Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 18/1999

A
gegn
Reykjavíkurborg
--------------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála 19. maí 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu.


I

Inngangur

Með bréfi dagsettu 7. desember 1999 óskaði A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning lögfræðings hjá embætti borgarlögmanns Reykjavíkurborgar bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Erindið var kynnt Reykjavíkurborg með bréfi dagsettu 16. desember 1999 og óskað upplýsinga um:
1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna.
2. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans umfram kæranda, sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991. Óskað var eftir afriti af umsókn þessa umsækjanda.
3. Hæfnisröðun umsækjenda, hafi þeim verið raðað í hæfnisröð.
4. Hvað ráðið hafi vali þess sem ráðinn var.
5. Fjölda og kyn lögfræðinga sem starfa hjá embætti borgarlögmanns Reykjavíkurborgar.
6. Afrit af auglýsingu um starfið.
7. Starfslýsingu, ef til er.
8. Annað það sem telja má til upplýsingar fyrir málið í heild.

Eftirtalin gögn liggja frammi í málinu:
1. Erindi kæranda dagsett 7. desember 1999, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf borgarstjórans í Reykjavík dagsett 28. desember 2000, ásamt fylgigögnum.
3. Svarbréf A dagsett 31. janúar 2000.
4. Bréf frá borgarlögmanni dagsett 17. mars 2000, ásamt fylgigögnum.
5. Prófskírteini kæranda ásamt fylgigögnum.

Kærandi og borgarlögmaður mættu á fund kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 15. mars 2000 og gerðu grein fyrir helstu rökum málsaðila.


II

Málavextir

Starf lögfræðings hjá embætti borgarlögmanns var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 7. mars 1999. Umsóknarfrestur var til 18. mars 1999. Fram kom í auglýsingu að starfssvið embættisins væri fjölbreytt m.a. "málflutningur fyrir Reykjavíkurborg og stofnanir hennar, lögfræðilegar álitsgerðir, samningsgerð og ráðgjöf."

Umsækjendur um starfið voru tuttuguogsjö, þrettán karlar og fjórtán konur. Fjórir umsækjenda uppfylltu ekki starfsgengisskilyrði, þar sem þau höfðu ekki útskrifast sem lögfræðingar. Borgarlögmaður yfirfór umsóknirnar og óskaði síðan eftir því við tíu umsækjendur að þeir kæmu í viðtal, um var að ræða fimm karla og fimm konur. Að viðtölunum loknum ákvað borgarlögmaður að ráða B.

Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem starfið fékk.

Kærandi lauk prófi frá lagadeild Háskóla Íslands vorið 1997 með fyrstu einkunn. Hún stundaði framhaldsnám við Stokkhólmsháskóla veturinn 1997-1998 og lauk þaðan mastersgráðu í Evrópurétti með ágætiseinkunn. Hún hefur hlotið verðlaun fyrir námsárangur. Tungumálakunnátta hennar er góð, þar sem mastersnám hennar fór fram á ensku og hún hefur bæði búið í Svíþjóð og Frakklandi. Hún fékk héraðsdómslögmannsréttindi 30. nóvember 1998. Að loknu embættisprófi starfaði hún sem fulltrúi hjá sýslumanninum í Hafnarfirði og vann þar áfram að loknu framhaldsnámi í Svíþjóð. Kveðst hún hafa starfað þar í þinglýsingar-, sifja- og skiptadeildum og komið að opinberum málum og nauðungarsölum. Hún sótti málflutningsnámskeið hjá Orator og ræðunámskeið hjá málflutningsfélagi Flensborgarskóla og Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Hún keppti í ræðumennsku fyrir málflutningsfélag Flensborgarskóla og varð í framhaldi af því dómari í Morfís, ræðukeppni félags framhaldsskóla, og hefur verið dómari í keppnum eins og Orator Oratorum. Einnig hefur hún aðstoðað við þjálfun ræðuliða í Morfís keppninni, og aðstoðað við skipulagningu og þjálfað ræðulið Íslands í norrænu málflutningskeppninni. Hún tók þátt í norrænu málflutningskeppninni í Helsinki 1996, einnig tók hún þátt í Evrópsku tvítyngdu málflutningskeppninni í Prag 1998. Hún fékk styrk úr sjóði Jóns Þorlákssonar í desember 1997. Styrkurinn er veittur einu sinni á ári til fyrrverandi nemanda í Flensborgarskóla, einnig hlaut hún styrk frá The Cassel Foundation í júní 1998. Styrkurinn er veittur einu sinni á ári fyrir góðan námsárangur til nemanda í mastersnámi í Evrópurétti við Stokkhólmsháskóla. Á námsárunum sat hún í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna og Stefni, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði. Hún sat í stjórn bókaútgáfu Orators. Hún hefur í mörg ár verið sjálfboðaliði við Kvennaráðgjöfina og veitt þar lögfræðilega ráðgjöf.

B lauk prófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1998 með fyrstu einkunn. Hann vann við úrvinnslu og forritun dómasafns Hæstaréttar á tölvutækt form hjá Íslex hf. og prentsmiðjunni Odda hf. árið 1995. Hann hóf störf hjá fasteignasölunni Valhöll í febrúar 1997 og starfaði þar samhliða námi við öll störf sem vinna þarf á fasteignasölu, annaðist hann frágang skjala vegna fasteignaviðskipta, var sölumaður, hafði samskipti við lánastofnanir og sýslumannsembætti og hélt utan um skrifstofuhaldið eitt sumar. Hann flutti sitt fyrsta prófmál til öflunar málflutningsréttinda fyrir héraðsdómi í desember 1998 og stóð annað fyrir dyrum þegar starfið var auglýst. Hann hóf störf sem fulltrúi á lögmannsstofunni Lögheimar í byrjun ársins 1999 og annaðist þar almenn lögfræðistörf, m.a. undirbúning að málshöfðunum, samningu stefna og greinargerða, samningsgerðir, innheimtur o.fl. Hann var ritari Íslandsdeildar ELSA, evrópsku laganemasamtakanna, veturinn 1996-1997, sama vetur var hann í móttökunefnd norrænna laganema. Hann hefur sótt ræðu- og málflutningsnámskeið á vegum Orators, námskeið í fjölmiðlun, greinaskrifum og framkomu og ræðunámskeið á vegum málfundafélags Framtíðarinnar. Hann tók þátt í málflutningskeppni Orators 1997.

Í bréfi dagsettu 5. maí 1999 óskar kærandi með vísan til stjórnsýslulaga eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ráðningu B í starf lögfræðings hjá borgarlögmanni. Með bréfi dagsettu 18. maí 1999 svarar borgarlögmaður fyrirspurn kæranda og kveður ákvörðun sína hafa verið tekna í framhaldi viðtala við umsækjendur. Í bréfinu sagði m.a.: "Það sem einkum réð ráðningu B var vönduð umsókn, gott embættispróf, góð meðmæli frá fyrrverandi vinnuveitendum, starfsreynsla sem nýtist vel í starfi hjá embættinu, ásamt persónuleika og framkomu í viðtölum." Tekið er fram að fyrir ráðningu B hafi starfað einn fulltrúi við embætti borgarlögmanns sem sé kona og við fimm síðustu ráðningar lögfræðinga á skrifstofur Ráðhússins hafi konur verið ráðnar.

Kærandi taldi þennan rökstuðning ekki fullnægjandi þar sem ekkert kæmi fram um hvaða menntun, starfsreynslu eða aðra sérstaka hæfileika B hefði til að bera umfram hana og sá hún sig því knúna til að kæra þessa ráðningu til kærunefndar jafnréttismála, sem hún gerði með bréfi dagsettu 29. nóvember 1999.

Hjá hinum ýmsu undirstofnunum kærða starfa sextán lögfræðingar, þar af sex konur. Í Ráðhúsinu þar sem borgarlögmaður hefur aðsetur eru átta lögfræðingar starfandi, þar af fjórar konur. Tveir lögfræðingar starfa nú fyrir borgarlögmann, annar lögfræðingurinn er kona og hefur hún starfað hjá embættinu frá 1996, og var eini fulltrúi hans um árabil. Hinn lögfræðingurinn er B.

III
Rök kæranda

Kærandi rökstyður erindi sitt með því að hún sé hæfari til að gegna starfinu en B, þar sem hún hafi meiri menntun og starfsreynslu en hann og hafi öðlast málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Vegna þess að karlmaður hafi verið ráðinn hljóti hún, í ljósi meiri hæfni sinnar, að álykta að kynferði hafi legið til grundvallar ráðningu í starfið. Náms- og starfsferli beggja hefur verið lýst hér að framan.

Hún kveðst hafa verið kölluð í viðtal til borgarlögmanns vegna starfsins og hafi þar komið fram að Evrópuréttur skipti sífellt meira máli fyrir embætti borgarlögmanns og að sifjamál, einkum barnaverndarmál, væru þar stór og mikilvægur málaflokkur, en reyndar taldi hún sig lítið hafa komist að í viðtalinu. Það hafi komið sér verulega á óvart þegar kærði í bréfi sínu dagsettu 27. desember 1999 hafi lagt samtalið út á annan veg en hér er lýst og sagt það misskilning að Evrópuréttur og barnaverndarmál væru mikilvægir málaflokkar við embættið.

Kærandi kveðst hafa nefnt átta aðila sem meðmælendur, en hún hafi ekki sent meðmæli með umsókninni. Fram komi í bréfi kærða dagsettu 27. desember 1999 að kærandi hafi getið "þess sérstaklega í umsókn sinni og í viðtali við borgarlögmann að óskað væri eftir að ekki yrði haft samband við yfirmann hennar, sýslumann, vegna umsóknarinnar. Þessa beiðni kæranda virti borgarlögmaður en með þessu var borgarlögmanni gert erfiðara að afla upplýsinga um umsækjandann en æskilegt hefði verið." Kærandi lýsir ástæðu þess að hún hafi ekki viljað að haft yrði sambandi við þáverandi vinnuveitanda í bréfi til kærunefndar dagsettu 31. janúar 2000 og segir hana vera þá að hún hefði á þeim tíma verið "búin að gera samkomulag við sinn vinnuveitanda um að starfa hjá honum um ákveðinn tiltekinn tíma. Ef í ljós hefði komið að það stæði til að veita [henni] umrætt starf, hefði [hún] viljað ræða við sinn vinnuveitanda um að hún vildi láta af störfum og skipta um starfsvettvang, en ekki að upplýsingar um slíkt bærust frá utanaðkomandi aðilum." Auk þess bendir hún á að hún vísi á átta aðra umsagnaraðila. Að því er varðar það atriði að faðir hennar er tilnefndur sem einn meðmælenda án þess að skyldleika sé getið, kvaðst hún hafa talið það óþarft þar sem borgarlögmanni hefði verið kunnugt um hann.

Það að aðrir umsækjendur hafi haft meiri starfsreynslu og menntun en bæði hún og sá sem ráðinn var telur hún ekki koma málinu við og bendi slík tilvísun til þess að einhver önnur sjónarmið en þau sem tilgreind séu í 8. gr. jafnréttislaga hafi ráðið ráðningunni í starfið. Þar sé að finna leiðbeiningar um þá þætti sem leggja beri til grundvallar við mat á hæfni umsækjenda um starf, tilgreind sé menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar. Borgarlögmanni hafi borið lagaskylda til að gæta 8. gr. við val sitt. Kærandi telur sig hæfari til að gegna starfinu og telur kynjahlutfall hjá borginni ekki skipta máli í þessu sambandi.

IV
Rök kærða

Borgarlögmaður hefur komið fram fyrir hönd kærða í málinu. Með bréfi dagsettu 27. desember 1999 ritar hann umsögn vegna máls kæranda. Borgarlögmaður kveður eftirfarandi verkefni falla undir sitt starfssvið: "Málflutningsstörf á vegum borgarsjóðs, stofnana og fyrirtækja borgarinnar. Í málflutningi felst undirbúningur m.a. gagnaöflun, vinnsla og frágangur málsskjala, gerð greinargerða og málflutningur á báðum dómstigum. Samning lögfræðilegra álitsgerða fyrir borgarstjórn, borgarráð, borgarstjóra, nefndir, allar stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar. Samning greinargerða til úrskurðaraðila, svo sem Samkeppnisstofnunar, og er deildum, stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar til ráðuneytis í þeim efnum. Ráðgjöf fyrir borgarstjórn, borgarráð, borgarstjóra, nefndir, allar stofnanir og fyrirtæki Reykavíkurborgar um lögfræðileg álitaefni. Samningsgerð og frágangur samninga, m.a. vegna kaupa og sölu eigna borgarinnar og stofnana hennar. Yfirumsjón með lögfræðilegri innheimtu vegna vanskilakrafna við borgarsjóð, stofnanir og fyrirtæki Reykjavíkurborgar. Fyrirsvar vegna skaðabótakrafna sem beint er gegn borgarsjóði, stofnunum og fyrirtækjum Reykjavíkurborgar. Fylgist með löggjafarstarfsemi Alþingis og kynnir lagafrumvörp og lög sem snerta Reykjavíkurborg og starfsemi hennar fyrir forstöðumönnum."

Í ofangreindu bréfi kemur einnig fram að honum hafi verið fyllilega ljóst að nokkrir umsækjendur hefðu lengri starfsreynslu en sá sem ráðinn var og að aðrir hefðu framhaldsmenntun að loknu embættisprófi sem hann hafði ekki. Hefði starfsreynsla og menntun átt að ráða ráðningunni hefðu hvorki sá sem ráðinn var né kærandi hlotið starfið. Kvað hann valið ekki hafa staðið sérstaklega á milli þessara tveggja umsækjenda, heldur hafi fleiri komið til greina. Hann kvaðst sérstaklega hafa auglýst eftir lögfræðingi en ekki lögmanni. Kvaðst hann ekki hafa verið að leita að lögfræðingi með mikla reynslu, heldur hafi hann verið tilbúinn til að ráða reynslulítinn lögfræðing sem hann og gerði. Hann kvað reynslu B nýtast betur í starfi löglærðs fulltrúa hjá embættinu heldur en reynslu kæranda. Kvað hann borgarlögmann nær engin samskipti hafa við sýslumannsembætti og nýttist því sú sérfræðiþekking sem starfsmenn öfluðu sér á þeim vettvangi ekki við störf hjá borgarlögmanni. Hann kvað það ekki hafa verið ákvörðunarástæðu við ráðninguna að starfandi fulltrúi hans var kona, heldur hafi eiginleikar B ráðið því að hann var valinn, gott viðmót og örugg framkoma, "sem og góð meðmæli frá vinnuveitendum, ... og vönduð umsókn."

Borgarlögmaður kvaðst hafa kallað tíu af tuttuguogsjö umsækjendum í viðtal og hafi B og kærandi verið þar á meðal. Hann kvað það vera misskilning af hálfu kæranda að hann hefði gefið í skyn í viðtalinu að menntun kæranda í Evrópurétti og reynsla af sifjamálum nýttust sérstaklega vel í starfi hjá borgarlögmanni. Hér væri um einhvern misskilning að ræða því af sifjarétti kæmu eingöngu barnaverndarmál til skoðunar hjá Reykjavíkurborg. Þeim málum væri sinnt af Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar og starfi þar tveir lögfræðingar. Borgarlögmaður annist þó þau dómsmál sem rísa kunni vegna ákvarðana barnaverndaryfirvalda s.s. vegna forsjársviptinga. Slík dómsmál hafi ekki verið mörg. Evrópuréttur sé ekki fyrirferðarmikill hjá embætti borgarlögmanns en embættið hafi fyrst og fremst til meðferðar deilumál einkaréttareðlis sem borgararnir stofni til með því að leita réttar síns gagnvart Reykjavíkurborg. Varðandi umsókn kæranda hafi honum þótt bagalegt að mælst var til þess að hann hefði ekki samband við þáverandi vinnuveitanda hennar og honum hafi ekki þótt traustvekjandi að hún nefndi föður sem meðmælanda án þess að geta um skyldleikann.

Kveður borgarlögmaður það ekki hafa hvarflað að sér að hann væri að ganga á hlut kvenna með ráðningu B, þar sem kona hefði þegar starfað sem fulltrúi við embætti hans gæti ráðning karlmanns vart verið brot á jafnréttislögum, kynjahlutfallið væri nú jafnt. Í niðurstöðu ofangreinds bréfs kveðst borgarlögmaður hafa litið til jafnréttissjónarmiða við ráðninguna. Við stjórn borgarinnar hafi á árinu 1999 starfað í Ráðhúsinu 25,5 sérfræðingar og af þeim séu 27% karlar en 73% konur.

V
Niðurstaða

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna mikilvægu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra, m.a. við ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 5. gr. jafnréttislaga.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum.

Í 8. gr. jafnréttislaga er að finna mikilvægar leiðbeiningar við mat á hæfi tveggja umsækjenda, sem báðir teljast hæfir, en þar er tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem ráðinn er.

Starf lögfræðings hjá embætti borgarlögmanns var auglýst laust til umsóknar 7. mars 1999. Í auglýsingunni kom fram að starfssvið embættisins væri fjölbreytt m.a. "málflutningur fyrir Reykjavíkurborg og stofnanir hennar, lögfræðilegar álitsgerðir, samningsgerð og ráðgjöf." Umsækjendur um starfið voru tuttuguogsjö, þ. á m. kærandi og B sem starfið hlaut. Starfsaldur og starfsreynsla innan umsækjendahópsins var mismunandi. Borgarlögmaður ákvað eftir viðtöl við tíu umsækjendur að ráða B.

Kærandi hefur óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála veiti álit sitt á því hvort ofangreind ráðning brjóti gegn ákvæðum jafnréttislaga. Taldi nefndin ekki ástæðu til að afla upplýsinga um hæfni annarra umsækjenda en kæranda og þess sem starfið hlaut.

Samkvæmt því sem fram hefur komið hefur kærandi meiri menntun, en hún hefur lokið mastersnámi frá Stokkhólmsháskóla og öðlast lögmannsréttindi. Í auglýsingu um starfið var ekki krafist framhaldsnáms né lögmannsréttinda en engu að síður verður að telja viðbótarmenntun almennt til þess fallna að auka hæfni í starfi. Stendur kærandi því framar B að því er menntun varðar.

Starfsaldur þess sem starfið hlaut og kæranda er svipaður. Hennar reynsla er einkum hjá opinberum aðilum, en hans hjá fasteignasölu og lögmönnum. Hann var í hlutastarfi á fasteignasölu frá febrúar 1997 með námi sem hann lauk haustið 1998. Frá byrjun ársins 1999 starfaði hann sem fulltrúi á lögmannsstofu. Kærandi starfaði eitt sumar hjá félagsmálastofnun Hafnarfjarðar og bæjarlögmanninum í Hafnarfirði. Að loknu embættisprófi vorið 1997 starfaði hún um sumarið sem fulltrúi hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, og hóf þar síðan aftur störf í júní 1998 að loknu framhaldsnámi í Svíþjóð. Starfsreynsla hans virðist samkvæmt þessu nokkru lengri en kæranda, starfsreynsla þeirra er þó á ólíkum sviðum.

Ekki þykja í máli þessu liggja fyrir nein "sérstök sjónarmið" sem falla undir skilgreiningu 8. gr. jafnréttislaga.


Borgarlögmaður hefur rökstutt ákvörðun sína m.a. með því að hann hafi frekar leitað eftir starfsreynslu þeirri sem sá sem starfið hlaut hafði en reynslu kæranda og ekki sérstaklega sóst eftir þekkingu af því tagi sem er á hennar sérsviði. Sem rök fyrir ráðningunni hefur hann einnig nefnt persónuleika og framkomu B, góð meðmæli frá vinnuveitendum, gott embættispróf og vandaða umsókn. Borgarlögmaður gerði hins vegar athugasemdir við umsókn kæranda og fyrirvara sem í henni voru.

Ætla má að embætti borgarlögmanns hefði getað notið góðs af menntun og starfsreynslu kæranda enda var hún í þeim hópi sem sérstaklega kom til álita. Þrátt fyrir framangreind viðmið, sem telja verður að atvinnurekanda sé skylt að taka tillit til, þá verður einnig að líta til þess að hann hefur visst svigrúm við val á einstaklingum í starf. Þeim rökum borgarlögmanns, að honum hafi þótt reynsla þess sem starfið hlaut af skjalagerð og fleiru tengdu fasteignaviðskiptum eftirsóknarverður eiginleiki hjá nýjum starfsmanni, verður ekki, eins og hér stendur á, hafnað sem ómálefnalegum.

Kærunefnd jafréttismála lítur við úrlausn deilumáls af þessu tagi einkum til þeirra hlutlægu þátta sem greinir í 8. gr. jafnréttislaga og fjallað hefur verið um hér að framan. Markmið jafnréttislaga er fyrst og fremst að koma á jafnrétti og eðli málsins samkvæmt þarf oft að jafna hlut kvenna til að ná því markmiði. Fyrir liggur að fleiri konur en karlar störfuðu sem sérfræðingar hjá Reykjavíkurborg á þeim tíma sem um ræðir. Jafnvægi er á hlutfalli kynja innan þess hóps lögfræðinga sem starfa hjá kærða í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þá er upplýst að hjá borgarlögmanni starfaði fyrir einn fulltrúi, sem er kona.

Með vísan til framangreinds og þeirra atriða sem borgarlögmaður kaus að leggja áherslu á, er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga við ráðningu í starfið.

 


Hjördís Hákonardóttir
Helga Jónsdóttir
Andri Árnason

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta