, eða í ca 2½ mánuð.

Varðandi jarðrask eða landspjöll, sem eignarnámsþoli krefst bóta fyrir tekur eignarnámi fram, að hann hafi boðist til að lagfæra jarðröskunina, slétta yfir og sá í svæðið í samræmi við ákvæði 3. mgr. 59. gr. vegalaga. Þar sem eignarnámsþoli óski ekki eftir slíkri framkvæmd, mótmælir eignarnemi að efni séu til þess, að hann greiði bætur fyrir landspjöll.

Í munnlega málflutningnum lýsti lögmaður eignarnámsþola því yfir, að ekki væri óskað eftir því, að eignarnemi sléttaði yfir svæðið, þar sem um væri að ræða námu í fullri notkun og slík framkvæmd myndi hindra sölu á efni úr námunni.

Hins vegar krafðist eignarnámsþoli þess, að metið yrði til fjár, hvað kosta myndi að laga landspjöllin og eignarnema gert að greiða þann kostnað.

Matsnefndin telur ekki efni eða rök standa til þess að taka þá kröfu eignarnámsþola til greina, enda yfirlýst í málinu, að eignarnámsþoli ætlar að nota stálið (námuna) sem myndað hefur verið verið, og selja öðrum jarðefni úr því. Af þeim sökum vill hann ekki láta laga landspjöllin nú.

Verðmæti jarðefnis þess, sem um ræðir ræðst af ýmsum atriðum, en þó fyrst og fremst af legu við markaði, stærð markaðssvæðis og efnisþörf, gæðum efnisins og/eða nýtingarkostum, og vinnslukostnaði. Telur Matsnefndin að meta beri jarðefnið m.a. á ofangreindum grundvelli.

Tiltölulega þrönga markaðsaðstöðu beri hins vegar að meta til lækkunar á eignarnámsbótum.

Upplýst hefur verið í málinu að fasteignamat, landverð Egilsstaða II er kr. 44.000.-, en fasteignamat túna, 19,4 ha., sé kr. 103.000.-.

Fyrir liggur í málinu, að jarðefni þetta er hæft sem fyllingarefni í húsgrunna og vegi, og sem burðarlag og slitlag á vegi, en þá þarf að vinna efnið áður.

Efnið er óhæft sem steypuefni.

Efnið hefur markaðsverð í nærliggjandi héruðum, þótt þar sé um frekar lítið markaðssvæði að ræða, og salan verið lítil undanfarið, en mun fara vaxandi, að því er líkur standa til. Þannig hefur verðið til Fellahrepps á þessu ári verið nettó kr. 15.00 pr. rúmm., en efni úr Eyvindaráreyrum í nágrenni Egilsstaða var í september/október 1982 kr. 5.- pr. rúmm., en það efni mun ekki lakara en Egilsstaðaefnið.

Nálægð námunnar við þéttbýlisstað verður látið orka til hækkunar á verði efnisins, en nýtingarkostir þess eru takmarkaðir, eins og áður segir.

Efnisnáman er við þjóðveg og er því aðstaða til efnistöku góð. Eignarnemi notar efnið í nágrenninu og er því aksturskostnaður lítill.

Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið hér að framan og öðru því, sem Matsnefndin telur skipta máli telja matsmenn hæfilegt að meta jarðefni það sem um ræðir í þessu máli á kr. 10.50 pr. rúmm., og er þá tekið tillit til kostnaðar eignarnema vegna ofanafýtingar, en Matsnefndinni er kunnugt um sölur og möt á jarðefni víðs vegar um Ísland.

Hvað varðar kröfu eignarnámsþola um greiðslu fyrir "full og óskert afnot" af landi því sem eignarnemi fékk umráð yfir með úrskurði Matsnefndarinnar dags. 10. maí 1983, tekur nefndin fram, að gróður á þessu námusvæði er lítill sem enginn og þau afnot, sem eignarnámsþoli hefur tapað af landi þessu eru því lítilsháttar og óveruleg. Sýnast því ekki efni til að meta landeiganda bætur vegna þessa sérstaklega, þar sem fjárhagstjón vegna þessa virðast hverfandi lítil, en bætur metnar vegna efnistökunnar og þá um leið tillit tekið til landnotanna.

Ekki er sannað í málinu að efnistaka eignarnema hafi hindrað efnissölu til annarra úr því víðlenda námusvæði, sem þarna er og ekki ástæða til að ætla það, eins og staðhættir eru.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan, telur Matsnefnd eignarnámsbóta bætur til eignarnámsþola hæfilega metnar kr. 10.50 pr. rúmm. fyrir 10746 rúmm. jarðefnis eða alls kr. 112.833.00 og er þá miðað við staðgreiðslu.

Eins og rakið hefur verið hér að framan, sbr. úrskurðinn 10. maí 1983, telur Matsnefndin svokallað eftirlit eignarnámsþola bæði óþarft og einskis nýtt, eins og það var framkvæmt. Krafa eignarnámsþola um greiðslu vegna eftirlits verður því ekki tekin til greina.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 12.000.00 fyrir lögfræðilega aðstoð við matsmálið.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein sömu laga, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 24.000.00.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar, og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. grein laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþolanum, Pétri Jónssyni, Egilsstöðum II, Suður-Múlasýslu kr. 112.833.00 og kr. 12.000.00 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 24.000.00.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta