Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 22/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 22/1999:

 

A

gegn

dóms- og kirkjumálaráðherra vegna valnefndar í Ólafsvíkurprestakalli

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 25. september 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með bréfi dags. 21. desember 1999 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála, að hún kannaði og tæki afstöðu til þess, hvort lög nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislög, hefðu verið brotin við val á sóknarpresti Ólafsvíkurprestakalls og hvort framhjá henni hafi verið gengið við skipan í stöðuna, en í hana var skipað frá og með 1. janúar 2000. Erindi kæranda fylgdu ýmis gögn, m.a. umsókn kæranda og greinargerð til valnefndar um menntun, störf, o.fl.

Bréf kæranda var kynnt dóms- og kirkjumálaráðherra með bréfi dags. 21. janúar 2000. Var þar m.a. með vísan til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991 óskað upplýsinga um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna, menntun og starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem skipaður var, hvað ráðið hafi vali á milli umsækjenda, auk annarra upplýsinga.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 21. febrúar 2000, ásamt fylgiskjölum, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum ráðuneytisins við erindi kæranda.

Með bréfi dags. 3. mars 2000 var kæranda kynnt umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, ásamt fylgiskjölum, og óskað umsagnar hennar. Ekki voru gerðar frekari athugasemdir af hálfu kæranda.

Þykja sjónarmið málsaðila hafa komið nægjanlega fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar, og var ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

Með lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem tóku gildi 22. maí 2000, ákvæði til bráðabirgða, féll umboð þáverandi kærunefndar jafnréttismála niður, en nefndin hafði þá ekki lokið umfjöllum um mál þetta. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð hinn 25. júlí 2000 og tók hún þá við meðferð máls þessa. Álit þetta er veitt á grundvelli laga nr. 28/1991, sem í gildi voru á þeim tíma þegar val sóknarprests í Ólafsvíkurprestakalli átti sér stað.

 

II.

Málavextir

Með umsókn dags. 24. nóvember 1999 sótti kærandi, A, sem þá var starfandi sóknarprestur á Raufarhöfn, um stöðu sóknarprests í Ólafsvíkurprestakalli, en embættið hafði verið auglýst laust til umsóknar í Lögbirtingablaði hinn 3. nóvember 1999. Umsækjendur um starfið voru þrír, tvær konur og einn karl. Á fundi valnefndar í Ólafsvíkurprestakalli, sem haldinn var 17. desember 1999, valdi nefndin B, og lagði til að hann yrði skipaður sóknarprestur í prestakallinu. Valnefnd taldi að allir umsækjendur væru vel hæfir til að taka að sér starfið, kærandi hefði það framyfir hina tvo, að hafa reynslu af prestsskap í nærri þrjú ár í Raufarhafnarprestakalli, en að öðru leyti stæðu umsækjendur jafnfætis hvað varðar reynslu í kirkjulegu starfi. Valnefnd taldi að sá er ráðinn var, B, hefði haft áberandi mesta reynslu í almennum félagsstörfum, skólastarfi, stjórnunarstörfum, öðrum en prestsskap, og störfum er varða almannatengsl. Taldi nefndin að auk ágætis námsferils byggi B yfir þeirri fjölbreytni í starfsreynslu og félagslegri þátttöku, sem best myndi nýtast í viðkomandi prestakalli. Með vísan til þessa og framkomu hans á fundi valefndar taldi valnefnd sig ekki brjóta gegn jafnréttisáætlun né viðmiðunarreglum með því að velja hann. Í framhaldi af niðurstöðu valnefndar mælti biskup Íslands með því við dóms- og kirkjumálaráðuneytið í bréfi dags. 30. desember 1999, að B yrði skipaður til að vera sóknarprestur í Ólafsvíkurprestakalli. Var B skipaður í embættið í kjölfar þessa.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er litið svo á, að ástæða sé til að skoðuð sé niðurstaða embættisveitingar er skipað var í embætti sóknarprests í Ólafsvíkurprestakalli, með sérstöku tilliti til 7. gr. leiðbeiningarreglna biskups um málsmeðferð fyrir valnefndum. Kærandi telur að rökstuðningur nefndarinnar fyrir ákvörðun sinni hafi verið ófullnægjandi og skýri ekki nægjanlega forsendur hennar. Með vísan til þess, að kærandi óskaði þess að kærunefnd jafnréttismála tæki til skoðunar niðurstöðu valnefndar um skipun í framangreint embætti, verður að líta svo á að kærandi telji að henni hafi verið mismunað vegna kynferðis við skipun í stöðu sóknarprests í Ólafsvíkurprestakalli, þ.e. að ekki hafi verið gætt ákvæða jafnréttislaga við skipun í stöðuna.

Í kæru sinni dregur kærandi í efa rökstuðning valnefndar, sem starfar á grundvelli starfsreglna nr. 735/1998, sbr. 59. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, varðandi yfirburði þess sem skipaður var, t.d. hvernig félagsstörf, skólastörf og önnur starfsreynsla hans hafi verið talin vega meira en tæplega þriggja ára starfsreynsla kæranda. Telur kærandi að reynsla sem fengin er með að vinna að barnastarfi, fermingarfræðslu eða að predika nýtist vissulega vel, en hún hafi í prestsstarfi sínu mætt og tekist sífellt á við aðstæður sem aðeins koma upp í prestsstarfinu, en mæði ekki á þeim sem vinna önnur störf innan kirkjunnar.

Kærandi byggir á því, að hún hafi einnig mjög fjölbreytta starfsreynslu, hún hafi unnið við flest fiskvinnslustörf, hótelstörf, auk annarra verslunar- og þjónustustarfa, sem byggi mikið á mannlegum samskiptum. Hún hafi þó ekki talið ríka ástæðu til að tiltaka það allt í umsókn sinni, heldur hafi hún eingöngu minnst á þau störf sem hún taldi að myndu nýtast best í prestsstarfinu, svo sem umönnun og aðhlynningu aldraðra og geðfatlaðra, auk þeirra starfa sem hún hafi unnið innan kirkjunnar, svo sem í barna- og fermingarstarfi.

Að því er skólastörf varðar tekur kærandi fram, að hún hafi kennt við grunnskólann á Raufarhöfn og að hún hafi haft umsjón með 1. bekkjunum tvo vetur, auk þess að kenna kristinfræði í öllum bekkjardeildum. Kærandi tekur fram, að ekki hafi komið fram í umsókn sinni, en hafi komið fram í samtali við vígslubiskup, þegar nefna skyldi meðmælendur, að m.a hafi verið nefnd í því sambandi Líney Helgadóttir, sem hafi verið skólastjóri þá vetur sem hún starfaði við skólann.

Af hálfu kæranda er bent á að í smærri samfélögum, svo sem á Raufarhöfn, sinni presturinn oftar en ekki öðrum störfum samhliða sínum eigin, og því hafi hún ekki greint sérstaklega frá störfum sínum í skóla- og félagsmálum á valnefndarfundinum, en hún hafi heldur ekki verið innt eftir því af fundarmönnum, hvort hún ynni önnur störf samhliða prestsstarfinu. Af þessum sökum tók kærandi fram í erindi sínu til kærunefndar, að hún hafi starfað sem fulltrúi í barnaverndarnefnd, og í stjórn Rauða krossins. Auk starfa í félagsþjónustu og barnaverndarnefnd Norður-Þingeyinga hafi hún m.a. setið í stjórn Félags guðfræðinema þegar hún var við nám í Háskóla Íslands og tekið virkan þátt í félagsstarfi deildarinnar.

 

IV.

Sjónarmið dóms- og kirkjumálaráðherra

Með bréfi, dags. 21. febrúar 2000, koma fram sjónarmið þau sem á er byggt af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í tilefni af erindi kæranda til kærunefndar. Af hálfu ráðuneytisins er vísað til fundargerðar valnefndar um val á sóknarpresti í Ólafsvíkurprestakalli. Þar komi m.a. fram þeir sérstöku hæfileikar þess sem skipaður var, en skv. fundargerðinni hafi sá haft fjölbreytta reynslu af félagsstörfum. Bendir ráðuneytið á að niðurstaða valnefndar hafi verið einróma og að valnefndin hafi ekki talið sig brjóta gegn jafnréttisáætlun eða viðmiðunarreglum með því að velja B í stöðuna. Þegar virt séu þau gögn sem nefndin byggði ákvörðun sína á, fái ráðuneytið ekki betur séð en að valnefndin hafi komist að niðurstöðu, sem byggi á gildum sjónarmiðum. Þá hafi ráðuneytið áður sent kærunefnd jafnréttismála jafnréttisáætlun kirkjunnar og leiðbeinandi reglur um málsmeðferð fyrir valnefnd, og að valnefndin hafi tekið fram í þessu máli að hún hafi hugað að jafnréttisþættinum í málinu.

Með erindi ráðuneytisins fylgdu upplýsingar um B, cand. teol., sem skipaður var, m.a umsókn hans um stöðuna. Í gögnum þessum kemur fram, að B hafi lokið stúdentsprófi árið 1993 og guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 1999. Þá kemur fram að B hafi hafið nám í kennslufræðum til kennsluréttinda við Háskóla Íslands. Með guðfræðinámi vann B við fermingarfræðslu, barna og æskulýðsstarf o.fl., auk þess sem B hefur m.a. gegnt ýmsum kennslustörfum. Þá hefur B setið í stjórnum ýmissa skólafélaga.

 

V.

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála, að tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 hafi verið að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Í því skyni skyldi sérstaklega bæta stöðu kvenna. Val atvinnurekenda á starfsmönnum hefur mikla þýðingu við jöfnun á stöðu kynjanna, og voru þeim því lagðar skyldur á herðar að þessu leyti.

Skv. 6. gr. laganna var óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gilti það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf og um stöðubreytingar. Atvinnurekandi skyldi, ef máli var vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. var kveðið á um að öll laus störf skyldu standa opin jafnt konum sem körlum.

Í 8. gr. var að finna mikilvægar leiðbeiningar um hvaða þætti bæri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um starf en þar var tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar. Túlka verður jafnréttislögin nr. 28/1991 svo að ef umsækjendur af gagnstæðu kyni töldust ámóta hæfir, þá skyldi ráða umsækjanda sem er af því kyni sem var í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Tilgangi laganna yrði ekki náð með öðrum hætti, sbr. 1. gr., 1. ml. 3. gr. og 5. gr. laga nr. 28/1991.

Samkvæmt 37. gr. laga nr. 78/1997 skipar dóms- og kirkjumálaráðherra sóknarpresta. Samkvæmt 39. gr. sömu laga skal biskup Íslands auglýsa laus prestaköll. Í 2. mgr. 39. gr er kveðið á um að nánari reglur um val á sóknarprestum skuli setja í starfsreglur skv. 59. gr. laganna. Í því ákvæði er kveðið á um að kirkjuþing setji reglur sem hafi að geyma nánari fyrirmæli um stjórnun og starfshætti kirkjunnar á grundvelli laganna. Meðal þeirra reglna sem settar hafa verið eru starfsreglur nr. 735/1998, um presta. Í 14. -19. gr. starfsreglnanna er fjallað um val á sóknarprestum og prestum sem starfa í prestakalli, m.a. um svokallaðar valnefndir. Í 15. gr. er mælt svo fyrir, að valnefnd skuli skipuð viðkomandi vígslubiskupi, prófasti og fimm fulltrúum prestakalls, sem valdir skulu á sóknarnefndarfundi. Umsóknir um stöðu sóknarpresta skulu sendar valnefnd, en það er hlutverk valnefndar að velja sóknarprest. Í 17. gr. starfsreglnanna er mælt svo fyrir, að við mat á hæfni umsækjenda skuli m.a. líta til menntunar þeirra, starfsaldurs, starfsreynslu og starfsferils. Sé áskilin sérstök þekking eða reynsla í auglýsingu um laust embætti eða starf er að öðru leyti sérhæft, skuli meta umsækjendur eftir því hvernig þeir uppfylla hin sérstöku skilyrði. Við val samkvæmt framansögðu skuli gæta ákvæða jafnréttislaga. Þá er sérstaklega tekið fram að valnefnd afli upplýsinga og gagna sem hún telji að öðru leyti þörf á og að nefndin boði umsækjendur á fund sinn. Í 19. gr. er kveðið á um að vígslubiskup skuli senda biskupi niðurstöðu nefndarinnar og skuli biskup senda kirkjumálaráðherra niðurstöðuna, ef um embætti sóknarprests er að ræða.

Biskup hefur á grundvelli heimildar í 18. gr. starfsreglna um presta sett leiðbeinandi reglur fyrir valnefndir. Í reglunum er m.a. tiltekið að vígslubiskup skuli leiðbeina öðrum nefndarmönnum um ýmis atriði, m.a. að valnefndum beri að raða umsækjendum eftir hæfi og setja þá röðun fram með rökstuddum hætti og að gæta að ákvæðum jafnréttislöggjafar og meginatriðum jafnréttisáætlunar þjóðkirkjunnar. Við mat á hæfi umsækjenda skal skv. leiðbeiningarreglunum hafa hliðsjón af eftirfarandi atriðum: 1. menntun, 2. starfsaldri, 3. starfsreynslu, 4. starfsferli, 5. starfsvettvangi og 6. jafnrétti.

Í auglýsingu um laust embætti sóknarprests í Ólafsvíkurprestakalli, sem birtist í Lögbirtingablaði hinn 3. nóvember 1999, voru ekki gerðar sérstakar eða sértækar kröfur til umsækjenda um stöðuna, en þess var óskað að umsækjendur gerðu grein fyrir menntun sinni, starfsferli og öðru því sem umsækjendur óskuðu eftir að taka fram. Með vísan til 5. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, voru konur sérstaklega hvattar til að sækja um embættið.

Samkvæmt leiðbeinandi reglum biskups til valnefnda, einkum 7. gr. og 17. gr. starfsreglna um presta, sem settar eru skv. 59. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, bar valnefnd við val á sóknarpresti að líta einkum til menntunar, starfsaldurs og starfsreynslu umsækjenda, auk þess sem líta bar til ákvæða jafnréttislaga nr. 28/1991.

Ekki er umdeilt að bæði kærandi og sá sem skipaður var uppfylltu menntunarkröfur sem gerðar voru til starfsins. A hafði lokið guðfræðiprófi árið 1996 og eftir það starfað um þriggja ára skeið sem sóknarprestur á Raufarhöfn, en A vígðist þann 15. júní 1997 og var sett inn í embættið þann 4. júlí 1997. Sá sem skipaður var lauk hins vegar guðfræðiprófi vorið 1999. Er því ekki vafa undirorpið, að A stóð þeim sem skipaður var mun framar að þessu leyti, þ.e. bæði varðandi starfsaldur og starfsreynslu.

Í fundargerð valnefndar frá 17. desember 1999 segir orðrétt: Valnefnd er sammála um, að allir umsækjendur séu vel hæfir og telur sér verulegan vanda á höndum að gera þar upp á milli. Sr. A hefur það fram yfir hina tvo umsækjendurna að hafa reynslu af prestsskap í nærri þrjú ár í Raufarhafnarprestakalli. Að öðru leyti standa umsækjendur nær jafnfætis hvað varðar reynslu í kirkjulegu starfi. [A. I.] hefur áberandi mesta reynslu í umönnunarstörfum. Reynsla B er áberandi mest í almennum félagsstörfum, skólastarfi, stjórnunarstörfum öðrum en prestsskap og störfum er varða almannatengsl. Valnefndin telur því, að auk ágætis námsferils búi B yfir þeirri fjölbreytni í starfsreynslu og félagslegri þátttöku sem best muni nýtast í því prestakalli sem hér um ræðir. Vegna yfirburða hans að þessu leyti, ágæts vitnisburðar um feril hans og þeirra sjónarmiða sem hann setti fram í viðtali, og framkomu hans á fundi valnefndar, telur valnefnd sig ekki brjóta gegn jafnréttisáætlun né viðmiðunarreglum með því að velja hann".

Í fyrrgreindum starfsreglum og leiðbeiningarreglum, settum samkvæmt þeim, er skýrlega kveðið á um þau atriði sem ráða skulu vali á sóknarprestum. Í auglýsingu biskups um laust embætti sóknarprests í Ólafsvík eru ekki gerðar sérstakar kröfur til væntanlegra umsækjenda. Þá kemur ekki fram í rökstuðningi valnefndar, að sérstakar aðstæður séu til staðar eða að sérstakar kröfur séu gerðar til viðkomandi sóknarprests.

Skilja verður hinar leiðbeinandi reglur svo, að við mat á starfsaldri og starfsreynslu, skuli litið til starfsaldurs innan kirkjunnar og starfsreynslan skuli að öllu jöfnu metin eftir þeim starfsaldri. Að sönnu má einnig líta til annarrar starfsreynslu, sem telja má að komi að gagni í þjónustunni, en þegar litið er til nefndra reglna verður ekki fallist á það með valnefndinni, að fjölbreytni í starfsreynslu og félagslegri þátttöku þess sem valinn var, hafi getað skipað honum framar en A, sem hafði þá nálega þriggja ára starfsreynslu sem sóknarprestur. Sá sem valinn var bjó ekki að neinni slíkri reynslu.

Þá verður heldur ekki fallist á að sjónarmið þau, sem valnefndin byggði val sitt á, hafi getað rutt úr vegi skyldum þeim sem á nefndinni hvíldu samkvæmt jafnréttislögum og reglum kirkjunnar þar að lútandi. Í auglýsingu um embættið kom fram, með vísan til 5. gr. laga nr. 28/1991, jafnréttislaga, að konur voru hvattar til að sækja um embættið. Með þeirri áskorun var leitað eftir að jafna stöðu kvenna í hópi sóknarpresta. Var valnefndinni af þeim sökum enn síður heimilt að víkja frá nefndum reglum.

Með vísan til framanritaðs verður að telja að valnefnd í Ólafsvíkurprestakalli hafi við val sitt á sóknarpresti í Ólafsvíkurprestakalli hinn 17. desember 1999 brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. nú 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Þar sem dóms- og kirkjumálaráðherra hefur hið formlega skipunarvald ber ráðherra endanlega ábyrgð á því að gætt sé réttrar málsmeðferðar við val á prestsefni og að farið sé að jafnréttislögum. Er þeim tilmælum því beint til dóms- og kirkjumálaráðherra að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

 

Andri Árnason

Erla S. Árnadóttir

Stefán ÓIafsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta