Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 20/1999

A f.h. B
gegn
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum
--------------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála 17. maí 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu.

I

Inngangur

Með bréfi, dags. 13. desember 1999, óskaði A, eftir því, fyrir hönd kvenna í Starfsmannafélagi ríkisstofnana (S.F.R.) sem starfa á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort akstursgreiðslur til karla en ekki kvenna sem eru í S.F.R. brytu gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Erindið var kynnt Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði með bréfi, dags. 27. desember 1999, og óskað upplýsinga um:
1. Fjölda og kyn starfsmanna sem voru félagsmenn í S.F.R. og starfa á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
2. Fjölda og kyn starfsmanna sem fengu akstursgreiðslur og starfa á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og eru í S.F.R.
3. Hvaða atriði voru lögð til grundvallar þegar ákvörðun var tekin um akstursgreiðslur til starfsmanna Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
4. Annað það sem Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum telur til upplýsinga fyrir málið í heild.

Eftirtalin gögn liggja frammi í málinu:
1. Erindi kæranda, dags. 13. desember 1999, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf B, forstöðumanns Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, dags. 6. janúar 2000, ásamt fylgigögnum.
3. Svarbréf A, dags. 21. janúar 2000.
4. Bréf Bílanefndar ríkisins, dags. 14. mars 2000, ásamt fylgigögnum.

Kærandi og kærði mættu á fund kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 8. mars 2000 og gerðu grein fyrir helstu rökum málsaðila.

II
Málavextir

Að Keldum er starfrækt Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði. Þar starfa ellefu einstaklingar sem eru félagsmenn í S.F.R., þrír karlar og átta konur. Tveir af körlunum sem eru í S.F.R. fá akstursgreiðslur en engin kona. Þeir karlmenn sem fá nú akstursgreiðslur eru bústjóri staðarins og skrifstofustjóri. Bústjórinn notar bifreið sína í þágu kærða og leggur því fram kostnað á móti akstursgreiðslunni, en skrifstofustjórinn notar ekki eigin bifreið í þágu stofnunarinnar. Þær konur sem þar starfa og eru félagsmenn í S.F.R. telja á sér brotið þar sem þær fá ekki akstursgreiðslur. A trúnaðarmaður kærir málið fyrir hönd allra S.F.R. kvenna að Keldum.

Kærandi vakti fyrst athygli á máli þessu árið 1995 með bréfi til B forstöðumanns kærða, dags. 7. júní 1995, en í því óskaði hún eftir því að samgöngumál til og frá vinnustað yrðu endurskoðuð. Staðsetning Tilraunastöðvarinnar er þannig að 15 mínútna gangur er á næstu viðkomustöð strætisvagna og er sú leið afar ógreiðfær og nánast ófær að vetrarlagi. Í sama bréfi var skýrt frá óhagstæðri tímasetningu strætisvagna. Kærandi lagði fram tillögur að úrbótum fyrir hönd félaga í S.F.R. að Keldum í þremur liðum, í fyrsta lagi að samið yrði við Strætisvagna Reykjavíkur um aðgengilegri biðstöð, í öðru lagi að greidd yrði akstursgreiðsla eins og allir aðrir á stofnuninni hefðu og í þriðja lagi að þeim yrði bætt þetta eftir öðrum leiðum sem allir gætu sætt sig við.

Hinn 17. ágúst 1995 ritaði kærandi bréf til framkvæmdastjóra kærða og benti á að samkvæmt upplýsingum frá Vegagerð ríkisins hefðu almenningsvagnar ekki leyfi til að stoppa við afleggjarann að Keldum. Í sama bréfi var farið fram á að fá greitt akstursgjald fyrir 2000 kílómetra á ári.

Í bréfi frá kæranda sem trúnaðarmanns, dags. 17. nóvember 1995, til samstarfsnefndar S.F.R. var óskað eftir því að félagsmenn í S.F.R. sem starfa á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum fengju greitt akstursgjald sem allra fyrst. Vísað var til þess að samkvæmt gr. 5.4.1. í gildandi kjarasamningi skyldi ríkið sjá starfsmönnum fyrir ferðum til og frá vinnustað eða greiða ferðakostnað. Erindið var tekið fyrir í samstarfsnefndinni hinn 6. desember 1995 og því vísað til Tilraunastöðvarinnar.

Hinn 12. janúar 1996 ritaði kærandi sem trúnaðarmaður bréf til kærða, þar sem óskað var eftir því að tekið yrði á ferðamálum til og frá vinnustaðnum. Fram kom í bréfinu að samkvæmt gildandi kjarasamningum ættu umræddir starfsmenn rétt á því að ríkið sæi þeim fyrir ferðum eða greiddi ferðakostnað. Samkvæmt bréfi framkvæmdastjóra kærða, frá ágúst 1996, töldu stjórnendur stofnunarinnar vinnustaðinn ekki það fjarri leiðum almenningsvagna að stofnuninni bæri að sjá starfsmönnum fyrir ferðum til og frá vinnustað. Bent var á að akstri á vegum stofnunarinnar var hætt á miðju sumri 1992 og engar kvartanir hefðu borist um það fyrirkomulag í tvö ár. Auk þess lægi fyrir að meirihluti starfsmanna gæti ekki nýtt sér akstur á vegum stofnunarinnar þó svo að hann yrði tekinn upp að nýju.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 1996, ítrekaði framkvæmdastjóri kærða að það væri álit stofnunarinnar að í öllu væri farið eftir gildandi samningum. Taldi hann þrátt fyrir það vilja hjá stofnuninni til að leysa málið og kom fram með þá hugmynd að félagar í S.F.R. sem ekki fengju akstursgreiðslur ættu þess kost að taka sameiginlega leigubíl frá Grensásvegi á kostnað Tilraunastöðvarinnar á ákveðnum tíma rétt fyrir klukkan átta árdegis og yrði ekið til sama staðar klukkan fjögur að vinnudegi loknum.

Í bréfi kæranda, dags. 8. nóvember 1996, var fallist tímabundið á tilboð kærða um notkun leigubíla til og frá vinnustaðnum. Áskilinn var réttur til að halda málinu opnu þar sem félagsmennirnir voru ekki sammála túlkun kærða um að stofnunin færi að öllu eftir samningum. Jafnframt kom fram í bréfinu að allflestir væru ósáttir við tilboðið um leigubifreiðaakstur frá Grensásvegi.

S.F.R. konur báru fram tillögur til lausnar á málinu með bréfi til forstöðumanns og framkvæmdastjóra kærða, dags. 19. apríl 1999. Þær vildu með því kanna hvort hægt væri að bæta hækkun sem samsvarar akstursgreiðslu inn í samninga þeirra. Kærandi greindi kærunefnd frá því að tilboði þessu hefði verið hafnað munnlega af forstöðumanni kærða.

Hinn 4. nóvember 1999 kynnti framkvæmdastjóri kærða S.F.R. félögum að Keldum fyrirhugað erindi stofnunarinnar til Bílanefndar ríkisins þar sem kannað yrði hvort til greina kæmi að þeir starfsmenn kærða sem ekki væru með fastan akstursstyrk fengju sem svaraði 1000 kílómetra akstursgjaldi á ári. S.F.R. konur höfnuðu þeirri tillögu bréflega samdægurs. Í bréfi þeirra kom fram að tillögunni væri hafnað m.a. á þeirri forsendu að of mikill mismunur væri á milli akstursgreiðslna sem aðrir starfsmenn kærða fengju og þessa tilboðs. Jafnframt kom fram að eindregið væri óskað eftir því að fá akstursgreiðslur fyrir 2000 kílómetra á ári. Framkvæmdastjóri kærða sendi Bílanefnd ríkisins bréf, dags. 4. nóvember 1999, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort til greina kæmi að þeir fimmtán starfsmenn sem ekki væru með fastan akstursstyrk fengju sem svaraði 2000 kílómetra akstursgjaldi á ári.

Svar barst frá Bílanefnd ríkisins 7. desember 1999. Nefndin kvaðst ekki taka almenna afstöðu til málefnisins, en afgreiða umsóknir um akstursgreiðslur þegar þær bærust með hliðsjón af þeim rökstuðningi sem í þeim væri. Athygli var á því vakin, að ekki væri heimilt almennt séð, að greiða fyrir akstur í og úr vinnu á höfuðborgarsvæðinu.

III
Rök kæranda

Kærandi rökstyður erindi sitt með því að karlar í S.F.R. sem starfi að Keldum fái akstursgreiðslur og þurfi þeir ekki að sýna kostnað á móti, en konur sem að Keldum starfi og séu í S.F.R. fái ekki akstursgreiðslur. Kærandi greindi kærunefnd frá því að þegar núverandi bústjóri hefði verið aðstoðarmaður bústjóra hefði hann fengið akstursgreiðslur, en taldi núverandi aðstoðarmann bústjóra ekki hafa fengið akstursgreiðslur vegna tilkomu máls þessa. Kærandi kvað skrifstofustjóra stofnunarinnar fá akstursgreiðslur án þess að hann notaði bifreið sína í þágu kærða og hefði hann greint henni frá því að hann liti á sínar akstursgreiðslur sem launauppbót.

Hún benti á að vegna legu staðarins væru samgöngur slæmar, langt að næstu biðstöð strætisvagna og tímasetningar vagnanna óhagstæðar. Um mitt sumar 1992 hafi akstri rútu á vegum kærða verið hætt þar sem ferðirnar hafi ekki hentað starfsmönnum. Forsenda þess hafi verið sú að ferðir almenningsvagna yrðu bættar sem ekki hafi orðið raunin. Samkvæmt gr. 5.4.1. í gildandi kjarasamningi bæri kærða, eins og aðstæður væru að Keldum, að sjá starfsmönnum fyrir akstri til og frá vinnu eða greiða þeim ella ferðakostnað.

Hún taldi kærða ekki hafa látið á það reyna til hlítar hjá Bílanefnd ríkisins hvort þær konur sem starfa hjá kærða og eru í S.F.R. ættu rétt á að fá akstursgreiðslur.

Kærandi taldi mál þetta til komið vegna þess mismunar sem gerður væri á milli kynja þegar stofnunin tæki ákvörðun um hverjir fengju akstursgreiðslur.

IV
Rök kærða

Af hálfu kærða var staðfest að tveir af þremur körlum sem væru í S.F.R. og störfuðu að Keldum fengju akstursgreiðslur, en þær greiðslur væru samkvæmt aksturssamningi sem staðfestur væri af Bílanefnd ríkisins. Forstöðumaður kærða taldi ekki vera um mismunun að ræða milli kynja heldur hefðu akstursgreiðslur komið til vegna notkunar eigin bifreiðar starfsmanna í þágu stofnunarinnar, en ferðir til og frá vinnu falli ekki þar undir. Hann kvað annan karlinn sem hafi fengið akstursgreiðslur vera bústjóra á staðnum. Hinn karlinn sem hafi fengið akstursgreiðslur væri skrifstofustjóri. Í ráðningarsamningi hans og aksturssamningi væri tekið fram að hann skyldi nota eigin bifreið vegna aksturs í "toll, banka og ráðuneyti á vegum stofnunarinnar." Forstöðumaðurinn kvað sér ekki hafa verið ljóst að skrifstofustjórinn nýtti ekki bifreið sína í erindagerðir fyrir stofnunina. Taldi hann erfitt að fylgjast með ferðum hvers og eins á svo fjölmennum vinnustað. Forstöðumaður kærða greindi frá því að engin ákvörðun hafi verið tekin um að taka af viðkomandi skrifstofustjóra akstursgreiðslur þær sem hann fengi samkvæmt aksturssamningi.

Forstöðumaður kærða kvað Bílanefnd ríkisins hafa hafnað aksturssamningi við umrædda fimmtán starfsmenn kærða. Hann telur stofnunina hafa farið eftir samningum varðandi ferðir til og frá vinnu og í raun gert meira en skylda bæri til. Í bréfi sem forstöðumaður kærða ritaði kærunefnd jafnréttismála hinn 6. janúar 2000 kemur fram að hjá stofnuninni hafi verið rúta, ætluð til aksturs starfsfólks til og frá vinnu. Rekstri hennar hafi verið hætt árið 1992 þar sem starfsfólkið notaði hana ekki. Þeim starfsmönnum sem höfðu nýtt sér ferðirnar hafi verið gefinn kostur á að taka fólksbíl í eigu stofnunarinnar til að aka úr og í vinnu en svo fór að allir kusu að fara á eigin bifreiðum. Í sama bréfi var greint frá því að kærði hafi reynt að koma til móts við starfsfólk vegna slakra og strjálla almenningssamgangna, sem gildi raunar um Reykjavíkurborg í heild, þó að stofnuninni bæri ekki skylda til þess: a) Starfsfólki hafi verið gefinn kostur á að taka leigubíl á kostnað stofnunarinnar frá Grensásstöð Strætisvagna Reykjavíkur við upphaf vinnu og til hennar við lok vinnu. b) Vegna strjálla ferða sem standast illa á við upphaf eða lok vinnudags hafi þeim sem hafa farið framá slíkt verið gefinn kostur á sveigjanleika í vinnutíma að svo miklu leyti sem það sé unnt. c) Ennfremur hafi þeim sem verða fyrir því að bifreið þeirra bilar óvænt þegar þeir eru að leggja af stað til vinnu að morgni verið boðið að taka sér leigubíl á kostnað stofnunarinnar.

Forstöðumaður kærða kvað engan karlmann starfa við samskonar störf og þær S.F.R. konur sem eru kærendur í máli þessu.

V
Niðurstaða

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. við greiðslu þóknunnar og hlunninda.

Í 4. gr. jafnréttislaga segir m.a. að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þar er kveðið á um að með launum sé átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun, beina eða óbeina, hvort heldur sé með hlunnindagreiðslum eða öðrum hætti og sagt, að með kjörum sé átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur samningsréttindi. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers kyns aðra þóknun fyrir vinnu. Skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að launamunur milli starfsmanna af gagnstæðu kyni, skýrist af öðrum þáttum en kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Framangreind ákvæði eru í samræmi við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Á grundvelli laga nr. 2/1993 er Ísland aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt 3. gr. þeirra laga ber að skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggjast. Samkvæmt 69. gr. samningsins skulu aðildarríkin tryggja að konur og karlar hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu en með launum í þessum skilningi er átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum, hvort heldur er í fé eða fríðu, sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda sínum vegna starfa sinna. Framangreind ákvæði jafnréttislaga eru í meginatriðum hin sömu og kveðið er á um í 69. gr. EES-samningsins og XVIII. viðauka hans um jafnrétti kynjanna og vinnurétt.

Það er álit kærunefndar að ein grundvallarforsenda launajafnréttis sé að launakerfi séu gagnsæ. Í því felst að starfsmenn þurfa að vita hvað liggur til grundvallar launa-ákvörðunum eða hefur áhrif á kjör þeirra.

Í máli þessu er til skoðunar hvort kærði hafi brotið gegn framangreindum ákvæðum jafnréttislaga með því að synja S.F.R. konum sem starfa við stofnunina um akstursgreiðslur sem stofnunin greiðir tveimur af þremur karlmönnum innan S.F.R. svo sem rakið hefur verið hér að framan.

Í reglugerð um bifreiðamál ríkisins nr. 580/1991 eru fyrirmæli varðandi bifreiðanotkun á vegum ríkisins. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar gilda ákveðnar reglur þegar bifreiðar starfsmanna ríkisins eru leigðar til notkunar í þágu ríkisins, sbr. 5.-8. gr. Samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar skal fjármálaráðuneytið meta þörf á samningi við einstaka starfsmenn að höfðu samráði við forstöðumenn viðkomandi ríkisstofnunar. Telji forstöðumaður þörf á aksturssamningi við starfsmenn þá skal gera skriflegan samning þar um sbr. umburðarbréf um bifreiðamál, dags. 27. september 1995. Þeir aksturssamningar sem gerðir eru við starfsmenn ríkisstofnana eru lagðir fyrir Bílanefnd ríkisins til samþykktar sbr. 12. gr. reglugerðarinnar. Forstöðumaður hlutaðeigandi ríkisstofnunar skal fylgjast með framkvæmd samningsins og ber hann ábyrgð á því að eftir honum sé farið sbr. 7. gr. reglugerðarinnar.

Í bréfi frá Bílanefnd ríkisins, dags. 14. mars 2000, er tekið fram að ekki séu gerðir akstursamningar við ríkisstarfsmenn vegna aksturs til og frá vinnu nema í algjörum undantekningartilvikum. Í bréfinu segir nánar um þessar undantekningar:

þar sem þannig hagar til að staðsetning viðkomandi stofnana er afskekkt, og þær þurfa að leita eftir vinnuafli í nærliggjandi þéttbýli. Þá er skilyrt um ákveðna fjarlægð sem komi til greina, er miðist við næsta þéttbýli. Einnig þarf að vera þannig ástatt, að ekki séu almenningssamgöngur fyrir hendi sem henti í viðkomandi tilfelli. Oftast er þetta skilyrði þess að stofnunin eigi kost á nauðsynlegu vinnuafli.

Það er álit kærunefndar að kærði hafi ekki látið á það reyna til hlítar hvort Bílanefnd ríkisins fallist á akstursgreiðslur til einstakra starfsmanna kærða vegna sérstakra aðstæðna varðandi staðsetningu stofnunarinnar gagnvart almenningssamgöngum.

Fyrir liggur að þeir karlmenn innan S.F.R. sem starfa hjá kærða og hafa notið akstursgreiðsna fengu þær í upphafi vegna notkunar á eigin bifreiðum í þágu stofnunarinnar. Ljóst er að annar þeirra, bústjórinn, notar bifreið sína í þágu stofnunarinnar. Samkvæmt ráðningarsamningi við hinn karlinn, skrifstofustjórann, fólst starf hans m.a. í því að sinna ýmsum erindum fyrir stofnunina og nota eigin bifreið til þeirra starfa. Ákvörðun um akstursgreiðslu til skrifstofustjórans var tekin á þeirri forsendu að hann myndi nýta eigin bifreið í þágu stofnunarinnar. Fyrir liggur að hann hefur ekki notað eigin bifreið í þágu stofnunarinnar en aksturssamningurinn hefur ekki verið endurskoðaður. Það er því ljóst að hann nýtur hlunninda sem jafna má við launauppbót. Kærunefnd jafnréttismála telur í ljós leitt að karl sem starfar hjá kærða nýtur að þessu leyti betri kjara en konur sem þar starfa og tilheyra sama stéttarfélagi og að sá munur á kjörum hafi ekki verið réttlættur. Kærði þykir ekki hafa gert þær ráðstafanir sem honum voru tiltækar til að jafna þennan mun. Kærði þykir því hafa brotið gegn 1. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga nr. 28/1991.

Kærunefnd beinir þeim tilmælum til kærða að aksturssamningar starfsmanna stofnunarinnar sem eru félagsmenn í S.F.R. verði teknir til endurskoðunar eða fundin verði önnur lausn sem S.F.R. konur sem starfa á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum geta sætt sig við.
 


Sigurður Tómas Magnússon
Hjördís Hákonardóttir
Helga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta