Hoppa yfir valmynd

310/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 310/2020

Miðvikudaginn 30. september 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 16. júní 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. júní 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 30. mars 2020. Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. júní 2020, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. maí 2020 til 30. apríl 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júní 2020. Með bréfi, dags. 23. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. júlí 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júlí 2020. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Ráða má af kæru að kærandi óski eftir því að umsókn hans um örorkulífeyri og tengdar greiðslur verði samþykkt.

Í kæru greinir kærandi frá því að hann sé með bráðaristilbólgu og auk þess sé hann með þunglyndi og kvíða sem komi sterkt fram þegar hann fái ristilbólguköst. Kærandi sé í meðferð við ristilbólgunni hjá C meltingarlækni og sé jafnframt í sálfræðiviðtölum vegna þunglyndisins og kvíða. Kærandi hafi stundað nám skólaárið 2019 til 2020 sem lið í endurhæfingu. Kærandi hafi oft átt mjög erfitt með að mæta vegna fyrrgreindra veikinda og sé hvorki fær um að stunda vinnu né fullt nám.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun, dags. 5. júní 2020, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri en að veita honum örorkustyrk.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð um örorkumat nr. 379/1999, sem sett sé með skýrri lagastoð. Staðlinum sé skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum sé fjallað um líkamlega færni og þurfi að fá 15 stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lúti að andlegri færni. Þar leggist öll stig saman og þurfi tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins, geti hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat sé heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, þ.e. utan örorkustaðals, ef tryggingayfirlæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt í ljósi þess að 18. gr. laga um almannatryggingar mæli fyrir um staðlað mat og eins samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar til langframa. Mat á skilyrðum örorkustyrks sé því framkvæmt sem mat á starfsorkuskerðingu, þ.e. getu til að afla atvinnutekna.

Við afgreiðslu málsins hjá Tryggingastofnun hafi legið fyrir umsókn um örorkulífeyri, dags. 30. mars 2020, svör við spurningalista, dags. 6. apríl 2020, staðfesting á að endurhæfing væri fullreynd, dags. 29. apríl 2020, og læknisvottorð, dags. 4. mars 2020.

Samkvæmt bréfi Tryggingastofnunar, dags. 29. janúar 2020, hafi kærandi fengið metið endurhæfingartímabil í fjóra mánuði frá 1. janúar til 30. apríl 2020. Við lok þess tímabils hafði kærandi fullnýtt 36 mánaða rétt sinn til endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun hafi vegna framkominnar kæru farið á ný yfir gögn málsins og athugasemdir kæranda til úrskurðarnefndar. Engin ný gögn hafi fylgt kæru.

Í læknisvottorði, dags. 4. mars 2020, komi fram að kærandi sé X ára karlmaður sem hafi verið óvinnufær síðan X 2020. Hann sé með sáraristilbólgur (e. ulcerative colitis) sem sé erfiður meltingarsjúkdómur og hafi hann verið með verra móti síðustu X. Fram komi að kærandi þjáist af alvarlegu þunglyndi með sterkum kvíðaþætti. Hann njóti aðstoðar meltingarlæknis og sálfræðings vegna sjúkdóma sinna, auk þess að taka lyf.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi örorkustyrkur verið ákveðinn á grundvelli örorkumats sem fram hafi farið 5. júní 2020 að teknu tilliti til skoðunarskýrslu, dags. 28. maí 2020. Í skýrslunni sé vísað til þess að kærandi hafi átt við fíkniefnavanda að stríða. Hann hafi farið í meðferð fyrir X árum og verið edrú síðan, að eigin sögn. Á svipuðum tíma hafi hann greinst hann með sáraristilbólgur og hafi verið í eftirliti hjá meltingarlækni og í lyfjameðferð síðan. Samhliða því hafi hann þjáðst af þunglyndi og kvíða sem tengist heilsu hans og afkomu. Kærandi segist fá kviðverkjaköst með blóðugum hægðum á 4-5 vikna fresti og sé þá slæmur í nokkra daga eftir það. Þess utan sé hann líkamlega nokkuð hraustur. Enn fremur segi að atvinnusaga hans hafi lengi verið brotin vegna heilsuvanda og engin seinustu X ár.

Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis, dags. 28. maí 2020, hafi kærandi ekki fengið stig í líkamlega hlutanum en átta í þeim andlega. Þar komi fram að geðræn vandamál kæranda valdi erfiðleikum í tjáskiptum við aðra, kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hann fyrir veikindin, andleg streita hafi átt þátt í að hann hætti að vinna, hann kvíði því að sjúkleikinn versni fari hann aftur að vinna, hann þjáist oft af geðsveiflum einhvern hluta dagsins og svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf.

Þessi stigagjöf nægi ekki til að uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig. Enn fremur sé þessi stigagjöf í samræmi við umsögn skoðunarlæknis um geðheilsu kæranda þar sem segi meðal annars að hann þjáist af kvíðaröskun, þunglyndi og fíknisjúkdómi. Þess utan sé hann vel áttaður og í eðlilegum tengslum við raunveruleikann.

Niðurstaða örorkumats Tryggingastofnunar hafi verið sú að skilyrði staðals um hæsta örorkustig væru ekki uppfyllt en færni kæranda til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta. Á þeim grundvelli hafi örorkustyrkur verið ákveðinn fyrir tímabilið 1. maí 2020 til 30. apríl 2022. Einnig hafi legið fyrir að kærandi hefði áður verið á endurhæfingarlífeyri frá 1. maí 2017 til 30. apríl 2020.

Skoðunarskýrsla, dags. 28. maí 2020, sé lögð til grundvallar við örorkumatið. Samanburður á þeim gögnum sem hafi legið til grundvallar ákvörðunum Tryggingastofnunar í máli þessu bendi ekki til þess að ósamræmi sé á milli skoðunarskýrslu og annarra gagna um færniskerðingu kæranda. Þannig komi fram í læknisvottorði, dags. 4. mars 2020, á spurningalista, dags. 6. apríl 2020, og í skoðunarskýrslu, dags. 28. maí 2020, sömu upplýsingar um sáraristilbólgur, þunglyndi og kvíða kæranda. Verði þannig ekki séð að örorkumat, dags. 5. júní 2020, sé byggt á öðrum upplýsingum en þeim sem kærandi hafi sjálfur veitt og hafi verið staðfestar af skoðunarlækni. Því sé ljóst að þeir sjúkdómar sem kærandi hrjáist af leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnunum og einkennin fá stoð í lýsingu atvika daglegs lífs kæranda.

Beiting undantekningarákvæðis 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 sé að mati Tryggingastofnunar aðeins heimil ef líkamleg og andleg færni sé svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati Tryggingastofnunar eigi það ekki við í tilviki kæranda.

Að öllu samanlögðu gefi fyrirliggjandi gögn ekki tilefni til að ætla að kærandi uppfylli skilyrði 18. gr. laga um um almannatryggingar um að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, sbr. einnig skilyrði staðals um örorku samkvæmt reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Með vísan til framanritaðs sé það því niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun, þ.e. að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri en veita honum örorkustyrk, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn, byggð á faglegum sjónarmiðum og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. júní 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 4. mars 2020, þar sem óvinnufærni kæranda er tilgreind frá X 2020 og fram kemur að búast megi við að færni aukist eftir læknismeðferð. Samkvæmt vottorðinu eru sjúkdómsgreiningar kæranda eftirfarandi:

„[Other ulcerative colitis

Hypothyroidism, unspecified

Drug addiction

Depressio reactiva]“

Um heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„1. Er að ná áttum eftir Grettistak. Runnin út af endurhæfingarlífeyri, þarf frekari endurhæfingar með.

2. Er með colotis ulcerosa og hefur verið með verra móti síðutu mánuði. Erum að leita jafnvægis me þennan erfiða sjúkdóm í samvinnu við meltingarlækni A, C læknir.

3. A þjáist af reactivu þunglyndi, við erum að stilla inn lyfin, njótuym hjálpar sálfræðings vegna sjúkdóms A. Þurfum stuðning psychiaters of erum að leita eftir slíkum.“

Um lýsingu læknisskoðunar kæranda segir:

„[…] Það ber nokkuð á depressionshugmyndum, skorar á Bechs skala fyrir þunglyndi 39 stig, sem telst vera alvarlegt þunglyndi. Það er einnig sterkur kvíðaþáttur - tengist m.a. veirunni COVID-19, en varað er sérstaklega við því ef fólk er með undirliggjandi sjúkdóm. Má segja að slíkt eigi við um A vegna hans Colitis Ulcerosa.

[…]“

Í athugasemdum læknis segir:

„Ætlum að örorkutímabil standi í um 8 mánuði, þá ætti að vera koið á jafnvægi, skólaganga stillt, lyf stillt inn og aðild psychiaters til sögunnar komin.“

Í bréfi frá D, dags. 24. apríl 2020, er greint frá endurhæfingu kæranda hjá Grettistaki sem hann hafi stundað í 36 mánuði. Í bréfinu segir að andleg og líkamleg veikindi hamli getu kæranda til að stunda fullt nám eða vinnu. 

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem hann skilaði til Tryggingastofnunar í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hann hafi verið greindur með colitis ulcerosa/sáraristilbólgur. Kærandi svarar spurningu um það hvort eigi í erfileikum með að stjórna hægðum þannig að hann sé í miklum erfiðleikum með það, hann geti þurft að hafa hægðir allt að fimm til sjö sinnum á dag þegar sjúkdómurinn sé sem verstur. Þá svarar kærandi játandi spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að stríða og tilgreinir í því sambandi mikið þunglyndi, depurð og kvíða. Í athugasemdum segir að kærandi hafi fyrir rúmum tveimur árum verið greindur með colitis ulcerosa og að hann hafi verið í endurhæfingu í 36 mánuði í gegnum Grettistak vegna alkóhólisma. Kærandi hafi verið edrú í þrjú og hálft ár, hafi stundið nám bæði í E og F. Kærandi hafi verið á þunglyndislyfjum allan þann tíma og í rannsóknum vegna colitis ulcerosa.

Skýrsla G skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 28. maí 2020. Samkvæmt skýrslunni metur skoðunarlæknir það svo að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu telur skoðunarlæknir að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hann áður en hann varð veikur. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni fari hann aftur að vinna. Skoðunarlæknir metur það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins og að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf hans. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Kvíðaröskun og þunglyndi, fíknisjúkdómur.“

Atferli kæranda í viðtali er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Gefur góða sögu. Grunnstemning telst vægt lækkuð. Undirliggjandi vægur kvíði og spenna. Snyrtilegur til fara. Skýrir vel frá. Vel áttaður. Eðlileg raunveruleikatengsl.“

Heilsufars- og sjúkrasögu er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Fram kemur að A […] hefur átt við fíkniefnavanda að stríða. Fór í meðferð fyrir X árum og hefur verið edrú síðan að eigin sögn. Er í tengslum við Grettistak. Fyrir X árum greindist hann með colitis ulcerosa og hefur verið í eftirliti hjá meltingarlækni og á lyfjameðferð. Samhliða veikindum hefur borið á þunglyndi og hefur hann verið settur á lyfjameðferð og líður betur og einnig hefur hann verið í viðtölum hjá sálfræðingi og á fundum hjá meðferðaraðilum. Lýsir nokkrum þunglyndiseinkennum þó minni en áður, talsverður kvíði tengist heilsunni og afkomunni. Kveðst fá kviðverkjaköst með blóðugum hægðum á 4-6 vikna fresti, er þá slæmur í nokkra daga, blóðugur niðurgangur en missir aldrei hægðir. Kveðst líkamlega nokkuð hraustur. […]“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„[…] Vaknar yfirleitt snemma. Er talsvert heima við á daginn. Sinnir heimilisstörfum að hluta. Fer á fundi og umgengst vini og ættingja. Stundar æfingar […]. Kveðst hafa keypt sér X sem hann er að gera við. Hefur stundað að mestu fjarnám undanfarið. Oftast heima um kvöld og helgar. Les lítið en horfir á sjónvarp og notar tölvu.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, engin. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda metur skoðunarlæknir það svo að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hann áður en hann varð veikur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni fari hann aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er andleg færniskerðing því metin til átta stiga.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga  um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk ekkert stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og átta stig úr andlega hlutanum, uppfylli hann ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta