Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 171/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. júní 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 171/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 29. júlí 2010 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði fyrir milligöngu stofnunarinnar. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með degi ákvörðunar þann 29. júlí 2010 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 3. september 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 31. maí 2010. Kæranda var boðið starf hjá X 12. júlí 2010 en hann hafnaði starfinu. Kærandi skilaði samdægurs inn skýringum á því af hverju hann hafnaði umræddu starfi í tölvubréfi. Þar kemur fram að meginástæða þess að hann synji vinnunni sé sú hversu lág launin eru. Hann sé betur settur á atvinnuleysisbótum. Kærandi kveðst hafa sótt um tuttugu störf og sé vongóður með þrjú þeirra. Hann kveðst vilja vinna og hann hefði tekið vinnuna þrátt fyrir að launin séu lág hefði vinnan verið varanleg. Á svona vinnustað sjái mikið af fólki hann og hann telur að það skemmi fyrir honum í atvinnuleit sinni að vera búinn að sjást á mörgum stöðum í vinnu. Þann 4. ágúst 2010 var kæranda send hin kærða ákvörðun.

Af hálfu kæranda kemur einungis fram í kæru að hann hafni vinnunni vegna lágra launa.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. mars 2011, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Vinnumálastofnun greinir jafnframt frá því að eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Kemur fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Vinnumálastofnun greinir frá því að samkvæmt atvinnutilboði, dags. 12. júlí 2010, hafi kæranda verið boðið starf frá 12. júlí til 20. ágúst 2010 við afgreiðslu í byggingavörum í verslun X. Vinnumálastofnun bendir á að í kæru komi fram að kærandi hafi hafnað atvinnu, „sem var lægri launaðog að í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. júlí 2010, komi meðal annars fram að hann hafi ekki þegið starfið hjá X þar sem laun voru lág. Hafi kærandi sagt að hann væri „betur staddur á atvinnuleysisbótum“. Þá segist kærandi fremur hafa tekið umrætt starf hefði verið um ótímabundna vinnu að ræða. Vinnumálastofnun greinir frá því að samkvæmt upplýsingum frá X hafi kærandi synjað starfinu þar sökum þess að hann hefði gert ráð fyrir því að vera í sumarfrí í júlí auk þess sem leikskólinn yrði lokaður á þeim tíma. Vinnumálastofnun telur skýringar kæranda ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að kærandi eigi að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í samræmi við 1. mgr. 57. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. mars 2011, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. apríl 2011. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

2.

Niðurstaða

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, þar segir í a-lið 1. mgr. að launamaður þurfi að vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laganna. Í a-h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru talin upp skilyrði fyrir því að teljast vera í virkri atvinnuleit. Í b-lið kemur fram skilyrði þess efnis að launamaður skuli hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga. Í c-lið kemur fram skilyrði um að launamaður skuli hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og í e-lið kemur fram að launamaður skuli vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða eða vaktavinnu. Þá segir í g-lið að launamaður skuli vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða.

Líkt og fram hefur komið sótti kærandi um atvinnuleysisbætur þann 31. maí 2010. Hann var boðinn í atvinnuviðtal hjá X 12. júlí 2010 en afþakkaði boð um vinnu. Í máli þessu liggja ekki fyrir nein gögn um að umrætt starf hjá X hafi ekki uppfyllt skilyrði um greiðslu samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda eða annarra laga. Þá skiptir ekki máli hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða, sbr. fyrrgreindan e-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins hver afstaða hans var. Í tilviki kæranda gaf hann skýringar sínar á því hvers vegna hann hafnaði atvinnutilboðinu og voru skýringar hans gefnar þann sama dag og hann hafnaði umræddu atvinnutilboði. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að sjónarmið kæranda vegna höfnunarinnar hafi legið fyrir á því tímamarki þegar hin kærða ákvörðun var tekin og að uppfylltar hafi verið reglur stjórnsýslulaga um andmælarétt kæranda. Hver og einn umsækjandi um atvinnuleysisbætur fær kynningu hjá Vinnumálastofnun á því hvernig réttur hans er á því tímabili þegar hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Þá er rækilega greint frá því á vef Vinnumálastofnunar hverjar afleiðingar eru af því ef umsækjandi um greiðslu atvinnuleysisbóta hafnar atvinnutilboði. Það verður því ekki hjá því komist að líta svo á að kæranda hafi mátt vera kunnugt um það hverjar afleiðingar gætu verið af höfnun atvinnutilboðs.

Fallist verður á það með Vinnumálastofnun að skýringar kæranda á höfnun atvinnutilboðs hafi ekki verið gildar í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til þessa, sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir ákvörðun sinni, verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. júlí 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta