Hoppa yfir valmynd

Nr. 502/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 502/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18060048

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. júní 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. júní 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. október 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 8. maí 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 7. júní 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 28. júní 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. júlí 2018 ásamt fylgigögnum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. nóvember 2018 ásamt talsmanni sínum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna af hálfu ákveðinna aðila sem tengdir séu stjórnvöldum í [...].Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Fram kemur í greinargerð kæranda að kærandi kveði að hann sé fæddur og uppalinn í borginni [...]og hafi búið þar þegar hann hafi lagt á flótta frá landinu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. maí 2018 hafi kærandi greint frá ástæðum þess að hann hafi flúið heimaríki sitt. Árið 2013 hafi kærandi hafið störf fyrir [...] sem yfirmaður öryggismála. Þann 31. ágúst 2017 hafi kærandi fengið símtal sem hann hafi talið tengjast kröfu um bætur á hendur fyrirtækinu og hafi kærandi mælt sér mót með viðmælandanum. Á fundinn hafi mætt þrír menn sem hafi óskað eftir tilteknum trúnaðarupplýsingum um vinnustað kæranda og viðskiptavini fyrirtækisins. Kærandi hafi sagst ætla að hugsa málið. Aðspurður kvað kærandi mennina starfa fyrir [...] stjórnmálaflokkinn [...]. Kærandi kveður að flokkurinn hafi tengsl við yfirvöld í [...] og að þar sem fyrirtækið sé í eigu [...] aðila gætu mennirnir hafa viljað upplýsingar sem hægt væri að nota gegn fyrirtækinu. Kærandi telji mennina vera hættulega og að þeir hafi unnið ýmis grimmdarverk í [...] að undirlagi [...]. Kærandi hafi hvorki verið í aðstöðu til að láta undan þrýstingi mannanna né til að kvarta undan þeim til yfirmanna sinna né lögreglu. Hinn 7. september sama ár hafi kærandi farið til vinnu og séð að mennirnir þrír hafi beðið eftir honum. Þeir hafi ítrekað beiðni sína og boðið honum greiðslu fyrir. Kærandi hafi aftur sagt við þá að hann myndi hugsa málið. Hinn 12. september 2017 hafi mennirnir birst á heimili kæranda. Þeir hafi beitt hann meiri þrýstingi en áður og sagt honum að koma með þeim inn í bíl. Í bílnum hafi kærandi séð skotvopn. Þeir hafi hótað kæranda og sagt að þeir vissu hvenær börnin hans færu í leikskóla. Kærandi hafi þá sagt að hann myndi taka saman upplýsingarnar í vinnunni daginn eftir. Í kjölfarið hafi hann ákveðið að flýja land. Kærandi hafi farið með fjölskyldu sína í felur til ættingja og svo hafi hann yfirgefið landið þann 19. september 2017. Þá hafi kærandi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé [...]. Kærandi hafi ætíð fundið sig knúinn til að leyna [...] sínu en það myndi valda honum alvarlegum vandamálum spyrðist það út.

Í greinargerð kæranda er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála í heimaríki kæranda og vísað í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur henni til stuðnings. Meðal helstu mannréttindabrota í landinu séu [...]. Þá veigri fólk sér við því að leita til lögreglu eða dómstóla. [...]. [...] Flokkurinn hafi í nokkrum tilvikum látið til skarar skríða gegn andstæðingum sínum í [...]. Þá er rakin afstaða [...].

Þá er í greinargerð kæranda fjallað um aðstæður [...] og vísað til alþjóðlegra skýrslna því til stuðnings. Fram kemur í greinargerð kæranda að um [...]. Stjórnarskrá [...] kveði á um að [...] sé hin opinbera trú og skuli vera hornsteinn í allri lagasetningu ríkisins og að vernda skuli hið [...] auðkenni [...] þjóðarinnar. [...]. Vegna þessa verði einstaklingar sem séu trúlausir, aðhyllist aðra trú eða skipti úr [...] yfir í aðra trú fyrir alvarlegri mismunun. Þá bendi heimildir til þess að [...] sem hafi orðið fyrir ofsóknum kjósi heldur að fara í felur eða leggja á flótta fremur en að leita til lögregluyfirvalda eftir aðstoð. Ástæða þess sé m.a. talin vera sú að samkvæmt refsilöggjöf [...]. Þá hafi verið skráður fjöldi tilfella um ofbeldi, áreiti, morð og hótanir í garð þeirra sem ekki aðhyllist [...].

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í máli kæranda. Í fyrsta lagi er gerð athugasemd við að Útlendingastofnun túlki svör kæranda við spurningum um trúarskoðanir sínar sem [...]. Þvert á móti komi það skýrt fram í viðtali við kæranda að hann sé [...]. Jafnframt er gerð athugasemd við að Útlendingastofnun telji það skipta máli að kærandi hafi ekki opinberlega hafnað [...]. Stofnunin byggi þessa ályktun sína ekki á neinum viðurkenndum sjónarmiðum í flóttamannarétti. Enn fremur sé íslenskum stjórnvöldum óheimilt að gera þá kröfu til kæranda að hann leyni trúarskoðunum sínum í því skyni að forðast ofsóknir. Að lokum er því haldið fram að Útlendingastofnun hafi borið að spyrja kæranda nánar út í trúarskoðanir hans áður en stofnunin hafi dregið ályktanir um þær og lagt til grundvallar að kæranda stafi ekki hætta frá samfélagi sínu vegna trúarskoðana sinna. Felist í því brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá komi fram í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi ekki sýnt fram á með gögnum að þeir menn sem hann óttist starfi á vegum [...] stjórnmálaflokksins. Meðfylgjandi greinargerð sinni til kærunefndar hafi kærandi lagt fram frekari sönnunargögn hvað það varði.

Á því er byggt í greinargerð kæranda að hann eigi á hættu ofsóknir vegna trúarbragða sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Um það vísast m.a. til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um ofsóknir vegna trúarbragða en þar komi fram að trú í skilningi 1. gr. A(2) flóttamannasamningsins skuli túlka m.a. sem [...]. Sem [...] sem lúti ekki þeim hefðum sem [...] mæli fyrir um skeri kærandi sig úr varðandi lífsviðhorf og framkomu sem sé til þess fallið að skapa honum aukna óvild og útskúfun í samfélaginu. Samkvæmt leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar sé ekki hægt að gera þá kröfu til kæranda að hann feli [...] sitt til að koma í veg fyrir ofsóknir. Líkt og heimildir kveði á um sé algengt að [...] verði fyrir mismunun, ofsóknum í samfélaginu og fordæmingu fjölskyldunnar. Þá er vísað til þess að Útlendingastofnun hafi í málum nr. 2016-08098 frá 27. nóvember 2017 og 2017-00804 frá 23. apríl 2018 komist að þeirri niðurstöðu að [...] séu ofsóttir af almenningi og yfirvöldum þar sem [...] sé lagt að jöfnu við villutrú og móðgun við [...].

Í greinargerð kæranda er jafnframt byggt á því að vegna stöðu sinnar sem starfsmaður við öryggisgæslu í þágu erlendra aðila, einkum [...], sæti kærandi ofsóknum af hálfu [...] vegna aðildar að sérstökum þjóðfélagshópi. Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar um vernd á grundvelli þess að tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi hafi meðlimir starfsgreinar sem sæti ofsóknum verið taldir tilheyra sérstökum þjóðfélagshópi. Starf kæranda feli í sér bakgrunn sem kærandi geti ekki breytt. Vegna stöðu sinnar og þeirrar þekkingar sem henni fylgi hafi [...] gert hann að skotmarki og séu farnir að ofsækja hann með kúgunum og hótunum um að hann og fjölskylda hans verði tekin af lífi. Mörgum samstarfsmönnum kæranda hafi verið gefinn kostur á dvalarleyfi í Bandaríkjunum vegna hættunnar á ofsóknum í [...]. Ótti kæranda við ofsóknir í [...] vegna trúarbragða og vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshóp sé ástæðuríkur. Einnig sé um að ræða samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafi eða geti haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling og ofsóknir skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Teljist kærandi því vera flóttamaður skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi rétt á alþjóðlegri vernd skv. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Með því að senda kæranda til [...] yrði enn fremur brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Í greinargerð kæranda er vísað til 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga en þar sé að finna skilgreiningu á því hverjir það geti verið sem séu valdir að ofsóknum skv. 37.gr. laga um útlendinga. Þeir aðilar sem kærandi óttist komi fram fyrir hönd [...] flokksins sem fari með öll völd í [...] og teljist því falla undir skilgreiningu a-liðar ákvæðisins. Vegna [...] síns hafi kærandi ástæðu til að óttast opinbera sem og óopinbera aðila sem fallið geti undir c-lið ákvæðisins. Samkvæmt heimildum myndu yfirvöld ekki veita vernd hafi einstaklingur átt í deilum við [...] stjórnmálamann. Að sögn Flóttamannastofnunar séu dómstólar ekki gjarnir á að bregðast við þegar til þeirra sé leitað og enn fremur segi stofnunin að aðgengi að réttarkerfinu (e. rule of law) velti á því hvaða þjóðernis- eða trúarhópa sé um ræða, hvaða ættbálki viðkomandi tilheyri, tengslum viðkomandi eða hver sé fjölskylda eða ættingjar viðkomandi. Ljóst sé að kærandi eigi ekki möguleika á vernd yfirvalda í [...] þar sem hann sæti ofsóknum af hálfu [...] flokksins sem fari þar með öll völd. Aðgengi að réttarvernd velti enn fremur á því hvaða trúarhópi sá tilheyri sem eftir henni leiti og telja megi víst að sem [...] einstaklingur tilheyri kærandi þeim hópi sem ekki eigi vísan aðgang að slíkri vernd. Einnig hafi komið fram að [...] sem hafi orðið fyrir ofsóknum kjósi heldur að fara í felur eða leggja á flótta fremur en að leita til lögregluyfirvalda eftir aðstoð.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er gerð sú krafa til vara að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi er vísað til tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB frá 29. apríl 2004, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu. Ljóst sé að kærandi uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands síns. Kærandi óttist menn sem komi fram fyrir hönd [...] stjórnmálaflokksins sem fari með völd í heimaborg kæranda. Telja megi ómögulegt að kærandi geti leitað verndar yfirvalda í [...] vegna ofsóknanna. Þá eigi síðari hluti 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga einnig við í málinu en langvarandi stríðsástand hafi ríkt í [...]. Þá er vísað til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu og greint frá því að dómstóllinn telji að almennt ástand eitt og sér kunni við mjög alvarlegar aðstæður að vera næg ástæða til að flutningur einstaklings til viðkomandi lands geti falið í sér brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Kærandi gerir þá kröfu til þrautavara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ljóst sé að langvarandi stríðsástand hafi ríkt í heimaríki kæranda. Einnig séu mannréttindabrot viðvarandi í ríkinu og yfirvöld veiti ekki þegnum sínum nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum. Þar sem kærandi sé [...] sé ljóst að hann tilheyri örsmáum jaðarsettum þjóðfélagshópi í [...]. Auk þess að vera á flótta undan þeim einstaklingum sem hafi hótað honum kynni hann vegna [...] síns að standa frammi fyrir einangrun í samfélaginu og búa við erfiðar félagslegar aðstæður yrði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Þrautaþrautavarakrafa kæranda byggir á því að Útlendingastofnun hafi borið að spyrja kæranda nánar út í trúarskoðanir hans áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun um að leggja til grundvallar að kæranda stafi ekki hætta frá samfélaginu vegna trúarskoðana sinna. Felist í því brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sem og 7. gr. sömu laga um leiðbeiningarskyldu. Vísað er til úrskurða kærunefndar nr. 467/2016 og nr. 182/2018.

Í greinargerð kæranda er fjallað um innri flutning og m.a. vísað til leiðbeininga Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og lögskýringargagna með lögum um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi lagt fram ljósmynd af [...] vegabréfi. Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti og því verði leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika. Ráða má af ákvörðun Útlendingastofnunar að byggt sé á því að kærandi sé frá [...]. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að byggja á því í málinu að kærandi sé [...] ríkisborgari. Að öðru leyti er óljóst hver kærandi sé.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

Samkvæmt framangreindum gögnum er [...] lýðræðisríki með rúmlega [...] íbúa. [...]. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins [...], þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið [...] þegar komið var á fót lýðveldi. Árið [...] gerðist [...] aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið [...]. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið [...], samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið [...] og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið [...]. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið [...] og alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið [...]. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um réttindi einstaklinga með fötlun árið [...].

Í framangreindum gögnum kemur þá fram að flestir [...].

Af framangreindum gögnum má ráða að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli [...].

Af framangreindum gögnum má ráða að [...] sé hin opinbera trú í [...]. Stjórnarskrá landsins tryggir trúfrelsi og flestir pólitískir leiðtogar hafa lýst yfir stuðningi við fjölbreytileika í trúarbrögðum. Einhverjir stjórnmálamenn fordæma þó veraldarhyggju og trúleysi. Þá er guðlast refsivert samkvæmt [...] lögum.

[...] .

Margir [...] hafa orðið fyrir ofbeldi á grundvelli trúarskoðana og [...]. Í áðurnefndri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram að fulltrúar trúarlegra minnihlutahópa í [...].

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda er byggð á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna trúarbragða og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi auk þess sem almennar aðstæður í heimaríki kæranda séu slæmar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 8. maí 2018 kom fram að einstaklingar er tengist [...] stjórnmálaflokknum í [...] hafi hótað honum í þeim tilgangi að fá hann til að veita upplýsingar um fyrirtækið sem hann hafi starfað fyrir. Kærandi greindi frá því að hann hafi ekki getað leitað aðstoðar lögreglu í heimaríki vegna þessara hótana en lögreglan sé spillt. Þá hafi hann ekki getað leitað til annarra yfirvalda en lögreglunnar þar sem þeir sem tilheyri ekki stjórnmálaflokkum séu ekki verndaðir af stjórnvöldum. Í viðtalinu kom jafnframt fram að kærandi sé [...] og að ef hann myndi segja frá því opinberlega þá væri það vandamál.

Í skýrslu [...]. Líkt og áður hefur verið rakið hefur kærandi greint frá því að ef hann myndi opinbera [...] þá myndi það valda honum vandamálum. Framburður kæranda varðandi þetta atriði fær að nokkru leyti stoð í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér. [...]. Fær það stoð í framburði kæranda en hann greindi frá því í viðtali hjá kærunefnd þann 8. nóvember 2018 að hann viti um marga sem eru [...] og að hann hafi aldrei orðið fyrir áreiti vegna [...] síns. Kærandi hefur því búið og starfað í [...] einstaklingur án nokkurra afskipta frá almenningi, öfgahópum eða stjórnvöldum. Að mati kærunefndar benda gögn málsins og framburður kæranda ekki til þess að hann eigi á hættu ofsóknir á grundvelli [...], eins og sér, í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Kærandi byggir jafnframt á því í málinu að hann hafi orðið fyrir hótunum frá aðilum á vegum [...] og að hann hafi ekki getað leitað til lögreglu vegna þessara vandamála. Líkt og áður kom fram er [...] stjórnmálaflokkurinn í [...]. Í skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá því í [...]. Þá kemur jafnframt fram að [...] flokkurinn sé í tengslum við [...] og að bandamenn flokksins séu m.a. stjórnvöld í [...]. Í þeim skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér er að finna takmarkaðar upplýsingar um það hvort [...] flokkurinn eða aðilar á vegum flokksins beiti hótunum, ofsóknum eða illri meðferð gagnvart íbúum [...]. Í skýrslunum eru þó einhverjar upplýsingar sem gætu bent til þess að slík háttsemi sé viðhöfð af flokksmeðlimum en t.a.m. kemur fram í skýrslu [...] að leyniþjónustur stærstu stjórnmálaflokkanna beiti í einhverjum tilvikum ofbeldi við yfirheyrslur. Þá benda upplýsingar í skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá [...] til þess að það geti verið erfiðleikum bundið að fá aðstoð frá lögreglu. Þar kemur fram að löggæsla sé ekki mjög virk í [...] og að íbúar leiti í litlum mæli til lögreglu og dómstóla en aðgengi að réttarkerfinu velti að miklu leyti á kynþætti, trúarbrögðum, ættbálki og samböndum viðkomandi. Þar sem framburður kæranda hjá Útlendingastofnun þótti trúverðugur og sökum þeirra takmörkuðu upplýsinga sem kærunefnd hafði undir höndum um möguleg brot einstaklinga innan [...] flokksins sendi kærunefnd fyrirspurn til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þann 9. október 2018. Í fyrirspurninni var m.a. óskað eftir upplýsingum um það hvort einstaklingar á vegum [...] flokksins séu þekktir fyrir að hóta eða ofsækja íbúa [...] og hvort íbúar geti leitað til lögreglu vegna slíkra ofsókna. Þann 1. nóvember 2018 barst svar frá flóttamannastofnun. Þar kom fram að það sé skilningur stofnunarinnar að einstaklingar sem gagnrýni, eða eru taldir gagnrýna, [...] stjórnvöld eða ráðandi stjórnmálaöfl hafi í einhverjum tilvikum orðið fyrir ofsóknum eða áreiti af hálfu stjórnvalda, stjórnmálafólks eða öryggissveita stjórnmálaflokka. Ólíklegt sé að einstaklingur geti fengið vernd frá yfirvöldum vegna áreitis af hálfu öryggissveita ríkjandi stjórnmálaflokka. Þá kom fram að það fari eftir aðstæðum í hverju máli fyrir sig hvort sú háttsemi einstaklings að neita að vinna með [...] flokksins verði álitin sem andstaða við [...] flokkinn. Í viðtali hjá kærunefnd þann 8. nóvember 2018 upplýsti kærandi að hann telji sig enn vera í hættu í heimaríki enda hafi hann lofað að gefa tilteknum mönnum sem starfi fyrir [...] flokkinn ákveðnar upplýsingar en hafi í kjölfarið lagt á flótta. Með vísan til alls sem að framan greinir er það mat kærunefndar að líkur standi til þess að mennirnir muni líta svo á að kæranda sé andsnúinn [...] flokknum og þar af leiðandi ógn við flokkinn sem og stjórnvöld í [...].

Kærandi hefur lýst aðstæðum í heimaríki og ástæðum þess að hann geti ekki snúið aftur þangað í viðtali hjá Útlendingastofnun, greinargerð sinni til kærunefndar og viðtali hjá kærunefnd. Framburður kæranda við meðferð málsins hefur verið staðfastur og trúverðugur. Þá fær framburður kæranda varðandi aðstæður í heimaríki stuðning í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér en gögn málsins benda m.a. til þess að einstaklingar sem lenda uppi á kant við stjórnmálaflokka í [...] geti átt á hættu ofsóknir. Þá er það mat kærunefndar, sem byggist m.a. á upplýsingum frá Flóttamannastofnun, að stjórnvöld í [...] geti ekki veitt kæranda vernd gegn þeim mönnum sem hann kveðst óttast. Í því sambandi hefur kærunefnd jafnframt litið til þýðingar trúarbragða í samfélagi [...] og þeirra afleiðinga sem það kann að hafa fyrir aðgengi að réttarkerfinu að kærandi er [...]. Kærunefnd telur að kærandi hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í heimaríki sínu, sbr. 1. mgr. 37. gr. Kærunefnd hefur við það mat haft til hliðsjónar að það áreiti sem kærandi eigi á hættu að verða fyrir samanstandi af endurteknum athöfnum sem líklegar eru til að gera líf kæranda óbærilegt í heimaríki.

Kærunefnd telur ástæðuríkan ótta kæranda við ofsóknir vera á grundvelli þess að hann hafi neitað að vinna með ríkjandi stjórnmálaafli í heimaborg hans og ætlaðra pólitískra skoðana hans sbr. e-liður 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Við það mat hefur kærunefnd einnig litið til þess að ólíklegt er að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda vegna þessara ofsókna.

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimaríkis síns en hann flúði frá, viðkomandi geti ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt leiðbeiningum frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Guidelines on International Protection dags. 23. júlí 2003, um slíkan innri flutning er almennt ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur flytji sig um set innan síns heimaríkis til að draga úr hættu á ofsóknum þegar aðilinn sem valdur er að ofsóknum er á vegum stjórnvalda. Í athugasemdum við 4. mgr. 37. gr. frumvarps til laga um útlendinga koma fram sambærileg sjónarmið. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að vegna átaka undanfarinna ára í [...] hafi margir þurft að yfirgefa heimili sín. Því sé mikill fjöldi vegalausra í landinu sem búi við slæman kost. [...]. Kærandi hefur greint frá því að hann sé fæddur og uppalinn í [...] og að hann hafi búið þar með eiginkonu sinni og börnum þeirra áður en hann lagði á flótta. Ekki liggur fyrir hvort kærandi eigi nákomna ættingja annars staðar í heimaríki sem geti stutt við hann en ljóst er að kærandi á sterk fjölskyldutengsl í [...], þ. á m. ung börn. Þá hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi sýnt fram á með rökstuddum hætti að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu einstaklinga sem tengdir séu stjórnmálaflokki sem fari með völd í heimaborg hans, [...]. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé með sanngirni hægt að ætlast til þess af kæranda að hann setjist að á öðrum stað í [...], sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                            Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta