Hoppa yfir valmynd

Nr. 113/2018 - Úrskurður

Mál nr. 113/2018

Miðvikudaginn 20. júní 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Jón Baldursson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. janúar 2018, á umsókn hennar um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna (foreldragreiðslur).

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 14. desember 2017, sótti kærandi um foreldragreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna sonar síns sem fæddist í X. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. janúar 2018, á þeirri forsendu að sonur hennar félli ekki undir þau sjúkdóms- og fötlunarstig sem tilgreind væru í 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. febrúar 2018.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. mars 2018. Með bréfi, dags. 21. mars 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 27. mars 2018, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. apríl 2018, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á foreldragreiðslum verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að greiða grunngreiðslur fyrir tímabilið janúar til júní 2018. Í gögnum málsins komi fram að ekki sé ráðlagt að sonur kæranda fari í vistunarþjónustu á vegum hins opinbera fyrr en að leikskóla komi sökum lungnasjúkdóms og næringarvanda hans. Það sé bæði mat læknis og félagsráðgjafa og þar af leiðandi hafi kærandi ekki getað sinnt störfum utan heimilis. Í læknisvottorði komi fram þeir sjúkdómar sem sonur kæranda hafi verið greindur með. Það sé óskiljanlegt að Tryggingastofnun meti það sem svo að skilyrði 19. gr. laga nr. 22/2006 séu ekki uppfyllt þegar fyrir liggi mat óháðra sérfræðinga þess efnis að barnið megi ekki fara í vistun á vegum hins opinbera sökum sjúkdóms. Stofnunin hljóti að þurfa að horfa til mats þeirra sérfræðinga sem verið hafi með barnið í umönnun þegar ákvörðun sé tekin um greiðslur sem foreldri eigi rétt á lögum  samkvæmt.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 22/2006 þar sem fram komi að foreldri sem leggi niður launað starf vegna þeirra bráðaaðstæðna sem upp komi þegar barn þess greinist með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun, geti átt sameiginlega rétt á tekjutengdum greiðslum samkvæmt 1. mgr. 11. gr. í allt að þrjá mánuði með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Í 19. gr. laga nr. 22/2006 sé kveðið á um heimild til almennrar fjárhagsaðstoðar til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um að veikindi eða fötlun barns þurfi að falla undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig til þess að foreldri geti átt rétt á greiðslum. Í 26. gr. laganna sé skilgreining á sjúkdómsstigum. Þar komi fram að börn sem þurfi langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma, falli undir 1. sjúkdómsstig. Börn með tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjist ónæmisbælandi meðferðar miðist við 2. sjúkdómsstig. Undir 3. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, t.d. börn með alvarlega bæklunarsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingafærasjúkdóma og geðsjúkdóma. Í 27. gr. laganna sé skilgreining á fötlunarstigum. Þar komi fram að börn sem vegna alvarlegrar fötlunar séu algjörlega háð öðrum um hreyfifærni eða flestar athafnir daglegs lífs falli undir 1. fötlunarstig. Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi mjög víðtæka aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna alvarlegrar þroskahömlunar eða alvarlegrar einhverfu, falli undir 2. sjúkdómsstig. Börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi töluverða aðstoð og gæslu í daglegu lífi, t.d. vegna miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar sem krefjist notkunar hjólastóls eða verulegrar einhverfu, falli undir 3. fötlunarstig.

Tryggingastofnun tekur fram að kærandi hafi sótt um launatengdar greiðslur frá janúar til júní 2018. Fyrir hafi legið staðfestingar á að móðir hefði lokið nýtingu á veikindarétti hjá vinnuveitanda og rétti til greiðslu úr sjúkrasjóði stéttarfélags. Einnig hafi legið fyrir staðfesting frá Fæðingarorlofssjóði þess efnis að veitt hefði verið framlenging á fæðingarorlofi vegna veikinda barns. Líkt og fram komi í 29. gr. laga nr. 22/2006 sé ekki heimilt að samþykkja launatengdar greiðslur til þeirra foreldra sem eigi rétt á eða fái framlengingu á fæðingarorlofi eða greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda eða fötlunar barns. Umsóknin hafi því verið metin út frá mögulegum rétti til almennrar fjárhagsaðstoðar (grunngreiðslna) samkvæmt 19. gr. laganna. Til að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum þurfi vandi barns að falla undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig 26. og 27. gr. laganna. Tryggingastofnun hafi yfirfarið þau gögn sem legið hafi til grundvallar í málinu en af þeim sé ljóst að barnið þurfi umönnun, eftirlit og stuðning sem kærandi veiti honum. Hins vegar telji stofnunin að ekki sé um að ræða svo alvarlegan sjúkdóm eða fötlun að unnt sé að fella erfiðleika barnsins undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig sem tilgreind séu í 26. og 27. gr. laga nr. 22/2006. Því sé ekki til staðar réttur til almennrar fjárhagsaðstoðar samkvæmt 19. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um foreldragreiðslur á grundvelli laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna.

Með lögum nr. 22/2006 er kveðið á um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem hafa greinst með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun, sbr. 1. gr. laganna. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er nánar kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði greiðslnanna er að barn hafi greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. og 27. gr. laganna, samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Önnur skilyrði ákvæðisins eru þau að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi. Þessi skilyrði eru í senn ströng og óundanþæg og miða í raun við að foreldri sé að fullu bundið yfir barni.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 22/2006 segir að undir 1. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og yfirsetu foreldris vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með illkynja sjúkdóma. Undir 2. sjúkdómsstig falli börn sem þurfi tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis alvarlegra hjartasjúkdóma og alvarlegra nýrna-, lungna- eða lifrarsjúkdóma, sem krefjist ónæmisbælandi meðferðar. Undir 3. stig falli hins vegar börn sem þurfi innlagnir á sjúkrahús og meðferð í heimahúsi vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma, til dæmis börn með alvarlega bæklunarsjúkdóma, innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma og geðsjúkdóma.

Í 1. mgr. 27. gr. laganna um fötlunarstig segir að undir 1. stig falli börn sem vegna alvarlegrar fötlunar séu algjörlega háð öðrum með hreyfifærni eða flestar athafnir daglegs lífs og undir 2. stig falli börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi mjög víðtæka aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna alvarlegrar þroskahömlunar eða alvarlegrar einhverfu. Undir 3. stig falli hins vegar börn sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfi töluverða aðstoð og gæslu í daglegu lífi, til dæmis vegna miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar sem krefjist notkunar hjólastóls eða verulegrar einhverfu.

Samkvæmt gögnum málsins fæddist sonur kæranda fyrir tímann eftir X vikna meðgöngu og var mjög vaxtarskertur við fæðingu. Fyrstu mánuðina var hann mjög lungnaveikur og einnig voru mikil vandamál með næringu. Í læknisvottorði B, dags. 13. desember 2017, er núverandi fötlun/sjúkdómi barnsins lýst á eftirfarandi hátt:

„Hann er nú við um X mánaða leiðréttan aldur. Engin súrefnisþörf lengur en þarf á stöðugum pústmeðferðum að halda og fengið nokkrar erfiðar kvefpestir. Það gengur betur með að nærast um munn og þarf minna og minna í hnappinn. Hann hefur haft seinkaðan hreyfiþroska og verið í sjúkraþjálfun. Hann hefur ekki getað verið neins staðar annars staðar en hjá foreldrum sínum vegna þess hversu lasinn hann hefur verið og það er mjög mikilvægt að hann fari ekki í neina daggæslu á næstunni. Óskað því eftir foreldragreiðslum.“

Í læknisvottorðinu segir svo um umönnunarþörf - aðstoð vegna athafna dagslegs lífs:

„Mikil umönnun vegna næringarvanda, tíðra veikinda, mikils eftirlits og þjálfunar. Foreldrar geta ekki nýtt sér neins konar gæslu vegna veikinda drengsins.“

Í gögnum málsins liggur fyrir greinargerð félagsráðgjafa, dags. 20. desember 2017, þar sem greint er frá aðstæðum kæranda. Þar segir:

„C er fyrirburi fæddur á X viku meðgöngu og var hann mjög vaxtarskertur. C er með krónískan lungnasjúkdóm vegna fyrirburaskapar og er honum hætt við sýkingum og eins geta veikindi hans verið bráð komi þau til. C hefur einnig verið að glíma við næringarvanda. C útskrifaðist með sondu og súrefni og var með til lengri tíma. Vegna veikinda C hefur móðir ekki komist aftur inn á vinnumarkað. Óskað hefur verið eftir forgangi á leikskóla vegna C en um þessar mundir er honum ráðlagt frá daggæslu af einhverju tagi. Fæðingarorlof hefur verið framlengt og nýtt að hámarki 7 mánaða vegna veikinda og umönnun C. A hefur nú lokið fæðingarorlofi en C þarf enn að vera heima og krefst umönnun hans töluverðrar vinnu og heimsókna í margskonar eftirlit svo sem sjúkraþjálfun, talþjálfun, fyrirburaeftirlit, eftirlit vegna lungna og fleira. Ekki er fyrirséð að móðir komist aftur á vinnumarkað nú eftir áramót þar sem C mun ekki geta nýtt sér daggæslu fyrr en í vor með þeirri von að hann komist inn á forgangslista.“

Að mati úrskurðarnefndar á lýsing 26. gr. á 1. og 2. sjúkdómsstigi, um að barn þurfi annars vegar langvarandi vistun á sjúkrahúsi eða hjúkrun í heimahúsi og hins vegar tíðar sjúkrahúsinnlagnir og meðferð í heimahúsi, ekki við um þann sjúkdóm sem barn kæranda hefur greinst með samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu. Þrátt fyrir að sjúkdómur barns kæranda sé langvinnur og einkenni þrálát þá telst hann enn fremur ekki mjög alvarlegur, sbr. 2. mgr. 19. gr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 22/2006, en það skilyrði telst ófrávíkjanlegt til að njóta greiðslna samkvæmt skýru orðalagi tilvitnaðra ákvæða.

Þar sem sjúkdómur barns kæranda fellur ekki innan 1. eða 2. sjúkdómsstigs 2. mgr. 26. gr. laganna er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði til greiðslna samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laganna. Þá er ekkert í lögskýringargögnum með þessum ákvæðum sem bendir til þess að mati úrskurðarnefndarinnar að hægt sé að fella ástand barns kæranda undir tilgreind lagaákvæði. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. janúar 2018, um að synja umsókn A, um foreldragreiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta