Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/2000

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 6/2000:

 

A

gegn

Byggðasamlagi Húnavallaskóla

-----------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 23. nóvember 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með bréfi, dags. 16. júlí 2000, óskaði Margrét María Sigurðardóttir, hdl., f.h. kæranda, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, hefðu verið brotin við ráðningu í starf fjármálastjóra Húnavallaskóla þann 30. maí 2000. Erindinu fylgdu ýmis gögn, m.a. umsókn kæranda, prófskírteini kæranda og meðmælabréf.

Bréf kæranda var kynnt Byggðasamlagi Húnavallaskóla með bréfi, dags. 5. september 2000. Þar var m.a. með vísan í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað upplýsinga um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna, menntun og starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var, hvað hafi ráðið því vali auk annarra upplýsinga.

Með bréfi Byggðasamlags Húnavallaskóla, dags. 18. september 2000, ásamt fylgiskjölum, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum Byggðasamlagsins við erindi kæranda.

Með bréfi, dags. 26. september 2000, var kæranda kynnt umsögn Byggðasamlags Húnavallaskóla ásamt fylgiskjölum og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 29. september 2000, þar sem athugasemdir voru gerðar við fyrrgreinda umsögn Byggðasamlagsins. Með bréfi, dags. 5. október 2000, var Byggðasamlagi Húnavallaskóla gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomin sjónarmið kæranda og komu þær athugasemdir fram í bréfi, dags. 25. október 2000.

Nefndin aflaði upplýsinga um kynjaskiptingu í stjórnunarstöðum hjá Húnavallaskóla og kom fram að formaður Byggðasamlags Húnavallaskóla, skólastjóri og aðstoðarskólastjóri eru allir karlmenn.

Þykja sjónarmið málsaðila hafa komið nægjanlega fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar og var ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

Með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, sem tóku gildi 22. maí 2000, féll umboð þáverandi kærunefndar niður, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð hinn 25. júlí 2000 og tók hún við meðferð máls þessa.

 

II.

Málavextir

Með umsókn, dags. 2. apríl 2000, sótti kærandi, A, sem þá starfaði sem aðalbókari á Lögmannsstofu Stefáns Ólafssonar ehf., Blönduósi, um starf fjármálastjóra Húnavallaskóla en starfið var auglýst laust til umsóknar í bæjarblaðinu Glugganum 12. tbl. 2000 sem kom út síðari hluta marsmánaðar á Blönduósi. Umsækjendur um starfið voru fjórir, tveir karlar og tvær konur. Stjórn Byggðasamlags Húnavallaskóla ákvað á fundi þann 8. maí 2000 að fela Valgarði Hilmarssyni og Jóhanni Guðmundssyni að ræða við alla umsækjendur um kaupkröfur og hugmyndir þeirra um starfið. Eftir að hafa rætt við alla umsækjendur töldu þeir að þrír umsækjendanna uppfylltu skilyrði til starfsins. Kærandi var þar á meðal ásamt körlunum tveimur. Á fundi stjórnar Byggðasamlagsins þann 30. maí 2000 var ráðningin tekin fyrir til endanlegrar afgreiðslu. Valgarður og Jóhann gerðu að tillögu sinni að fram færi leynileg atkvæðagreiðsla milli umræddra þriggja umsækjenda og var sú tillaga samþykkt. Kosningin fór þannig að tveir umsækjendanna voru jafnir að atkvæðum, kærandi og B og var því kosið aftur milli þeirra tveggja. Niðurstaða seinni atkvæðagreiðslunnar varð sú að B fékk 4 atkvæði en kærandi 3 atkvæði. Var síðan ákveðið að Valgarður og Jóhann skyldu ræða við B og gera við hann starfssamning.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að stjórn Byggðasamlags Húnavallaskóla hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, við ráðningu í starf fjármálastjóra Húnavallaskóla þann 30. maí 2000. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til þess að ekki hafi verið gerður sérstakur samanburður á menntun og reynslu af bókhaldi sem talin var nauðsynleg samkvæmt auglýsingunni.

Í umsókn kæranda um starfið kom fram að hún hafi lokið prófi úr frumgreinadeild frá Samvinnuháskólanum á Bifröst vorið 1997 og rekstrarfræðadeild úr sama skóla vorið 1999. Einnig fylgdi lýsing á því hvað námið fól í sér sem hún hafði lokið ásamt prófskírteinum. Þar kom fram að frumgreinadeild veitir eins árs sérhæfðan undirbúning fyrir nám í rekstrarfræðadeild þar sem m.a. farið er yfir helstu svið bókfærslu, tölvubókhald, lög og reglur, uppsetningu, gerð og mat ársreikninga, skattareglur og framtöl. Rekstrarfræðadeild væri hins vegar hagnýtt tveggja ára háskólanám þar sem megináhersla er lögð á þá þætti er snúa að stjórnun fyrirtækja, þar á meðal fjármálastjórnun, áætlanagerð, reikningshald og bókhald.

Frá útskrift vorið 1999 hefur kærandi starfað á Lögmannsstofu Stefáns Ólafssonar ehf. á Blönduósi sem aðalbókari jafnframt því að sinna ýmsum fjölbreytilegum verkefnum. Á þeim tíma hafi hún endurskipulagt og sett bókhaldið upp frá grunni og tekið upp nýjar og skilvirkari vinnuaðferðir í innheimtu fyrir stofuna. Áður hafði kærandi starfað hjá útibú Íslandsbanka á Blönduósi, sýslumanninum á Blönduósi, Fræðsluskrifstofu Norðurlands vestra og Héraðssjúkrahúsinu á Blönduósi.

Kærandi kvaðst ekki hafa reynslu af sveitarstjórnarstörfum í umsókn sinni en hún hafi hins vegar fjölbreytta reynslu á sviði félags- og stjórnmála sem telja megi sambærilega. Þar á meðal hafi hún gengt formennsku ýmissa félagasamtaka auk þess að vera gjaldkeri USAH frá árinu 2000. Einnig hafi kærandi verið 2. varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Norðurlandi vestra og setið á Alþingi í hálfan mánuð á árinu 1997.

Það er álit kæranda að áhersla stjórnar Byggðasamlags Húnavallaskóla á reynslu og þekkingu á sveitarstjórnarmálum vera til þess fallin að sníða starfið að fyrirfram ákveðnum aðila. Í máli kæranda kemur fram að ársvelta Húnavallaskóla sé um 70.000.000 kr. og að fjármálastjóranum sé m.a. gert samkvæmt erindisbréfi að gera ársreikning, fylgjast með rekstrinum frá mánuði til mánaðar, gera tillögu að fjárhagsáætlun og hafa fjármálalegt eftirlit með rekstrinum. Sé því ljóst að til að sinna þessu starfi sé menntun og reynsla lykilatriði en þar hafi kærandi mikla yfirburði fram yfir þann sem ráðinn var. Virðist þó sem rökin fyrir ráðningunni hafi helst verið að sá sem ráðinn var hafði 12 ára reynslu af sveitarstjórn. Hafi hins vegar ekki verið vikið að menntun eða reynslu af bókhaldi sem talin var nauðsynleg samkvæmt auglýsingunni.

 

IV.

Sjónarmið kærða

Sjónarmið kærða byggjast á að sá er ráðinn var til starfsins hafi meiri reynslu af því að starfa sjálfstætt sem skiptir verulegu máli í starfi sem þessu. Þar að auki hafi B 12 ára reynslu af sveitarstjórnarmálefnum en hann vann m.a. við yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna árið 1996.

Í bréfi frá formanni stjórnar Byggðasamlags Húnavallaskóla, dags. 18. september 2000, kemur fram að sá er ráðinn var hafi útskrifast sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1977. Jafnframt var tekið fram að viðkomandi hafi stundað nám í Menntaskólanum á Akureyri veturinn 1975-1976 og lokið 11 eininga námi við Verkmenntaskólann á Akureyri í tölvufræði, bókfærslu og reikningsskilum. Þá hafi hann unnið í banka í rúm 3 ár og unnið um tíma í byggingarvinnu. Hann starfi nú sem bóndi með starfi sínu sem fjármálastjóri.

Á fundi stjórnar Byggðasamlags Húnavallaskóla þann 8. maí 2000, fól hún þeim Valgarði Hilmarssyni og Jóhanni Guðmundssyni að ræða við alla umsækjendurna og kynna þeim hugmyndir stjórnarinnar um starfið og fá fram hugmyndir umsækjenda þar sem um nýtt starf væri að ræða. Niðurstaðan úr þessum viðræðum varð sú að þeir töldu þrjá umsækjendanna uppfylla skilyrðin til starfsins án þess þó að treysta sér til að gera tillögu um hver af þeim skyldi ráðinn. Á fundi stjórnar þann 30. maí 2000 var ráðningin tekin til endanlegrar afgreiðslu. Þar lögðu Valgarður og Jóhann fram tillögu um að fara skyldi fram leynileg atkvæðagreiðsla milli þessara þriggja umsækjenda. Sú tillaga var samþykkt og var ekki ágreiningur um aðferðina.

Stjórn Byggðasamlagsins var ljóst að menntun og reynsla umsækjenda var með mjög misjöfnum hætti. Viðhöfð var leynileg atkvæðagreiðsla en formaður kærða telur, miðað við þá umræðu sem fram fór að menn hafi horft mjög til þess hverjum af umsækjendum þeir treystu best til að sinna verkefninu. Hafi þeir ekki síst litið til stjórnunarþáttar starfsins og hæfileika umsækjanda til mannlegra samskipta. Þar hafi reynsla af sveitarstjórnastörfum ekki síst haft mikil áhrif enda tekið fram í auglýsingu að reynsla af sveitarstjórnarmálum væri æskileg þar sem lang stærstur hluti útgjalda sveitarfélaganna, sem standa að rekstri Húnavallaskóla, færi til reksturs skólans. Því væri talið mikilvægt að sá aðili sem sæi um yfir 50% af útgjöldum sveitarfélaganna hefði innsýn í sveitarstjórnarstigið. Var jafnframt litið til annarra starfa en bókhalds og skrifstofustarfa, svo sem umsjón með viðhaldi húsnæðis.

Þá kemur fram í máli kærða að það hafi aldrei verið annað markmið stjórnar Byggðasamlags Húnavallaskóla en að ráða hæfasta einstaklinginn til starfans.

 

V.

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra kvenna og karla. Í því skyni þurfi að bæta sérstaklega stöðu kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Val atvinnurekenda á starfsmönnum hefur mikla þýðingu við jöfnun á stöðu kynjanna og er þeim því lagðar skyldur á herðar að þessu leyti. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Kveðið er á um bann við mismunun við ráðningu og í vinnuskilyrðum í 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en þar er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Samkvæmt 15. gr. laganna skulu störf sem laus eru standa opin jafnt konum sem körlum.

Túlka verður lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, svo að teljist umsækjendur ámóta hæfir, þá skyldi skuli ráða umsækjanda sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Tilgangi laganna verður ekki náð með öðrum hætti, sbr. 1. mgr. 22. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna.

Starf fjármálastjóra Húnavallaskóla var auglýst laust til umsóknar í bæjarblaðinu Glugganum, 12. tbl. 2000. Í auglýsingunni kom fram hvaða hæfisskilyrði væru nauðsynleg að sá sem gegndi starfinu uppfyllti en þar sagði: "Þekking og reynsla af bókhaldi er nauðsynleg. Einnig æskilegt að viðkomandi hafi reynslu af sveitarstjórnarmálefnum". Fjórar umsóknir bárust um starfið, þar á meðal frá kæranda og B sem ráðinn var.

Kærandi hefur óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála veiti álit sitt á því hvort ofangreind ráðning brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Taldi nefndin ekki ástæðu til að afla upplýsinga um hæfni annarra umsækjenda en kæranda og þess sem ráðinn var í starfið.

Eins og áður hefur verið rakið hefur kærandi Óumdeilt þykir í málinu að kærandi hafi meiri menntun en sá er ráðinn var í starfið en hún hefur lokið námi frá frumgreinadeild Samvinnuháskólans á Bifröst árið 1997 og árið 1999 frá rekstrarfræðadeild sama skóla árið 1999. Um er að ræða háskólamenntun á sviði rekstrar fyrirtækja eða stofnana þar sem kennt er m.a. fjármálastjórnun, reikningshald og bókhald. B, sem ráðinn var, er búfræðingur að mennt og hefur einnig lokið 11 eininga námi við Verkmenntaskólann á Akureyri í tölvufræði, bókfærslu og reikningshaldi. Stendur kærandi því framar B að því er menntun varðar.

Kærandi hafði tæplega ársreynslu sem aðalbókari á lögmannsstofu ásamt því sem hún sinnti fjölbreytilegum verkefnum. Hún starfaði í tæpt ár hjá sýslumanninum á Blönduósi við almenn skrifstofustörf og aðstoðaði við færslu bókhalds. Einnig starfaði hún í ár hjá Fræðsluskrifstofu Norðurlands vestra við skrifstofu- og ritarastörf. Sumarið 1998 vann hún hjá útibúi Íslandsbanka en starf hennar fólst m.a. í skráningu greiðsluseðla og almennum gjaldkerastörfum. Þorleifur Ingvarsson starfaði í banka í rúm 3 ár, vann um tíma í byggingarvinnu ásamt því að hafa verið bóndi. Starfsreynsla hans er lengri í árum talið en reynsla hennar lítur hins vegar beint að bókhaldsvinnu sem talin var nauðsynleg í auglýsingunni um starfið.

Þegar litið er til starfsreynslu kæranda og þess sem ráðinn var, er ljóst að kærandi hefur starfsreynslu af bókhaldsstörfum, en hún hafði unnið í tæpt ár sem aðalbókari á lögmannsstofu og aðstoðað við bókhald samhliða almennum skrifstofustörfum hjá sýslumanninum á Blönduósi í tæpt ár. Sá sem ráðinn var hafði starfað í rúm þrjú ár í banka. Með hliðsjón af erindisbréfi fyrir fjármálastjóra Húnavallaskóla þykir ljóst að þekking og reynsla á fjármálastjórn, reikningshaldi og bókhaldi er nauðsynleg þar sem færsla bókhalds ásamt gerð ársreikninga er stór hluti af starfinu. Er það í samræmi við efni auglýsingar um starfið. Kærandi stendur því hvað sérhæfða starfsreynslu varðar ótvírætt framar þeim sem ráðinn var.

Í fyrrgreindri auglýsingu kom einnig fram að æskilegt væri að viðkomandi hefði reynslu af sveitarstjórnarmálum. B hefur langa reynslu af sveitarstjórnarmálum og vann meðal annars við yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna árið 1996. Kærandi hefur hins vegar enga reynslu af sveitarstjórnarmálum en hefur reynslu á sviði félags- og stjórnmála. Ekki er á það fallist að reynsla af sveitarstjórnarmálum réttlæti að gengið sé fram hjá kæranda sem hefur meiri og sérhæfðari menntun auk starfsreynslu, enda er ekkert í starfslýsingu fjármálastjóra Húnavallaskóla, sbr. erindisbréf frá 1. ágúst 2000, sem skýrir sérstaka þörf á starfsmanni með reynslu af sveitarstjórnarmálum.

Við ráðningu í starf gildir sú meginregla að ráða skuli þann umsækjanda sem hæfastur er. Eins og áður hefur verið rakið, hefur kærandi háskólamenntun á sviði fyrirtækjarekstrar, auk þess sem hún hefur reynslu af bókhaldsstörfum sem í auglýsingu þótti nauðsynlegt hæfisskilyrði. Þegar valinn er umsækjandi sem hefur minni menntun og fullnægir ekki áskildum kröfum um starfsreynslu verða aðrir sérstakir hæfileikar, í þessu máli reynsla af sveitarstjórnarmálum, að vera þess eðlis og svo nauðsynlegir að þeir réttlæti að vikið sé frá almennum hæfisskilyrðum. Í slíkum tilvikum verður að telja að á atvinnurekanda hvíli enn ríkari skylda en ella að sýna fram á aðra sérstaka hæfileika og nauðsyn þeirra fyrir starfið. Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir kærði ekki hafa sýnt fram á að svo hafi verið. Verður því að telja óyggjandi að kærandi hafi a.m.k. verið jafnhæf eða hæfari en sá er ráðinn var í starfið.

Fyrir liggur í málinu að leynileg atkvæðagreiðsla á fundi stjórnar kærða réði úrslitum um hver af þremur umsækjendum var ráðinn. Fjölskipuðu stjórnvaldi ber að gæta að ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í störf á sama hátt og aðrir atvinnurekendur og breytir sú staðreynd að viðhöfð var atkvæðagreiðsla við ráðninguna ekki þeirri skyldu. Þeir töldu að þrír þeirra uppfylltu skilyrði sem höfðu verið sett fram í auglýsingunni án þess þó að vísa sérstaklega til hæfni hvers þeirra til starfsins. Þeir treystu sér ekki til að gera tillögu um hver af þessum þremur yrði ráðinn.

Áður en til atkvæðagreiðslunnar kom var stjórn Byggðasamlagsins ljóst að menntun og reynsla umsækjenda var með mjög misjöfnum hætti. Fram kemur í máli kærða, að þar sem um leynilega atkvæðagreiðslu var að ræða sé ekki ljóst hvað stjórnarmenn lögðu til grundvallar við valið. Líklegt megi þó telja að menn hafi horft mjög til þess hverjum af umsækjendum þeir treystu best til að sinna verkefninu. Hafi þeir ekki síst litið til stjórnunarþáttar starfsins og hæfileika umsækjanda til mannlegra samskipta. Einnig hafi verið litið til reynslu við önnur störf en bókhalds og skrifstofustarfa svo sem umsjón með viðhaldi húsnæðis. Jafnframt var það talið hafa áhrif á niðurstöðuna að sá aðili er ráðinn var í stöðuna hafði starfað í 12 ár í sveitastjórn.

Það er álit kærunefndar að þau rök sem talin eru hafa ráðið vali á hæfasta umsækjandanum í starf fjármálastjóra verði að teljast ófullnægjandi í ljósi þess að ekki var tekið tillit til þekkingar og reynslu umsækjendanna á bókhaldi sem engu að síður var talin nauðsynlegt hæfnisskilyrði í auglýsingunni um starfið. Þegar litið er til erindisbréfs fyrir fjármálastjóra Húnavallaskóla þykir ljóst að þekking og reynsla á fjármálastjórn, reikningshaldi og bókhaldi er nauðsynleg þar sem færsla bókhalds ásamt gerð ársreikninga er stór hluti af starfinu. Er það í samræmi við efni auglýsingarinnar um starfið.

Konur voru ekki í stjórnunarstöðum hjá Húnavallaskóla. Bar því að líta til þess við ráðningu í stöðuna, að jöfnuð yrði staða kynjanna í æðstu stjórnunarstöðum innan skólans, sbr. 2. ml. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 96/2000. Bar kærða að gæta þess við ráðninguna að velja konu, enda teldist hún a.m.k. jafnhæf eða hæfari en sá karl, sem eftir stöðunni leitaði.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það álit kærunefndar, að stjórn Byggðasamlags Húnavallaskóla hafi með ráðningu B í starf fjármálastjóra Húnavallaskóla brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Þeim tilmælum er beint til stjórnar Byggðasamlags Húnavallaskóla að fundin verði lausn sem kærandi getur sætt sig við.

 

 

Ragnheiður Thorlacius

Björn L. Bergsson

Þuríður Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta