Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 47/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 26. febrúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 47/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

B hefur f.h. A ,hér eftir nefndur kærandi,   með kæru, dags. 16. ágúst 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2013, á umsókn hans um styrk vegna húsbúnaðar að fjárhæð 100.000 kr. Kæran var lögð fram hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar en framsend úrskurðarnefndinni með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2013.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um styrk vegna húsbúnaðar að fjárhæð 100.000 kr. hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 12. júní 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 19. júní 2013, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 12. júní 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 26. júní 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um húsbúnaðarstyrk að upphæð kr. 100.000.- þar sem aðstæður umsækjanda falla eigi að skilyrðum þeim sem sett eru í 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi styrk vegna húsbúnaðarkaupa.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 26. júní 2013. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á synjun Reykjavíkurborgar hjá þjónustumiðstöð og var beiðnin send til velferðarsviðs Reykjavíkurborgar með tölvupósti þann 1. júlí 2013. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 3. júlí 2013, var rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sendur kæranda. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 16. ágúst 2013. Með bréfi, dags. 20. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 7. október 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. október 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 23. október 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. febrúar 2014, óskaði nefndin að Reykjavíkurborg legði fram gögn um tekjur kæranda og bárust þau þann 25. febrúar 2014.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru kemur fram að í 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé ekki gerð krafa um að umsækjandi uppfylli alla liði greinarinnar. Kærandi bendir á að hann hafi verið samtals eitt og hálft ár í vistun á X og Y. Hann hafi verið tekinn inn á X í maí 2011 og þegið vasapeninga frá 1. desember 2011 þar til hann hafi verið útskrifaður af Y um miðjan desember 2012. Kærandi heldur því fram að hann hafi verið eignalaus, sbr. 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kaup á íbúð að C hafi verið fjármögnuð þannig að lán Íbúðalánasjóðs hafi verið um 100% að frádregnum 500.000 kr. sem faðir kæranda hafi lagt fram auk kostnaðar við kaupin. Svo kaupin gætu gengið í gegn hafi faðir kæranda orðið að kaupa 30% hluta eignarinnar þar sem kærandi hafi verið eignalaus og því ekki lánshæfur hjá sjóðnum. Íbúðin hafi verið skráð sem eign kæranda en mánaðarlegar afborganir af láninu og hússjóður hafi verið um 110.000 kr. með orkureikningum. Það greiði kærandi sjálfur. Það sé því ljóst að íbúð sem sé 100% í skuld sé ekki eign og því ljóst að kærandi sé eignalaus. Kærandi bendir á að innréttingakostnaður í íbúðinni hafi verið um 400.000 kr. sem hann hafi að mestu fengið frá föður sínum. Tekjur kæranda í dag séu 210.682 kr. Það geri um 180.000 kr. eftir skatt. Það sé sá peningur sem öryrkja sé skammtaður til daglegrar framfærslu og þar af fari stærstur hluti í húsnæðiskostnað. Þá bendir kærandi á að hefði hann ekki keypt fasteign hefði það verið verkefni Reykjavíkurborgar að útvega honum húsnæði með tilheyrandi kostnaði. Líta verði svo á að kærandi spari borginni umtalsverðan húsnæðiskostnað sem borgin þyrfti annars að sjá um. Kærandi óskar eftir því að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar kemur fram að í greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd, dags. 19. júní 2013, sé rangt farið með staðreyndir. Ekki sé farið rétt með heimilisfang kæranda. Fram komi að kærandi búi í íbúð foreldra sinna sem þau hafi keypt á hans nafni og setur umboðsmaður kæranda fram þá spurningu hvort litið sé svo á að hann sé að óska eftir styrk til að fjármagna íbúð sína þar sem kærandi búi. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar frá félagsráðgjafa á Y að kærandi ætti rétt á húsbúnaðarstyrk. Eignir og skuldir hafi ekki verið heimfærðar í greinargerðinni. Íbúð kæranda hafi verið toppveðsett og hafi það verið frumskilyrði þess að kærandi hafi getað fengið hana. Þá hafi einnig komið fram í gögnum málsins frá Reykjavíkurborg að kærandi hafi búið í eigin íbúð frá desember 2012. Fram hafi komið að hann hafi búið hjá foreldrum sínum til 13. september þar til hann hafi verið vistaður á Y. Þá sé einnig sagt að hann hafi verið sviptur sjálfræði í júlí 2011. Ekki komi fram að kærandi hafi verið sviptur sjálfræði frá því hann hafi komið inn á X í lok maí 2011. Kærandi hafi sem sagt verið inni á X og Y frá því í lok maí 2011 en ekki frá 13. september 2011. Þess vegna hafi hann verið kominn á vasapeninga frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. desember 2011 þar til í desember 2012. Það sé auðskilið hvers vegna kærandi hafi ekki notið fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg þar sem hann hafi verið í foreldrahúsum þar til hann hafi verið vistaður á X og síðan á Y. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði d-liðar 19. gr. reglnanna um að eiga í félagslegum erfiðleikum ásamt því þurfa aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum. Kæranda þykir undarlegt að umsókn hans sé synjað eingöngu á þeim grundvelli að hann hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð áður.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að  á tímabilinu 13. september 2011 til 19. desember 2012 hafi kærandi dvalist á Y en þá hafi hann flutt í eigin íbúð. Kærandi hafi fengið daglegan stuðning við athafnir daglegs lífs, svo sem frá starfsfólki búsetukjarna fyrir geðfatlaða, heimahjúkrunar Reykjavíkurborgar, sérfræðingum Y. Mjög vel hafi gengið hjá kæranda í sjálfstæðri búsetu. Í greinargerð eru rakin ákvæði 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg telur ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins hvað varði greiðslu styrks til kaupa á húsbúnaði. Kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar reglnanna um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu en samkvæmt upplýsingum sem legið hafi fyrir velferðarráði fái kærandi greiddar örorkubætur að fjárhæð 210.682 kr. á mánuði sem séu nokkuð yfir grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar. Þá liggi fyrir að á tímabilinu 13. september 2011 til 19. desember 2012 hafi kærandi dvalist á Y en svo flutt í eigin íbúð. Ekki sé því unnt að líta svo á að skilyrði a-liðar 19. gr. um eignaleysi og a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun séu uppfyllt. Ekki sé hægt að taka tillit til þess að eignir séu skuldsettar þegar horft sé til eignastöðu einstaklinga. Þá eigi b-liður 19. gr. ekki við þar sem kærandi falli ekki innan aldursviðmiða sem þar séu tilgreind auk þess að kærandi sé ekki eignalaus og hafi ekki notið fjárhagsaðstoðar til framfærslu. Þá eigi c-liður greinarinnar ekki við um tilvik kæranda. Einnig eigi d-liður ekki við um kæranda þar sem hann hafi ekki fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg. Af framangreindum ástæðum hafi velferðarráð ekki talið koma til álita að veita umbeðinn styrk og því staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk vegna húsbúnaðar að fjárhæð 100.000 kr., sbr. 19. gr. framangreindra reglna.

Úrskurðarnefndin tekur fram að hin kærða ákvörðun byggðist meðal annars á upplýsingum um tekjur kæranda. Í gögnum sem bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 7. október 2013, var hins vegar ekki að finna gögn þar að lútandi. Úrskurðarnefndin bendir á að afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggir á. Reykjavíkurborg hefði því verið rétt að leggja fram slík gögn, svo sem skattframtal. Verður í þeim efnum ekki talið nægjanlegt að leggja fram greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd þar sem upplýsingar um tekjur kæranda voru skráðar. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að framangreint verði haft í huga við afhendingu gagna í tilefni af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Reykjavíkurborg synjaði umsókn kæranda á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu þar sem tekjur hans hafi verið 210.682. kr. sem sé nokkuð yfir grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Þá hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 19. gr. um eignaleysi og a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun. Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði d-liðar 19. gr. um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu. Ákvæði b- og c-liðar hafi ekki átt við í tilviki kæranda. Kærandi heldur því fram að hann sé eignalaus þar sem íbúð hans sé veðsett í topp. Þá kveðst kærandi eiga í félagslegum erfiðleikum ásamt því að þurfa aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum, sbr. d-lið 19. gr. reglnanna. Kærandi gerir athugasemd við að umsókn hans hafi verið synjað á þeim grundvelli að hann hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð áður.

Í 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um styrk vegna húsbúnaðar. Kemur þar fram að fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði sé heimil í eftirfarandi tilvikum:

a) til einstaklings sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun,

b) til ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaust, sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn, 

c) þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum,

d) þegar um er að ræða einstaklinga/hjón/sambúðarfólk sem eiga í félagslegum erfiðleikum og þurfa aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum. Skilyrði er að viðkomandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum síðastliðna þrjá mánuði.

Ekkert hefur komið fram í málinu um að kærandi hafi þurft að rýma íbúð af heilbrigðisástæðum og á c-liður 19. gr. reglnanna því ekki við. Þegar kærandi sótti um styrk vegna húsbúnaðar var hann 31 árs og á því b-liður 19. gr. ekki við.

Í a-lið 19. gr. er gert að skilyrði að umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum. Vegna athugasemdar kæranda við að umsókn hans hafi verið synjað á þeim grundvelli að hann hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð áður skal tekið fram að Reykjavíkurborg hefur túlkað framangreint ákvæði svo að umsækjandi skuli annað hvort hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg eða hafa tekjur sem eru jafnháar eða lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglnanna. Við afgreiðslu umsóknar kæranda var miðað við að tekjur hans væru 210.682 kr. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá viðmiðun. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglnanna, eins og þær voru þegar umsókn kæranda var afgreidd, getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili numið allt að 163.635 kr. á mánuði. Tekjur kæranda voru hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og er það því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar 19. gr. reglnanna um að fá fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum.

Í d-lið 19. gr. er það gert að skilyrði að umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu síðastliðna þrjá mánuði. Kærandi sótti um styrk vegna húsbúnaðar í júní 2013 og skv. d-lið 19. gr. reglnanna bar að leggja til grundvallar tekjur kæranda í mars, apríl og maí 2013. Tekjur kæranda voru 210.682 kr. í mars, 210.682 kr. í apríl og 210.682 kr. í maí 2013. Meðalmánaðartekjur kæranda síðastliðna þrjá mánuði fyrir umsókn hans voru 210.682 kr. og því hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. d-lið 19. gr. reglnanna. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 19. gr. reglnanna hafi ekki verið fullnægt í málinu og átti kærandi því ekki rétt á styrk vegna húsbúnaðar. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2013, um synjun á umsókn A, um styrk vegna húsbúnaðar að fjárhæð 100.000 kr. er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta