Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 18. apríl 1983
Ár 1983, mánudaginn 18. apríl var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:
Fjármálaráðherra í umboði
utanríkisráðherra
gegn
eigendum beitarréttinda
jarða í Miðneshreppi í
Gullbringusýslu
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að á árinu 1948 fór fram eignarnám á landi í Miðnesheiði vegna byggingar Keflavíkurflugvallar. Við matið á landinu var ákveðið að landeigendur skyldu halda óskertum beitarafnotum á landi sínu, þar sem ekki væri algjört bannsvæði.
Á árinu 1944 fór fram almennur niðurskurður á sauðfé á Reykjanesskaga vegna mæðiveikivarna. Var Bæjarsker eina jörðin í Miðneshreppi, sem tók aftur fé við fjárskipti á Reykjanesskaga. Allar hinar jarðirnar tóku ekki fé að nýju og töldu bændurnir sig ekki geta haft not af beitinni vegna þess, að með varnarsamningnum hefði varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli verið afhent umráð yfir mestum hluta beitarlandsins. Gerðu eigendur og umráðamenn jarðanna Fuglavíkur, Nesja og Melabergs, Landa og Bursthúsa, Hvalsness og Stafness í Miðneshreppi og utanríkisráðherra f.h. varnarmáladeildar utanríkisráðuneytisins með sér samning dags. 25. nóvember 1955. Samkvæmt þeim samningi skyldi ríkið taka við beitarafnotum þessara jarða frá 1. ágúst 1951 að telja gegn árlegu gjaldi sem gerðardómur ákvæði. Í samningi þessum var ákvæði um heimild til endurmats á fimm ára fresti.
Á árinu 1974 var ákvörðun um endurgjald beitarréttarins síðast lögð í gerð samkvæmt þessum samningi. Eignarnemi í þessu máli telur niðurstöðu gerðardómsmanna og þær forsendur, sem þeir lögðu til grundvallar fjarri lagi. Telur eignarnemi að með þessum gerðardómi hafi orðið stökkbreyting uppávið á þeim kostnaðarbyrðum, sem ríkissjóður hafði tekið á sig samkvæmt samningnum frá 1955 um leigu beitarafnotanna.
Með bréfi til Matsnefndar eignarnámsbóta dags. 7. mars 1983 hefur fjármálaráðherra í umboði utanríkisráðherra farið þess á leit að Matsnefndin taki til meðferðar og mats eignarnám utanríkisráðherra á beitarréttindum tilgreindra jarða í Miðneshreppi í Gullbringusýslu. Hefur utanríkisráðuneytið með bréfi 4. mars 1983 falið fjármálaráðuneytinu að fara með fyrirsvar í málinu í umboði eignarnema.
Eignarnemi kveður heimild til þessa eignarnáms vera að finna í lögum nr. 17/1982 um breytingu á lögum nr. 34/1964 um loftferðir, sbr. lög nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl., sbr. lög nr. 73/1969 um stjórnarráð Íslands og reglugerð um sama efni nr. 96/1969. Á grundvelli þessara ákvæða ákvað utanríkisráðherra, á sumrinu 1982, að til eignarnáms beitarréttinda á Miðnesheiði skyldi gripið. Rétthöfum hafi verið tilkynnt um þessa fyrirætlan í ágúst 1982 og þeim gefinn kostur á að gæta andmælaréttar síns. Eignarnámi hafi síðan verið lýst yfir formlega með bréfum ráðuneytisins til rétthafa í desember 1982.
Með hliðsjón af framangreindum lögum telur eignarnemi það ótvírætt að utanríkisráðherra hafi fulla heimild til þess að grípa til þessa eignarnáms nú vegna reksturs Keflavíkurflugvallar og starfsemi varnarliðsins þar.
Af hálfu eignarnámsþolanna allra í þessu máli hafa mætt lögmennirnir Ólafur Axelsson, hrl., Árni Guðjónsson, hrl., svo og Páll S. Pálsson, hrl., sem mætir fyrir eignarnámsþola þá er upp eru taldir á mskj. nr. 18. Á fundi í Matsnefndinni 29. mars 1983 áskyldi Páll S. Pálsson sér rétt til að krefjast frávísunar málsins frá Matsnefndinni.
Nú hefur Páll S. Pálsson, hrl., f.h. eigenda Norðurkots, Hvalsness, Fuglavíkur, Melabergs, Nesja, Landa, Stafness II og ½ Glaumbæjar, og Nýlendu, sem eru eigendur að 52,133% óskiptra beitarréttinda á Miðnesheiði höfðað mál fyrir aukadómþingi Gullbringusýslu gegn utanríkisráðherra og fjármálaráðherra og gerir í því máli eftirfarandi kröfur: Að viðurkennt verði með dómi réttarins, á grundvelli heimildar í upphafsákvæði 17. gr. laga nr. 11/1973, að yfirlýst eignarnám utanríkisráðherra á beitarréttindum ofangreindra jarða í Miðnesheiði hinn 13. desember 1982 sé ólögmætt og skuli því eigi fram fara.
Stefnendur mótmæla því algerlega að hið yfirlýsta eignarnám nái fram að ganga og telja að lög séu ekki til þess að svo verði gegn mótmælum þeirra. Mótmælin byggja þeir á eftirtöldum atriðum:
1. Hin almenna heimild sem lagabreytingin skv. lögum nr. 17/1982 geri á 34. gr. laga 1964 um loftferðir sé ekki þannig úr garði gerð, að hún gefi utanríkisráðherra sem fer með flugmál á Keflavíkurflugvelli sérstaka heimild til þess að taka beitarréttindi Miðnesheiðarbænda eignarnámi, án þess að frekari rökstuðningur komi til. Það verði ekki séð af gögnum málsins að nein slík gögn hafi verið lögð fram á Alþingi við lögfestingu þessarar almennu heimildar til flugmálaráðherra er gæfi utanríkisráðherra beina heimild til eignarnáms beitarréttindanna. Þess vegna sé fyrirhugað eignarnám án lagaheimildar.
2. Þó að það sé álit margra fræðimanna að löggjafarþingið sjálft eigi úrskurðarvald um hvort og hvenær almenningsþörf sé fyrir hendi í samræmi við það skilyrði stjórnarskrárinnar, þá sé það lágmarkskrafa að fyrir liggi örugg skilgreining á því hvað taka eigi eignarnámi, svo að mat á almenningsþörfinni sé ótvírætt. Svo sé ekki í þessu tilviki með beitarréttindin. Í eignarnámsbeiðninni sjálfri finnist enginn rökstuðningur um það hvers vegna þurfi að taka fasteignaréttindi þessi vegna gerðar og reksturs flugvalla eða annars flugvirkis á Keflavíkurflugvelli. Heimildin sé þó við það bundin eftir orðalagi 1. greinar laga nr. 17/1972.
Eignarnámsathöfnin brjóti því í bága við ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar ef framkvæmd yrði. Frumvarpið um breytingu á 64. gr. laga nr. 34/1964 um loftferðir hafi ekki verið lagt fram á Alþingi af utanríkisráðherra og sérþarfir Keflavíkurflugvallar þar hvergi nefndar. Því gefi lög nr. 17/1982 ekki næga heimild til utanríkisráðherra til fyrirhugaðs eignarnáms.
Mál þetta var þingfest á aukadómþingi Gullbringusýslu 13. apríl 1983.
Í bókun hjá Matsnefndinni 12. apríl 1983 gerði Páll S. Pálsson eftirfarandi kröfur: "Með vísan til mskj. 23-24 krefst ég þess vegna umbj. minna að matsmáli þessu verði að svo stöddu vísað frá Matsnefndinni, eða máli þessu frestað hjá Matsnefndinni, uns dómur er fenginn um lögmæti eignarnámsins." Benedikt Blöndal, hrl., sem mætti í málinu f.h. eignarnema mótmælti frávísunarkröfunni og krafðist þess að matsmálinu yrði haldið áfram hjá nefndinni.
Árni Guðjónsson, hrl., krafðist þess að málið yrði látið hvíla hjá nefndinni meðan málflutningur fari fram í máli umbj. Páls S. Pálssonar.
Ólafur Axelsson og Árni Guðjónsson áskildu umbj. sínum allan rétt gegn eignarnema falli framangreint aukadómþingsmál umbj. Páls S. Pálssonar í vil.
Sátt var reynd í málinu en árangurslaust.
Skv. 5. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms ber Matsnefnd eignarnámsbóta að kanna hvort lagaheimild sé til eignarnámsins.
Samkvæmt 17. gr. sömu laga má leita úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti eignarnáms, þ.á m. ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta, en um það atriði þó ekki fyrr en úrlausn Matnefndar liggur fyrir.
Samkvæmt þessu er það undirstöðuatriði við framkvæmd eignarnáms, hvort lagaheimild sé til eignarnámsins, og má leita úrlausnar dómstóla um lögmæti eignarnámsins, áður en úrlausn Matsnefndarinnar liggur fyrir um fjárhæð eignarnámsbóta.
Krafist hefur verið, annað hvort, að málinu verði vísað frá nefndinni að svo stöddu, eða málinu frestað, meðan skorið verður úr lögmæti eignarnámsins.
Ekki er efni til þess að vísa málinu frá nefndinni, en hins vegar þykir rétt, samkvæmt áðurgreindum lagaákvæðum að fresta meðferð matsmálsins hjá nefndinni um óákveðinn tíma.
Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar, og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls, skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.
Þ v í ú r s k u r ð a s t :
Framangreindu matsmáli eignarnema, fjármálaráðherra í umboði utanríkisráðherra gegn eigendum beitarréttinda í Miðneshreppi er frestað hjá Matsnefndinni um óákveðinn tíma.