Hoppa yfir valmynd

Nr. 13/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 13/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110085

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 12. ágúst 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. apríl 2021, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Súdan (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 16. ágúst 2021. Hinn 25. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum.

Kærandi krefst þess aðallega að mál hans verði tekið upp að nýju hjá kærunefnd útlendingamála á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að kærunefnd felli ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. apríl 2021, úr gildi og veiti kæranda alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hann telur að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. 

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að Alþjóðlega fólksflutningastofnunin, International Organization for Migration (IOM), hafi tekið fyrir aðstoð við sjálfviljuga heimför til Súdan. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar frá Útlendingastofnun að eins og staðan væri núna gæti hann ekki snúið aftur til Súdan. Kærandi lagði fram afrit af tölvubréfi frá IOM, dags. 16. nóvember 2021, þar sem fram kemur m.a. að aðstoð af hálfu stofnunarinnar við sjálfviljuga heimför til Súdan hafi verið stöðvuð um óákveðinn tíma vegna öryggisástands í landinu. Jafnframt lagði kærandi fram afrit af tölvubréfi frá Útlendingastofnun, dags. 10. nóvember 2021, þar sem fram kemur m.a. að kærandi hafi óskað eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför til Súdan nokkrum vikum áður en að hann hafi ekki getað fengið aðstoð frá IOM vegna ástandsins þar í landi.

Kærandi telur ljóst, með vísan til framangreindra samskipta við Útlendingastofnun og IOM, að sjálfviljug heimför, sem og þvingaður flutningur til Súdan, sé ómöguleg nú um stundir vegna ástæðna sem falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem og 1. mgr. 74. gr. sömu laga. Eftir að úrskurður kærunefndar útlendingamála frá 12. ágúst 2021 hafi verið kveðinn upp hafi valdarán verið framið í Súdan, n.t.t hinn 25. október 2021. Það hafi verið gert af aðilum innan súdanska hersins, undir stjórn Abdel Fattah Burhan, og hafi forsætisráðherra landsins, Abdalla Hamdok, verið steypt af stóli. Áður hafi verið gerð tilraun til valdaráns í september 2021. Valdaráninu hafi fylgt ein fjölmennustu mótmæli sem sögur fari af og hafi herinn tekið á þeim af mikill hörku með þeim afleiðingum að fjölmargir hafi látið lífið. Fjöldi erlendra aðila hafi fordæmt valdaránið, þ. á m. erlendar ríkisstjórnir sem hafi stöðvað alla fjárhagsaðstoð til landsins, sem og mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. Ekki sjái fyrir endann á mótmælum og ofbeldi í landinu jafnvel þótt forsætisráðherranum hafi verið sleppt úr haldi og að hann gegni nú aftur embættinu í samstarfi við þá aðila sem hafi framið valdaránið. Kærandi vísar m.a. til fréttar The New York Times þar sem fram kemur að forsætisráðherra Súdan hafi gert samning við súdanska herinn. Almennir borgarar hafi álitið það svik og eftirgjöf af hálfu forsætisráðherrans þar sem stjórn landsins hafi verið í höndum hersins í um 52 ár af 60 ára sögu landsins. Mótmæli hafi brotist út og súdanska lögreglan hafi m.a. beitt táragasi og skotvopnum. Þá telji sumir gagnrýnendur líklegt að herinn muni hamla þróun landsins í átt að lýðræði.

Með vísan til þess að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar útlendingamála hafi verið birtur honum og að aðstæður í máli hans falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, telur kærandi að kærunefnd beri að endurupptaka mál hans á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá telji kærandi ljóst af sömu ástæðum og raktar hafi verið að kærunefnd beri að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans úr gildi og veita kæranda viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Fallist kærunefnd ekki á það er þess krafist til vara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku málsins

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda hinn 12. ágúst 2021. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í úrskurði kærunefndar frá 12. ágúst 2021 var lagt til grundvallar að aðstæður í Súdan væru ekki þess eðlis að kærandi ætti á hættu meðferð sem bryti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eða að hann hefði sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd samkvæmt 74. gr. sömu laga. Horfði nefndin m.a. til þess að þrátt fyrir að innanlandsátök hafi ríkt í Súdan undanfarin ár, einkum í Darfúr, Suður-Kordófan og Bláu Níl, hafi aðstæður ekki verið slíkar að þær heyrðu undir framangreint ákvæði. Endurupptökubeiðni kæranda grundvallast aðallega á því að almennar aðstæður í heimaríki hans séu nú orðnar svo alvarlegar í kjölfar nýlegs valdaráns að þær falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá geti kærandi ekki fengið aðstoð við sjálfviljuga heimför til heimaríkis þar sem Alþjóðlega fólksflutningastofnunin sé hætt að veita þá aðstoð vegna aðstæðna þar í landi.

Í ljósi framangreindra upplýsinga um versnandi aðstæður í Súdan í kjölfar valdaráns sem þar var framið er það mat kærunefndar að líta verði svo á að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að framangreindur úrskurður kærunefndar útlendingamála var kveðinn upp.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.


 

IV.           Niðurstaða kærunefndar um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað súdönsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé súdanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Súdan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices – Sudan (US Department of State, 11. mars 2020);
  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices – Sudan (US Department of State, 30. mars 2021);
  • 2020 Report on International Religious Freedom: Sudan (U.S. Department of State, 12. maí 2021);
  • Amnesty International Report 2020/21 – Sudan (Amnesty International, 7. apríl 2021);
  • COI Focus: Sudan – Risk upon return (Office of the Commissioner General for Refugees and Sateless Persons, 6. febrúar 2018);
  • Country Policy and Information Note – Sudan: Non-Arab Darfuris (Uk Home Office, nóvember 2019);
  • Country Policy and Information Note – Sudan: Opposition to the government (UK Home Office, apríl 2021);
  • Country Policy and Information Note – Sudan: Return of unsuccessful asylum seekers (UK Home Office, júlí 2018);
  • DFAT Country Information Report. Sudan. (Australian Government. Department of Foreign Affairs and Trade, 27. apríl 2016);
  • Discrimination and Hate Speech Fuel Violence in Sudan (Rights for Peace, mars 2021);
  • Freedom in the World 2021 – Sudan (Freedom House, 2021);
  • Health Care System in Sudan: Review and Analysis of Strength, Weakness, Opportunity and Threats (SWOT Analysis (Sudan Journal of Medical Sciences, september 2017);
  • Report of a fact-finding mission to Khartoum, Sudan (UK Home Office, nóvember 2018);
  • Sudan – Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer: situationen per den 15 oktober 2019 (Regeringskansliet, október 2019);

  • Sudan 2020 Crime & Safety Report (U.S. Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 30. apríl 2021);
  •  

  • Sudan – Information on the current human rights situation (Refugee Documentation Centre of Ireland, 22. júlí 2019);
  • Sudan: Situation of Persons from Darfur, Southern Kordofan and Blue Nile in Khartoum (Danish Immigration Service og UK Home Office, ágúst 2016);
  • Sudan‘s mental health service: challenges and future horizons (BJPsych International, febrúar 2020);
  • Sudan Overview (The World Bank, uppfært 22. mars 2021);
  • The World Factbook – Sudan (CIA, uppfært 20. júlí 2021);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 15. júlí 2021);
  • Minority Rights Group – Sudan (https://minorityrights.org/country/sudan/, uppfært júní 2019) og
  • World Report 2021 – Sudan: Events of 2020 (Human Rights Watch, janúar 2021).

Til viðbótar við framangreindar skýrslur hefur kærunefnd lagt mat á aðstæður í Súdan m.a. með hliðsjón af eftirfarandi heimildum:

  • At least four anti-coup protesters shot dead in Sudan as security forces raid broadcasters (https://edition.cnn.com/2021/12/30/africa/sudan-anti-military-protests-intl/index.html, 31. desember 2021);
  • Cautiously Welcoming Power-Sharing Agreement in Sudan, Special Representative Tells Security Council Constitutional Declaration Must Be Respected (https://reliefweb.int/report/sudan/cautiously-welcoming-power-sharing-agreement-sudan-special-representative-tells, 10. desember 2021);
  • Ousted in Coup, Sudan’s Prime Minister Returns via Military Deal (https://www.nytimes.com/2021/11/21/world/africa/sudan-coup-abdalla-hamdok.html, 22. nóvember 2021);
  • Sudan coup Human Rights Council hears calls for return to democratic rule (https://news.un.org/en/story/2021/11/1105012, 5. nóvember 2021);
  • Sudan coup: Military dissolves civilian government and arrests leaders (https://www.bbc.com/news/world-africa-59033142, 25. október 2021);
  • Sudan coup: Prime Minister Abdalla Hamdok resigns after mass protests (https://www.bbc.com/news/world-africa-59855246, 4. janúar 2022);
  • Sudan coup: Sudan forces fire tear gas at protesters (https://www.bbc.com/news/world-africa-59872232, 5. janúar 2022);
  • Sudanese forces kill 15 protesting the country’s recent coup, medics report. (https://www.nytimes.com/2021/11/17/world/africa/sudan-coup-protests.html, 17. nóvember 2021);
  • Sudan's military chief reinstates prime minister ousted after last month's coup (https://edition.cnn.com/2021/11/21/africa/sudan-military-chief-hamdok-deal-intl/index.html, 22. nóvember 2021);
  • Sudan: Mistrust deepens following military takeover (https://news.un.org/en/story/2021/12/1107662, 10. desember 2021) og
  • The Armed Conflict Location & Event Data Project (https://acleddata.com/dashboard/#/dashboard, skoðað 13. janúar 2022).

Súdan er lýðveldi í Norðaustur-Afríku með tæplega 47 milljónir íbúa. Hinn 12. nóvember 1956 gerðist Súdan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1986. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1977. Árið 1986 skrifaði ríkið undir samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu en hefur ekki enn fullgilt samninginn.

Samkvæmt skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins frá 2019 var fyrrum forseti Súdan, Omar al-Bashir, hrakinn frá völdum hinn 11. apríl 2019 eftir 30 ára valdatíð. Það hafi gerst í kjölfar friðsamlegra mótmæla sem staðið hafi yfir um nokkurra mánaða skeið en þau megi rekja til þess að djúp efnahagskreppa hafi verið í landinu. Herinn hafi tilkynnt að búið væri að leysa ríkisstjórn landsins upp og að stjórnarskrá landsins væri runnin út. Á sama tíma hafi þinginu verið slitið. Mótmæli hafi brotist út í kjölfarið og í júní 2019 hafi herinn stöðvað friðsamleg mótmæli með þeim afleiðingum að a.m.k. hundrað óbreyttir borgarar hafi dáið. Eftir tveggja mánaða milligöngu Afríkusambandsins og Eþíópíu hafi súdanski herinn og mótmælahreyfingin í landinu komist að samkomulagi í ágúst 2019. Samkomulagið hafi m.a. falið í sér undirritun stjórnarskráyfirlýsingar og stofnun fulltrúaráðs þar sem bæði óbreyttir borgarar og fulltrúar hersins hafi fengið sæti. Jafnframt hafi sérstök stjórn, skipuð sérfróðum aðilum, verið sett á fót með það hlutverk að leiða vinnu fulltrúaráðsins fyrstu þrjú árin.

Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2021 var bráðabirgðastjórn undir stjórn almennra borgara komið á fót í Súdan í ágúst 2019 og hafi ríkisstjórnin verið leidd af Abdalla Hamdok, forsætisráðherra Súdan, sem jafnframt hafi farið fyrir ráðherranefndinni (e. Council of Ministers). Bráðabirgðalöggjafarráð hafi ekki enn verið stofnað í lok árs 2020. Bráðabirgðastjórn Súdan hafi vilja til að efla lýðræði, réttarríkið og mannréttindi í ríkinu en áskoranirnar séu þó margar. Samkvæmt stjórnarskráryfirlýsingu Súdan hafi almennar kosningar verið áætlaðar árið 2022 en í kjölfar undirritunar Juba-friðarsamkomulagsins hinn 3. október 2020 hafi þeim verið frestað til ársins 2024. Friðarsamkomulagið hafi verið hluti af lagaumbótum bráðabirgðastjórnarinnar með það að markmiði að enda áratugalöng innanlandsátök í Súdan. Meðal annarra lagaumbóta hafi verið breytingar á refsilöggjöf sem falið hafi í sér bann við kynfæralimlestingum á konum og stúlkum, afnám dauðarefsingar við kynmökum karlmanna og bætt frelsi trúarlegra minnihlutahópa. Samkvæmt framangreindri skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins hafi bráðabirgðastjórn Súdan m.a. gert samkomulag við Sameinuðu þjóðirnar í september 2019 um opnun skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í höfuðborginni, Kartúm, og opnun svæðisskrifstofa í fimm ríkjum landsins, þ. á m. Darfúr. Heimildir bera með sér að miklar framfarir hafi orðið á sviði mannréttinda í Súdan síðan bráðabirgðastjórn landsins tók við. Margar áskoranir séu þó eftir þar sem réttarkerfið sé í grundvallaratriðum það sama og fyrir stjórnarskiptin og taka muni tíma að koma úrbótum í framkvæmd.

Samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins bera innanríkisráðuneytið, varnarmálaráðuneytið og öryggissveitir Súdan (GIS) ábyrgð á innra öryggi ríkisins og hefur innanríkisráðuneytið m.a. eftirlit með störfum lögregluembætta landsins. Lögregluembættin skiptist í öryggislögreglu, sérsveit, umferðarlögreglu og herþjálfaða lögreglu (e. Central Reserve Police). Viðvera lögreglu sé um landið allt. Þá hafi varnarmálaráðuneyti Súdan eftirlit með störfum súdanskra hersveita, þ. á m. Rapid Support Forces (RSF), landamæravarða og leyniþjónustudeilda á sviði hernaðar og varnarmála. Samkvæmt skýrslu EASO frá 2020 er talið að hersveitir Súdan samanstandi af allt að 200.000 hermönnum sem ýmist starfi fyrir RSF, Popular Defence Forces (PDF), sjóherinn, loftherinn eða landherinn. Eftir að bráðabirgðastjórn Súdan hafi tekið við völdum árið 2019 hafi stjórn og eftirlit yfirvalda með öryggissveitum landsins batnað til muna. Öryggissveitir landsins hafi þó verið sakaðar um að stunda mannréttindabrot, m.a. pyndingar, morð, óhóflega valdbeitingu og nauðganir gagnvart almennum borgurum. Meðlimir öryggissveitanna fremji almennt glæpi í skjóli refsileysis.

Stjórnarskráryfirlýsing Súdan og önnur viðeigandi lög mæli fyrir um sjálfstæði dómstóla og hafi sjálfstæði og óhlutdrægni dómstóla almennt verið virt af stjórnvöldum. Bráðabirgðastjórn landsins hafi staðið fyrir hreinsun innan dómsvaldsins sem hafi falið í sér uppsögn fjölda dómara víðsvegar um landið sem taldir hafi verið spilltir eða með sterk tengsl við fyrri ríkisstjórn landsins. Súdönsk lög mæli fyrir um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar en sá réttur sé þó ekki alltaf virtur af dómstólum. Spilling sé víðtæk innan hins opinbera geira þrátt fyrir að lög mæli fyrir um refsingu fyrir spillingu opinberra starfsmanna. Þáverandi ríkisstjórn Súdan hafi stuðst við almenn lög og ákvæði stjórnarskráryfirlýsingarinnar til að berjast gegn opinberri spillingu með ágætum árangri, m.a. með stofnun sérstakrar nefndar sem hafi það hlutverk að endurheimta fé og eignir sem starfsmenn fyrri ríkisstjórna og frjálsra félagasamtaka hafi tekið ófrjálsri hendi.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Minority Rights Group er arabíska hið opinbera tungumála í Súdan en önnur algeng tungumál eru m.a. Nubian, Nilotic og Sudanic. Þá teljist um 70% íbúa vera súdanskir arabar og um 30% tilheyri afrískum minnihluta. Flestir íbúar Súdan, eða um 97% þeirra, séu súnní-múslímar en þó séu til kristin samfélög, einkum í suðurhluta landsins og Kartúm. Samkvæmt skýrslu breska utanríkisráðuneytisins frá 2019 eru fjölmargir ættbálkar í Súdan. Ættbálkurinn Tunjur teljist til afrískra ættbálka í landinu. Stærstu afrísku ættbálkarnir í Súdan séu Fur, Zaghawa og Massalit en um 70% íbúa í Darfúr tilheyri þeim. Ættbálkarnir Tunjur og Djaju teljist einnig vera stórir ættbálkar, einkum í norðurhluta Darfúr.

Samkvæmt skýrslunni Health Care System in Sudan er súdanska heilbrigðiskerfinu skipt í þrjú stig. þ.e. á vegum alríkisins, ríkja og héraða. Þá sé starfrækt eitt ráðuneyti á vegum alríkisins, Federal Ministry of Health (FMOH), og 18 ráðuneyti á vegum ríkjanna (SMOH). Alríkið sé ábyrgt fyrir því að tryggja almenna heilbrigðisstefnu, áætlanir, heildareftirlit og mat, samhæfingu, þjálfun og utanaðkomandi samskipti. Ríkin styðjist við leiðbeiningar alríkisins hvað varðar áætlanir og fjármagn en séu ábyrg fyrir sinni stefnu. Þá sé það hlutverk héraða að tryggja almenna heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa. Héröðin séu m.a. ábyrg fyrir því að tryggja vatns- og hreinlætisþjónustu fyrir sína íbúa. Þessi stigskipting innan súdanska heilbrigðiskerfisins sé lykilatriði í því að tryggja góða dreifingu á heilbrigðisþjónustu. Þó hafi rannsókn frá árinu 2006 leitt í ljós að um 70% heilbrigðisstarfsfólks hafi þá starfað í þéttbýlum, þar sem einungis um 30% íbúa Súdan búi, flest í höfuðborginni Kartúm. Samkvæmt skýrslunni hafi súdönsk heilbrigðisyfirvöld gert nokkrar umbætur innan geirans til að tryggja m.a. að heilbrigðisþjónusta sé réttur hvers og eins, að þjónustan sé alhliða og að jafnræðis sé gætt. Þá sé öflug og fjölbreytt heilbrigðisþjónusta veitt innan einkageirans. Starfandi séu margar einkareknar heilsugæslustöðvar, auk sjúkrahúsa þar sem veitt sé bæði alhliða- og sérhæfð þjónusta. Einnig starfi fjölmörg óhagnaðardrifin samtök víða um landið, t.a.m. Læknar án landamæra, sem reki fjölda sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og þá einkum á stríðshrjáðum svæðum. Samkvæmt skýrslunni Sudan‘s mental health service frá 2019 eru a.m.k. sex geðsjúkrahús í höfuðborginni Kartúm þar sem íbúar hafa aðgang að endurgjaldslausri geðheilbrigðisþjónustu. Íbúar á strjálbýlum svæðum hafi takmarkaðan aðgang að geðheilbrigðis­þjónustu, einkum vegna skorts á geðheilbrigðisstarfsfólki. Í 12 sambandsríkjum af 18 séu starfandi geðsjúkrahús sem rekin séu af geðlæknum. Í hinum sex ríkjunum séu geðsjúkrahús ýmist rekin af ósérhæfðum læknum, klínískum sálfræðingum eða aðstoðarmönnum lækna.

Hinn 25. október 2021 var valdarán framið í Súdan af hálfu hersins undir stjórn herforingjans Abdel Fattah al-Burhan. Samkvæmt framangreindum fréttaveitum, m.a. BBC, var þáverandi forsætisráðherra landsins, Abdalla Hamdok, handtekinn og látinn sæta stofufangelsi ásamt þeim sem sátu í ríkisstjórn hans. Í kjölfar valdaránsins hafi sprottið upp mikil mótmæli í landinu, einkum í höfuðborginni Kartúm. Öryggissveitir hafi brugðist við með óhóflegu valdi og m.a. beitt skotvopnum gagnvart mótmælendum. Samkvæmt frétt BBC hafa m.a. Bandaríkin, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar fordæmt valdaránið, en bráðabirgðaríkisstjórn Abdalla Hamdok og súdanski herinn höfðu farið saman með völd frá árinu 2019 eftir að einræðisherranum Omar al-Bashir var steypt af stóli. Samkvæmt frétt BBC frá 4. janúar 2022 sagði þáverandi forsætisráðherra landsins, Abdalla Hamdok, af sér hinn 2. janúar 2022 í kjölfar mótmæla þar sem því var mótmælt að hann hefði gert samning um að fara saman með völd í landinu við þann aðila sem staðið hafi að baki valdaráninu. Mótmælendur hafi litið svo á að um svik af hálfu forsætisráðherrans væri að ræða. Herforinginn Abdel Fattah al-Burhan hafi þó lýst því yfir að kosningar muni fara fram í júlí 2023.

Frá 25. október 2021 til 10. desember 2021 voru skráð 327 dauðsföll á vefsíðu The Armed Conflict Location & Event Data Project (ACLED), 23 bardagar, 34 tilfelli af ofbeldi gegn almennum borgurum og 201 mótmæli. Samkvæmt frétt CNN frá 31. desember 2021 hafa a.m.k. 52 verið myrtir af hálfu súdanskra öryggissveita í mótmælum í kjölfar valdaránsins. Samkvæmt tölfræði ACLED náðu mótmæli í landinu hámarki í nóvember 2021 og hefur þeim farið fækkandi á undanförnum vikum. Jafnframt hafi ofbeldi gegn almennum borgurum farið minnkandi síðan það náði hámarki í nóvember 2021. Í framangreindri frétt BBC frá 4. janúar 2022 kemur fram að núverandi ástand í Súdan skapi hættu á að landið muni aftur lúta yfirráðum einræðisstjórnar. Þá sé jafnframt hætta á að Bandaríkin muni beita súdönsk yfirvöld refsiaðgerðum sem geti haft talsverð áhrif á efnahag landsins og aukið fátækt almennra borgara í landinu.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Umsókn kæranda um alþjóðlega vernd var byggð á því að hann ætti á hættu ofsóknir í heimaríki sínu, Súdan, af hálfu eiginmanns konu sem hann hafi átt í ástarsambandi við. Í endurupptökubeiðni kæranda kemur ekkert fram sem breytir fyrra mati nefndarinnar á þeim þáttum sem gætu heyrt undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Telur kærunefnd því að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Endurupptökubeiðni kæranda byggir aðallega á því að öryggisástand í heimaríki hans hafi versnað og að aðstæður hans falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað hafa verið fjölmörg mótmæli og átök þeim tengdum í heimaborg kæranda, Kartúm, í kjölfar nýlegs valdaráns í heimaríki hans, Súdan. Þrátt fyrir það benda heimildir ekki til þess að almennar aðstæður í Súdan séu þess eðlis að kærandi teljist eiga á hættu meðferð sem falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Heimildir bera með sér að það ofbeldi sem átt hafi sér stað af hálfu súdanskra öryggissveita gagnvart almennum borgurum hafi einkum beinst að mótmælendum sem hafi tekið þátt í mótmælum gegn valdaráninu og sitjandi stjórnvöldum. Þá bendi tölfræði ACLED til þess að mótmælum og átökum fari fækkandi í Súdan. Af þeim upplýsingum sem kærunefnd hefur yfirfarið varðandi nýlega þróun mála í heimaríki kæranda er ekkert sem bendir til þess að sú upplausn í stjórn landsins sem valdaránið olli hafi leitt til þess að í landinu ríki vopnuð átök eða almennar óeirðir sem valdi því að borgarar landsins séu í hættu á að láta lífið eða verða fyrir alverlegum skaða. Þá er ekkert í gögnum málsins eða upplýsingum um heimaríki kæranda sem bendir til þess að hann eigi af öðrum ástæðum á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu snúi hann aftur til heimaríkis.

Það hvort aðstoð Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM) til sjálfviljugrar heimfarar standi kæranda til boða eða ekki hefur ekki áhrif á framangreint mat kærunefndar enda lúta ákvarðanir IOM um það hvort stofnunin telji sér fært að aðstoða aðila við sjálfviljuga heimför öðrum viðmiðum en mat á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt upplýsingum frá IOM eru listar yfir þau ríki þar sem í gildi eru takmarkanir á aðstoð ekki hugsaðir til þess að vera leiðbeinandi fyrir ríki. Listarnir séu m.a. grundvallaðir á mati fulltrúa IOM sem staðsettir eru í viðkomandi löndum, öryggi starfsfólks IOM og þeirra sem stofnunin aðstoði, sem og getu IOM til að framkvæma verkefnin. Það athugast að samkvæmt upplýsingum frá IOM hefur stofnunin ekki lokað fyrir alla aðstoð heldur eru umsóknir metnar með einstaklingsbundnum hætti, svo sem rakið er nánar hér að neðan.

Þrátt fyrir að fallist sé á það með kæranda að óvissa og óstöðugleiki ríki í Súdan í kjölfar valdaráns af hálfu hersins í landinu þá eru aðstæður að mati nefndarinnar þó ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í endurupptökubeiðni kæranda byggir kærandi á því að honum skuli vera veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna slæms ástands í heimaríki hans. Þá bar kærandi því við í fyrri málsmeðferð að andleg heilsa hans væri slæm og að horfa yrði til þeirrar hættu sem honum stafi af Covid-19 faraldrinum.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar almennar aðstæður. Þar segir að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Líkt og fram hefur komið er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að óvissa og óstöðugleiki ríki í Súdan í kjölfar nýlegs valdaráns beri heimildir ekki með sér að viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í landinu eða að aðstæður séu slíkar að kærandi teljist hafa ríka þörf fyrir vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í úrskurði kærunefndar frá 12. ágúst 2021 var það niðurstaða kærunefndar hvað varðar andlega og líkamlega heilsu kæranda að sú meðferð sem kærandi þarfnist verði hvorki talin vera svo sérhæfð að hann geti einungis hlotið hana hérlendis né að ef hún yrði rofin yrði það til tjóns fyrir hann verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Samkvæmt gögnum sem kærunefnd skoðaði við fyrri málsmeðferð þá stóð kæranda til boða geðheilbrigðisþjónusta í heimaríki en og aðgengi að heilbrigðisþjónustu í þéttbýli, einkum í höfuðborginni þar sem kærandi kveðst hafa haft búsetu, væri talsvert betra en á strjálbýlli svæðum. Nýlegar upplýsingar um heimaríki kæranda benda ekki til þess að breyting hafi orðið á í kjölfar valdaránsins. Kærandi hefur þá ekki lagt fram gögn sem benda til þess að heilsufar hans hafi breyst frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Er það mat kærunefndar að kærandi muni hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu í heimaríki telji hann þörf á því, þ.á.m. geðlæknum og sálfræðingum.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

 

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér landi hinn 31. maí 2019. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi m.a. fram skjal sem hann kveður vera handtökuskipun á hendur sér. Skjalið var sent til rannsóknar hjá lögreglu og voru niðurstöður hennar þær að líta beri á breytingar líkt og þær sem gerðar voru á skjalinu sem fölsun, enda væri ekkert sem gæfi til kynna að breytingarnar væru gerðar af opinberum aðila. Að mati kærunefndar verður því að líta svo á að kærandi hafi framvísað fölsuðu skjali með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd, sbr. a-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er ljóst að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á ekki við um kæranda, sbr. 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er að finna heimild til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. þegar sérstaklega stendur á. Er það mat kærunefndar að aðstæður í máli kæranda séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður honum ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna.

Bráðabirgðadvalarleyfi á grundvelli 77. gr. laga um útlendinga

Í endurupptökubeiðni kæranda kemur fram að hann hafi óskað eftir aðstoð Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar (IOM) við sjálfviljuga heimför til Súdan en fengið þau svör að sú aðstoð hefði verið stöðvuð m.a. vegna öryggisástands í Súdan í kjölfar valdaránsins. Í tölvubréfi sem kærunefnd barst frá Útlendingastofnun hinn 16. desember 2021 kom fram að IOM hafi hafið að aðstoða tiltekna einstaklinga við sjálfviljuga heimför til Súdan, en að hvert og eitt tilvik yrði að vera metið (e. pre-clearance). Í ljósi framangreinds sendi kærunefnd tölvubréf til IOM hinn 17. desember 2021 þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað lægi að baki ákvörðun IOM um að stöðva aðstoð við sjálfviljuga heimför og hvort slíkt hefði þá þýðingu að hættulegt væri fyrir einstaklinga að fara að sjálfsdáðum, þ.e. án aðstoðar IOM. Jafnframt óskaði kærunefnd eftir nánari skýringum á því hvað fælist í hugtakinu pre-clearance list. Í svari sem kærunefnd barst frá IOM dagana 23. desember 2021 og 5. janúar 2022 kom fram að þegar aðstæður í ríkjum séu metnar mjög alvarlegar séu allar endursendingar stöðvaðar af hálfu IOM. Stundum sé þó hægt að aðstoða suma einstaklinga en að hvert og eitt mál verði að vera metið sjálfsætt. Stundum sé t.d. ekki möguleiki að senda viðkvæma hópa til tiltekinna ríkja. Þá kom fram að 2. nóvember 2021 hafi IOM sett Súdan á svokallaðan „suspension list“ þar sem allar endursendingar hafi verið stöðvaðar. Hinn 1. desember 2021 hafi Súdan verið tekið af þeim lista en verið sett á svokallaðan „pre-return clearance list“ vegna öryggisástands og óeirðar í landinu. Þá kom fram í svari IOM að framangreindir listar séu hluti af verkferlum stofnunarinnar og séu ekki hugsaðir til þess að vera leiðbeinandi fyrir ríki. Listarnir séu m.a. grundvallaðir á mati fulltrúa IOM sem staðsettir séu í viðkomandi löndum, öryggi starfsfólks IOM og þeirra sem stofnunin aðstoði, sem og getu IOM til að framkvæma verkefnin. Endursendingar séu einungis stöðvaðar í algjörum neyðartilfellum.

Af svari IOM verður ráðið að kærandi geti leitað til IOM um aðstoð við sjálfviljuga heimför en eins og sakir standa verði slík umsókn hans metin á einstaklingsbundinn hátt með tilliti til aðstæðna í heimaríki hans. Líkt og áður greinir er það jafnframt mat kærunefndar, með vísan til heimilda um almennar aðstæður í Súdan, að kærandi eigi þess kost að fara að sjálfsdáðum til heimaríkis þar sem ekki verður talið að hann muni eiga á hættu meðferð sem falli undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Kærunefnd telur þó ástæðu til þess að leiðbeina kæranda um það að samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laga um útlendinga er heimilt eftir umsókn útlendings sem sótt hefur um alþjóðlega vernd að veita honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsóknina. Einnig er heimilt að beiðni útlendings sem hefur fengið endanlega synjun um alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi, sem kemur ekki til framkvæmda að svo stöddu, að veita honum bráðabirgðadvalarleyfi þar til synjunin kemur til framkvæmda. 

Með tilliti til aðstæðna kæranda bendir kærunefnd á að hann getur lagt fram umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi, sbr. 77. gr. laga um útlendinga telji hann sig ekki geta farið til heimaríkis að svo stöddu. Kærunefnd tekur þó fram að með þessu tekur nefndin enga afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til slíks leyfis.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands hinn 11. maí 2019 og sótti um alþjóðlega vernd hinn 31. maí 2021. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 


 

Úrskurðarorð:

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The appellant’s request for re-examination of his case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta