Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 22. apríl 2005
Föstudaginn 22. apríl var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 6/2004.
Vegagerðin
gegn
Eigendum Kirkjubæjarklausturs, Skaftárhreppi
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Jörundur Gauksson hdl., en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:
Með matsbeiðni dags. 30. júní 2004 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 7. júlí 2004 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 9.414 m² spildu úr jörðinni Kirkjubæjarklaustri, Skaftárhreppi. Eignarnámsþolar eru eigendur jarðarinnar en þeir eru þau Lárus Siggeirsson, 250636-4669, Kirkjubæ 2, Kirkjubæjarklaustri, Sverrir Gíslason, kt. 060469-4319, Kirkjubæjarklaustri 2, Kirkjubæjarklaustri, Fanney Ólöf Lárusdóttir, kt. 160170-4929, Kirkjubæjarklaustri 2, Kirkjubæjarklaustri, Auður Winnan Helgadóttir, kt. 140530-4689, lögheimili í Bandaríkjunum, Elín Frigg Helgadóttir, kt. 251134-4809, Bólstaðarhlíð 60, Reykjavík og Lárus Helgason, kt. 301038-3139, Vesturbergi 69, Reykjavík. Eignarnámsþolar eiga misjafnlega stóra eignarhluti í jörðinni.
Tilefni eignarnámsins er fyrirhuguð breyting og tilfærsla á vegarstæði Hringvegar við eystri brúarenda nýrrar brúar yfir Skaftá við Kirkjubæjarklaustur. Eignarnámið styðst við heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.
III. Málsmeðferð:
Málið var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta miðvikudaginn 7. júlí 2004. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt frekari gögnum. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Þar sem óvissa var um hverjir væru í raun eignarnámsþolar lagði matsnefndin það fyrir eignarnema að afla nákvæmari upplýsinga um hverjir eigi hagsmuna að gæta í málinu og tryggja samþykki þeirra fyrir því að málið sé rekið fyrir matsnefndinni.
Þriðjudaginn 10. ágúst 2004 var málið tekið fyrir. Voru þá lögð fram gögn frá eignarnema um aðild að málinu og staðfesting frá þeim sem ekki höfðu verið við vettvangsgönguna að ekki væri gerð athugasemd við áframhaldandi meðferð málsins fyrir nefndinni þrátt fyrir það. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 10. september 2004.
Mánudaginn 20. september 2004 var málið tekið fyrir. Þá hafði nefndinni borist greinargerð eignarnema til framlagningar ásamt fylgiskjölum. Voru þau gögn lögð fram og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerða og annarra gagna af hálfu eignarnámsþola til 11. október 2004.
Veittur var viðbótarfrestur og var málið næst tekið fyrir fimmtudaginn 11. nóvember 2004. Var þá lögð fram greinargerð og önnur gögn af hálfu lögmanns eignarnámsþolanna Lárusar Siggeirssonar, Sverris Gíslasonar og Fanneyjar Ólafar Lárusdóttur. Öðrum eignarnámsþolum var gefinn frestur til 1. desember 2004 til að skila greinargerðum.
Fimmtudaginn 3. febrúar 2005 var málið tekið fyrir. Þá voru lögð fram bréf matsnefndar til lögmanna eignarnámsþolanna Auðar Winnan Helgadóttur, Elínar Friggjar Helgadóttur og Lárusar Helgasonar þar sem þeim var gefinn lokafrestur til að koma að greinargerðum í málinu. Svarbréf barst einungis frá lögmanni þeirra Auðar og Elínar þar sem hann vísaði í greinargerð lögmanns þeirra Lárusar, Sverris og Fanneyjar varðandi sjónarmið umbj. sinna.
Í greinargerð lögmanns eignarnámsþolanna Lárusar, Sverris og Fanneyjar kom fram krafa til þess að eignarnema yrði gert að taka stærra land eignarnámi en gert hafði verið. Af þessum sökum sendi matsnefndin eignarnema bréf dags. 25. febrúar 2005 þar sem honum var gefinn kostur á að kynna sér greinargerð eignarnema og tjá sig sérstaklega um framangreinda kröfu einarnámsþolanna. Svarbréf eignarnema dags. 29. mars 2005 var lagt fram þann 11. apríl 2005 ásamt öðrum gögnum. Í svarbréfinu féllst eignarnemi m.a. á að taka stærri spildu eignarnámi og nær eignarnámið til 9.414 m² spildu svo sem að framan greinir.
Af hálfu matsnefndarinnar var ekki talin þörf á munnlegum flutningi málsins fyrir nefndinni og var það því tekið til úrskurðar.
IV. Sjónarmið eignarnema:
Eignarnemi kveður framkvæmdir á svæðinu vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Um sé að ræða minniháttar breytingu á legu Hringvegar og staðsetningu gatnamóta við Kirkjubæjarklaustur, auk þess sem gert er ráð fyrir að þar verði í framtíðinni hringtorg í stað hefðbundinna gatnamóta. Eignarnemi óskaði í upphafi eftir að eignarnámið næði til 9.086 m² landspildu. Af henni væru 7.546 m² ræktað tún en 1.540 m² spilda hluti af lóð sem áður stóð bogaskemma sem nú hefur verði rifin. Matsandlagið er nú nokkuð stærra svo sem fram kemur í kafla III.
Eignarnemi kveðst hafa boðið eignarnámsþolum kr. 250.000- fyrir hina eignarnumdu spildu. Telur eignarnemi það boð fela í sér fullnaðarbætur fyrir spilduna miðað við legu hennar og núverandi nýtingu. Eignarnemi bendir á að skv. fram lagðri orðsendingu nr. 8/2003 séu lágmarksbætur fyrir ræktað land 238.500 kr./ha., ræktunarhæft land undir veg 25.600 kr./ha., en óræktunarhæft land 9.600 kr./ha. Eignarnemi telur ekki í ljós leitt að verðmæti þess lands sem hér er til umfjöllunar sé yfir meðallagi. Allt að einu hafi hann boðið bætur yfir því sem orðsendingin geri ráð fyrir eða um 275.000 kr./ha.
Eignarnemi vísar enn fremur til fram lagða kaupsamninga vegna sölu á jörðum í nágrenninu. Þá bendir eignarnemi sérstaklega á úrskurð Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 6/2002 sem þó varði jörð á því svæði landsins þar sem almennt sé viðurkennt að landverð sé mun hærra en í Skaftárhreppi, þ.e. í Árnes- og Rangárvallasýslu. Eignarnemi telur eignarnámsþola hafa umtalsvert hagræði af þeirri framkvæmd sem ráðist verður í á svæðinu auk þess sem niðurrif bogaskemmunnar á spildunni sé augljóslega eignarnámsþolum til hagsbóta og án kostnaðar fyrir þá. Til þessa beri að líta við ákvörðun bóta í málinu.
V. Sjónarmið eignarnámsþola:
Af hálfu eignarnámsþolanna Lárusar Siggeirssonar, Sverris Gíslasonar, Fanneyjar Ólafar Lárusdóttur, Auðar Winnan Helgadóttur og Elínar Friggjar Helgadóttur er þess krafist að eignarnámsbætur verði ákvarðaðar a.m.k. kr. 4.000.000- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 7. júlí 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi eignarnema samtals kr. 753.225-.
Eignarnámsþolar telja að til viðbótar við þá spildu sem tekin er eignarnámi muni land sunnan við þjónustuskála ESSO sem og svæði austan við hinn nýja veg ónýtast vegna framkvæmdar eignarnema og gera eignarnámsþolar þá kröfu að eignarnámið nái til alls þess svæðis sem ónýtist vegna framkvæmdarinnar. Í þessu sambandi vísa eignarnámsþolar sérstaklega til 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Í tilefni af þessari kröfu ákvað eignarnemi undir meðferð málsins að stækka eignarnumið landsvæði.
Af hálfu eignarnámsþola var aflað sjálfstæðs mats á hinu eignarnumda frá Magnúsi Leópoldssyni, lögg. fasteignasala. Matsgerð hans hefur verið lögð fram, en skv. því er verðmæti hins eignarnumda talið vera kr. 2.000.000-.
Eignarnámsþolar telja hið eignarnumda land vera andlit Kirkjubæjarklausturs, enda blasi það m.a. við vegfarendum sem fari um Skaftárbrú. Lóðir í landi jarðarinnar hafi verið eftirsóttar og hafi eignarnámsþoli, Lárus Siggeirsson, leigt ESSO land undir þjónustuskála, sem og RARIK og síðar Skaftárhreppi spildu við þjóðveginn. Eignarnámsþolar kveða mikla ásókn hafa verið í hið eignarnumda land sem bygginarland og hafa aðilar m.a. óskað eftir landi næst þjónustuskála ESSO fyrir hótel auk þess sem einn aðili vildi reisa garðyrkjustöð á því landi sem nú fari að hluta til undir nýtt hringtorg. Eignarnámsþolar mótmæla sérstaklega verðmati eignarnámsþola á hinni eignarnumdu spildu.
Eignarnámsþolar telja að hið eignarnumda land gefi mikla möguleika á fjölbreytilegri nýtingu undir verslunar- og þjónustustarfsemi, ekki síst fyrir ferðamenn. Þá telja eignarnámsþolar landið gefa ýmsa möguleika sem byggingarland. Eignarnámsþolar telja legu landsins valda því að ekki sé á neinn hátt hægt að miða verðmæti þess við jarðaverð í nágrenninu og telja þeir landið sérstaklega verðmætt m.a. m.t.t. framtíðarþróunar byggðar á Kirkjubæjarklaustri.
Varðandi tölulega kröfugerð vísa eignarnámsþolar til framangreinds mats Magnúsar Leópoldssonar, lögg. fasteignasala. Þá vísa þeir til þess að auk þeirrar spildu sem hann mat eigi að greiða þeim bætur fyrir annað land sem muni ónýtast vegna framkvæmda eignarnema svo sem að framan er rakið auk þess sem bæta þurfi ræktun sem einnig muni ónýtast. Þá er gerð krafa um bætur fyrir tímabundið óhagræði og tjón sem framkvæmdir eignarnema á svæðinu hafa í för með sér fyrir eignarnámsþola.
Varðandi vaxtakröfu gera eignarnámsþolar kröfu til þess að fá dráttarvexti frá 7. júlí 2004 eða þeim degi sem eignarnemi fékk umráð hins eignarnumda svæðis. Eignarnámsþolar benda í þessu sambandi á að hefðu þeir fengið greitt fyrir hið eignarnumda land strax þegar eignarnemi fékk landið hefðu þeir getað ávaxtað það fé.
Eignarnámsþolar vísa sérstaklega til 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn. Ennfremur vísa eignarnámsþolar til laga nr. 11/1973 og vaxtalaga nr. 38/2001.
VI. Álit matsnefndar:
Stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu er ágreiningslaus. Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Hlutverk matsnefndarinnar er afmarkað í lögum við það að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Því mun nefndin ákvarða heildarbætur í máli þessu en tekur ekki afstöðu til þess hvernig þær skiptast á milli eignarnámsþolanna.
Fallst er á það með eignarnámsþolum að ekki sé hægt að taka mið af almennu jarðarverði á svæðinu við mat á þeirri spildu sem um ræðir í málinu. Spildan er í raun í þéttbýli, þó hún standi rétt utan aðal byggðakjarnans á Kirkjubæjarklaustri. Spildan liggur vel við almennri umferð um svæðið sem gerir hana ákjósanlega undir hvers konar þjónustu er tengist þeim sem um svæðið ferðast. Hefðbundin landbúnaðar- eða frístundanot eru því ekki ákjósanlegustu eða raunhæfustu nýtingarmöguleikar spildunnar að áliti matsnefndarinnar.
Fallist er á það með eignarnámsþolum að ákveðið land fyrir sunnan og vestan ESSO skálann muni ónýtast vegna eignarnámsins og fellst matsnefndin því á kröfu eignarnámsþola um að eignarnámið skuli einnig ná til þess hluta eignarinnar. Tekið hefur verið tillit til stærðar þessa viðbótar lands í framangreindri heildarstærð hins eignarnumda lands og er stærð og lega þess einnig ágreiningslaus. Ekki er talið að land austan hins eignarnumda svæðis ónýtist við framkvæmdina. Fyrir liggur að verulegur hluti hinnar eignarnumdu spildu er ræktað land og að áliti matsnefndarinnar er spildan öll ákjósanlegt byggingarland, slétt og aðgengi að henni gott.
Með hliðsjón af því sem að framan greinir og atvikum öllum þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola í máli þessu vera kr. 2.260.000 auk kr. 170.000 í vexti frá þeim tíma er eignarnemi fékk umráð hins eignarnumda, þ.e. 7. júlí 2004 til úrskurðardags. Samtals þykja hæfilegar bætur því vera kr. 2.430.000-.
Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolunum Lárusi Siggeirssyni, Sverri Gíslasyni, og Fanneyju Ólöfu Lárusdóttur kr. 650.000- þ.m.t. vsk., í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, eignarnámsþolunum Auði Winnan Helgadóttur og Elínu Frigg Helgadóttur kr. 50.000, þ.m.t. vsk. vegna sama og eignarnámsþolanum Lárusi Helgasyni kr. 100.000, þ.m.t. vsk. vegna sama.
Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í kostnað vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþolum, eigendum Kirkjubæjarklausturs, Skaftárhreppi, samtals kr. 2.430.000- í eignarnámsbætur og kr. 800.000 í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.
Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
____________________________________
Helgi Jóhannesson
____________________________ ___________________________
Vífill Oddsson Jörundur Gauksson