Mál nr. 2/2005
Mál nr. 2/2005
Þriðjudaginn, 14. apríl 2005
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 7. janúar 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 7. janúar 2005.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 20. desember 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:
„Okkar krafa er sú að A verði veitt fæðingarorlof í samræmi við jákvætt svar sem Tryggingastofnun gaf í byrjun árs 2004.
Okkar rök eru eftirfarandi:
Við vorum búnar að fá jákvætt svar frá starfsmanni fæðingarorlofssjóðs um að A fengi fæðingarorlof með því að við uppfylltum skilyrði um staðfesta samvist.
Ef það komu nýjar eða skýrari vinnureglur hvað varðar kröfu um ættleiðingu síðla árs 2004 finnst okkur í hæsta máta óréttlátt að okkar umsókn falli undir þær þar sem að við sóttum um í desember 2003.
Það er annað par í sömu stöðu og við, þ.e. eru í staðfestri samvist en ekki búnar að ættleiða, fékk fæðingarorlof, en þeirra umsókn kom inn á eftir okkar og barn þeirra fæddist tveimur mánuðum seinna en B, styður kröfu okkar. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum ætti okkar umsókn að hljóta sömu málsmeðferð og þeirra umsókn.
B á tvo foreldra sem tóku sameiginlega ákvörðun um að fæða hana í heiminn. Það er kaldranaleg og óskiljanleg ákvörðun gagnvart B af hálfu Tryggingastofnunar að neita henni um þau réttindi sem önnur íslensk börn sem búa með báðum foreldrum sínum eiga rétt á, þ.e. að eiga kost á að njóta umönnunar beggja foreldra sinna frá fæðingardegi í fæðingarorlofi þeirra.“
Með bréfi, dagsettu 18. janúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 1. febrúar 2005. Í greinargerðinni segir:
„Með umsókn, dags. 27. nóvember 2003, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði frá 1. febrúar 2005, vegna barns f. 7. febrúar 2004. Í umsókn kæranda segir m.a.: „Ég, A, sæki um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem maki vegna töku barns í varanlegt fóstur. Þegar ættleiðing hefur gengið í gegn hyggst ég nýta rétt minn til 3ja mán. fæðingarorlofs“.
Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 10. nóvember 2003, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 27. nóvember 2003 og launaseðlar fyrir október og nóvember 2003. Auk þess lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 20. desember 2004, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði væri synjað á þeirri forsendu að í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof væri ekki að finna heimild til greiðslna í fæðingarorlofi til maka foreldris.
Í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um rétt foreldra annars vegar til fæðingarorlofs og hins vegar til foreldraorlofs. Í 8. gr. ffl. er kveðið á um rétt foreldra á vinnumarkaði til fæðingarorlofs. Í 1. málslið 1. mgr. 8. gr. segir að foreldrar á innlendum vinnumarkaði eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Í 13. gr. ffl. er síðan kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sem foreldrar öðlast á grundvelli réttar síns til fæðingarorlofs.
Lífeyristryggingasvið hefur litið svo á að foreldri barns í skilningi 8. gr. ffl. geti verið kynforeldri barns, kjörforeldri eða fósturforeldri þegar barni hefur verið ráðstafað í varanlegt fóstur og eigi þeir sem slíkir rétt á fæðingarorlofi og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Á hinn bóginn hefur lífeyristryggingasvið ekki getað fallist á að maki foreldris geti öðlast rétt til fæðingarorlofs og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, þar sem lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof veiti maka foreldrisins ekki slíkan rétt.
Með vísan til framangreinds telur lífeyristryggingasvið ekki unnt að fallast á umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem kærandi er ekki kynforeldri barnsins, hefur ekki ættleitt barnið né hefur barninu verið ráðstafað í varanlegt fóstur til hennar.
Vegna þess sem fram kemur í kæru kæranda vill lífeyristryggingasvið koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.
Við afgreiðslu umsóknar kæranda virðast þau mistök hafa verið gerð að umsókn kæranda var ekki formlega synjað heldur umsóknin sett í bið sökum þess að kærandi hafði ekki ættleitt barnið. Vegna fullyrðingar í kæru kæranda um að henni hafi verið veitt jákvætt svar frá starfsmanni lífeyristryggingasviðs um að hún fengi fæðingarorlof með því að uppfylla skilyrði um staðfesta samvist skal tekið fram að ómögulegt er að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur var lagður í þær af hálfu kæranda. Þá verður ekki séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi til greiðslna enda eru þau réttindi og skilyrði þeirra bundin í lög. Auk þess verður ekki annað ráðið af framangreindum athugasemdum í umsókn kæranda um að hún hygðist nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs þegar ættleiðing hefði gengið í gegn en að henni hafi verið það fullljóst allt frá upphafi að hún þyrfti að ættleiða barnið. Hin leiðu mistök að umsókn kæranda hefði verið sett í biðstöðu í stað formlegrar afgreiðslu komu síðan ekki í ljós fyrr en kærandi hafði samband við lífeyristryggingasvið í desember 2004 og var umsókn hennar afgreidd um formlegum hætti þann 20. desember 2004 þegar henni var synjað bréflega.
Lífeyristryggingasvið telur samkvæmt framansögðu að einstaklingar í sömu stöðu og kærandi eigi ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og hafi í einhverjum tilvikum einstaklingum í slíkri stöðu verið greitt úr Fæðingarorlofssjóði lítur lífeyristryggingasvið svo á að um mistök hafi verið að ræða við afgreiðslu viðkomandi umsóknar. Telur lífeyristryggingasvið að slík mistök eigi ekki að leiða til þess að hægt verði að byggja á þeim rétt öðrum til handa sem ekki sé fyrir hendi lögum samkvæmt.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. febrúar 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 15. febrúar 2005, þar segir meðal annars:
„Svo sem rakið er í kærunni fékk ég þær upplýsingar þegar sótt var um fæðingarorlof í nóvember 2003 aðeins skilyrðið væri að ég og sambýliskona mín værum í staðfestri samvist. Þetta er í samræmi við afgreiðslu stofnunarinnar í sambærilegum málum þar sem síðar var sótt um fæðingarorlof og það afgreitt...
Hvað sem þessu líður hefur stofnunin kannast við að hafa gert mistök og veitt rangar upplýsingar en vafi hvað það varðar verður að meta mér í hag og stofnuninni í óhag.
Til stuðnings kæru minni vísa ég til jafnræðissjónarmiða og réttmætra væntinga sem ég hafði samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni auk þess sem ég hafði vitneskju um síðari afgreiðslu stofnunarinnar í fyrrgreindu máli. Ég andmæli hins vegar harðlega að mér hafi verið ljóst að ég ætti ekki rétt á fæðingarorlofi svo sem haldið er fram í greinargerð TR. Aftur á móti bendi ég á að stjórnvöldum ber áður en þau breyta fyrri framkvæmd að kynna slíkt auk þess sem íþyngjandi breytingar geta ekki haft afturvirk áhrif.
Þá vil ég benda á að engin ástæða er til að draga í efa að ættleiðing mun ganga í gegn. Því er ekki spurning um hvort heldur hvenær réttur til fæðingarorlofs stofnast jafnvel þótt lagatúlkun TR eigi við rök að styðjast...
Hvað sem líður túlkun laga nr. 95/2000 verður TR að bera ábyrgð á þeim upplýsingum sem stofnun veitir og ég hef í góðri trú lagt til grundvallar. Leiðrétting á hugsanlegum mistökum getur því eingöngu haft áhrif til frambúðar en ekki á umsókn mína sem legið hafði inni hjá TR í rúmlega ár.“
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 20. desember 2004 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
Krafa um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði verður eigi byggð á því að foreldrar hafi fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um rétt sinn eða vegna mistaka við afgreiðslu umsóknar. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er það hlutverk úrskurðarnefndar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það fellur hins vegar utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan bótarétt þeirra sem telja sig hafa fengið ófullnægjandi eða rangar upplýsingar eða óviðunandi afgreiðslu hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Framangreind lög taka til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs, sbr. 1. mgr. 1. gr. ffl. Þau eiga við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í 2. mgr. 1. gr. segir að lögin taki einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.
Foreldrar, sbr. 1. mgr. 1. gr. ffl., eiga sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. 1. mgr. 8. gr. ffl. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Í athugasemdum með 8. gr. með frumvarps til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er sérstaklega vakin athygli á því að maki eða sambúðarmaki kynforeldris eigi ekki rétt á fæðingarorlofi samkvæmt frumvarpinu heldur sé eingöngu átt við kynforeldra þegar um fæðingu er að ræða, ættleiðanda eða fósturforeldri.
Samkvæmt 5. gr. barnalaga nr. 76/2003 telst kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun móðir þess. Í 1. mgr. 6. gr. sömu laga segir að maður sem samþykkt hafi að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun teljist faðir barns sem þannig er getið. Sama eigi við um mann og konu sem skráð hafi sambúð sína í þjóðskrá. Í 2. gr. laganna er einnig kveðið á um feðrunarreglur um börn hjóna og foreldra í skráðri sambúð.
Lagaákvæði sem fela í sér sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans gilda ekki um staðfesta samvist, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 87/1996 um staðfesta samvist, sbr. 2. gr. lagabreytingar nr. 52/2000. Í athugasemdum í greinargerð segir að þetta eigi meðal annars við um feðrun barna, en feðrunarreglur um börn giftra foreldra og sambúðarforeldra geti ekki gilt um staðfesta samvist. Með hliðsjón af því hefur kærandi ekki sömu stöðu og aðili í hjúskap eða í skráðri sambúð þegar kemur að því að ákvarða hverjir teljast foreldrar barns.
Kærandi hafði ekki öðlast rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði sem foreldri við ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Með hliðsjón af gildandi lagaákvæðum um það hverjir teljast foreldrar barns og ákvæðum laga um staðfesta samvist er ekki hægt að líta svo á að kærandi hafi orðið foreldri barnsins við fæðingu þess.
Samkvæmt framangreindu er hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dagsettu 20. desember 2004, um að synja A, um greiðslu í fæðingarorlofi er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson