Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 221/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 221/2017

Miðvikudaginn 20. september 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 1. júní 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. mars 2017 um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. febrúar 2017, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. mars 2017, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að skilyrði um hreyfihömlun væru ekki uppfyllt. Með bréfi, dags. 15. mars 2017, óskaði kærandi rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun stofnunarinnar og var sú beiðni ítrekuð með tölvubréfi, dags. 23. maí 2017. Umbeðinn rökstuðningur var síðan veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 26. maí 2017. Þá sendi stofnunin kæranda bréf, dags. 15. ágúst 2017, með ábendingu um mögulegan rétt hans til styrkja vegna hjálpartækja hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. júní 2017. Með bréfi, dags. 4. júlí 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 16. ágúst 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um uppbót/styrk til bifreiðakaupa verði hrundið.

Í kæru segir að fyrir liggi læknisvottorð, dags. 15. febrúar 2017, þar sem því sé lýst að kærandi hafi lent í bílveltu X. Í því slysi hafi vinstri handleggur klippst af [...]. Þar sé því einnig lýst að þar sem kærandi hafi eingöngu hægri handlegg til notkunar við akstur þurfi bifreiðin að vera sjálfskipt og öll stjórntæki fyrir stefnuljós og aðalljósabúnað að vera færð hægra megin við stýri auk þess sem stjórntæki fyrir rúðuþurrkur þurfi að vera sömu megin. Kærandi þurfi því að fá sérútbúna bifreið til að komast ferða sinna og umsókn sé á því byggð. Með bréfi, dags. 15. mars 2017, ítrekuðu 24. maí 2017, hafi verið óskað eftir rökstuðningi fyrir höfnun Tryggingastofnunar ríkisins. Þeirri beiðni hafi verið svarað með bréfi, dags. 26. maí 2017. Í þeim rökstuðningi sé vísað til þess sama og fram hafi komið í höfnunarbréfi. Með hliðsjón af því sem lýst hafi verið hér að framan vísi kærandi til þess að hann eigi við fötlun að stríða sem hamli honum að komast á milli staða. Kærandi telji að Tryggingastofnun ríkisins geti orðið við beiðni hans og vísi til c-liðar 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Í afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins komi fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði reglugerðar nr. 170/2009. Kærandi byggi á því að hann þurfi sérútbúna bifreið til að komast leiða sinna og uppfylli því skilyrði c-liðar 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar sé sýnt að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar sé stofnuninni heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vantar.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé skilgreint hvað felist í hugtakinu hreyfihömlun samkvæmt reglugerðinni. Þar segi að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða eftirfarandi samkvæmt 3. mgr.:

1. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,

2. mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma,

3. annað sambærilegt.

Í 1–3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi meðal annars fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar sé sýnt að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. En 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Uppbót er eingöngu heimilt að veita þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggi fyrir.

Við mat á umsóknum skal fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfi­hamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, s.s. til vinnu, í skóla, sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.“

Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóti styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður, noti til dæmis tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá styrkinn þurfi að sýna fram á að vegna hreyfihömlunar sé aukin þörf fyrir stóra bifreið sem sé dýrari en almennt gerist. Skilyrði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóði svo:

„Styrkur skal vera kr. 1.200.000 og skal eingöngu veittur þegar eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður.

2. Nauðsyn á bifreið vegna hreyfihömlunar er ótvíræð og mat á hreyfihömlun liggur fyrir.

3. Einstaklingur er verulega hreyfihamlaður og er t.d. bundinn hjólastól og/eða notar tvær hækjur að staðaldri.

4. Mat á ökuhæfni liggur fyrir.

5. Hinn hreyfihamlaði er sjúkratryggður hér á landi, sbr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.“

Í 4. mgr. 4. gr. komi einnig fram að skilyrði sé að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.

Við mat á hreyfihömlun 27. febrúar 2017 hafi legið fyrir læknisvottorð C, dags. 15. febrúar 2017. Fram komi í vottorðinu að kærandi hafi lent í bílveltu X og við það hafi vinstri handleggur klippst af [...]. Af þeim orsökum þurfi kærandi að vera á sjálfskiptri bifreið og öll stjórntæki bifreiðarinnar, svo sem fyrir stefnuljós, bílþurrkur og aðalljósabúnaður, að vera hægra megin. Jafnframt komi fram í vottorðinu að göngugeta kæranda sé meiri en 400 metrar á jafnsléttu. Ekki hafi komið fram neinar upplýsingar um notkun hjálpartækja við gang.

Göngugeta, sem metin sé meira en 400 metrar á jafnsléttu, feli í sér að ekki sé um hreyfihömlun að ræða hvað göngugetu varði.

Tryggingastofnun ríkisins hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Stofnunin hafi metið stöðu hans þannig að hann teljist ekki hreyfihamlaður í skilningi 10. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 170/2009.

Sú hreyfihömlun, sem reglugerð nr. 170/2009 sé ætlað að mæta, sé skilgreind í 1. gr. reglugerðarinnar. Ljóst sé að með hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Einnig sé ljóst að með því sé fyrst og fremst átt við lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða annað sambærilegt. Þessari skilgreiningu hafi verið bætt við reglugerðina á árinu 2009 en hún hafi áður meðal annars mótast í framkvæmd hjá úrskurðarnefnd.

Rétt sé að taka fram að þegar rætt sé um annað sambærilegt í c. lið 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar sé átt við líkamlega hreyfihömlun sem hafi áhrif á göngugetu. Það sé sá hópur sem lög- og reglugerðargjafinn hafi ætlað að veita uppbætur og styrki til kaupa á bifreiðum, en ekki öðrum einstaklingum sem segja megi að séu umferðarhamlaðir á annan hátt. Sú túlkun og framkvæmd sé í samræmi við það sem tíðkist í nágrannalöndum okkar. Meðal annars megi sjá þetta í skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks. Þar sé sérstaklega farið yfir þetta atriði á bls. 21 og 22. Skýrslan hafi verið birt á vef velferðarráðuneytisins 19. desember 2014 og megi finna skýrsluna þar.

Í samræmi við athugasemdir kæranda veki stofnunin athygli á því að í málinu verði ekki séð að hann hafi kannað rétt sinn til styrkja vegna hjálpartækja fyrir bifreiðar hjá Sjúkratryggingum Íslands. Samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar og reglugerð nr. 1155/2013 taki Sjúkratryggingar Íslands þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja. Sjúkratryggingar Íslands veiti meðal annars einstaklingum styrk til kaupa á sjálfskiptingu og öðrum stýribúnaði sé færni svo skert að umsækjandi geti ekki ekið bifreið nema með slíkum búnaði. Eftir að hafa farið yfir gögn málsins hafi Tryggingastofnun ríkisins talið ástæða til að vekja athygli kæranda á þessum möguleika og hann fengið sent bréf þar um 15. ágúst 2017.

Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar og reglugerð nr. 170/2009.

Tryggingastofnun telji ekki ástæðu til að breyta ákvörðun sinni.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:

Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. [...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. [...] Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 segir að með líkamlegri hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða:

„a. lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar,

b. mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma,

c. annað sambærilegt.“

Um uppbót og styrk vegna kaupa á bifreið er nánar fjallað í 3. gr. og 4. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur fram að það sé skilyrði fyrir veitingu uppbótar og styrks til bifreiðakaupa að bifreið sé nauðsynleg vegna hreyfihömlunar, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Fyrir liggur í máli þessu að kærandi lenti í bílslysi á árinu X með þeim afleiðingum að hann missti hluta af vinstri handlegg, [...]. Þar af leiðandi getur hann eingöngu notað hægri handlegg við akstur. Af þeim sökum þarf bifreið kæranda að vera sjálfskipt og ýmis stýribúnaður, svo sem fyrir stefnuljós, aðalljós og rúðuþurrkur, að vera til staðar hægra megin við stýri. Ljóst er, samkvæmt læknisvottorði C, dags. 15. febrúar 2017, að göngugeta kæranda er ekki að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu og búist er við að göngugeta haldist óbreytt næstu tvö árin.

Í máli þessu snýst ágreiningur um hvort kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. og 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar að bótaþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins er það skilyrði fyrir veitingu styrks að bifreið sé nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vanti.

Hugtakið hreyfihömlun er ekki skilgreint í lögum um félagslega aðstoð en löggjafinn hefur veitt ráðherra heimild til að útfæra umrætt lagaákvæði í reglugerð. Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er hreyfihömlun skilgreind þannig að um hreyfihömlun sé að ræða þegar hömlun skerðir verulega færni viðkomandi til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þá eru nefnd dæmi um hvað geti valdið slíkri færniskerðingu. Það er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að tilvik kæranda, eins og því hefur verið lýst hér að framan, verði ekki jafnað við nefnd tilvik í framangreindum a og b liðum 3. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Það að auki telur úrskurðarnefnd að af ákvæði 10. gr. laganna verði ráðið að tilgangur þess sé að koma til móts við þá einstaklinga sem eiga erfitt með að hreyfa sig á milli staða vegna skertrar göngugetu en sú er ekki raunin í tilviki kæranda. Úrskurðarnefnd telur því að þrátt fyrir að þörf sé á tilfærslum á stýribúnaði í bifreið kæranda vegna fötlunar hans uppfylli hann ekki framangreind skilyrði um hreyfihömlun.

Að því virtu, sem að framan hefur verið rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. mars 2017, um að synja A, um uppbót/styrk til bifreiðakaupa, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta