Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 202/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 202/2017

Miðvikudaginn 20. september 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 1. maí 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins á framlengingu lífeyrisgreiðslna til hennar, dags. 6. febrúar 2017.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun samþykkti umsókn kæranda um framlengdar lífeyrisgreiðslur þrátt fyrir dvöl á sjúkrastofnun, dags. 6. febrúar 2017. Þar var kærandi upplýst um að ekki yrði um frekari framlengingu að ræða þar sem hún hafi hlotið framlengingu í alls sex mánuði.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. maí 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Þann 13. júní 2017 bárust athugasemdir félagsráðgjafa á B. Kærandi hafði samband símleiðis við úrskurðarnefndina 14. ágúst 2017 og upplýsti að hún hefði ekki fengið framangreint bréf nefndarinnar. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. ágúst 2017, var kæranda á ný gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Athugasemdir kæranda bárust 23. ágúst 2017.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um áframhaldandi framlengingu bóta þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi. Ástæða langrar sjúkrahúslegu séu endurtekin áföll, aðgerðir og framlenging virkrar endurhæfingar. Kærandi sé að skipta um húsnæði sem henti betur breyttum þörfum vegna tilkomu fötlunar hennar. Íbúðaskiptin hafi tekið lengri tíma en hafi staðið til og þá hafi einnig orðið dráttur á […] sem séu forsenda þess að búseta heima geti gengið. Kærandi ráði ekki við að greiða af húsnæði og standa í skilum við aðrar fjárhagslegar skuldbindingar ef einnig komi til þátttaka í dvalarkostnaði á sjúkrahúsi. Því sé óskað eftir framlengingu bótagreiðslna þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi til 1. júlí 2017.

Í athugasemdum félagsráðgjafa sem bárust úrskurðarnefnd velferðarmála er farið yfir sjúkrahúslegu kæranda og upplýst að kærandi verði útskrifuð X. Eftir mikla baráttu og langa og markvissa endurhæfingu hilli undir að það verði að veruleika að hún komist til sjálfstæðrar búsetu. Vegferðin hafi verið kæranda erfið og nú þegar fjárhagsáhyggjur leggist við þyngi það róðurinn.

Í skýringum kæranda ítrekar hún það sem áður hafi komið fram í kæru. Fram kemur að kærandi hafi verið meira og minna á sjúkrahúsi síðastliðið […] og alveg samfellt frá X til X. Þá segir að vegna þeirra aðstæðna, sem kærandi hafi verið í á umræddu tímabili, hafi verið litlar bjargir til að verja stöðu sína og vera í samskiptum við stofnanir. Með mikilli vinnu, kostnaði og þrautseigju hafi kæranda tekist að komast hjá […] og útskrifast heim. Kærandi ítrekar fyrri kröfu sína um að bætur falli ekki niður og verði óskertar þrátt fyrir langan legutíma. Þátttökukostnaður myndi hafa afar íþyngjandi fjárhagsleg áhrif og draga úr möguleika kæranda til að búa við þær aðstæður sem útbúnar hafi verið.

III. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um áframhaldandi framlengingu lífeyrisgreiðslna.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina.

Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og tuttugu dagar frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins þann 6. febrúar 2017 og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 26. maí 2017. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í ákvörðun Tryggingastofnunar þann 6. febrúar 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar og um tímalengd kærufrests.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 1. júní 2017, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Með tölvubréfi 13. júní 2017 barst svar frá félagsráðgjafa á B. Þar er fjallað um fjárhagslegar áhyggjur og sjúkrahúslegu kæranda en ekki er getið um ástæður þess að kæra barst að liðnum kærufresti. Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún hafi verið á sjúkrahúsi frá X til X. Þar sem hún hafi þurft að takast á við skerta færni og mikið álag, sem hafi fylgt veikindum hennar og sjúkrahúslegu, hafi hún ekki haft getu til að vera í samskipum við stofnanir.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur ekki komið fram að sjúkrahúslega kæranda sé þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Gögn málsins gefa ekki til kynna að kærandi hafi ekki verið fær um að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins innan kærufrests. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta