Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 71/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA


Þann 29. maí 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 71/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010022

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru sem barst innanríkisráðuneytinu þann 8. júní 2013 kærði [...], f.h. [...], ríkisborgara [...], ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. maí  2013, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga, 12. gr. d og 12. gr. f sömu laga.

 Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni veitt heimild til dvalar á Íslandi.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins sótti kærandi um dvalarleyfi hér á landi þann 13. júlí 2012. Fjallaði Útlendingastofnun um umsókn hennar á grundvelli 3. mgr. 11. gr., 12. gr. d og 12. gr. f laga um útlendinga. [...]Útlendingastofnun synjaði kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr., 12. gr. d og 12. gr. f laga um útlendinga með ákvörðun sinni, dags. 31. maí 2013.

 Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til innanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 7. júní 2013. Gögnin bárust innanríkisráðuneytinu þann 16. október 2013. Þá var jafnframt óskað eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærumálsins. Stofnunin hafði engar athugasemdir fram að færa vegna málsins. Innanríkisráðuneytið óskaði eftir greinargerð eða frekari upplýsingum um málið frá kæranda með bréfi til umboðsmanns kæranda þann 18. október 2013 en engin frekari gögn bárust ráðuneytinu.

 Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. laga nr. 96/2002, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014. Þegar kærunefndin tók til starfa hafði innanríkisráðuneytið ekki úrskurðað í máli kæranda og mun kærunefndin því úrskurða í máli þessu.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda byggir aðallega á því að umsókn kæranda geti ekki fallið undir þau tilvik sem fjallað er um í 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Í umsókn kæranda var tilgangur dvalar hennar sagður [...]. Útlendingastofnun byggði á því að þar sem [...] teldi stofnunin að tilgangur dvalar kæranda sæmrýmdist ekki áðurnefndu ákvæði 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Þá var það einnig mat stofnunarinnar að slík ráðstöfun geti ekki talist tímabundin líkt og krafa er gerð um í áðurnefndu ákvæði, um undanþáguákvæði sé að ræða og beri að túlka það þröngt.

 Hvað varðar mögulegt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. d laga um útlendinga vegna vistráðningar kæranda, synjaði stofnunin umsókn kæranda á grundvelli þess að í ákvæðinu sé ekki gert ráð fyrir að útlendingar komi í framangreindum tilgangi til að dvelja á heimili ættmenna enda verði vart séð að með slíkri dvöl væri þeim tilgangi náð sem býr að baki ákvæðinu.

 Þá mat stofnunin það svo að ekki væru fyrir hendi sérstakar aðstæður til að kanna hvort umsækjandi uppfyllti skilyrði 1. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga vegna sérstakra tengsla hennar við landið, þar sem kærandi hafi eingöngu dvalist hér á landi í þrjá mánuði.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Í kæru er gerð sú krafa að ákvörðun Útlendingastofnunar verði hrundið og kæranda veitt leyfi til dvalar hér á landi. Kærandi hafnar því að hún hafi sótt um dvalarleyfi til [...]. Þá bendir kærandi á að [...].

 Kærandi lagði ekki fram frekari gögn eða greinargerð í tilefni kæru til innanríkisráðuneytisins og hafa því önnur sjónarmið eða athugasemdir kæranda en þær sem koma fram í kæru, ekki komið fram við meðferð málsins hjá kærunefnd útlendingamála. Verður því úrskurðað í máli þessu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga, 12. gr. d og 12. gr. f sömu laga.

 Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum.

 Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., laganna að fenginni umsókn og að uppfylltum grunnskilyrðum 11. gr. Ákvæði 3. mgr. 11. gr. heimilar, þegar sérstaklega stendur á, veitingu dvalarleyfis til útlendings sem kemur til landsins „í lögmætum og sérstökum tilgangi“ þrátt fyrir að hann uppfylli ekki hin sérstöku skilyrði dvalarleyfa sem fram koma í ákvæðum 12. gr. – 12. gr. e eða 13. gr. Af orðum ákvæðisins og greinargerð má ráða að um undantekningu sé að ræða sem ber að skýra þröngt.

 Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. hafi verið veitt í þeim tilvikum þegar um er að ræða mikil og alvarleg veikindi og nauðsynlegt er fyrir ættingja að fá aðstoð í afmarkaðan tíma. Í ákvörðun sinni mat Útlendingastofnun það svo að [...]dugi ekki ein og sér til að heimila beitingu undanþáguákvæðis 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga. Með vísan til forsendna ákvörðunar Útlendingastofnunar fellst kærunefndin á það mat.  

 Kemur þá til skoðunar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. d laga um útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu slíks dvalarleyfis eru rakin í a.-g.-liðum 1. mgr. 12. gr. d. Í b.-lið kemur fram að eitt af skilyrðum fyrir dvalarleyfi samkvæmt 12. gr. d sé að útlendingurinn sé ekki yngri en 18 ára eða eldri en 25 ára. Kærandi […] er nú 36 ára. Því ber að staðfesta synjun um veitingu dvalarleyfis vegna vistráðningar.

 Í 12. gr. f útlendingalaga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr. sömu laga, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Í þessu máli ber því að líta til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði greinarinnar um sérstök tengsl við landið eða að aðstæður kæranda séu með þeim hætti að það réttlæti útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Í ákvæðinu sjálfu eru ekki veittar nánari leiðbeiningar um hvað teljist vera sérstök tengsl við landið en ákvæðið felur í sér að stjórnvöldum er falið að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu slík að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hvort útlendingur hafi búið eða unnið hér og þá hve lengi, eða hvort hann eigi hér ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu nánasti aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Fær það stoð í greinargerð með ákvæði 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga sem nú er að finna í 12. gr. f útlendingalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008.

 Af gögnum málsins má ráða að fjölskyldutengsl kæranda við landið eru þau að hún á bróður og bróðurdóttur hér á landi. Kærandi hefur eingöngu dvalist hér á landi í skamman tíma á grundvelli vegabréfsáritunar. Engin gögn hafa verið lögð fram sem skapað geta grundvöll fyrir útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Að mati kærunefndarinnar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að framangreint mat Útlendingastofnunar sé ekki réttmætt eða að öðru leyti annmörkum háð. Verður hin kærða ákvörðun því einnig staðfest að því er varðar umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga þar sem kærandi uppfyllir hvorki skilyrði laganna um sérstök tengsl við landið, né eru uppi í málinu aðstæður sem réttlæta útgáfu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

 Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar útlendingamála að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi hér á landi og ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. maí 2013, í máli [...], ríkisborgara [...], um útgáfu dvalarleyfis er staðfest.

 The decision of the Directorate of Immigration, of 13 May 2013, in the case [...], citizen of [...], regarding the denial of residence permit on grounds of the Act on Foreigners, No. 96/2002 is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                          Oddný Mjöll Arnardóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta