Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 594/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 594/2020

Fimmtudaginn 11. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. ágúst 2020, um að synja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 7. júní 2020. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. júlí 2020, var óskað eftir að kærandi skilaði vottorðum frá tilgreindum atvinnurekendum, þ.e. B og C. Með öðru bréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu sama dag, var óskað eftir staðfestu skólavottorði þar sem fram kæmi hvort kærandi væri enn í námi eða hvort námi hafi verið hætt eða því lokið með prófgráðu. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. ágúst 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að umsóknin væri ófullnægjandi þar sem ekki væri ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða skilyrði um virka atvinnuleit sem kveðið væri á um í 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. janúar 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. janúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að hún hafi sótt um bætur vegna tekjutaps vegna COVID-19. Hún hafi verið beðin um gögn eins og vottorð um skólavist sem hún hafi ekki talið eiga við í sínu tilfelli en hún hafi skilað inn gögnum sem staðfestu tekjutap á umræddu tímabili. Kærandi hafi sent fyrirspurn hvort það standist að hún þurfi að skila þessum gögnum sem virðast vera fyrir þá sem séu atvinnulausir og í atvinnuleit, en ekki þá sem hafi misst tímabundið tekjur vegna COVID-19. Að mati kæranda hafi verið um misskilning að ræða og því hafi hún sent póst þess efnis. Kærandi hafi ekki fengið nein almennileg svör og síðan fengið höfnun á þeim grundvelli að hún hafi ekki skilað inn umbeðnum gögnum sem hún telji sig ekki þurfa að skila.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í f-lið 1. mgr. sömu greinar sé tekið fram að eitt af almennum skilyrðum fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga sé að atvinnuleitandi leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr., og vottorð frá skóla þegar það eigi við, sbr. 3. mgr. 15. gr. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skuli atvinnuleitandi leggja fram skriflegt vottorð vinnuveitanda er hann sæki um atvinnuleysisbætur. Þá skuli vottorð frá hlutaðeigandi skóla fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laganna. Í athugasemdum með 16. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að litið hafi verið á vottorð vinnuveitanda sem eitt af þeim grundvallaratriðum sem litið sé til við ákvörðun á rétti einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Þá segi að mikilvægt sé að kveðið sé á um skyldu launafólks til að skila inn slíkum vottorðum, enda erfileikum bundið að ákvarða rétt fólks innan kerfisins án þeirra upplýsinga er þar komi fram.

Vinnumálastofnun hafi óskað eftir staðfestingu á starfstímabili og staðfestu skólavottorði með erindi til kæranda, dags. 22. júlí 2020. Vinnumálastofnun hafi hvorki borist staðfesting á starfstímabili né skólavottorð, þrátt fyrir beiðni þar um. Sjálf hafi kærandi tjáð stofnuninni að hún væri að sækja um atvinnuleysisbætur vegna tímabundins tekjutaps, hún væri enn í starfi sínu og ekki í atvinnuleit. Vinnumálastofnun hafi ekki borist umbeðin gögn eða staðfesting á minnkuðu starfshlutfalli. Það hafi því verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda uppfylli umsóknin ekki hin almennu skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar fyrr en umbeðin gögn hafi borist stofnuninni.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að launamaður leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. f-lið 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skal vottorðið vera skriflegt á þar til gerðu eyðublaði þar sem meðal annars komi fram starfstími hjá vinnuveitanda á ávinnslutímabili samkvæmt 15. gr. ásamt starfshlutfalli hans. Enn fremur skal tilgreina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda, hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi og hvernig greiðslum vegna starfsloka hafi verið háttað. Þá segir í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 að vottorð frá hlutaðeigandi skóla skuli fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram komi að launamaður hafi stundað nám og lokið því.

Ljóst er af gögnum málsins að kærandi hefur ekki skilað inn vottorði frá síðustu vinnuveitendum sínum, þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því. Þá hefur kærandi ekki lagt fram staðfest skólavottorð. Með vísan til þessa er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt skýru lagaákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 bar Vinnumálastofnun að synja umsókn kæranda, enda liggur ekki fyrir hvort hún uppfylli almenn skilyrði 1. mgr. 13. gr. um að vera tryggð samkvæmt lögunum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest. 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. ágúst 2020, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta