Nr. 196/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 26. febrúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 196/2024
í stjórnsýslumálum nr. KNU24020038 og KNU24020039
Endurteknar umsóknir
og beiðnir um frestun réttaráhrifa í málum
[…], […]
og barnanna B og C
I. Málsatvik
Með úrskurðum kærunefndar útlendingamála nr. 708/2023 og nr. 709/2023, dags. 30. nóvember 2023 staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 30. ágúst 2023, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir M), lögráða barni M […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir A), og ólögráða börnum M, […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir B), […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir C), um að synja þeim um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Dagana 10. og 14. desember 2023 lögðu M og A (hér eftir m.a. kærendur) fram beiðnir um frestun réttaráhrifa á úrskurðum kærunefndar nr. 708/2023 og 709/2023 frá 30. nóvember 2023 og var þeim synjað af kærunefnd með úrskurðum 12/2014 og 11/2024 dags. 2. janúar 2024. Hinn 5. febrúar 2024 bárust kærunefnd endurteknar umsóknir kærenda og barnanna B og C og beiðnir um frestun réttaráhrifa á meðan umsóknir þeirra væru til meðferðar, skv. 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga. Kærunefnd barst greinargerð kærenda 6. febrúar 2024 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust 9. febrúar 2024.
Af greinargerð kærenda má ráða að umsóknir þeirra byggi á 35. gr. a laga um útlendinga nr. 80/2016.
II. Málsástæður og rök kærenda
Fram kemur í greinargerð kærenda að M og börn hans hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt vegna ofsókna af hálfu skæruliða. Lögreglan hafi ekki burði til að vernda þau auk þess sem aðstæður þeirra séu sérstaklega erfiðar og viðkvæmar vegna heilsufars M, en hann sé hjartveikur og geti ekki fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu. Kærendur leggja fram ný gögn um hjartasjúkdóm kæranda, gögn um andlega heilsu B, nýjar upplýsingar um opið barnaverndarmál fyrir Barnavernd í Hafnarfirði og ný gögn og upplýsingar um aðstæður í Kólumbíu. Í greinargerð er fjallað sérstaklega um mat á hagsmunum barnanna og lögð áhersla á að mikilvægt sé að búa M aðstæður sem geri honum kleift að veita börnum sínum þá umönnun og öryggi sem þau þarfnist og hafi rétt á. Í læknisnótum sé staðfest að M glími við lífshættulegan hjartasjúkdóm og margt bendi til þess að sjúkdómurinn fari versnandi. Í vottorði læknis á hjartalyflækningadeild LSH komi fram að M glími við alvarlega hjartabilun og þurfi á sérhæfðri meðferð að halda, bæði vegna hjartasjúkdóms og kæfisvefns. Þá sé undirstrikað mikilvægi þess að hann fái áframhaldandi eftirlit og lyfjameðferð. M hafi í tvígang þurft að leita á bráðamóttöku Landspítalans vegna verkja í hjarta. Í læknisvottorði, dags. 2. febrúar 2024, komi fram að M sé með alvarlega hjartabilun og sé í viðunandi hjartabilunarmeðferð hér á landi og með ígræddan bjargráð frá Kólumbíu. Til álita komi að meta hann fyrir hjartaígræðslu en hann sé í yfirþyngd og þurfi að grennast. M sé í reglulegu eftirliti á göngudeild hjartabilunar. Í greinargerð kemur fram að andlegri heilsu B hafi hrakað. Í vottorði sálfræðings komi fram að B sýni einkenni kvíða, þunglyndis og glími við svefnleysi og einbeitingarerfiðleika. Þá komi fram að B hafi orðið fyrir miklum áföllum og hann hafi lifað við mikinn ótta og íhugað að fremja sjálfsvíg. Í vottorði komi fram að B hafi hugrofseinkenni og glími við áfallastreituröskun, kvíða og þunglyndi. Endursending til Kólumbíu myndi að öllum líkindum leiða til þess að ástand hans yrði verra, en ljóst sé að hér á Íslandi líði honum betur og geti fengið aðstoð vegna andlegra veikinda sinna.
Með greinargerð voru jafnframt lögð fram ný gögn um mál Barnaverndar Hafnarfjarðar vegna fjölskyldunnar. Fram kemur að mál fjölskyldunnar hafi verið tilkynnt til mansalsteymis lögreglunnar þar sem grunur hafi verið um að C væri þolandi mansals. M hafi neitað þeim ásökunum, lagt fram fæðingarvottorð og boðist til að fara í DNA próf. Í nótum frá barnavernd, dags. 9. október 2023, kemur fram að rannsóknarlögreglan teldi ekki nauðsynlegt að rannsaka malið nánar og fallið hefði verið frá mansalsrannsókn. Hins vegar hafi verið efasemdir um hvort hagsmunum C væru best borgið hjá föður hennar með vísan til gagna málsins. Samkvæmt nótum frá barnavernd, dags. 17. október 2023 barst tilkynning til Barnaverndar vegna áhættuhegðunar B. Hann hafi glímt við kvíða og vanlíðan og í nótum frá 3. nóvember 2023, kemur fram að B hafi litið sem ekkert mætt í skólann vegna vanlíðunar. Í nótum, dags. 27. október 2023, kemur fram að gerð verði meðferðaráætlun til þriggja mánaða tilsjónar og eftirlits. Ástæða og markmið tilsjónar væri vegna gruns um að kærandi væri ekki faðir C. Ljóst sé að barnaverndarmáli B sé ólokið og hann sé í sálfræðimeðferð samkvæmt tilvísun Barnaverndar, m.a. vegna slæmra samskipta við föður sinn.
Með hliðsjón af því að barnaverndarmálinu sé ólokið fyrir Barnavernd verður ekki talið að hagsmunum barna M sé best borgið með því að þau verði flutt úr landi fyrir málalok. Ljóst sé að þessar nýju upplýsingar skuli teknar til skoðunar enda beri að taka ákvarðanir sem varði börn með hagsmuni þeirra að leiðarljósi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga. Lögð hafi verið fram ný gögn sem staðfesti frásögn og ótta M um að fjölskyldan hafi verið ofsótt og eigi á hættu að vera ofsótt við endurkomu.
Öryggisástand í Kólumbíu hafi versnað og lögreglan hafi ekki tök á að verja almenna borgara gegn glæpahópum í landinu. Vísað er til þess að málsmeðferðartími í máli þeirra hafi auk þess ekki verið í samræmi við afgreiðslutíma sambærilegra mála hjá kærunefnd. Kærandi telji ljóst að málshraði nefndarinnar bendi til þess að rannsóknarreglan og meginregla um bestu hagsmuni barnsins hafi lotið í lægra haldi. Kærandi gerir athugasemd við að ekki hafi verið tekið viðtal við C. Af gögnum málsins verði ekki ráðið að fulltrúi Útlendingastofnunar eða kærunefndar hafi upplýst M um rétt barnsins til að koma til viðtals. Með vísan til þessa er talið að brotið hafi verið á 10. gr. stjórnsýslulaga sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og meginreglum barnaréttar sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga.
Kærandi vísar til þess að A uppfylli skilyrði fjölskyldusameiningar, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga verði fallist á að veita M, B og C alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi hér á landi.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Beiðnir um endurteknar umsóknir á grundvelli 1.mgr. 35. gr. a laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna.
Ákvæði 35. gr. a. laga um útlendinga kom nýtt inn í lög um útlendinga með lögum nr. 14 frá 27. mars 2023. Kveður ákvæðið á um að endurtekin umsókn skuli tekin til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í málinu sem leiða til að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi ekki um ákvarðanir í málum er varða alþjóðlega vernd. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 14/2023 kemur fram að mælikvarðann um ,,sýnilega auknar líkur“ verði að túlka með hliðsjón af því að líkur séu á því að önnur niðurstaða fáist í málið vegna upplýsinga sem ekki lágu fyrir við meðferð upphaflegrar umsóknar. Gerir orðalag ákvæðisins og útskýringar í greinargerð því ekki þá kröfu að fullvissa sé fyrir því að niðurstaðan verði önnur en í fyrri umsókn. Þá verður einnig að líta til þess að við mat á endurtekinni umsókn má oft útiloka að hinar nýju upplýsingar hafi áhrif á fyrri niðurstöðu.
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurði í málum kærenda og barnanna B og C 30. nóvember 2023. Með úrskurðunum var komist að þeirri niðurstöðu að fjölskyldan uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ættu þau því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda, B og C væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundelli 74. gr. laga um útlendinga. Var það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnsins, sbr. 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, að það væri B og C fyrir bestu að fylgja föður sínum til heimaríkis.
Kærendur byggja endurteknar umsóknir sínar á því að nú liggi fyrir nýjar upplýsingar í máli þeirra en þau hafi lagt fram ýmis gögn varðandi heilsufar M og andlega heilsu B. Í úrskurði kærunefndar nr. 708/2023 frá 30. nóvember 2023, er ítarlega fjallað um heilbrigðisvanda M og möguleika hans á að fá meðferð í heimaríki. Þar kemur m.a. fram að öllum ríkisborgurum í Kólumbíu sé tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfinu í landinu, heilbrigðisþjónusta sé góð og sjúkratryggingakerfið í boði fyrir ríkisborgara með litlum tilkostnaði. M hafi lagt fram gögn um að hann hafi gengist undir aðgerðir, fengið bjargráð og verið í rannsóknum vegna sjúkdóms síns í heimaríki. Er það mat kærunefndar að M geti fengið þá heilbrigðisþjónustu og lyf sem hann þarfnist í heimaríki. Af þeim gögnum sem M hefur lagt fram með endurtekinni umsókn sinni verður ekki talið að tilefni sé til að breyta fyrra mati kærunefndar.
Í greinargerð kæranda er gerð athugasemd við að ekki hafi verið tekið viðtal við barnið C og að það varði ógildingu ákvörðunarinnar, sbr. 10 gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd tekur fram að í úrskurði nefndarinnar nr. 708/2023 kom fram að sjónarmiðum barnanna B og C hafi verið nægilega komið á framfæri með framburði M og A og með hagsmunagæslu talsmanns. Er röksemdum kærenda um að annmarki hafi verið á málsmeðferð hjá Útlendingastofnun hafnað.
Kærendur hafa einnig lagt fram gögn varðandi líðan B m.a. vottorð frá félagsráðgjafa dags. 25. janúar 2024 og sálfræðingi á Sálfræðistofunni, dags. 26. janúar 2024. Einnig voru lögð fram gögn frá Barnavernd Hafnarfjarðar. Með endurtekinni umsókn fylgdu jafnframt upplýsingar um mál M frá friðar- og eftirátakanefnd Öldungadeildar Kólumbíu, dags. 19. janúar 2024. Af gögnum um heimaríki kærenda og barna M er ljóst að þau hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. geðheilbrigðisþjónustu. Í framangreindum úrskurði kærunefndar kemur fram að mæður A, B og C og aðrir fjölskyldumeðlimir séu búsett í heimaríki. Þá beri gögn með sér að þau hafi aðgang að heilbrigðis- og menntakerfi í heimaríki. Að mati kærunefndar hafi M, þrátt fyrir veikindi sín verið fær um að framfleyta sér og börnum sínum og njóti auk þess stuðnings fjölskyldu í heimaríki. Fjölskyldan hafi aðgang að félagslegu kerfi í Kólumbíu auk þess sem M standi til boða stuðningur og úrræði í heimaríki vegna hótana og áreitis sem hann hefur greint frá. Að mati kærunefndar breyta framangreind gögn ekki fyrra mati kærunefndar. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærendur, B eða C séu í meðferð hér á landi sem sé ekki aðgengileg í heimaríki eða að óforsvaranlegt sé að rjúfa þá meðferð. Það er því mat kærunefndar að framangreindar upplýsingar í máli kærenda og barnanna B og C, leiði ekki til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsóknir þeirra samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga og telur kærunefnd því skilyrði ákvæðis 35. gr. laga um útlendinga ekki vera uppfyllt.
Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurtekna umsókn vísað frá.
Krafa um frestun réttaráhrifa samkvæmt 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga
Samkvæmt 3. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn beint að því stjórnvaldi sem tók þá ákvörðun sem leitað er endurskoðunar á og frestar hún ekki réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar. Því stjórnvaldi sem hefur endurtekna umsókn til skoðunar er þó heimilt að fresta réttaráhrifum fyrri ákvörðunar, enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á brýna nauðsyn þess að fresta framkvæmd.
Þar sem endurteknum umsóknum kærenda og barnanna B og C er vísað frá kærunefnd er ekki ástæða til að fallast á beiðni þeirra um frestun réttaráhrifa. Að framangreindu virtu er beiðnum kærenda og barna M um frestun réttaráhrifa úrskurða kærunefndar hafnað.
Úrskurðarorð:
Endurteknum umsóknum kærenda og barnanna B og C er vísað frá. Beiðnum kærenda og barnanna B og C um frestun réttaráhrifa er hafnað.
The appellant´s and the children’s, B and C, subsequent applications are dismissed. The appellant´s and the children´s, B and C, requests for suspension of legal effects are denied.
F.h. kærunefndar útlendingamála,
Þorsteinn Gunnarsson, formaður