Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 15/1999:

A
gegn
bæjarstjórn Blönduóss.
------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála miðvikudaginn 8. mars 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi, dags. 26. júní 1999, óskaði A, grunnskólakennari, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðn í stöðu aðstoðarskólastjóra Grunnskólans á Blönduósi bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Erindið var kynnt bæjarstjóra Blönduóssbæjar fh. bæjarstjórnar með bréfi dags. 16. ágúst 1999 og óskað upplýsa um:
1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna.
2.Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var umfram kæranda. Óskað var eftir afriti af umsókn hans.
3. Hvað ráðið hafi vali á umsækjendum.
4. Fjölda grunnskóla í sveitarfélaginu.
5. Fjölda og kyn skólastjóra og aðstoðarskólastjóra í grunnskólum sveitarfélagsins.
6. Fjölda og kyn starfsmanna við Grunnskólann á Blönduósi.
7. Starfslýsar fyrir starfið, ef til væri.
8. Afstöðu sveitarstjórnar til erindis kæranda.
9. Annað það sem telja mætti til upplýsar fyrir málið í heild.

Eftirtalin gögn liggja frammi í málinu:
1. Erindi kæranda, dags. 26. júlí 1999, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf bæjarstjóra Blönduóss, dags. 30. ágúst 1999, ásamt fylgigögnum.
3. Bréf kæranda, dags. 16. september 1999, ásamt fylgigögnum.
4. Bréf Sturlu Þórðarsonar, bæjarfulltrúa, dags. 21. september 1999.
5. Útprentun úr kennaraskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. febrúar 2000, upplýsar um kæranda og þann sem ráðinn var.

Kærandi og Skúli Þórðarson, bæjarstjóri, mættu á fund kærunefndar jafnréttismála 23. febrúar 2000 og gerðu grein fyrir helstu rökum málsaðila.

II

Starf aðstoðarskólastjóra við Grunnskólann á Blönduósi var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 18. apríl 1999. Tilgreint var að umsóknarfrestur væri til 30 apríl. Í auglýsingunni komu hvorki fram hæfniskröfur né lýsing á starfi aðstoðarskólastjóra en tiltekið að skólastjóri veitti nánari upplýsingar. Umsækjendur um stöðuna voru fjórir, tvær konur og tveir karlar. Báðar konurnar og annar karlinn voru starfandi kennarar við skólann.

Á fundi skólanefndar Blönduóssbæjar 18. maí 1999 var tekin fyrir ráðning aðstoðarskólastjóra. Í fundargerð frá fundinum kemur fram að borist hafi fjórar umsóknir og umsækjendur nafngreindir. Síðan segir: "Skólastjóri gerir tillögu um að B verði ráðinn aðstoðarskólastjóri frá og með næsta skólaári. Eru öðrum umsækjendum þakkaðar þeirra umsóknir og sá áhugi sem þeir sýna grunnskólanum og starfi hans með þeim." Að loknum skólanefndarfundinum tilkynnti skólastjóri kæranda þessa niðurstöðu.

Fundargerð skólanefndar var til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. júní 1999. Fram kemur í fundargerð bæjarstjórnarfundarins að umræður hafi orðið um fundargerðina og að þeim loknum hafi hún verið borin upp og samþykkt samhljóða. Á fundi bæjarstjórnar 15. júní var ráðning aðstoðarskólastjóra sérstaklega á dagskrá. Í fundargerð kemur fram að rakið hafi verið hverjir hafi sótt um og að skólastjóri mæli með B. Tillaga skólastjóra hafi síðan verið borin undir atkvæði og hún samþykkt með sex atkvæðum. Einn bæjarfulltrúi sat hjá og lét bóka eftirfarandi: "með þessari ráðningu er brotinn réttur á umsækjendum sem hljóta að teljast hæfari vegna lengri starfsaldurs og/eða meira menntunar, auk þess sem jafnréttislög eru augljóslega brotin. Ábyrgð bæjarstjórnar er því mikil, og ég treysti mér ekki til að styðja þetta. Hins vegar virði ég ákvörðun skólastjórans, og greiði því ekki atkvæði gegn þessari ráðningu, en sit hjá."

Í framhaldi af þessari niðurstöðu var B ráðinn aðstoðarskólastjóri. Með bréfi, dags. 28. maí 1999, sagði kærandi lausri kennarastöðu sinni við skólann og tiltók að ástæða uppsagnarinnar væri óánægja með að karlmaður með minni starfs- og stjórnunarreynslu væri tekinn fram yfir hana við stöðuveitingu við skólann. Með bréfi dagsettu sama dag til formanns skólanefndar óskaði kærandi eftir skriflegum rökstuðningi skólanefndar fyrir að hafna umsókn hennar. Erindinu var svarað af bæjarstjóra og er rökstuðningur hans dags. 16. júní 1999.

Grunnskólinn á Blönduósi er eini grunnskóli sveitarfélagsins. Þar voru 25 starfsmenn skólaárið 1998 til 1999, 18 konur og 7 karlar. Við kennslu störfuðu 15 konur og 6 karlar. Karlar gegna stöðum skólastjóra og aðstoðarskólastjóra.

Kærandi kveðst hafa farið fram á að fá afrit af starfslýsingu fyrir aðstoðarskólastjóra en sér hafi verið tjáð að hún væri ekki til. Af hálfu kærða hefur verið lögð fram starfslýsing sem er ódagsett. Bæjarstjóri upplýsti á fundi með kærunefnd að honum væri ekki kunnugt um hvort starfslýsingin væri samin eftir að B var ráðinn en taldi það vel geta verið. Í þeirri starfslýsingu er tilgreint að aðstoðarskólastjóri sé staðgengill skólastjóra og vinni með honum við daglega stjórn skólans. Aðstoðarskólastjóri hafi auk þessa umsjón m.a. með forfallakennslu og fjarvistarskráningu starfsfólks, nemendaspjaldskrá og tölvuskráningu nemenda og kennara, gerð vinnuskýrslna kennara og stundaskráa þeirra og nemenda, tækjum og búnaði skólans og umsjón með heimasíðu skólans.

Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsferil kæranda og þess sem ráðinn var. Kærandi lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1973 og stúdentsprófi frá sama skóla ári síðar. Hún lauk fyrri hluta náms til sérkennslufræða frá Kennaraháskóla Íslands 1987 og er það metið 30 námseiningar. Hún sótti starfsleikninámskeið hjá Kennaraháskóla Íslands 1989 til 1991 og er það metið til 12 námseininga. Hún hefur sótt reglulega námskeið fyrir kennara á starfsferli sínum, m.a. á sviði sérkennslu og kennslufræða. Kærandi var kennari við gagnfræðaskólann á Ísafirði 1974 til 1977, við gagnfræðaskólann í Keflavík 1977 til 1978, við barnaskólann í Hnífsdal 1978 til 1985, við útibú Grunnskólans á Ísafirði í Hnífsdal 1987 til 1991, við Grunnskólann á Blönduósi 1991 til 1995, við Þingborgarskóla 1995 til 1997 og við Grunnskólann á Blönduósi 1997 til 1999. Hún starfar nú við Grunnskólann í Þorlákshöfn. Kærandi gegndi stöðu skólastjóra við barnaskólann í Hnífsdal tímabundið seinni hluta skólaársins 1979 til 1980 í barnsburðarleyfi skólastjóra og var útibússtjóri þess sama skóla í fjögur ár frá 1987 til 1991 en þá hafði skólinn verið sameinaður Grunnskóla Ísafjarðar. Samkvæmt kennaraskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga, þar sem fram kemur yfirlit yfir menntun, starfsreynslu og símenntun kennara, hefur kærandi 180,0 stig fyrir menntun og 40,5 stig vegna símenntunar, samtals 220,5 stig.

B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1985, BA námi frá Háskóla Íslands 1993 með sagnfræði sem aðalgrein og uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá Háskólanum á Akureyri 1996. Hann hefur sótt námskeið um sjálfsmat skóla og um íslenska menntanetið, vefsíðugerð. Hann hefur leyfi menntamálaráðuneytisins til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Hann hefur kennt við Grunnskóla Blönduóss frá 1993. Á árunum 1993 og 1994 kenndi hann einnig við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir kennara og trúnaðar- og félagsstörfum á Blönduósi. Samkvæmt kennaraskrá Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur B 171,0 stig fyrir menntun sína og 4,0 stig vegna símenntunar, samtals 175,0 stig.

III

Kærandi rökstyður erindi sitt með því að hún sé hæfari til að gegna umræddri stöðu en sá sem ráðinn var að því er varðar menntun, starfsreynslu og stjórnunarreynslu. Menntun hennar og framhaldsmenntun sé á sviði almennrar kennaramenntunar. Hið sama eigi við öll þau námskeið sem hún hafi sótt að frátöldum tveimur. Hún hafi frá því hún lauk kennaranámi menntað sig og starfað innan þessa starfssviðs. Menntun hans sé ekki almenn kennaramenntun heldur hafi hann lokið námi í sagnfræði sem sé ein tiltekin kennslugrein.

Hún hafi að auki lengri starfsferil sem kennari en hann, jafnvel þó starfstími hans sem leiðbeinanda sé tekinn með. Hún hafi einnig meiri reynslu af stjórnun en hann en hún hafi tímabundið gegnt stöðu skólastjóra og gegnt stöðu útibússtjóra í fjögur ár. Starf útibússtjóra sé sambærilegt skólastjórastarfi. Hún hafi, svo dæmi sé tekið, setið fundi kennararáðs á Ísafirði og gegnt öðrum skyldum sem fylgja skólastjórastörfum. Kærði telji fram sem sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var, að hann hafi setið í kennararáði og verið með fagstjórn en þá reynslu hafi hún einnig.

Þá telur kærandi verulega aðfinnsluvert hvernig staðið var að ráðningunni. Enginn umsækjenda hafi verið kallaður í viðtal og ekki hafi verið rætt við þá einstaklinga sem hún tiltók sem meðmælendur. Vissulega hafi þrír af fjórum umsækjendum verið kennarar við skólann og skólastjóri þekkt til starfa þeirra. Hún viti hins vegar ekki til þess að sá umsækjandi sem ekki starfaði við skólann hafi heldur verið boðaður í viðtal. Ennfremur sé tilgangurinn með því að kalla umsækjendur í viðtal að fá fram hugmyndir umsækjenda um starfið. Skólastjórinn hafi aðeins eins árs starfsreynslu sem skólastjóri grunnskólans. Engin fagleg umsögn eða mat á hæfni umsækjenda komi fram hjá skólanefnd bæjarins. Ekki sé samræmi milli fundargerða skólanefndar og bæjarstjórnar. Þannig sé ekki tekið fram í fundargerð skólanefndar og bæjarstjórnar að skólastjóri telji alla umsækjendur hæfa en sú afstaða er eftir honum höfð í bréfi bæjarstjóra til kærunefndar frá 30. ágúst 1999. Þá mótmælir kærandi því að aldur þess sem ráðinn var, en hann er um 10 árum yngri en hún, og eitthvað sem kallað er stöðugleiki hans í starfi séu sjónarmið, sem leggja megi til grundvallar. Þessi orð verði ekki skilin á annan hátt en þann að hún, sem sé 45 ára gömul, sé of gömul fyrir starfið og að hún sé óstöðug í starfi þar sem hún hafi starfað í nokkrum grunnskólum. Hún telji það hins vegar kost að hafa kennt í fleiri skólum en einum. Að lokum tekur kærandi undir þau orð bæjarstjóra að vissulega sé áhyggjuefni hve fáir karlar starfi í grunnskólum. Það réttlæti hins vegar ekki að karlar raðist í stjórnunarstöðurnar en konur í almenna kennslu.

IV

Kærði vísar til þess að í grunnskólalögum sé kveðið á um að sveitarstjórn ráði aðstoðarskólastjóra að fenginni tillögu skólastjóra. Á fundi skólanefndar 18. maí 1999 hafi skólastjóri gert nefndinni grein fyrir þeim umsóknum sem borist höfðu og jafnframt kynnt tillögu sína um ráðningu. Allir umsækjendur hafi verið hæfir. Það sem ráðið hafi tillögu skólastjóra hafi verið mat hans á þeim fjölmörgu þáttum sem almennt séu hafðir til hliðsjónar við ráðningu starfsfólks. Þar sé m.a. um að ræða menntun, starfsaldur, starfshæfni, aldur og stöðugleika í starfi. Skólastjóra hafi verið kunnugt um þessa þætti varðandi þrjá af þeim fjórum sem sóttu um, þar sem þeir voru starfsmenn skólans. Afstaða sveitarstjórnar til þeirra umsókna sem bárust komi fram í samþykkt bæjarstjórnar Blönduóss 15. júní 1999 þegar tillaga skólastjóra var samþykkt með sex atkvæðum en einn sat hjá. Þó svo sveitarstjórn ráði í starfið, þá sé skólastjóri að velja sér aðstoðarmann og hann sé umsagnaraðili samkvæmt grunnskólalögum. Afstaða og ákvörðun bæjarstjórnar hafi að hluta til mótast af þessu. Þá telji bæjarstjórn að kærandi og sá sem ráðinn var séu með jafngilda menntun. Grunnskólinn sé mjög mikilvæg stofnun í sveitarfélaginu og það sé stefna bæjarstjórnar Blönduóss að stjórnendur í stofnunum bæjarins hafi tiltölulega mikið sjálfstæði í sínum störfum og geti þar af leiðandi haft mikið um það að segja hverjir standi þeim næst. Að því er varðar vísan til aldurs og stöðugleika í starfi, þá sé á engan hátt verið að vega að kæranda. Verið sé að vísa til þess sem ráðinn var en hann eigi að baki sex ára mjög farsælan starfsferil innan skólans. Þá sé hann á svipuðum aldri og skólastjóri og ætla megi að það hafi skipt máli við val skólastjóra á umsækjendum.

Bæjarstjóri upplýsti á fundi með kærunefnd að bæjarritari, gjaldkeri og allir starfsmenn á skrifstofu Blönduóssbæjar væru konur. Leikskólastjóri og félagsmálastjóri væru konur, skólastjóri tónlistarskólans og garðyrkjustjóri væru karlar. Þess bæri þó að geta að bæði tónlistarskólinn og félagsmálastofnun væru rekin í samvinnu við nágrannasveitarfélögin. Byggingarfulltrúi, starfsmenn tæknideildar og áhaldahúss væru karlar. Í bæjarstjórn sætu þrjár konur og fjórir karlar.

Að lokum er ítrekuð sú afstaða bæjarstjórnar að rétt og eðlilega hafi verið staðið að ráðningunni og fagleg sjónarmið ráðið bæði tillögu skólastjóra og meðferð og afgreiðslu málsins í heild. Jafnréttislög hafi því ekki verið brotin við ráðningu aðstoðarskólastjóra.

 

V
NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 5. gr. jafnréttislaga.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, sbr. 2. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995, ræður sveitarstjórn og skipar kennara, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra grunnskóla. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 86/1998 skal við ráðningu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra taka tillit til menntunar, kennsluferils, stjórnunarreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda. Þá er í 8. gr. kveðið á um að við ráðningu og skipun skólastjórnenda grunnskóla fari eftir ákvæðum þeirra laga og laga nr. 66/1995 um grunnskóla, sbr. 2. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Um almenn skilyrði þess að fá skipun eða ráðningu í kennara- eða skólastjórnendastöðu við grunnskóla er fjallað í 3. gr. laga nr. 72/1996.

Ekki verður séð að bæjarstjórn Blönduóss hafi lagt mat á hvernig umsækjendur uppfylltu þau skilyrði sem tilgreind eru í lögum nr. 86/1998 og enginn samanburður var gerður á hæfni þeirra. Hið sama á við um skólanefnd sem samkvæmt grunnskólalögum er skólastjóra til ráðgjafar um málefni skólans. Skólastjóra ber ennfremur að grundvalla tillögu sína á þeim atriðum sem kveðið er á um í lögum nr. 86/1998 og ákvæðum jafnréttislaga. Er þetta sérstaklega þýðingarmikið ef tillaga hans hefur mikið vægi við ráðninguna. Af gögnum málsins virðist sem þess misskilnings hafi gætt að skólastjóri réði aðstoðarskólastjóra og að hann hefði alfarið með það val að gera. Skólanefnd afgreiddi tillögu skólastjóra 18. maí 1999. Á fundi bæjarstjórnar 1. júní 1999 var fundargerð skólanefndar afgreidd án athugasemda. Bæjarstjóri hefur upplýst að eftir bæjarstjórnarfundinn hafi athygli hans verið vakin á því að bæjarstjórn bæri að taka ráðningu aðstoðarskólastjóra til afgreiðslu sem sérstakan dagskrárlið. Það hafi síðan verið gert á fundi bæjarstjórnar 15. júní 1999. Var af þessu tilefni ástæða fyrir bæjarstjórn að kanna enn betur en ella þau lög og þær reglur sem ákvörðunina varða.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 86/1998 skal við mat á hæfni umsækjenda um stöðu skólastjóra og aðstoðarskólastjóra taka mið af menntun, kennsluferli, stjórnunarreynslu og umsögnum um umsækjendur. Kærandi hefur almenna menntun á sviði kennslu auk þess að hafa aflað sér viðbótarmenntunar með starfsleikninámi og fyrri hluta náms í sérkennslufræðum. Sá sem ráðinn var hefur lokið BA prófi í sagnfræði og prófi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda. Bæði uppfylla skilyrði til að nota starfsheitið grunnskólakennari en B hefur að auki leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Kærandi hefur frá því hún lauk námi sótt margs konar námskeið til að auka hæfni sína í starfi og mun fleiri en sá sem ráðinn var. Verður að fallast á það með kæranda að almenn kennaramenntun falli betur að starfi skólastjórnanda í grunnskóla en nám í sérgrein á háskólastigi. Þá verður að telja að kærandi hafi ívið meiri menntun en sá sem ráðinn var en samkvæmt kennarabók Sambands íslenskra sveitarfélaga er menntunarstig hennar þar skráð 180,0 en hans 171,0. Munurinn eykst enn frekar ef námskeið eru tekin með en þá er kærandi með 220,5 stig á móti 175,0 stigum þess sem ráðinn var. Starfsreynsla kæranda er bæði lengri og starfsferill hennar fjölbreyttari. Þá hefur kærandi fjögurra ára reynslu af skólastjórnun en sá sem ráðinn var hefur enga stjórnunarreynslu. Bæði hafa reynslu af fagstjórnun. Engar umsagnir liggja fyrir. Verður samkvæmt framangreindu að telja að kærandi standi þeim sem ráðinn var framar hvað varðar þau atriði sem tilgreind eru í lögum nr. 86/1998.

Í 8. gr. jafnréttislaga segir að við mat á hæfni skuli, auk menntunar og starfsreynslu, taka mið af sérstökum hæfileikum sem sá hefur til að bera sem ráðinn var umfram kæranda. Engir slíkir sérstakir hæfileikar hafa verið tilgreindir. Í bréfi bæjarstjóra frá 30. ágúst 1999 er ákvörðunin rökstudd á þann veg að hún hafi verið byggð á heildstæðu mati þar sem m.a. hafi verið horft til aldurs og stöðugleika í starfi. Eru þessi atriði ekki skýrð nánar. Á fundi með kærunefnd jafnréttismála upplýsti bæjarstjóri aðspurður að hér væri fyrst og fremst verið að vísa til þess sem ráðinn var. Því væri ekki haldið fram að kærandi væri óstöðug í starfi eða að aldur hennar hentaði ekki starfinu. Það hefði þótt skipta máli að sá sem ráðinn var væri á svipuðum aldri og skólastjóri og hefði starfað við skólann frá því að hann hóf kennslu fyrir sex árum. Kærunefnd fellst ekki á að þetta teljist málefnaleg sjónarmið í því samhengi sem þau eru sett fram, enda er engin tilraun gerð til að rökstyðja hvaða vægi þau hafi fyrir starf aðstoðarskólastjóra og skólastarfið í heild, nema þá helst að skólastjóri sé að velja sinn aðstoðarmann. Kærandi er 45 ára gömul en sá sem starfið fékk er 33 ára. Kærandi hafði starfað sem kennari og skólastjórnandi við sex grunnskóla á þeim 23 árum sem liðin voru frá því hún lauk námi frá Kennaraskóla Íslands og þau eiga jafnlangan starfsferil að baki við Grunnskóla Blönduóss. Svo sem hér að framan hefur verið rakið er það embættisverk skólastjóra að gera tillögu um ráðningu aðstoðarskólastjóra og ber honum við það verk að gæta lögbundinna og málefnalegra sjónarmiða. Í því tilviki sem hér er til meðferðar virðast engin rök liggja til þess að álykta að sá sem ráðinn var sé líklegur til að sýna meiri staðfestu í starfi en kærandi. Þykja þessi rök því ekki skipta máli. Að því er lífaldur varðar getur sú röksemd eingöngu lotið að þeirri málsástæðu, sem fram hefur komið, að þarna sé skólastjóri að velja sér sinn aðstoðarmann. Í því samhengi eru þessi rök hins vegar ómálefnaleg á sama hátt og kynferði er. Þetta atriði þykir því ekki sýna fram á sérstaka hæfni þess sem ráðinn var umfram kæranda til að gegna stöðu aðstoðarskólastjóra.

Þegar mið er tekið af þeim atriðum sem samkvæmt lögum nr. 86/1998 skal leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda, og þar sem ekki hafa komið fram nein sérstök málefnaleg sjónarmið sem leitt geti til annarrar niðurstöðu, er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að telja verði kæranda hæfari til að gegna stöðu aðstoðarskólastjóra en þann sem ráðinn var.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, er það álit kærunefndar jafnréttismála að bæjarstjórn Blönduóss hafi við ráðningu í stöðu aðstoðarskólastjóra við Grunnskóla Blönduóss brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, sbr. 1. gr. 3. gr. og 5. gr. sömu laga.

Þeim tilmælum er beint til bæjarstjórnar að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi getur sætt sig við.
 


Sigurður Tómas Magnússon
Hjördís Hákonardóttir
Gunnar Jónsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta