Hoppa yfir valmynd

Nr. 394/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. ágúst 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 394/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21070034 og KNU21070064

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Þann 3. júní 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Ungverjalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 7. júní 2021. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 14. júní 2021. Beiðni kæranda var synjað af kærunefnd þann 24. júní 2021.

Þann 14. júlí 2021 barst kærunefnd endurupptökubeiðni kæranda. Þá óskaði kærandi jafnframt eftir frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar. Sama dag bárust kærunefnd upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun um málsmeðferð í máli kæranda. Þá bárust upplýsingar frá Útlendingastofnun dagana 15. og 22. júlí 2021. Dagana 15., 21 og 21. júlí 2021 bárust athugasemdir og gögn frá talsmanni kæranda. Þann 22. júlí 2021 var stoðdeild ríkislögreglustjóra send fyrirspurn sem ítrekuð var þann 27. júlí þar sem engin svör höfðu borist kærunefnd. Þá hafði starfsmaður kærunefndar samband við stoðdeild ríkislögreglustjóra símleiðis þann 9. ágúst 2021 og ítrekaði fyrirspurn sem send var deildinni þann 22. júlí 2021. Þann 17. og 18. ágúst 2021 bárust kærunefnd frekari gögn og upplýsingar frá kæranda.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 14. júlí 2020. Hinn 14. júlí 2021 hafi því 12 mánuðir verið liðnir frá því að umsókn hans um alþjóðlega vernd var lögð fram. Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á því að þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir frá umsókn hans og tafir á meðferð málsins séu ekki á hans ábyrgð skuli taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með vísan til framangreinds er gerð sú krafa að mál hans verði endurupptekið og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Þá er í beiðni kæranda um endurupptöku farið fram á að kærunefnd fresti réttaráhrifum úrskurðarins á meðan beiðni um endurupptöku er til meðferðar hjá kærunefnd þar sem flutningur kæranda úr landi sé áætlaður þann 15. júlí 2021.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hafi samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum sé þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar séu í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þótt 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 14. júlí 2020 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti þann 14. júlí 2021. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 14. júlí 2021 sendi kærunefnd fyrirspurn til Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra (hér eftir Stoðdeild) þar sem óskað var eftir upplýsingum um það hvort kærandi hefði tafið mál sitt að einhverju leyti, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari frá Stoðdeild sem barst kærunefnd sama dag kom fram að stoðdeildin hefði fengið mál kæranda til framkvæmda þann 6. júlí 2021 og hafið strax undirbúning. Framkvæmd hafi verið áætluð 15. júlí 2021 til Ungverjalands og hafi kæranda verið tilkynnt það.

Þann 14. júlí 2021 bárust kærunefnd þau svör frá Útlendingastofnun að kærandi hafi verið skráður horfinn og eftirlýstur frá og með 12. júlí 2021 þar sem hann hafi ekki mætt í Covid-19 sýnatöku fyrir flutning auk þess að hafa látið sig hverfa úr búsetuúrræði sínu. Sama dag bárust athugasemdir frá talsmanni kæranda við afstöðu Útlendingastofnunar. Fram kom í athugasemdum talsmanns að því væri með öllu mótmælt af hálfu kæranda að hann hafi látið sig hverfa en hann hafi verið í reglulegum samskiptum við lögreglu, síðast um morguninn 14. júlí 2021, og þá hafi kærandi mætt í Covid-19 sýnatöku í tvígang síðustu daga sem lögreglu hafi verið fullkunnugt um.

Þann 22. júlí 2021 sendi kærunefnd fyrirspurn til Stoðdeildar. Óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um það hvernig þær leiðbeiningar voru sem kæranda hafi verið gefnar þann 8. júlí um sýnatöku sem hann hafi átt að fara í 12. júlí, svo sem hvort það hafi verið gert með aðstoð túlks, því kærunefnd hefði undir höndum gögn um að hann hafi farið í Covid-19 sýnatöku í Orkuhúsinu þann dag. Þá greindi kærunefnd frá því að samkvæmt athugasemdum frá talsmanni kæranda hafi hann mætt í Covid-19 sýnatöku samkvæmt fyrirmælum að morgni mánudagsins 12. júlí og eftir hádegi þann dag hafi bæði kærandi og talsmaður hans rætt símleiðis við fulltrúa stoðdeildar sem hafi staðfest að fluginu yrði seinkað þar sem kærandi hafi átt bókaðan tíma hjá lækni á miðvikudeginum, 14. júlí, kl. 16. Hafi fulltrúinn greint frá því að flugið yrði þann 15. júlí og að kærandi skyldi mæta í Covid-19 sýnatöku daginn áður, þann 14. júlí. Hafi kærandi samþykkt þetta fyrirkomulag. Óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um það hvort framangreind samskipti við fulltrúa stoðdeildar hafi átt sér stað, og ef svo væri, hvort komist hafi verið að samkomulagi um seinkun flugs fram til 15. júlí. Ítrekaði kærunefnd framangreinda fyrirspurn þann 27. júlí en þar sem engin svör bárust hringdi lögfræðingur hjá nefndinni í Stoðdeildina og ítrekaði fyrirspurnina. Kvaðst aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Stoðdeildinni ætla að kanna málið og hafa samband. Kærunefnd sendi Stoðdeildinni ítrekun á beiðni nefndarinnar um upplýsingar þann 12. ágúst en engin svör bárust. Í málinu liggur því ekki fyrir afstaða Stoðdeildar til þeirra samskipta og atvika sem kærandi kveður að átt hafi sér stað þann 8. og 12. júlí 2021.

Af gögnum málsins liggur fyrir að ágreiningur er um málsatvik, einkum hvað átti sér stað dagana 12. júlí og 14. júlí 2021. Meðal annars má ráða af gögnum málsins að kæranda hafi ekki verið kunnugt um að Stoðdeildin sæi um að panta tíma í sýnatöku og fara með honum í hana en eins og gögnin bera með sér hafi hann í bæði skiptin, þ.e. dagana 12. og 14. júlí, farið í sýnatökuna sjálfur. Eins og að framan greinir þá hafa engin svör borist frá Stoðdeild um það hvernig kæranda hafi verið leiðbeint um það ferli, svo sem hvort hann hafi verið upplýstur á hans móðurmáli með aðstoð viðeigandi túlkaþjónustu. Þar af leiðandi er ekki annað tækt en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að upplýsingar um ferlið hvað varðar sýnatöku fyrir Covid-19 hafi mögulega ekki legið nægilega skýrt fyrir. Þá liggja ekki fyrir gögn um það hvernig samskiptum milli kæranda og talsmanns hans við Stoðdeild umrædda daga hafi verið háttað og því ekki hægt að fullyrða að kærandi hafi ekki látið ná í sig og komið sér þannig hjá framkvæmd úrskurðar. Verður kærandi því látinn njóta þess vafa sem uppi er hvað framangreind málsatvik varðar og er það mat kærunefndar að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi verði því ekki taldar vera á ábyrgð kæranda sjálfs.

Þrátt fyrir að fyrir hafi legið samþykki frá kæranda um það að láta flytja sig laust eftir miðnætti þann 15. júlí 2021 þá var það samt sem áður orðið of seint og 12 mánaða fresturinn skv. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga liðinn. Hafi bæði Útlendingastofnun og Stoðdeild ríkislögreglustjóra átt að vera það ljóst. Í gögnum málsins er ekki að finna upplýsingar um það að hægt hefði verið að framkvæma flugið þann 14. júlí 2021 og því er að mati kærunefndar ekki ástæða til að taka sérstaka afstöðu til þess hvort kærandi hafi með athöfnum sínum þann dag tafið mál sitt.

Með hliðsjón af framangreindu er því ekki grundvöllur fyrir kærunefnd til að ákvarða að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er uppfyllt og ber að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Í ljósi framangreinds er því fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu kærunefndar þykir ekki ástæða til þess að taka afstöðu til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar og er þeirri kröfu því vísað frá kærunefnd.

 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                       Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta