Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 21/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. mars 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 21/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. febrúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum, 6. febrúar 2012, fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 10. febrúar 2012 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 4. febrúar 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 14. apríl 2010. Kæranda var tilkynnt 12. desember 2011 að hún þyrfti að mæta á bæjarskrifstofu Reyðarfjarðar til þess að skrifa undir boðun í atvinnuviðtal hjá ISS Ísland. Kærandi mætti og ritaði undir boðunina. Vinnumálastofnun bárust upplýsingar frá ISS 13. janúar 2012 þess efnis að kærandi hefði verið boðuð í starfsviðtal hjá ISS við ræstingar á leikskólanum á Fáskrúðsfirði en hún hafi ekki verið reiðubúin til að taka starfinu vegna veikinda í öxl.

 

Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda með bréfi, dags. 16. janúar 2012. Skýringabréf kæranda barst 24. janúar 2012 þar sem fram kom að hún hafi tilkynnt ISS að hún sé að skoða önnur svæði varðandi vinnu og að hún hafi frétt að vinna hjá ISS sé erfið og fólk þurfi að vera í hörkuformi. Hún hafi því skilað inn læknisvottorði þess efnis að hún geti ekki unnið líkamlega erfiða vinnu vegna sjúkdóms.

 

Í kæru kæranda kemur fram að henni hafi verið boðin vinna hjá ISS í eitt ár í 37% vinnu alla virka daga kl. 16.00–19.00 og hafi þess verið krafist að hún myndi skuldbinda sig í eitt ár. Kærandi kveðst hafa tjáð viðkomandi yfirmanni að hún tæki þessa vinnu að sjálfsögðu en hún ætti erfitt með að skuldbinda sig allan þennan tíma. Venjulegur uppsagnarfrestur hafi ekki verið í boði. Kærandi segir í kæru að atvinnuveitandinn hafi sagt að hún hafi hafnað starfinu en það væri ekki rétt, hann hafi ekki viljað hana í vinnuna.

Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 23. janúar 2012, kemur meðal annars fram að hún sé komin með læknisvottorð um að hún geti ekki verið í mjög líkamlega erfiðu starfi og er vottorðið meðal gagna málsins.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 6. febrúar 2012. Rökstuðningurinn var veittur með bréfi, dags. 16. febrúar 2012.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. maí 2012, segir að mál þetta varði 1. og 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. laganna komi meðal annars fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Sé fjallað um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir eru samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi sér. Hafi sá tími verið liðinn er kærandi hafnaði umræddu atvinnutilboði. Fram komi í greinargerðinni að heimilt sé að taka tillit til skertrar vinnufærni atvinnuleitanda við mat á því hvort ástæður séu gildar. Sjaldan muni þó reyna á þessa undanþágu enda ekki gert ráð fyrir að atvinnuleitanda verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna. Komi slíkar upplýsingar upp fyrst þegar starfið sé í boði kunni að koma til viðurlaga skv. 59. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína.

 

Fram kemur að það sé ljóst að kærandi hafi hafnað atvinnutilboði hjá ISS. Kærandi hafi meðal annars tekið fram að það væri vegna þess að hún ætti við veikindi að stríða í öxl og gæti því ekki sinnt líkamlega erfiðri vinnu. Þegar kærandi hafi verið boðuð í atvinnuviðtal hjá ISS hafi Vinnumálastofnun ekki verið kunnugt um skerta vinnufærni hennar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að skv. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli umsækjandi um atvinnuleysisbætur taka fram í umsókn sinni allar þær upplýsingar sem varða vinnufærni hans. Þá skal sá er fær greiddar atvinnuleysisbætur, upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá komi fram í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar. Bent er á að fram komi í athugasemdum með 14. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar að kveða þurfi á um skyldu hins tryggða til að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar með umsókn um atvinnuleysisbætur, svo sem hvort hann geti ekki unnið tiltekin störf vegna heilsu sinnar ásamt vottorði sérfræðilæknis því til stuðnings, sbr. 4. mgr., til að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa viðkomandi kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum þegar í upphafi. Enn fremur segi að láti hinn tryggði hjá líða að upplýsa stofnunina um atriði er skipt geti máli um tækifæri hans til að verða aftur virkur á vinnumarkaði geti það varðað tímabundnum missi atvinnuleysisbóta, sbr. 59. gr. frumvarpsins.

 

Kærandi hafi ekki upplýst um skerta vinnufærni sína eins og henni hafi borið að gera skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hafi Vinnumálastofnun fyrst verið það ljóst eftir að hún hafnaði vinnu hjá ISS. Læknisvottorð það sem kærandi hafi lagt fram sé gefið út eftir að hún hafi hafnað atvinnutilboði. Telur Vinnumálastofnun að ástæður fyrir höfnun á atvinnuviðtali séu ekki gildar í skilningi 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 59. gr. sömu laga.


Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt lagagreininni þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa, en hann reynist ekki reiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. maí 2012, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. júní sama ár. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti, dags. 1. júní 2012. Þar ítrekar kærandi fyrri sjónarmið sín og telur að ekki hafi verið staðið rétt að meðferð og afgreiðslu máls hennar. Kærandi spyr hvers vegna læknisvottorðið sem hún hafi lagt fram um skerta vinnufærni hennar sé ekki tekið gilt.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi fékk boðun í atvinnuviðtal hjá ISS 12. desember 2011 og fór í viðtalið í kjölfarið. Hún hafnaði starfinu vegna heilsufarsvandamála sinna og lagði fram læknisvottorð þar að lútandi, dags. 16. desember 2011. Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.

 

Vinnumálastofnun varð fyrst kunnugt um skerta vinnufærni kæranda eftir að henni hafði verið boðið starf hjá ISS. Kærandi tilkynnti ekki til stofnunarinnar um breytta hagi sína og var stofnuninni því ekki kunnugt um veikindi kæranda fyrr en eftir að hún hafði hafnað umræddu starfi. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal taka fram í umsókn sinni skv. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar allar þær upplýsingar sem varða vinnufærni hans. Þá skal sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur, upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal hinn tryggði tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar. Kærandi lagði fram læknisvottorð varðandi heilsufarsástand sitt eftir að hún hafnaði atvinnutilboði og óskað hafði verið eftir skýringum frá henni.

 

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við þegar hinn tryggði hafi vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna.

 

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og með vísan til röksemda þeirra sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Úr­skurðar­orð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. febrúar 2012 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta