Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 23/2012

Úrskurður er kveðinn upp 27. febrúar 2013 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 23/2012: A gegn barnaverndarnefnd B vegna barnanna C, D og E. Á fundi kærunefndarinnar 13. febrúar síðast­liðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því skv. 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Kærðar eru ákvarðanir Barnaverndar B, sbr. bréf frá 3. og 24. október 2012, um styrki til að greiða fyrir lögmannskostnað vegna aðstoðar Steins S. Finnbogasonar hdl. við kæranda í barnaverndarmáli.

 

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

 

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

I. Málavextir og kröfugerð

 

Mál þetta varðar barnaverndarmál A, vegna barna hennar, þeirra D, C, og E.

 

Dætur kæranda lúta forsjá kæranda en D, var tekin úr umsjón móður sinnar í janúar 2012. Faðir stúlknanna, F, sem búsettur er í G, hefur komið að umönnun þeirra, en samband foreldranna hefur verið óstöðugt. Áhyggjur hafa verið af uppeldisaðstæðum telpnanna í umsjá foreldra og hafa verið afskipti af högum þeirra á grundvelli barnaverndarlaga bæði hér á landi og í G.

 

Kæra Steins S. Finnbogasonar hdl., fyrir hönd A, er dagsett 31. október 2012. Þar eru kærðar tvær ákvarðanir Barnaverndar B frá 3. og 24. október 2012 varðandi greiðslu styrkja fyrir lögmannsaðstoð skv. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Samkvæmt ákvörðun Barnaverndar B 3. október 2012 var ákveðið að veita kæranda styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sem nemur 12,5 klukkustundum á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts eða samtals 156.875 krónur, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga. Veittur var styrkur vegna tölvupóstsamskipta og símtala og afturköllunar samþykkis, vegna undirbúnings og mætingu lögmanns á fund barnaverndarnefndar B 20. júlí 2012 og vegna tilkynningar lögmanns í tölvupósti um dvalarstað telpnanna og lestur gagna. Loks var veittur styrkur vegna eftirvinnslu fundarins 20. júlí 2012 og vegna mætingu lögmanns á fund hjá Barnavernd B 10. ágúst s.á. sem haldinn var að beiðni starfsmanna nefndar-innar.

 

Hafnað var kröfu um styrk vegna undirbúnings lögmanns fyrir fund með sálfræðingi er framkvæmdi forsjárhæfnimat og vegna veru lögmanns á þeim fundi, en fundurinn var haldinn að frumkvæði og beiðni lögmannsins. Þá var því hafnað að greiða kostnað vegna ferðar lögmannsins til G.

 

Samkvæmt síðari ákvörðun Barnaverndar frá 24. október 2012 var ákveðið að veita kæranda styrk sem nemur 27,5 klukkustundum á tímagjaldi 10.000 krónur auk virðisaukaskatts eða samtals 345.125 krónur, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga. Veittur var styrkur vegna tölvupóst­samskipta og símtala, vegna vinnu lögmanns við bréf vegna afturköllunar samþykkis og vegna skilyrða vistunar. Veittur var styrkur vegna funda 17. ágúst og 24. ágúst 2012 sem boðað var til að frumkvæði Barnaverndar B og óskað var eftir viðveru lögmanns. Þá var veittur styrkur vegna undirbúnings og mætingu lögmanns á fundum barnaverndar­nefndar B 30. ágúst og 18. september s.á.

 

Ekki var veittur styrkur vegna veru lögmanns á fundi á Landspítalanum 15. ágúst 2012, en kærandi óskaði eftir þeim fundi. Ekki var veittur styrkur vegna vinnu lögmanns við bréf til umboðsmanns Alþingis enda heimili reglur ekki slíkt. Þá var ekki veittur styrkur vegna samskipta lögmanns við föður barnanna þar sem hann er ekki aðili að málinu og heimili reglur ekki slíkt. Jafnframt var ekki veittur styrkur vegna vinnu lögmanns við að undirbúa kæru til kærunefndar barnaverndarmála í september 2012 enda lá ekki fyrir að neitt hafi verið kært til kærunefndar á þeim tíma.

 

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur fyrir kærunefnd barnaverndarmála um greiðslu fjárstyrks úr höndum barnaverndarnefndar B fyrir lögmannsaðstoð:

Vegna 11,2 vinnustunda lögmanns kæranda á tímabilinu 20. júní–4. júlí 2012 við að undirbúa fund með sálfræðingi og veru lögmannsins á þeim fundi.

Vegna níu klukkustunda lögmannsaðstoðar í G auk kostnaðar vegna flugs og gistingar.

Vegna tveggja klukkustunda símtals sem lögmaður átti við föður barnanna.

Vegna níu vinnustunda lögmanns við drög að kæru til kærunefndar barnaverndarmála.

 

Barnavernd B krefst þess að samþykktir styrkir í bréfum hennar 3. og 24. október 2012 verði staðfestir af hálfu kærunefndarinnar.

 

 

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Varðandi kröfu kæranda um greiðslu styrks vegna aðstoðar lögmanns við upplýsingaöflun og að kanna gögn um skýrslu sálfræðings um móður bendir kærandi á að ítarleg yfirferð yfir skýrsluna og vinna við að hnekkja henni hafi verið nauðsynleg. Vinnan hafi skilað árangri, þar sem barnaverndarnefnd B hafi samþykkt kröfu kæranda um nýtt forsjárhæfnismat.

 

Kærandi óskar eftir fjárstyrk til greiðslu fyrir mætingu lögmanns hennar fyrir dóm í G. Hún geti ekki fallist á að ólöglærður starfsmaður Barnaverndar B mæti fyrir dóm í máli hennar erlendis til þess að kynna framkvæmd og lög og reglur á Íslandi án þess að henni verði veitt jöfn staða.

 

Kærandi fellst ekki á þá skoðun barnaverndarnefndar B að faðir barna hennar sé ekki aðili að máli þessu enda liggi ekkert fyrir um að hann hafi ekki sameiginlega forsjá og hagsmuni í málinu.

 

Varðandi kröfu um veitingu styrks við að kæra mál kæranda til kærunefndar barnaverndarmála er bent á að kærur til nefndarinnar hafi ekki verið sendar þar sem á þeim tíma sem undirbúningi þeirra hafi verið lokið hafi verið fallist á helstu kröfur þeirrar kæru sem í undirbúningi hafi verið, þ.e. að barninu yrði skipaður talsmaður og að afla skyldi nýs forsjárhæfnismats.

 

 

III. Sjónarmið Barnaverndar B

 

Í bréfi Barnaverndar B 5. desember 2012 kemur fram afstaða til krafna kæranda fyrir kærunefndinni um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar.

 

Varðandi kröfu kæranda um að samþykktur verði fjárstyrkur vegna 11,2 vinnustunda lögmanns við öflun upplýsinga og könnunar á gögnum um skýrslu sálfræðings er bent á að ekki sé veittur styrkur vegna undirbúnings lögmanns fyrir fund með sálfræðingi er framkvæmdi forsjárhæfnimat eða vegna veru lögmanns á þeim fundi. Fyrrgreindur fundur hafi verið haldinn að frumkvæði og beiðni lögmannsins. Af því tilefni er vakin athygli á 1. gr. reglna barnaverndarnefndar B um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, sem kynntar hafi verið lögmanni. Samkvæmt 1. gr. reglnanna sé ljóst að starfsmönnum Barnaverndar B sé ekki heimilt að samþykkja fjárstyrki vegna fundarsetu lögmanna á fundum með sálfræðingi sem framkvæmir forsjárhæfnismat, sem boðað sé til að frumkvæði lögmanna eða vegna vinnu lögmanns við að reyna að hnekkja því mati.

 

Kærandi krefst þess að samþykkt verði að veita fjárstyrk vegna níu vinnustunda af rúmlega 90 klukkustundum vegna staðfestingar er lögmaður hafi útbúið fyrir kæranda og lögð hafi verið fram í málinu í G og vegna mætingar lögmanns fyrir dómstóla í G. Barnavernd B bendir á að mál D hafi verið rekið fyrir G dómstólum og að heimildir Barnaverndar til greiðslu fyrir lögfræðiaðstoð nái ekki yfir beiðni kæranda um að greiða fyrir íslenskan lögmann hennar í G. Barnavernd B sé bundin af reglum um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar og séu þær reglur bundnar við börn í íslenskri lögsögu sem hafi dvalarstað í H.

 

Starfsmaður Barnaverndar B hafi verið viðstaddur réttarhöld í G í máli D 31. júlí 2012. Hafi það verið gert að beiðni þarlendra yfirvalda sem farið hafi með mál barnsins. Hafi það verið mat Barnaverndar B að eðlilegt væri að verða við slíkri beiðni í máli barnsins. Bent er á að kærandi hafi á þessum tíma notið aðstoðar G lögmanns og hafi mál D verið unnið af þarlendum yfirvöldum en hafi ekki verið á forræði Barnaverndar B. Það megi vera ljóst að engar heimildir séu til staðar fyrir starfsmenn Barnaverndar B til að greiða ferðakostnað lögmanns kæranda til G eða vegna vinnu hans við mál hennar sem hafi verið á forræði þarlendra yfirvalda. Enn fremur er bent á að í tölvupósti kæranda til Barnaverndar B 30. júlí 2012 komi fram að lögmaður hennar muni ekki starfa sem lögmaður hennar í G heldur sem mikilvægt vitni um íslensk lög.

 

Kærandi hefur krafist styrkjar vegna tveggja klukkustunda símtals lögmanns við föður barnanna. Barnavernd B bendir á að í 1. gr. reglna um fjárstyrk komi fram að veittur sé styrkur foreldrum sem eru aðilar mála. Í 3. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sé skilgreint að með hugtakinu foreldrar í lögunum sé að jafnaði átt við þá sem fara með forsjá barns og inntak forsjár fari samkvæmt barnalögum. Samkvæmt vottorði Þjóðskrár Íslands frá 12. janúar 2012 fari kærandi ein með forsjá dætra sinna.

 

Kærandi hefur krafist fjárstyrks vegna níu klukkustunda vinnu lögmanns við gerð kæru til kærunefndar barnaverndarmála. Af þessu tilefni bendir Barnavernd B á 2. gr. reglna um veitingu fjárstyrks, en samkvæmt því ákvæði sé ljóst að ekki liggi fyrir heimildir starfsmanna Barnaverndar B til að greiða vegna vinnu lögmanna við drög að kærum til kærunefndar sem ekki séu sendar nefndinni. Verði að teljast mjög óeðlilegt að Barnavernd B sé skylt að greiða fyrir vinnu lögmanns vegna kæru til kærunefndar þegar ekki liggi fyrir hver niðurstaða nefndarinnar verði og niðurstaðan er ekki kærð. Mál D vegna umgengni kæranda við hana meðan á tímabundinni vistun stóð hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar B 18. september 2012 og hafi þar verið komist að samkomulagi um hvernig umgengni skyldi háttað. Í bréfi lögmanns til kærunefndar komi fram að ástæða fyrir því að hann hafi ekki sent kæru til kærunefndar sem hann hafi unnið að 11., 16. og 17. september hafi verið sú að þegar undirbúningi var lokið hafi verið fallist á helstu kröfur kæranda í kæru, sem verið hafi í undirbúningi, meðal annars að barninu yrði skipaður talsmaður. Vegna þessara ummæla lögmannsins er tekið fram að það hafi verið að frumkvæði starfsmanna Barnaverndar B að barninu D hafi verið skipaður talsmaður 7. september 2012. Hafi kæranda verið kynnt sú ákvörðun í kjölfarið.

 

 

 

IV. Forsendur og niðurstaða

 

Kærandi krefst þess að hnekkt verði ákvörðunum Barnaverndar B samkvæmt tveimur bréfum frá 3. og 24. október 2012 um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar, en Barnavernd B ákvarðaði lögmanni færri tíma en kærandi telur að séu að baki vinnu lögmannsins í þágu barna hennar og hafnaði kröfu um greiðslu kostnaðar vegna ferðar lögmanns kæranda til G.

 

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð sinn. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð skv. 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur.

 

Barnaverndarnefnd B samþykkti reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga, 27. maí 2008. Samkvæmt 4. gr. reglnanna skulu foreldrar velja sér sjálfir lögmann. Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um að með beiðni um fjárstyrk vegna lögmannsaðstoðar skuli fylgja tímaskýrsla lögmannsins. Fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skuli tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Viðmiðunargjald er ákveðið af framkvæmdastjóra Barnaverndar B í samráði við lögfræðinga nefndarinnar.

 

Í 1. gr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar, sbr. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, kemur eftirfarandi fram:

 

Barnaverndarnefnd B veitir foreldrum og barni 15 ára og eldra sem er aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð, sbr. 1. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi barnaverndarnefndar, þ.e. vinnuframlag til undirbúnings og mætingar á fund nefndarinnar þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Ekki er veittur styrkur vegna viðveru lögmanns á fundum með starfsmönnum nefndarinnar nema sérstaklega hafi verið óskað eftir viðveru lögmanns af hálfu starfsmanns.

 

Samkvæmt þessu er fjárstyrkur veittur til að greiða fyrir undirbúning og mætingu á fund barnaverndarnefndar. Vinna lögmanns við undirbúning fundar með sálfræðingi og fundur með honum verður ekki talin falla undir framangreindar reglur. Ákvörðun Barnaverndar B um að hafna að veita fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna vinnu lögmanns kæranda í tengslum við skýrslu sálfræðings um kæranda er með vísan til þessa staðfest.

 

Í gögnum málsins kemur fram að mál hafi verið rekið fyrir breskum dómstól gegn kæranda á árinu 2012. Krafa kæranda fyrir kærunefndinni er sú að veittur verði fjárstyrkur vegna móts lögmanns kæranda fyrir dóminum og vegna vinnu við að útbúa staðfestingu, sem lögð hafi verið fram í dóminum, ásamt ferðakostnaði og kostnaði vegna gistingar í G. Rökstuðningur kæranda er á þá leið að lögmaður hennar hafi þurft að mæta fyrir dóminum þar sem starfsmaður Barnaverndar B hafi mætt þar. Skylt sé að veita kæranda jafna stöðu með því að greiða fyrir aðstoð íslensks lögmanns á sama stað og ólöglærður starfsmaður Barnaverndar hafi mætt fyrir dómi í máli hennar erlendis til þess að kynna framkvæmd og lög og reglur á Íslandi. Í kærunni er því lýst að þörf hafi verið talin á þekkingu hins íslenska starfsmanns til aðstoðar við erlend yfirvöld og því megi með sömu rökum telja þörf á þekkingu íslensks lögmanns til aðstoðar við kæranda þar sem til þess hefði getað komið að kærandi þyrfti að taka afstöðu til þeirra upplýsinga sem fram kæmu hjá starfsmanninum fyrir dóminum. Þessar staðhæfingar kæranda eru ekki studdar viðhlítandi gögnum. Með vísan til þess og annars sem fram hefur komið í málinu varðandi dómsmálið í G verður ekki fallist á að krafan um að kæranda verði veittur fjárstyrkur vegna dómsmálsins þar í landi hafi lagastoð. Verður samkvæmt því að hafna kröfunni.

 

Eins og fram kemur í áður tilvitnaðri 1. gr. reglna um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar veitir barnaverndarnefnd B foreldrum og barni 15 ára og eldra, sem er aðili máls, fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Í kærunni kemur fram að vinnan, sem krafist er greiðslu fyrir vegna símtals við föður barnanna, hafi verið í hans þágu en þar segir að faðirinn eigi fullan rétt á fjárstyrk vegna þeirrar aðstoðar sem hann hafi þegið frá lögmanni kæranda. Þá kemur fram í gögnum málsins að móðirin fari ein með forsjá barnanna og var faðirinn ekki talinn aðili að máli því sem rekið var fyrir barnaverndarnefnd og hér um ræðir. Ákvörðun Barnaverndar B um að synja greiðslu fjárstyrks til greiðslu lögmanns­kostnaðar vegna símtals við föður barnanna er staðfest með vísan til þessa.

 

Í 2. gr. framangreindra reglna kemur fram að barnaverndarnefnd B veiti aðilum máls fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar fyrir kærunefnd barnaverndarmála, sbr. 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Kæruefnið varðar vinnu lögmanns við kæru til kærunefndar barnaverndarmála á úrskurði sem hafði ekki verið kveðinn upp á þeim tíma. Með vísan til þess ber að staðfesta ákvörðun barnaverndarnefndar B um að hafna því að veita fjárstyrk til að greiða umræddan lögmannskostnað.

 

Eins og fram hefur komið voru ákvarðanir Barnaverndar B byggðar á framan­greindum reglum um veitingu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar varðandi fjárhæð styrksins. Reglur þessar voru sendar lögmanni kæranda sem fylgiskjal með bréfi til hans, dags. 11. júlí 2012, og áttu honum því að vera þær kunnar upp frá því.

 

Í greinargerð Barnaverndar B er ítarlega rakið á hvaða grundvelli sú ákvörðun var reist, að ákvarða lögmanni kæranda færri tíma en hann hefur krafist. Af þeirri greinargerð og öðru sem fyrir liggur í gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sú ákvörðun hafi stuðst við þær reglur sem nefndin hefur sett í því samhengi. Ekkert bendir til þess að við mat Barnaverndar B á hæfilegum tímafjölda vegna framangreindrar vinnu hafi ekki verið gætt málefnalegra sjónarmiða. Hinar kærðu ákvarðanir Barnaverndar B eru því staðfestar.


 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Ákvarðanir Barnaverndar B, sem tilkynntar voru með bréfum 3. og 24. október 2012, um styrk til greiðslu lögmannskostnaðar vegna meðferðar máls kæranda, A, fyrir barnaverndarnefnd B, eru staðfestar.

 

                            

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta