Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 30. nóvember 1982
Ár 1982, þriðjudaginn 30. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:
Vegagerð ríkisins
gegn
Eigendum jarðanna
Miðvíkur I og II,
Grýtubakkahreppi
Suður-Þingeyjarsýslu
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I.
Með bréfi dags. 29. júní 1977 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla vegalaga og laga nr. 11/1973 farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að kvaddir verði 2 til 4 hæfir og óvilhallir menn, ásamt formanni Matsnefndarinnar, til þess að meta lögboðnar bætur vegna hugsanlegs tjóns af fyrirhugaðri lagningu Norðurlandsvegar um Víkurskarð í Suður-Þingeyjarsýslu, um land jarðanna Miðvíkur I og II í Grýtubakkahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu.
Eigendur jarðanna eru taldir Indriði R. Sigmundsson, Norðurgötu 6, Akureyri, Flosi Kristinsson, Höfða I, Grýtubakkahreppi, Björgvin Sigmundsson, Lönguhlíð 1 a, Akureyri og Sigmundur Sigmundsson, Framnesi, Dalvík.
Er tekið fram að leitað hafi verið samkomulags við framangreinda landeigendur um bætur en samningar ekki tekist og því verið ákveðið að leggja málið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta til úrlausnar.
Mál þetta var fyrst tekið fyrir á fundi Matsnefndarinnar, sem haldinn var á landi jarðanna Miðvíkur í Grýtubakkahreppi 19. júlí 1977. Fyrir eignarnema mættu á þeim fundi Gunnar Gunnarsson hdl., Sigurður Oddsson, umdæmistæknifræðingur og Brynjólfur Jónsson, verkstjóri. Lagði eignarnemi fram beiðni um mat þetta ásamt uppdrætti.
Af hálfu eignarnámsþola voru mættir Indriði R. Sigmundsson vegna dánarbús Sigmundar Indriðasonar, Flosi Kristinsson og Bjarni Hólmgrímsson er mætti vegna jarðarinnar Dælis. Einnig var mættur Ævarr Hjartarson, ráðunautur.
Matsmenn þeir Egill Sigurgeirsson hrl., Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, svo og allir framantaldir menn, gengu á vettvang og skoðuðu landið og allar aðstæður, en aðilar bentu á þau atriði, sem þeir töldu skipta máli og skýrðu fyrir matsmönnum sjónarmið sín.
Enginn ágreiningur var um það gerður á þessum fundi, að eignarnemi mætti halda áfram framkvæmdum þeim sem byrjaðar voru.
Þeir Indriði R. Sigmundsson og Flosi Kristinsson töldu æskilegt að mat biði uns þeim hefði gefist kostur á að koma fram nánari upplýsingum í málinu og Bjarni Hólmgrímsson gat fallist á það fyrir sitt leyti.
Var ákveðið að fresta málinu að sinni um óákveðinn tíma, en það tekið fyrir að nýju strax og ósk um það bærist Matsnefndinni.
Vegna þess að engar fjárveitingar voru til verksins árin 1978 og ´79 lágu framkvæmdir niðri þau ár, en árið 1980 hófust framkvæmdir aftur á vegarlagningu yfir Víkurskarð og var það ár gerð 400 m. löng undirbygging í Hrossadalsgili. Árið 1981 var undirbyggður 1.65 km. langur kafli frá Grenivíkurvegi að Miðvíkurrétt og áfram var haldið við undirbyggingu vegarins sumarið 1982. Gert er ráð fyrir að vegaframkvæmdum í Víkurskarði ljúki 1984.
Af framangreindum ástæðum og eftir beiðni málsaðila var málið tekið fyrir að nýju sumarið 1982 og 11. ágúst það ár var fundur í Matsnefnd eignarnámsbóta haldinn í Víkurskarði í Grýtubakkahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu. Matsnefndina skipuðu í þetta sinn þeir Egill Sigurgeirsson hrl., formaður nefndarinnar, Björn Bjarnarson ráðunautur og Óli Valur Hansson ráðunautur.
Fyrir hönd eignarnema mættu á þessum fundi þeir Gunnar Gunnarsson, hdl., Sigurður Oddsson, umdæmistæknifræðingur, Jón Haukur Sigurbjörnsson rekstrarstjóri og Brynjólfur Jónsson, verkstjóri.
Af hálfu eignarnámsþola voru þeir mættir Indriði Sigmundsson og Björgvin Sigmundsson, sem einnig mættu vegna Sigmundar Sigmundssonar, Flosi Kristinsson svo og Bjarni Hólmgrímsson, vegna Dælis. Land það sem mál þetta snýst um er í óskiptri sameign eigenda Miðvíkur I og II en heimaland jarðanna er skipt.
Bjarni Hólmgrímsson lýsti því yfir á þessum fundi að hann væri ekki inni í þessu máli og myndi semja við eignarnema um sinn hlut í málinu, og hann kvaðst sammála eigendum Miðvíkur um það, að allt uppfyllingarefni í Hrossagili væri úr Miðvíkurlandi.
Síðan var gengið á landið og farið um allt skarðið og land það sem vegurinn liggur um skoðað, svo og allar aðstæður á staðnum.
Þá var samþykkt að fundi loknum að fresta málinu um óákveðinn tíma til greinargerða og gagnasöfnunar og var málið tekið til úrskurðar hjá nefndinni hinn 26. nóvember 1982.
Norðurlandsvegur um Víkurskarð liggur m.a. um sameiginlegt land jarðanna Miðvíkur I og II. Eignarnemi tekur fram, að gert sé ráð fyrir að vegsvæðið verði um 60 m. breitt og liggur vegurinn á 3685 m. kafla í landi jarðanna Miðvíkur I og II. Tekið land undir vegsvæði Norðurlandsvegar úr landi þessara jarða er því talið nema 221100 m², þ.e. rúmir 22 ha. Efnistaka vegna Vegagerðarinnar í landi Miðvíkur I og II er sagt að hafi verið að mestu gerð innan vegsvæðisins, þ.e. innan ofangreindra 60 m. Þó hafi um 2000 rúmm. af sandi verið teknir úr námu inn við Hrossagil í landi Miðvíkur vegna ræsagerðar og 5520 rúmm. voru teknar utan 60 m. svæðisins, skammt ofan Miðvíkurréttar. Jafnframt er sagt að um 40000 rúmm. hafi verið ýtt inn í vegsvæðið í Hrossagili.
Eignarnemi gerir þá kröfu, að bætur vegna vegagerðar um land Miðvíkur verði ákveðnar í samræmi við orðsendingu nr. 9/1982 um landbætur. Enda segir eignarnemi að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlætt geti hærri bótagreiðslu en þar sé gert ráð fyrir. Eignarnemi segir að meirihluti þess lands sem vegurinn liggi um sé beitiland, sem ekki sé ræktunarhæft vegna bratta, hæðar yfir sjó, og fjarlægðar frá býli. Þó megi gera ráð fyrir, að unnt væri að rækta spildu frá ca. stöð nr. 1+000 til 1+600 og þá hvort heldur sem er tún eða land til kartöfluræktar, en vegna bleytu í landinu myndi sú ræktun verða kostnaðarsöm. Annað land í vegsvæðinu sé varla ræktunarhæft og megi í því sambandi, auk þess sem að framan sé getið, benda á að landið snúi móti norðri og njóti því ekki sólar sem skyldi, ef litið væri til möguleika landsins sem kartöflulands.
Þá bendir eignarnemi á að jörðin Miðvík II sé í eyði og þó til ábúðar á jörðinni kæmi, t.d. með kartöflurækt í huga, þá liggi fyrir ónýttir margir nærtækari staðir til slíkrar framleiðslu áður en leitað yrði upp í fjallaskörð.
Eignarnemi tekur fram, að ekki hafi verið sýnt fram á með rökum, að ásókn hafi verið í það landsvæði sem vegurinn liggur um undir sumarbústaði eða þess háttar, enda snúi landið móti norðri. Hins vegar sé hugsanlegt að slík ásókn skapist í landið í norðanverðu skarðinu eftir að vegurinn sé kominn, þ.e. í það land sem snýr móti sól, þar sem nú sé orðið aðgengilegt að því landi með tilkomu vegarins.
Eignarnemi segir að efnistaka í Norðurlandsveg um Víkurskarð hafi að mestu farið fram innan vegsvæðisins og verið ýtt í vegarstæðið en þó hafi u.þ.b. 7520 rúmm. verið teknir utan vegsvæðisins og fluttir til með bifreiðum. Ekki sé gert ráð fyrir að greiða þurfi fyrir þá u.þ.b. 40 þús rúmm., sem ýtt hafi verið utan vegsvæðisins í Hrossagili, enda sé það ekki venja og ekki hafi verið gerð um það krafa af hálfu eignarnámsþola.
Hins vegar segir eignarnemi eðlilegt, að greitt sé fyrir tímabundin spjöll á landi utan vegsvæðisins, svo fremi sem tjón hafi orðið, sbr. b lið á bls. 2 í orðsendingu um landbætur nr. 9/1982, mskj. nr. 5.
Ekki hafi verið sýnt fram á, að markaður sé fyrir efni úr landi Miðvíkur og ekki liggi fyrir neinar upplýsingar um sölur á efni úr því landi, enda liggi landið fjarri markaðssvæðum.
Ef möguleikar opnist hins vegar fyrir sölu á efni úr Víkurskarði komi þeir möguleikar eingöngu til vegna vegagerðarinnar og beri skv. 61. gr. vegalaga nr. 6/1977 að draga hugsanlegan hagnað frá bótum. Eignarnemi segir að Vegagerð ríkisins hafi á síðastliðnu sumri greitt kr. 0.30 pr. rúmm. fyrir fyllingarefni í dreifbýli, þar sem markaður sé ekki fyrir hendi. Gerir hann þá kröfu að tilflutt efni í Víkurskarði verði ekki metið hærra verði, enda liggi ekki rök til þess.
Eignarnemi segir að í 61. gr. vegalaga nr. 6/1977 sé tekið fram, að sérstaklega skuli taka tillit til þess við mat, ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð. Hann tekur fram að hugsanlegt sé að bæði land og efni í Víkurskarði hækki í verði við lagningu Norðurlandsvegar um skarðið, þar sem allt land þar verður til muna aðgengilegra eftir en áður. Telur hann að matsmönnum beri að taka tillit til þessa við ákvörðun matsfjárhæðar.
II.
Eignarnámsþolar í máli þessu, þeir Indriði R. Sigmundsson og Flosi Kristinsson hafa lagt fyrir nefndina greinargerð vegna þessarar vegalagningar í Víkurskarði.
Þeir taka fram að jörðin Miðvík I og II sé landlítil með tilliti til ræktunar lands. Landið sé mjög sundurskorið af klettastöllum og malar- og grjóthólum. Að flatarmáli sé jörðin að vísu ekki svo landlítil, en skv. framansögðu sé hver blettur sem ræktunarhæfur sé mjög verðmætur. Þeir telja að þar sem þessi vegur á að liggja um landið sé það víða gott ræktunarland. Þeir benda á að frá merkjum við Garðsvík og nokkuð upp á Víkurskarð sé farið yfir mjög gott ræktunarland á hjalla í hlíðinni. Þessi hjalli sé nú allur ónytjanlegur.
Eignarnámsþolar segja að um land jarðarinnar liggi nú þegar tveir vegir þvert yfir landið, auk þess sem landið í Víkurskarði verði nú skorið að endilöngu af vegi. Megi því segja að erfitt sé að hafa bústofn á jörðinni, t.d. sauðfé sem vart væri hægt að hleypa úr húsi nema á veg fari. Jörðin Miðvík II sé nú á leigu til ábúðar en Miðvík I sé nýtt af eiganda.
Eignarnámsþolar segja að jörðin Miðvík sé mjög vel fallin til kartöfluræktar. Næturfrost séu mjög fátíð fyrr en langt sé liðið á haust. Muni það stafa af legu jarðarinnar við sjó og loftstreymi úr skarðinu þegar hitabreytingar verði. Uppskerumælingar hafi verið gerðar haustið 1977 og uppskera reynst þá vera 5-6 kg. pr. m². Í ársriti Búnaðarsambands Eyjafjarðar 1975 sé gerð grein fyrir tilraunum á næstu jörð, Ystuvík, og þar hafi uppskera á söluhæfum kartöflum verið 3.3 kg. pr. m². Af þessum tölum sjáist, að land Miðvíkur sé mjög verðmætt til kartöfluræktar. Þá benda þeir á að nú séu bændur kvattir til aukinnar garðræktar, þannig að verðmæti góðs garðlands aukist mikið. Eignarnámsþolar segja að mikil veðursæld sé í skarðinu og hafi verið mikil eftirspurn eftir landi undir sumarbústaði. Sem dæmi nefna þeir að 1978 sé land leigt úr jörðinni Veigastöðum í Svalbarðsstrandarhreppi undir sumarbústaði og þar sé leiga fyrir bústað Gkr. 60.000.- og sé miðað við mjólkurverð á hverjum tíma. Stærð lands undir hvern bústað sé 1000 m². Þeir telja að nálægð vegarins spilli fyrir leigu á landi til þessara hluta.
Eignarnámsþolar segja að ljóst sé, að með tilkomu þessa vegar yfir Víkurskarð aukist kostnaður við girðingar mikið og einnig skapist aukin girðingarþörf. Þá liggi ekki ljóst fyrir ennþá hvernig girðingum verði best fyrir komið. Þá setja eignarnámsþolar fram þá beinu kröfu, að Vegagerðinni skuli skylt að ganga þannig frá öllum vegum eða slóðum út af vegi að óviðkomandi komist ekki þar um.
Sagt er í greinargerð að mikið fyllingarefni og malartekja sé í skarðinu. Þeir segja að á svæðinu frá Þveráreyrum í Öngulstaðahreppi og að Laufási í Dalsmynni, alls á ca. 35-37 km. leið, sé ekki til möl, frostfrítt eða berandi efni.
Mikil þörf sé á þessu svæði fyrir slíkt efni og megi þar nefna t.d. auknar byggingar á Svalbarðseyri og gatnagerð þar. Auk þess sé mikil þörf fyrir slíkt efni á bújörðum. Þá telja þeir það hagkvæmt fyrir Vegagerðina að fá gott efni nálægt þeim stað þar sem fram fari vegagerð. Því gera þeir kröfu um að allt efni, sem berandi sé og flutt sé í vegarstæðið af öðrum tækjum en jarðýtum verði tekið til mats og greitt fullu verði.
Til viðmiðunar fyrir verð á malarefni taka þeir fram, að verð á möl 1. júní 1982 hafi verið á Einarsstöðum kr. 6.00 pr. rúmm., á Glerá kr. 6.00 pr. rúmm. en á Þverá hafi ekki verið seld möl árið 1982. Þeir segja að árið 1977 hafi Akureyrarbær keypt land undir hitaveitustokk fyrir gamlar kr. 187.000.- miðað við vísitölu 1978. Þetta hafi verið verðið fyrir landið, en síðan hafi komið til viðbótargreiðsla fyrir framkvæmdir. Árið 1977 kaupi hitaveitan möl á Þveráreyrum fyrir Gkr. 20.00 pr. rúmm. + söluskatt og sand fyrir Gkr. 30.00 pr. rúmm. + söluskatt.
Þá er sett fram krafa frá umráðamönnum Miðvíkur I og II á þessa leið: Gerðar verði útafkeyrslur frá Víkurskarðsvegi að norðan þannig að komast megi þar útaf. Verði þær staðsettar í samráði við þá.
Kröfur frá umráðamönnum Miðvíkur I og II og eiganda og ábúanda Garðsvíkur, Jóni Ó. Jenssyni, eru á þessa leið: Merkjagirðing verði sett upp á milli þessara jarða, þannig að örugg varsla sé frá fjalli og að sjó. Telja þeir þetta eðlilega kröfu, þar sem girðing hafi verið fyrir hendi er núverandi Grenivíkurvegur var lagður. Verði þessi girðing sett upp í samráði við þá.
III.
Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt aðilum og umboðsmönnum þeirra. Var m.a. farið um allt skarðið og landið skoðað rækilega, sem vegurinn liggur um, svo og litið yfir landið allt og nágrenni þess og allar aðstæður skoðaðar eftir föngum.
Aðilar hafa skýrt málið fyrir Matsnefndinni bæði í skriflegum greinargerðum og munnlega á vettvangi en málið var tekið til úrskurðar 26. nóv. 1982.
Leitað hefur verið um sættir með aðilum en árangurslaust. Á fundi Matsnefndarinnar, sem haldinn var í Víkurskarði miðvikudaginn 11. ágúst 1982 var m.a. gerð svofelld bókun: "Aðilar voru ásáttir um og samþykktu það, að vegsvæðið verði reiknað (talið) 60 m. breitt en komi til þess vegna girðingar með veginum að Vegagerðin taki meira land verði það greitt sérstaklega."
Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977. Ber að meta til fébóta landsvæði það í landi Miðvíkurjarða, sem vegurinn um Víkurskarð liggur um, efnistöku sem eignarnemi hefur látið fara fram í landi Miðvíkurjarða, svo og landspjöll og óhagræði sem framkvæmdum þessum kann að fylgja.
Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það er þurfi undir vegi, eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur séu grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.
Efnistakan í þennan veg um Víkurskarð er talin hafa farið að mestu fram innan vegsvæðisins og verið ýtt í vegarstæðið, en þó hafi verið u.þ.b. 7520 rúmm. teknir utan vegsvæðisins og fluttir til með bifreiðum. Ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um það að sölur á efni úr Miðvíkurlandi hafi farið fram, en hins vegar verður að telja, eftir skoðun Matsnefndarinnar, að það sé hentugt vegagerðarefni svo sem það hefur verið notað og þar með hafi það í eðli sínu verðgildi eins og svipað efni sem eignarnemi hefur notað víða um land. Efni þetta var sumpart á staðnum þar sem það var notað og sumpart mjög nálægt notkunarstað.
Jarðirnar Miðvík I og II í Grýtubakkahreppi eru tiltölulega landlitlar af ræktanlegu landi og er vart hægt að reka hefðbundin búskap á þeim hvorri í sínu lagi, en með sameiningu þeirra væri unnt að reka þar bú af viðunandi stærð. Skv. spjaldskrá Búnaðarfélags Íslands er túnstærð Miðvíkur I talin 2 ha. og Miðvíkur II 8.94 ha.
Tvær stofnbrautir skera nú landið, önnur um Víkurskarð (Norðurlandsvegur) og hin til Grenivíkur.
Meginhluti ræktunarlands jarðanna liggur neðan Grenivíkurvegar. Syðst í landinu liggur nýi Norðurlandsvegurinn í gegnum framræstar mýrarspildur og klýfur þær þannig sundur, að þær nýtast ekki til ræktunar en nýtast hins vegar sem beitiland. Land þetta er um 3 ha. að flatarmáli.
Úrrennsli úr vegi hefur skorið í sundur og fyllt að hluta til og þar með eyðilagt framræslukerfi, sem er fyrir neðan og vestan syðsta hluta Norðurlandsvegar, enda er þar bratt á vegi og hár vegkantur. Framræsla þessi mun hafa verið gerð árið 1969 og er talin skv. spjaldskrá Búnaðarfélags Íslands 3.109 rúmm. Í mýrum er djúpur jarðvegur, leirblandaður mór.
Vegurinn frá áðurnefndum stað (vegamótum Grenivíkurvegar) upp á Víkurskarð liggur á hjalla en þar vestan og norðan vegar eru leirbornir móar, hrjóstrugir, enda töluvert áveðurs. Áfram liggur vegurinn á brattann um skjólgott beitiland. Þar er yfirleitt frekar grunnur, leirborinn jarðvegur ofan á sand og malarlögum. Gróðurlendið eru lyngmóar að miklu leyti grónir fjalldrapa og lágvöxnum víðitegundum, bláberja- og krækiberjalyngi ásamt heilgrasagróðri og grösugir á köflum. Hér og þar eru uppsprettur og lækjarsytrur. Gildir gróðurlýsing þessi í stórum dráttum fyrir Miðvíkurland að Dælislandi í Fnjóskadal.
Með tilliti til landsmæðar jarðanna neðan Vaðlaheiðar og Miðvíkurfjalls er ljóst að þeir 22.11 ha., sem aðilar hafa orðið ásáttir um að undir vegstæði færu valda nokkurri búrekstrarskerðingu og skapa óhagræði í búrekstri.
Aðilar voru ásáttir um að malarefni það sem úr vegsvæðinu kæmi og í veginn væri notað, yrði að fullu bætt með landbótum.
Annað efni úr námum utan vegsvæðis, sem nýtanlegt er í undirstöðu vegarins, en er óhæft sem byggingarefni, skv. skýrslu Rannsóknarstofnunar byggingaiðnaðarins dags. 28. des. 1976, er talið 7520 rúmm. og virt sem fyllingarefni.
Matsþolar hafa talið að verðmæti lands þess sem undir veg fer byggðist að töluverðu leyti á því, að um verðmætt land til kartöfluræktar væri að ræða, sbr. greinargerð þeirra til Matsnefndar.
Matsnefndin lítur þannig á, að áðurnefndir 3 ha. í mýrlendi hefðu getað verið að hluta til nýtanlegir í þessu skyni, þar sem undirlendi Miðvíkurlands er mjög takmarkað. En vegna legu sinnar fær Matsnefndin þó ekki séð að landið geti talist bjóða upp á úrvalsskilyrði í þeim tilgangi, en hluti landsins liggur nokkuð hátt og nýtur því fyrir bragðið lægri sumarhita miðað við undirlendi. Frosthætta kann hins vegar að vera lítil á svæðinu að sumarlagi vegna loftstreymis í skarðinu. Er það atriði vissulega mikilsvert sakir lengingar vaxtartímans. Að þessu athuguðu telja matsmenn hæfilegar bætur til eignarnámsþola ákvarðaðar þannig, og er þá miðað við staðgreiðslu, verðbreytingar, hagræðis landeigenda af hinni nýju vegalagningu og annars þess, sem Matsnefndin telur skipta máli:
A Landsvæði undir veg, ræktunarland,
3.6 ha. á kr. 2.800 ha. .................................................. kr. 10.080.-
B Landsvæði undir veg, beitiland,
18.51 ha. á kr. 1000 ha. ............................................... " 18.510.-
C Skerðing á ræktunarhæfi landi utan vegs
3.0 ha. á kr. 2.100 ha. .................................................. " 6.300.-
D Tjónabætur vegna framræslu
3109 rúmm. á kr. 1,30 pr. rúmm. ................................ " 4.042.-
E Efnistaka utan vegsvæðis
7520 rúmm. á kr. 0.40 pr. rúmm. ................................ " 3.008.-
F Skert búrekstrarstaða og annað óhagræði ................... " 18.000.-
Alls kr. 59.940.-
sem skiptist þannig:
Eigandi Miðvíkur I fær 3/8 hl. eða kr. 22.477.50
Eigendur Miðvíkur II fá 5/8 hl. eða kr. 37.462.50
Fullyrt er að Björg Guðjónsdóttir, sem í veðmálabók er talin eiga 1/4 hl. Miðvíkur II hafi selt þeim bræðrum Indriða, Björgvin og Sigmundi Sigmundssonum sinn eignarhluta í Miðvík II.
Rétt þykir samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 18.000.-.
Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls samkvæmt 2. gr. laga nr. 11/1973.
M a t s o r ð :
Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eigendum Miðvíkur II, þeim Indriða, Björgvin og Sigmundi Sigmundssonum (með fyrirvara vegna Bjargar Guðjónsdóttur) kr. 37.462,50.
Eignarnemi greiði eiganda Miðvíkur I, Flosa Kristinssyni, kr. 22.477.50.
Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 18.000.-.