Mál nr. 10/2006
Þriðjudaginn 30. maí 2006
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 17. febrúar 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 14. febrúar 2006.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 15. nóvember 2005 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Kærandi byggir kæru sína á því að tekjur sem reiknað sé út frá séu aðeins hluti af tekjum hans fyrir árið 2003.
Með bréfi, dagsettu 27. febrúar 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 17. mars 2006. Í greinargerðinni segir:
„Með umsókn, ódags., sem móttekin var 22. september 2005, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði, vegna barns sem fætt er 22. júní 2005.
Auk umsóknar kæranda bárust lífeyristryggingasviði vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar og launaseðlar fyrir tímabilið maí og júní 2005. Þá fylgdi einnig umsókn kæranda tilkynning um fæðingarorlof, ódags, sem endursend var honum þar sem hún bar ekki með sér hvaða tímabil hann hugðist ætla vera í fæðingarorlofi. Tilkynning kæranda um fæðingarorlof barst lífeyristryggingasviði á ný, útfyllt, þann 8. nóvember 2005.
Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 15. nóvember 2005, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 22. júní 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2003 og 2004.
Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í lokamálslið 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, sem er til fyllingar lagaákvæðinu, segir að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a. - d. liðum 3. gr. reglugerðarinnar.
Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segir enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Þessu til fyllingar segir í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar.
Um sjálfstætt starfandi foreldra segir í 5. mgr. 13. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna að mánaðarleg greiðsla til þeirra skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. greinarinnar. Ákvæði sama efnis er í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.
Þá er í 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 kveðið á um að mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi skuli nema 80% af meðaltali heildartekna samkvæmt 2. og 3. mgr. greinarinnar.
Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í fjórum stafliðum hvað teljist enn fremur til þátttöku á vinnumarkaði.
Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Tryggingastofnun ríkisins skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.
Barn kæranda er fætt þann 22. júní 2005 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildartekna hans árin 2003 og 2004, enda taldist hann á innlendum vinnumarkaði allan þann tíma, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, annars vegar sem sjálfstætt starfandi á árinu 2003 og hins vegar sem starfsmaður einkahlutafélagsins B á árinu 2004
Af hálfu lífeyristryggingasviðs voru greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til kæranda reiknaðar út frá framtöldum tekjum hans á árunum 2003 og 2004 og þ.a.l. í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Rétt þykir að geta þess sérstaklega að lífeyristryggingasvið hefur ekki fallist á að „Hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri” reiknist sem hluti af heildartekjum foreldra við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, enda munu „Hreinar tekjur af eigin atvinnurekstri“ ekki mynda stofn til tryggingagjalds og því mun ekki vera greitt af þeim tryggingagjald.
Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 15. nóvember 2005, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 23. mars 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði.
Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil og kveðið er á um í 2. mgr. Að öðru leyti gildi 2.-4. mgr. eins og við geti átt. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 skal mánaðarleg greiðsla til foreldris sem hefur bæði verið starfsmaður og sjálfstætt starfandi nema 80% af meðaltali heildartekna.
Samkvæmt gögnum málsins er barn kæranda fætt 22. júní 2005. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2003 og 2004, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði allt viðmiðunartímabilið.
Árið 2003 var kærandi samkvæmt skattframtali sjálfstætt starfandi við smábátaútgerð með reiknað endurgjald D krónur. Hreinar tekjur hans af atvinnurekstrinum námu samkvæmt framtalinu E krónur. Árið 2004 var kærandi starfsmaður B og námu árslaun hans F krónur. Kæran varðar þá aðferð Tryggingastofnunar ríkisins að telja ekki hreinar tekjur kæranda af atvinnurekstri sem hluta heildartekna hans við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Í 5. mgr. 13. gr. ffl. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi foreldris skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið tryggingagjald af. Ekki verður séð af gögnum málsins að breyting hafi verið gerð á reiknuðu endurgjaldi kæranda árið 2003 eða að tryggingagjald hafi verið greitt af hærri fjárhæð en reiknuðu endurgjaldi hans samkvæmt skattframtali. Með hliðsjón af því er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofsjóði.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til A, er staðfest.
Guðný Björnsdóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson