Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 13/1999

A
gegn
Listaháskóla Íslands
----------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála 14. apríl 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu.

I

Með bréfi, dags. 15. júní 1999, óskaði A, deildarstjóri, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu deildarforseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Erindið var kynnt Hjálmari H. Ragnarssyni, rektor Listaháskóla Íslands, með bréfi dags. 25. júní 1999, og óskað upplýsinga um:
1. Hvar og hvenær staða deildarforseta myndlistardeildar hefði verið auglýst laus til umsóknar.
2. Hvernig staðið hefði verið að ráðningu í starfið.
3. Hvort dómnefndin hefði starfað á grundvelli erindisbréfs eða annarra fyrirmæla og hver þau þá hefðu verið.
4. Hvaða þættir hefðu verið lagðir til grundvallar við mat á hæfni umsækjenda og hvaða rök hefðu legið þeim að baki.
5. Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þeirra sem metnir voru hæfari en kærandi.
6. Kyn þeirra sem gegna æðstu stöðum innan Listaháskóla Íslands.
7. Afstöðu Listaháskóla Íslands til erindis A.
8. Annað það sem Listaháskóli Íslands vildi koma á framfæri og teldi til upplýsingar fyrir málið.

Eftirtalin gögn liggja frammi í málinu:
1. Erindi kæranda, dags. 15. júní 1999, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf Hjálmars H. Ragnarssonar, rektors Listaháskóla Íslands, dags. 5. júlí 1999.
3. Svarbréf Gunnars Jóhanns Birgissonar, lögmanns Listaháskóla Íslands, dags. 3. ágúst 1999, ásamt fylgigögnum.
4. Bréf Gunnars Jóhanns Birgissonar, hrl., dags. 4. nóvember 1999.
5. Bréf kæranda dags. 15. desember 1999.
6. Bréf til Gunnars Jóhanns Birgissonar, hrl., dags. 21. janúar 2000
7. Svarbréf Gunnars Jóhanns Birgissonar, lögmanns, dags. 1. febrúar 2000

Kærandi, rektor kærða og Gunnar Jóhann Birgisson, lögmaður kærða mættu á fund kærunefndar jafnréttismála 20. janúar 2000 og gerðu grein fyrir helstu rökum málsaðila. Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftir áliti dómnefndar um þann sem stöðuna fékk. Í bréfi lögmanns Listaháskóla Íslands dags. 1. febrúar 2000 kemur fram að umbeðið afrit af dómnefndaráliti verði því aðeins afhent að tryggt sé "að trúnaði verði haldið viðB þannig að tryggt sé að dómnefndarálitið verði ekki sýnt eða afhent málsaðila eða öðrum sem þess óska." Þar sem nefndin taldi sig ekki geta fylgt eftir þeim skilyrðum sem sett voru við afhendingu álitsins voru ekki gerðar frekari kröfur um afhendingu gagnanna.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 43/1995 um listmenntun á háskólastigi, hefur menntamálaráðherra heimild til að gera samning um slíka menntun, sbr. 1. gr. laganna. Listaháskóli Íslands samþykkti 24. mars 1999, ásamt menntamálaráðuneytinu, áætlun til þriggja ára um uppbyggingu listnáms. Samkvæmt áætluninni skyldi myndlistarmenntun á háskólastigi hefjast við Listaháskóla Íslands 1. ágúst 1999 og á sama tíma skyldi starfrækslu Myndlista- og handíðaskóla Íslands hætt á grundvelli laga nr. 43/1995 um listmenntun á háskólastigi sbr. og 30. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins.

Í 3. mgr. 16. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, er ákvæði um að nánar skuli kveðið á um val á deildarforseta í sérlögum eða reglugerð hvers skóla. Ákvæðinu var fullnægt með setningu skipulagsskrár fyrir kærða, 29. september 1998.

II
Málavextir

Starf deildarforseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 28. mars 1999. Fram kom í auglýsingu, að umsóknarfrestur væri til 19. apríl 1999 og að rektor réði deildarforseta til allt að þriggja ára í senn, að höfðu samráði við stjórn skólans. Einnig kom fram að sérstök dómnefnd myndi dæma um hæfi umsækjenda.

Tilgreint var að umsækjandi skyldi vera myndlistarmaður og hafa meistaragráðu á sínu sviði eða jafngilda þekkingu og reynslu. Í auglýsingunni sagði ennfremur:
"Umsókn skal fylgja greinargóð skýrsla um listræn störf umsækjanda, önnur störf, rannsóknir og ritsmíðar, sýningarhald, verk í opinberri eigu og aðrar þær upplýsingar sem tengjast listsköpun hans og starfi. Ennfremur yfirlit um námsferil og afrit af prófskírteinum. Umsókninni skal fylgja stutt greinargerð um hugmyndir umsækjanda um uppbyggingu deildarinnar. Loks er til þess ætlast að umsækjandi láti fylgja með umsagnir um kennslu- og stjórnunarstörf eftir því sem við á."

Hinn 13. apríl 1999, samþykkti stjórn Listaháskóla Íslands reglur um veitingu starfa við skólann (starfsreglur). Í þeim er sérstaklega kveðið á um, að auglýsa skuli stöður við skólann, auglýsingar skuli vera ítarlegar og skýrar, auk þess sem tiltekið er hvaða gögn fylgja skuli umsóknum. Enda þótt auglýsing um starfið, sem kært er vegna, hafi birst fyrir setningu reglnanna, kom fram í henni allt það sem síðar var ákveðið í reglunum að kalla bæri eftir með umsóknum. Í 4. gr. starfsreglna Listaháskólans er því lýst ítarlega hvað dómnefnd skuli leggja til grundvallar við mat á hæfi umsækjenda.

Umsækjendur um starf deildarforseta myndlistardeildar voru fjórir. Stjórn skólans skipaði þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda, eins og fram kom í auglýsingu um starfið. Dómnefndina skipuðu einn listfræðingur og tveir starfandi myndlistarmenn. Dómnefndin skilaði samdóma áliti, 27. apríl 1999, um að tveir umsækjenda teldust vel hæfir, einn hæfur og einn ekki hæfur. Kærandi var talin hæf en sá sem starfið fékk vel hæfur. Eftir að niðurstaða dómnefndar lá fyrir ákvað rektor, í samráði við stjórn skólans, að bjóða B starfið og þáði hann það.

Kærandi lauk myndlistarkennaraprófi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971 og var í "akademísku" framhaldsnámi við skólann árið þar eftir. Á árunum 1973-1976 var kærandi við nám í textílhönnun í Konstfackskolan í Stokkhólmi. Frá 1976-1986 starfaði hún sem kennari við myndlistardeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Frá þeim tíma og allt til þess að Myndlista- og handíðaskólinn var felldur undir Listaháskólann á árinu 1999 starfaði hún sem deildarstjóri í textíldeildar. Kærandi var deildarstjóri hönnunardeildar skólans 1990-1991, en deildin var rekin í tilraunaskyni í eitt ár. Kærandi hefur verið í ýmsum nefndum, hún hefur setið í stjórn Form Ísland frá 1988 og var formaður frá 1995. Hún var í stjórn listvinafélags Hallgrímskirkju 1990-1998 og frá 1977-1980 var hún formaður Textílfélagsins. Hún hefur verið virk í rekstri gallería.

B stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, nýlistadeild, 1977-1981 og var við nám við Hochschule für Bildende künste í Hamborg 1983-1987. Hann kenndi við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Akureyrar 1987 og 1988, og frá árinu 1991 við Myndlista- og handíðaskólann, en þar gegndi hann stöðu deildarstjóra fjöltæknideildar frá 1993 til þess að skólinn var felldur undir Listaháskólann á árinu 1999. Frá því starfi tók hann þó hlé skólaárið 1997-1998 er hann gegndi stöðu skólastjóra Myndlistaskólans í Reykjavík. Árin 1987-1989 var B formaður stjórnar og starfsmaður Nýlistasafnsins. Hann átti sæti í stjórn IAA (Íslandsdeild) á árunum 1989-1992, hann var formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna 1992-1994, í stjórn Bandalags íslenskra listamanna 1992-1994 og í stjórn Myndlistasjóðs Íslands 1992-1994.

Með bréfi, dags. 9. maí 1999, gerði kærandi athugasemdir við niðurstöðu dómnefndarinnar. Dómnefndin svaraði athugasemdum kæranda með ódagsettu bréfi. Í svari dómnefndar kemur m. a. fram, að dómnefndinni hafi verið gefnar ákveðnar forsendur við mat á umsóknum og þar hafi verið efst á blaði "listrænn ferill og/eða rannsóknir og fræðistörf." Þann samjöfnuð hafi kærandi ekki staðist og því verið metin hæf en tveir aðrir umsækjendur vel hæfir.

Listaháskóli Íslands var stofnaður 1. ágúst 1999. Ráðið hefur verið í sex stjórnunarstöður við skólann. Rektor og deildarstjóri myndlistardeildar eru karlar en deildarstjóri leiklistadeildar, framkvæmdastjóri, skrifstofustjóri og forstöðumaður bókasafns eru konur.

III
Rök kæranda

Kærandi rökstyður erindi sitt með því að hún hafi meiri reynslu af myndlist og hönnun og betri yfirsýn yfir starfið en sá sem það hlaut. Kærandi telur að unnið hafi verið eftir undarlegum aðferðum við ráðningu í stöðuna, ekki hafi legið fyrir fagleg og rökstudd ákvörðun um það við hvað ætti að miða við mat á umsækjendum. Kærandi telur það hafa verið fyrirfram ákveðið að B fengi stöðuna og til þess að komast hjá vali á milli karls og konu þá hafi hún einungis verið talin "hæf" til þess að gegna stöðunni en sá sem hana hlaut "vel hæfur". Þegar staðan var auglýst hafi ekki komið fram hvaða atriði yrðu notuð sem viðmið við ráðningu í stöðuna, það að höfuðáhersla yrði lögð á "listrænan feril" hafi ekki komið fram, né heldur að listrænn ferill yrði aðeins metinn út frá fjölda sýninga umsækjenda. Til listrænnar starfsemi hljóti að teljast fleira en eigið sýningarhald. Rekstur á galleríum hljóti til að mynda að flokkast undir listræna starfsemi. Um sé að ræða óeðlilega þrönga skilgreiningu á því hvað flokkist undir listræna starfsemi. Hún hafi haldið færri einkasýningar, en það geti vart ráðið úrslitum.

Kærandi kveður alla sína krafta hafa farið í að sinna umfangsmiklu aðalstarfi og gefi augaleið að það hafi komið niður á listrænni starfsemi sinni. Þá hafi hún starfað að því að koma verkum nemenda Myndlista- og handíðaskólans á framfæri, jafnvel erlendis.

Kærandi leggur höfuðáherslu á að greina frá störfum sínum við kennslu og uppbyggingu myndlistarnáms, enda telur hún það skipta meira máli við val á deildarforseta myndlistardeildar en hve mörgum sýningum viðkomandi hefur tekið þátt í. Kærandi telur jafnframt að kynbundnir fordómar gagnvart textíllist séu ríkjandi, enda sé textíllist dæmigert kvennafag á Íslandi. Þá telur kærandi störf sín að hönnun ekki hafa verið metin að verðleikum við ákvörðun um ráðningu í starfið. Kærandi er ósátta við að hafa ekki verið kölluð í viðtal.

IV
Rök kærða

Kærði tekur fram, að settar hafi verið reglur um veitingu starfa við Listaháskóla Íslands. Þær reglur hafi að að mörgu leyti tekið mið af reglum sem gildi í öðrum háskólum. Samkvæmt starfsreglunum skuli skipa dómnefnd til að meta hæfi umsækjenda um störf. Í starfsreglunum sé höfuðáhersla lögð á menntun og mat á listrænum ferli og/eða rannsóknum umsækjenda, kennslustörf og reynslu af öðrum þáttum svo sem stjórnun. Eftir þessum reglum hafi dómnefndin starfað. Einnig komi fram í starfsreglunum að við mat á listrænum störfum skuli leggja til grundvallar listrænt gildi og frumleika og jafnframt að viðurkenndar innlendar sem erlendar listastofnanir hafi notið starfskrafta umsækjanda eða tekið verk hans til sýningar.

Kærði telur að auglýsingin hafi borið glöggt með sér að við ráðningarferlið yrði höfuðáhersla lögð á listrænan feril umsækjenda. Auglýst hafi verið eftir myndlistarmanni og sérstaklega kallað eftir gögnum sem sýni fram á listsköpun umsækjenda.

Listaháskólinn hafi skipað þrjá valinkunna einstaklinga í dómnefnd um stöðuna, tvo myndlistarmenn og listfræðing. Dómnefndin hafi verið einróma í niðurstöðu sinni. Kærandi hafi verið metin hæf en sá sem stöðuna fékk vel hæfur. Dómnefndin hafi tekið fram í svari sínu við athugasemdum kæranda, að hún uppfyllti ekki með öllu þær kröfur sem dómnefndinni var ætlað að fara eftir um listrænan feril og/eða rannsóknir og fræðistörf. Fram kom hjá kærða að við mótun skólans hafi verið haft að leiðarljósi að starfsmenn einangruðust ekki í skólanum heldur héldu tengslum við listaheiminn. Því væri reynt að ráða fólk með reynslu og orðspor í listaheiminum.

Kærði mótmælir því eindregið að búið hafi verið að ákveða hver fengi stöðuna. Hefði svo verið hefði starfið ekki verið auglýst. Stöður við skólann hafi verið auglýstar, umfram skyldu, í því skyni að skapa frið um starfsemi skólans, þótt raunin hafi orðið önnur. Dómnefndin hafi einfaldlega fengið umsóknargögn í hendur, frekari afskipti hafi ekki verið höfð af henni. Ráðningin hafi hins vegar verið á grundvelli dómnefndarálitsins.

V
Niðurstaða

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna mikilvægu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra, m.a. við ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 5. gr. jafnréttislaga.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Við ráðningu í stöðu deildarstjóra myndlistardeildar Listaháskólans bar, að jafnréttislögum, að bera saman menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika umsækjenda áður en ákvörðun var tekin. Kærandi telur þess ekki hafa verið gætt eða að niðurstaðan hafi í öllu falli orðið röng.

Samkvæmt lið 4.1 í starfsreglum kærða skal við mat á umsækjendum við ráðningu líta til menntunar eða jafngildrar reynslu, sbr. 7. gr. laga um háskóla nr. 136/1997, en að teknu tilliti til þess skal mat "byggt á eftirfarandi þáttum: listrænum ferli og/eða rannsóknum og fræðistörfum, kennslustörfum og reynslu af öðrum þáttum, svo sem stjórnun."

Kærandi og sá sem stöðuna hlaut hafa bæði umfangsmikla menntun sem virðist falla vel að starfinu. Því er ekki haldið fram af kæranda að hennar menntun sé betri eða meiri en þess sem stöðuna hlaut og ekki verður ráðið af gögnum málsins að svo sé. Verður því að telja jafnræði með þeim í því efni.

Bæði hafa verulega starfsreynslu af myndlistarkennslu, umsjón listsýninga og alls kyns félags- og trúnaðarstörfum er tengjast myndlist. Bæði hafa reynslu af myndlistakennslu þ. á m. sem deildarstjórar við Myndlista- og handíðaskólann, hún sem deildarstjóri textíldeildar frá 1986, eða í 13 ár, en hann sem deildarstjóri fjöltæknideildar, árin 1993-1997 svo og frá 1998, eða í 5 ár. Reynsla kæranda er því lengri en þess sem starfið hlaut, en reynsla hans er þó einnig veruleg. Þá hefur sá sem starfið hlaut það umfram kæranda að hafa starfað sem skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík í eitt ár. Má því telja jafnræði með þeim hvað starfs- og stjórnunarreynslu áhrærir.

Verður því að líta til þess hvort sá sem starfið fékk hafi búið yfir einhverjum sérstökum hæfileikum, umfram kæranda. Í auglýsingu um starf deildarstjóra myndlistardeildar Listaháskóla Íslands var auglýst eftir myndlistarmanni. Af auglýsingunni má ennfremur ráða, að listrænn ferill og listsköpun yrði veigamiklir þættir við val í starfið, sbr. kröfur um að umsókn skuli "fylgja greinargóð skýrsla um listræn störf umsækjanda, önnur störf, rannsóknir og ritsmíðar, sýningarhald, verk í opinberri eigu og aðrar þær upplýsingar sem tengjast listsköpun hans og starfi." Það verður enn gleggra, sé litið til reglna um veitingu starfa við skólann, en þær höfðu þó ekki verið gefnar út er auglýst var eftir deildarstjóra. Í 2. gr. starfsreglnanna er fjallað um starfsumsóknir og meðferð þeirra. Liður 2.1. er svohljóðandi:
Umsóknum skal fylgja greinargóð skýrsla um listræn störf umsækjenda og/eða rannsóknir og ritsmíðar, afrit af verkum eftir því sem við á, upplýsingar um önnur störf og aðrar þær upplýsingar er tengjast listsköpun hans og starfi.

Enda þótt starfsreglurnar hafi ekki verið samþykktar fyrr en eftir að auglýst var eftir deildarstjóra, bera þær vott um að áhersla væri lögð á sjálfstæðan listrænan feril umsækjenda.

Samkvæmt 9. gr. skipulagsskrárinnar, skal rektor, eftir tilnefningu stjórnar, skipa dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til þess að gegna stöðu deildarforseta við skólann. Dómnefndin, sem skipuð var listfræðingi og tveimur myndlistarmönnum, fór yfir umsóknir kæranda og þess sem ráðinn var. Í 9. gr. skipulagsskrárinnar er jafnframt kveðið á um að engan megi ráða sem deildarforseta, "nema meirihluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur." Niðurstaða dómnefndarinnar var sú, að kærandi væri ekki jafn hæf til starfsins og sá sem ráðinn var og var dómnefndin sammála í niðurstöðum sínum. Athugasemdir, sem kærandi kom á framfæri við dómnefndina, breyttu ekki mati hennar. Samkvæmt lið 4.2 í starfsreglum skólans skal við mat á listrænum störfum leggja til grundvallar eftirfarandi þætti: "listrænt gildi og frumleika og að viðurkenndar innlendar sem erlendar listastofnanir, sem leggja faglegt mat til grundvallar vali sínu, hafi notið starfskrafta umsækjanda eða tekið verk hans til sýningar, flutnings eða útgáfu." Niðurstaða dómnefndarinnar var sú, að listrænn ferill þess sem ráðinn var tæki fram listrænum ferli kæranda. Dómnefndin kemst þannig að þeirri niðurstöðu að sá sem ráðinn var hafi að þessu leyti haft sérstaka hæfileika umfram þann sem ráðinn var.

Skilningur dómnefndarinnar og rektors kærða á auglýsingu um starfið og reglum um veitingu starfa við skólann var augljóslega sá að vægi listræns ferils ætti að vera meira en annarra þátta í hæfnismati. Þá er einnig ljóst að skilningur þessara aðila á listrænum ferli er þrengri en skilningur kæranda. Kærunefnd telur að ætla verði dómnefndinni nokkuð svigrúm til að ákveða innbyrðis vægi þeirra þátta sem lagðir eru til grundvallar hæfnismati. Nefndin telur að kærði hafi fært málefnaleg rök fyrir þeim skilningi sem hæfnisnefndin lagði til grundvallar mati sínu.

Í málinu er ekkert komið fram sem rennir stoðum undir þá fullyrðingu kæranda að fordómar í garð textíllistar sem kvennafags hafi haft áhrif á hæfnismatið. Kærunefnd jafnréttismála telur því ekkert benda til þess að dómnefnd hafi skjöplast í mati sínu. Verður því að leggja það til grundvallar niðurstöðu kærunefndar að sá sem hlaut stöðu deildarstjóra myndlistardeildar Listaháskóla Íslands hafi verið hæfari en kærandi. Rektor Listaháskóla Íslands var því rétt að leggja niðurstöðu dómnefndarinnar til grundvallar ráðningu í deildarstjórastöðuna.

Með hliðsjón af framansögðu er það álit kærunefndar jafnréttismála að skipun í stöðu deildarforseta myndlistardeildar Listaháskóla Íslands hafi ekki verið andstæð ákvæðum jafnréttislaga.
 


Sigurður Tómas Magnússon

Erla S. Árnadóttir

Gunnar Jónsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta