Nr. 721/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 18. júlí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 721/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24060158
Kæra [...] á ákvörðun Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 25. júní 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Tyrklands ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. júní 2024, um að vísa frá umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til meðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi kom til landsins og sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 8. desember 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. ágúst 2023, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með ákvörðuninni var honum jafnframt gert að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 589/2024, dags. 5. júní 2024, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Fram kom í úrskurði kærunefndar að endurkomubann kæranda yrði fellt úr gildi yfirgæfi hann landið innan 15 daga.
Samkvæmt fyrirliggjandi hjónavígsluvottorði gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara 3. maí 2024. Á grundvelli hjúskaparins lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi 14. maí 2024 en umsókn þeirri var vísað frá með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júní 2024. Ákvörðunin var ekki kærð til kærunefndar útlendingamála. Kærandi sótti um dvalarleyfi að nýju, vegna sama hjúskapar og áður, 20. júní 2024. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. júní 2024, var umsókn kæranda um dvalarleyfi vísað frá, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga en ákvæðið mælir fyrir um að við endanlega ákvörðun um brottvísun skuli óafgreiddum dvalarleyfisumsóknum vísað frá. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin 11. júní 2024. Með tölvubréfi, dags. 25. júní 2024, lagði kærandi fram stjórnsýslukæru ásamt röksemdum sínum.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í röksemdum sínum vísar kærandi til fyrirliggjandi hjúskapar og dvalarleyfisumsóknar sem lögð hafi verið fram vegna hjúskaparins. Fram kemur að lögmaður kæranda hafi óskað eftir undanþágu fyrir kæranda frá því að yfirgefa landið á meðan umsóknin væri til meðferðar með vísan til 51. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun hafi aftur á móti tekið ákvörðun um að vísa umsókn kæranda frá án umfjöllunar um undanþágubeiðnina.
Kærandi vísar til þess að fyrri umsókn hans um dvalarleyfi hafi verið lögð fram áður en endanleg niðurstaða verndarumsóknar hans hafi legið fyrir. Kærandi reifar ákvæði 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga en vísar til þess að lagaákvæðið kveði ekki á um umsóknir sem berast eftir endanlega ákvörðun um brottvísun með jákvæðum hætti, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 589/2024, dags. 5. júní 2024. Ákvæðið vísi eingöngu til óafgreiddra umsókna. Í ljósi þess hafi kærandi lagt fram nýja dvalarleyfisumsókn og óskað eftir efnislegri afgreiðslu hennar. Kærandi vísar til leiðbeininga kærunefndar sem fram komu í úrskurði nr. 589/2024 þess efnis að kærandi geti lagt fram umsókn um dvalarleyfi eftir að hafa yfirgefið landið. Kærandi leggur áherslu á þann hluta málsins er varðar 51. gr. laga um útlendinga og beiðni um undanþágu frá því að yfirgefa landið. Kærandi vísar til þess að ákvæði 51. gr. laga um útlendinga væri óþarft ef ekki væri gert ráð fyrir möguleika á því að sækja um dvalarleyfi á meðan viðkomandi dveldi á landinu.
Kærandi kveðst ítrekað hafa spurst fyrir um slíkar undanþágur hjá Útlendingastofnun en ekki fengið svör við því. Kæranda þyki sérstakt að málinu hafi verið vísað frá á nýjan leik, enda hafi umsóknin borist eftir úrskurð kærunefndar auk þess sem sótt væri um undanþágu frá 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að taka þurfi afstöðu til undanþágubeiðninnar, og í raun sé ekkert sem mæli fyrir um að umsóknir um dvalarleyfi sem berist eftir endanlega ákvörðun um brottvísun skuli vísað frá, a.m.k. ekki þegar sótt er um umrædda undanþágu í 51. gr. laga um útlendinga. Auk þess telur kærandi sjónarmið um meðalhóf eigi að leiða til þess að veita beri slíka undanþágu í málinu í stað þess að hann þurfi að yfirgefa landið til þess eins að sækja um að nýju. Þar að auki telur kærandi að mál hans hafi ekki verið rannsakað nægjanlega, í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ekki hafi verið tekin afstaða til undanþágubeiðninnar.
Að framangreindu virtu fari kærandi fram á að umsókn hans um dvalarleyfi verði tekin til efnislegrar meðferðar. Því telji hann e.t.v. rétt að heimvísa málinu til þóknanlegrar meðferðar þar sem fullnægjandi afstaða verði tekin til undanþágubeiðni kæranda.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga kemur fram að við endanlega ákvörðun um brottvísun fellur útgefið dvalarleyfi, atvinnuleyfi og ótímabundið dvalarleyfi útlendings úr gildi. Óafgreiddum umsóknum um dvalarleyfi skal þá vísað frá. Síðastnefnd málsgrein kom inn í ákvæðið með breytingarlögum nr. 149/2018, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því sem varð að áðurnefndum breytingalögum segir m.a. að í framkvæmd hafi reynt á það hvað verði um dvalarleyfisumsóknir sem útlendingur hefur lagt fram áður en honum er vísað brott, eftir að honum er tilkynnt um hugsanlega brottvísun eða jafnvel eftir að ákvörðun um brottvísun hafi verið tilkynnt honum en hafi ekki verið framfylgt. Með ákvæðinu sé tekinn af vafi um áhrif brottvísana á óafgreiddar umsóknir um dvalarleyfi og tiltekið sérstaklega að þeim skuli vísað frá. Þegar ákvörðun hafi verið framfylgt geti útlendingur sótt um dvalarleyfi að nýju erlendis frá.
Líkt og fram kemur í málsatvikalýsingu hefur kærunefnd fjallað um brottvísun og endurkomubann kæranda, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 589/2024, dags. 5. júní 2024. Niðurstaða nefndarinnar var að gera kæranda að sæta brottvísun og tveggja ára endurkomubanni með vísan til 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt veittur 15 daga frestur til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur en innan þess frests yrði endurkomubann hans fellt úr gildi. Úrskurður kærunefndar mælir fyrir um endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Ljóst er að þeirri ákvörðun hefur ekki verið framfylgt og því ber í samræmi við skýrt orðalag 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga að vísa dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 24. júní 2024, frá.
Málatilbúnaður kæranda grundvallast einkum á 51. gr. laga um útlendinga. Framangreint lagaákvæði er óviðkomandi lagagrundvelli hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga og kemur því ekki til frekari skoðunar. Lokamálsliður 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er afdráttarlaus en ekki er mælt fyrir um undanþágur frá ákvæðinu í lögum um útlendinga eða öðrum lögum. Í úrskurði nefndarinnar nr. 589/2024, kom m.a. fram að endurkomubann kæranda yrði fellt úr gildi yfirgæfi hann landið innan 15 daga og þá gæti hann sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins eftir að hafa yfirgefið landið. Um það vísast einnig til athugasemda við ákvæði það er varð að 3. málsl. 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga, sbr. breytingalög nr. 149/2018. Samhliða umsókn getur kærandi óskað eftir því að fá að dvelja á landinu á meðan umsókn hans er unnin, sbr. 51. gr. laga um útlendinga. Þá er kæranda jafnframt bent á heimildir til að fella úr gildi endurkomubann, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares