Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 5/1999:

A
gegn
heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.
-------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 10. desember 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I

Með bréfi, dags. 27. febrúar 1999, óskaði A, heilbrigðisfulltrúi, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að nefndin kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning B í starf framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, í desember 1998, bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um:
1. Hvernig staðið hafi verið að ráðningu í starfið.
2. Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var.
3. Hvað ráðið hafi valinu.
4. Skipurit heilbrigðiseftirlitsins þar sem fram kæmu æðstu stöður innan þess.
5. Kyn þeirra sem gegndu æðstu stöðum innan stofnunarinnar.
6. Afstöðu heilbrigðisnefndarinnar til erindis kæranda.
7. Annað það sem heilbrigðisnefndin vildi koma á framfæri og teldi til upplýsingar fyrir málið.

Með bréfi, dags. 30. september 1999, óskaði kærunefnd eftir kyngreindu skipuriti Bessastaðahrepps, Garðabæjar, Kópavogsbæjar og Hafnarfjarðarbæjar.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:
1. Kæra, dags. 27. febrúar 1999, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf kærða, dags. 30. maí 1999, ásamt fylgigögnum.
3. Bréf kæranda, dags. 18. júní 1999, ásamt fylgigagni.
4. Bréf kærða, dags. 21. september 1999, ásamt fylgigögnum.
5. Bréf sveitarstjóra Bessastaðahrepps, dags. 8. október 1999, ásamt fylgigögnum.
6. Bréf bæjarritara Garðabæjar, dags. 13. október 1999, ásamt fylgigögnum.
7. Bréf bæjarritara Kópavogsbæjar, dags. 14. og 25. október 1999, ásamt fylgigögnum.
8. Bréf forstöðumanns starfsmannahalds.Hafnarfjarðarbæjar, dags. 18. nóvember 1999, ásamt fylgigögnum.

Kærandi málsins kom á fund kærunefndar 9. september 1999. Þann sama dag kom á fund nefndarinnar formaður heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

II

Með lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, voru heilbrigðiseftirlit Kópavogs annars vegar og heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Bessastaðahrepps hins vegar sameinuð í heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Samkvæmt lögunum skal kjósa heilbrigðisnefnd eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar til starfa á hverju eftirlitssvæði. Heilbrigðisnefnd ræður framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins og skal hann hafa fengið leyfi umhverfisráðherra til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi. Heilbrigðisnefndinni bar því að ráða hinu sameinaða eftirliti framkvæmdastjóra.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 1998, lagði kærandi inn umsókn sína um starf framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Að sögn hennar var ástæðan sú að henni hafi orðið ljóst haustið 1998 að til stæði að ráða B í starf framkvæmdastjóra án auglýsingar. Hún hafi engu að síður, vegna áhuga síns á starfinu, lagt inn umsókn um starfið til hinnar nýju heilbrigðisnefndar.

Nefndin ákvað að leita til PricewaterhouseCoopers ehf. og óska eftir faglegri ráðgjöf um ráðninguna og mati á kæranda og B. Fulltrúi fyrirtækisins fékk, að sögn kærða, afhenta umsókn kæranda og náms- og starfsferilsskrá B. Fóru þau bæði í viðtal við ráðgjafann og gengust undir persónuleikapróf. Ráðgjafinn mætti á fund heilbrigðisnefndar og gerði grein fyrir niðurstöðum sínum. Í bréfi PricewaterhouseCoopers ehf. segir:

Samkvæmt beiðni formanns heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis hef ég nú lokið viðtölum og yfirfarið persónumat þeirra tveggja einstaklinga sem óskað var eftir.

Ég vil taka fram að báðir þessir tveir einstaklingar eru mjög hæfir en eftir vandlega athugun er það niðurstaða mín að B búi yfir meiri starfsreynslu til að gegna ofangreindu starfi.

Í framhaldi þessa var síðan tekin ákvörðun um ráðninguna og formlega frá henni gengið á fundi heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 2. desember 1998. Kærandi var ekki ráðin, en sá sem ráðinn var hafði áður gegnt stöðu framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðarsvæðis. Jafnframt lýsti nefndin yfir vilja sínum til að ráða kæranda í stöðu skrifstofustjóra stofnunarinnar og staðgengils framkvæmdastjóra. Kærandi hafði áður gegnt stöðu framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Kópavogssvæðis.

Skömmu eftir nefndan fund heilbrigðisnefndarinnar kom formaður hennar að máli við kæranda og tilkynnti henni niðurstöðuna. Með bréfi, dags. 16. desember 1998, óskaði kærandi eftir rökstuðningi nefndarinnar fyrir þeirri ákvörðun. Með bréfi, dags. 20. janúar 1999, gerði formaður nefndarinnar grein fyrir niðurstöðu ráðgjafafyrirtækisins og að nefndin hefði í framhaldi af því, að vandlega athuguðu máli, orðið sammála um að ráða B á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir hafi legið.

Kærandi málsins, A, lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1979. Hún lauk prófi í dýralækningum frá Dýralæknaháskólanum í Hannover í Þýskalandi 1985 og fékk sama ár leyfi landbúnaðarráðherra til að kalla sig dýralækni og stunda dýralækningar hér á landi. Hún fékk réttindi til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi 1986. Hún lauk þriggja anna námi í rekstrar- og viðskiptafræðum við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í janúar 1999. Þá hefur hún sótt ýmis námskeið bæði hérlendis og erlendis.

A starfaði sem framkvæmdastjóri einangrunarstöðvar ríkisins í Hrísey 1986-1993 að undanskildu einu og hálfu ári, er hún var sjálfstætt starfandi dýralæknir. Hún var deildardýralæknir á matvæla- og heilbrigðissviði Hollustuverndar ríkisins 1993-1994 og framkvæmdastjóri nautastöðvar Búnaðarfélags Íslands 1994-1996. A var framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Kópavogssvæðis frá 1. ágúst 1996. Þá vann hún fjögur haust sem kjötskoðunarlæknir í sláturhúsum á Vopnafirði og Þórshöfn. A var tvö ár formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, sat í fjögur ár í stjórn hestamannafélagsins Léttis á Akureyri, þar af sem formaður í eitt og hálft ár, var í þrjú ár gjaldkeri í stjórn Dýralæknafélags Íslands og eitt ár gjaldkeri Norrænnar dýralæknaráðstefnu 1994.

B lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1969 og stundaði nám við menntadeild sama skóla 1969-1970. Hann stundaði nám í líffræði og efnafræði við Háskóla Íslands 1970-1971 og umhverfis- og heilbrigðiseftirlitsnám við Statens Naturvårdverk í Svíþjóð 1975-1976. Hann stundaði nám við Nordiska Hälsovårdhögskolan í Svíþjóð á árunum 1982-1995, sem samanstóð af fjórum námskeiðum, umhverfisheilsufræði 1982, fyrirbyggjandi heilsuvernd 1983, faraldursfræði og tölfræði 1993 og heilsuhagfræði og stjórnun 1995. Hann fékk réttindi til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi í Svíþjóð 1976 og leyfi til að starfa sem heilbrigðisfulltrúi hér á landi 1983. B hefur leyfi til að kaupa og nota eiturefni í X og A flokkum og nota þau við útrýmingu meindýra. Þá hefur hann sótt ýmis námskeið og farið í kynnisferðir til annarra landa.

B starfaði sem ríkislögregluþjónn frá 1971-1974. Hann var heilbrigðisfulltrúi hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá 1974 til 1984 og heilbrigðisfulltrúi og framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðarsvæðis frá 1984. Þá var hann forstöðumaður Heilsugæslu Hafnarfjarðar frá 1985 og Heilsugæslustöðvar Hafnarfjarðar frá stofnun hennar til 1990. B sat í stjórn Hollustuverndar ríkisins frá 1986-1994 og í nefnd umhverfisráðherra um framtíðarskipan sorphirðu, meðferð úrgangsefna og endurvinnslu 1990-1991.

III

Í máli kæranda kemur fram að hún telji sig hæfari til að gegna umræddu starfi en þann sem starfið hlaut. Hún hafi mun meiri menntun sem nýtist til starfsins. Starfsreynsla hennar sé ekki jafnlöng hans en nýtist vel í starfið. Hún hafi í störfum sínum sem framkvæmdastjóri Einangrunarstöðvar ríkisins í Hrísey og nautastöðvar Búnaðarfélags Íslands á Hvanneyri, öðlast góða reynslu í starfsmannastjórnun, gerð fjárhagsáætlana, daglegum rekstri, fjárreiðum og bókhaldi. Báðar þessar stöðvar séu einangrunarstöðvar og hafi hún því mikla reynslu af innra eftirliti og eftirliti með að settum reglum sé fylgt. Sem deildardýralæknir á heilbrigðis- og matvælasviði Hollustuverndar ríkisins hafi hún öðlast þekkingu á lögum og reglugerðum sem snerti matvæla- og heilbrigðiseftirlit. Hjá Hollustuvernd hafi hún komið að undirbúningi á innra eftirliti matvælafyrirtækja og samræmingu heilbrigðiseftirlitssvæða. Í starfi sínu sem formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hafi hún kynnst öllum þeim þáttum er snúi að heilbrigðiseftirliti og formlegri afgreiðslu mála í nefndum og sveitastjórnum. Tölvukunnátta hennar sé mun meiri en þess sem ráðinn var. Þá hafi hún lagt mikið af mörkum við undirbúning og mótun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Loks leggur hún áherslu á að víðtæk 14 ára starfsreynsla, þar sem hún hafi kynnst nær öllum hliðum heilbrigðiseftirlits, ætti að vega upp meiri reynslu þess sem ráðinn var af starfi framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits.

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis leggur áherslu á að niðurstaða athugunar PricewaterhouseCoopers ehf. hafi verið afgerandi við ákvörðun nefndarinnar um ráðningu B í starfið. Ekki hafi verið lögð fram nein skrifleg niðurstaða af hálfu fyrirtækisins umfram það sem að framan greinir. Á fundi heilbrigðisnefndarinnar með fulltrúa fyrirtækisins hafi hins vegar komið fram að persónuleikapróf hafi sýnt greinilegan mun á þessum einstaklingum. B hafi verið lýst sem mjög hægum, rólegum og yfirveguðum einstaklingi en A hins vegar sem eldhuga sem væri fljót á sér og gæfi sér ekki alltaf nægilegan tíma til að ígrunda ákvarðanir sínar. Í viðtali við kærunefnd lagði formaður nefndarinnar áherslu á að eftir 20 ára starf B í Hafnarfirði lægi ekki fyrir ein einasta athugasemd við störf hans og að til hans sé mikið leitað annars staðar frá vegna þekkingar hans og reynslu á þessu sviði. Aðspurður sagði formaður nefndarinnar að ekki hafi legið fyrir neinar athugasemdir við störf A.

Kærandi tekur undir að niðurstaða PricewaterhouseCoopers ehf. um persónuleika þeirra B lýsi þeim ágætlega. Túlkun á eiginleikum þeirra og mati á hæfileikum þeirra sem stjórnenda sé hún hinsvegar allsendis ósammála og hún sé í ósamræmi við það sem kennt sé í nútíma stjórnunarfræðum. Að vera eldhugi og fljótur sé talið til kosta nútíma stjórnenda og forystumanna. Eldhuginn nái að hrífa fólk með sér, leiðbeini starfsfólki og hjálpi því að ná settu markmiði. Þá myndi hann liðsheild sem vinni saman og skapi ánægju á vinnustað og þ.a.l. góða þjónustu við viðskiptavini. Þá mótmælir hún þeirri túlkun, að hún gefi sér "kannski ekki alltaf nægilegan tíma til að ígrunda niðurstöður" og að hún sé fljótfær, sem rangri og ósanngjarnri. Það sé ekki það sama annars vegar að vinna hratt og vilja láta hlutina ganga og hins vegar að vera fljótfær. Öllum geti vissulega orðið á mistök en hún kannist ekki við að hafa gert mistök í starfi sem rekja megi til fljótfærni enda lærist mönnum í læknisfræði að taka ekki ákvörðun nema að vel ígrunduðu máli.

IV
NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m. a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að ráða einstakling af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Þessi forgangsregla er grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Bæði uppfylla hæfnisskilyrði samkvæmt lögum um heilbrigðiseftirlit nr. 7/1998, sbr. reglugerð um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa nr. 294/1995. Staðan var ekki auglýst og því ekki fyrirfram aðrar sérstakar hæfniskröfur gerðar.

Með hliðsjón af 8. gr. jafnréttislaga er við samanburð á hæfni tveggja einstaklinga til starfs fyrst og fremst litið til þriggja atriða, þ. e. menntunar, reynslu og sérstakra hæfileika eða eftir atvikum galla. Fyrir liggur að kærandi hefur lokið dýralæknisprófi og þriggja anna rekstrar- og viðskiptanámi við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Sá sem ráðinn var hefur hins vegar lokið kennaraprófi, heilbrigðisfulltrúanámi og fjórum námskeiðum við Nordiska Hälsovårdshögskolan í Svíþjóð, samtals í u.þ.b. 30 vikur. Það leikur því enginn vafi á því að menntun kæranda er bæði meiri en þess sem ráðinn var og fellur betur að starfinu.

Starfsreynsla kæranda frá því hún lauk námi er u.þ.b. 13 ár, nánast allan tímann í störfum sem hljóta að teljast nýtast í starfi heilbrigðisfulltrúa. Hún hafði verið framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits í rúmlega tvö ár, þegar ráðið var í starfið sem hér er kært vegna Starfsreynsla þess sem ráðinn var við heilbrigðiseftirlit er hartnær aldarfjórðungur. Hann starfaði sem heilbrigðisfulltrúi í heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um 10 ára skeið og síðan óslitið í 14 ár sem heilbrigðisfulltrúi og framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðarsvæðis. Ljóst er því að bein reynsla þess sem ráðinn var er meiri en kæranda.

Yfirburðir kæranda í menntun og mjög umfangsmikil starfsreynsla, sem hefði nýst beint til starfsins sem kært er vegna, myndu almennt leiða til þeirrar niðurstöðu, að ráðningin teldist fela í sér brot á jafnréttislögum. Áður en komist verður að þeirri niðurstöðu hér, þarf hins vegar að líta til þess hvort einhverjar sérstakar réttlætingarástæður liggi til þeirrar niðurstöðu sem varð.

Fyrir liggur, að heilbrigðisnefndin leitaði aðstoðar sérfræðiaðila við mat á því hvort teldist hæfara til starfsins, kærandi eða sá sem ráðinn var. Niðurstaðan varð sú að mæla með þeim sem ráðinn var. Rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu er ákaflega fátæklegur, í raun aðeins vísan í þá óumdeildu staðreynd að munur var á starfsaldri í framkvæmdastjórastarfi. Framburður fulltrúa kærða um að önnur atriði hafi í raun einnig legið að baki niðurstöðunni, verður ekki lagður til grundvallar án þess að hann sé studdur gögnum. Niðurstaða sérfræðiaðilans getur því með engu móti talist fela í sér vísbendingu um sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var umfram kæranda, þannig að nægi sem rök til ráðningarinnar.

Til hins er að líta, að kringumstæður við ráðninguna voru mjög sérstæðar. Löggjafinn hafði steypt saman tveimur mjög ámóta stórum heilbrigðiseftirlitum og gert úr þeim eitt embætti. Sú ákvörðun var því ekki tekin af heilbrigðisnefndunum. Heilbrigðisnefndirnar voru sammála um að auglýsa ekki eftir nýjum framkvæmdastjóra. Fyrir hvoru embætti var framkvæmdastjóri, sem ekki verður annað séð en hafi gegnt starfi sínu með sóma og án nokkurra ávirðinga. Annar hlaut hins vegar að víkja vegna sameiningarinnar. Það verður að teljast málefnalegt sjónarmið við val á því hvor víkja skuli, að láta starfsaldur í starfinu ráða. Á það sérstaklega við hér, að svo verulegur munur var á starfsaldri framkvæmdastjóranna. Því verður ekki talið að ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um ráðningu framkvæmdastjóra fari í bága við jafnréttislög.

Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Gunnar Jónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta