Mál nr. 53/2004
Mál nr. 53/2004
Þriðjudaginn, 8. mars 2005
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 17. nóvember 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 17. nóvember 2004.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. nóvember 2004 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars.:
„Ég er sjómaður og ekki með útborguð laun mánaðarlega, en síðastliðin 5 ár hef ég verið með tekjur yfir B kr. á ári.
Við hjónin áttum að eiga barn 21. nóvember og hefði þá tekjuviðmiðunin átt að vera frá sept 2003 – ágúst 2004 og hefði tekjuviðmiðunin verið um B kr.. En þar sem drengurinn fæddist 4 dögum fyrir mánaðarmót hittist þannig á að viðmiðunin er tæpum D kr. lægri en hún á að vera með réttu. Þetta kemur sér mjög illa fyrir okkur þar sem hverri krónu er ráðstafað.
Ég hef verið að borga skatta af B kr. síðastliðin 5 ár, þar með talið árið 2004 og á að njóta réttinda í samræmi við það.
Ég bið því um að dæmið verði reiknað upp á nýtt þ.e. miðað við að hann hefði fæðst á réttum tíma, en til vara að fara eftir nýju reglunum þ.e. miðað við meðallaun 2 ár aftur í tímann, sem ætti samkvæmt ykkar eigin reglum að gefa rétta mynd af meðallaunum.“
Með bréfi, dagsettu 29. desember 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 11. janúar 2005. Í greinargerðinni segir:
„Með umsókn, ódags., sem móttekin var 4. október 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 1. janúar 2005. Umsókn hans varðar barn sem fætt er 26. október 2004 en áætlaður fæðingardagur þess var 21. nóvember 2004.
Meðfylgjandi umsókn kæranda voru vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 24. ágúst 2004, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 20. september 2004, svo og launaseðlar fyrir júlí og ágúst 2004. Þá lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.
Með bréfi til kæranda, dags. 15. nóvember 2004, var honum af hálfu lífeyristryggingasviðs tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 26. október 2004 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrá skattyfirvalda. Útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda var miðaður við tekjur hans tímabilið ágúst 2003 til júlí 2004.
Þann 15. nóvember 2004 barst lífeyristryggingasviði ný tilkynning frá kæranda um fæðingarorlof, dags. 10. og 12. nóvember 2004, sem hafði að geyma breytingar frá fyrri tilkynningu hans og umsókn um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði varðandi hvenær hann hugðist vera í fæðingarorlofi.
Lífeyristryggingasvið sendi kæranda bréf, dags. 18. nóvember 2004, þar sem gerð var grein fyrir að í kjölfar breytinga sem gerðar hefðu verið á umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði greiðsluáætlun úr Fæðingarorlofssjóði til hans verið breytt. Útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda var áfram miðaður við tekjur hans tímabilið ágúst 2003 til júlí 2004.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu er tekið fram að hér sé átt við almanaksmánuði.
Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001, kveðið úr um það hvað skuli teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Er þar miðað við að upphaf orlofs sé í síðasta lagi við fæðingu barns. Samkvæmt því skal útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðast við það tímamark, jafnvel þótt annað foreldrið nýti rétt sinn til töku orlofs síðar.
Enga heimild er að finna í lögum um fæðingar- og foreldraorlof til að víkja frá framangreindri reglu 2. mgr. 13. gr. ffl. og því telur lífeyristryggingasvið að ekki sé heimilt að taka til greina ósk kæranda um að útreikningur fæðingarorlofsgreiðslna til hans miðist við annað tímabil en kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. ffl., þó svo að barn hans hafi fæðst tæpum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Þá getur lífeyristryggingasvið ekki fallist á þá kröfu, sem kæranda gerir til vara í kæru sinni, að litið verði til þeirra lagabreytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, sem lög nr. 90/2004 fela í sér, við afgreiðslu umsóknar hans enda sérstaklega tekið fram í 2. málslið 14. gr. þeirra laga að þau taki til foreldra barna sem fæðast 1. janúar 2005 eða síðar.
Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að áðurnefnd bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 15. og 18. nóvember 2004, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sem byggist á tekjum hans tímabilið ágúst 2003 til og með júlí 2004.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 17. janúar 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá ekki frá kæranda
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda í fæðingarorlofi.
Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram varðandi þá undantekningu að ekki verði litið á þetta sem mismunun þar sem það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000). Þá segir í 3. mgr. 8. gr. ffl. að kona skuli vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.
Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins, þann 26. október 2004.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. eins og hún hljóðaði fyrir gildistöku laga nr. 90/2004 skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í athugasemdum með 13. gr. frumvarps til laga um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um að átt sé við almanaksmánuði. Í lögunum eru engin ákvæði sem heimila undantekningar frá viðmiðunartímabilinu. Viðmiðunartímabil við útreikning greiðslna til kæranda í fæðingarorlofi er samkvæmt því frá ágúst 2003 til og með júlí 2004. Ekki er heimilt að líta til breytingar sem gerð var á 13. gr. ffl. með lögum nr. 90/2004 sem tóku gildi þann 1. janúar 2005 og taka eingöngu til foreldra barna sem fæðast 1. janúar 2005 eða síðar sbr. 14. gr. laganna.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um ákvörðun viðmiðunartímabils við útreikning greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um ákvörðun viðmiðunartímabils við útreikning greiðslu til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson