Hoppa yfir valmynd

725/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Úrskurður

Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 725/2018 í máli ÚNU 17110007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 22. nóvember 2017, fór Landspítali-Háskólasjúkrahús (LSH) þess á leit að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki að nýju upp mál nr. ÚNU 14100010 sem lyktaði með úrskurði nr. 607/2016 frá 18. janúar 2016. Þar var deilt um beiðni um aðgang að upplýsingum um starfsmenn LSH sem höfðu aðgang að og lásu sjúkraskýrslur látins eiginmanns kæranda í málinu á tilteknu tímabili. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að skýra bæri hugtakið sjúkraskrárupplýsingar, sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um sjúkraskrár nr. 55/2009, rúmri skýringu þannig að umbeðin gögn teldust til sjúkraskrár mannsins. Um rétt kæranda færi því samkvæmt lögum um sjúkraskrár og var kærunni vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Í beiðni LSH um endurupptöku kemur fram að enn standi yfir deilur um það hvert ákvörðunin sé kæranleg. Embætti landlæknis, sem hafi yfirumsjón með rafrænni sjúkraskrá á landsvísu, sé ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Sérfræðiálit yfirmanns sjúkraskrármála hljóti að vega þungt við ákvörðun um það hvaða upplýsingar teljist sjúkraskrárupplýsingar og hverjar ekki. Af því tilefni freisti LSH þess að fá málið endurupptekið með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

LSH kveðst ekki hafa hagsmuni af því að halda upplýsingunum frá beiðanda. Hins vegar skipti miklu að rétt sé staðið að málum sem þessum í samræmi við lög. Hagsmunir spítalans felist í því að kæruleiðir séu skýrar og byggðar á réttum forsendum og spítalinn geti leiðbeint einstaklingum um kærur á ákvörðunum hans.

Í beiðni LSH er vikið að úrskurði úrskurðarnefndarinnar nr. A-155/2002, sem úrskurðarnefndin vísaði til í úrskurði nr. 607/2016 því til stuðnings að skýra beri hugtakið sjúkraskrárupplýsingar rúmri skýringu. Þar hafi ágreiningurinn snúið að sjúkraskýrslum, hjúkrunarskýrslum, dagálum og ef til vill fleiri gögnum. Í dag sé hins vegar ljóst að öll þessi gögn séu hluti sjúkraskrár en það eigi hins vegar ekki við um kerfisupplýsingar. LSH kveður fært að líta til greinargerðar er fylgdi frumvarpi til laga nr. 55/2009 þar sem fram kemur að skilgreiningunni sé ætlað að taka til allra gagna og upplýsinga sem aflað er við meðferð sjúklings og færð séu í sjúkraskrá. Skýrt komi því fram að hugtakið eigi við um upplýsingar sem sérstaklega séu færðar í sjúkraskrá. Kerfislegar upplýsingar sem „loggist“ sjálfkrafa falli því ekki þarna undir.

Beiðni LSH um endurupptöku fylgdi afrit af bréfaskiptum LSH og embættis landlæknis. Í bréfi embættisins, dags. 7. júlí 2016, kemur meðal annars fram sú afstaða að upplýsingar um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá, hvenær og í hvaða tilgangi geti með engu móti talist til sjúkraskrárupplýsinga. Sjúkraskrárupplýsingar séu upplýsingar sem varði heilsufar og meðferð sjúklings. Þegar óskað sé eftir lista yfir aðila sem skoða eða fletta upp í tiltekinni sjúkraskrá þurfi að gera úttekt á innskráningu („loggunum“) heilbrigðisstarfsmanna inn í sjúkraskrárkerfið og ákveðna hluta kerfisins. Um sé að ræða stjórnunarhluta kerfisins sem snúi að eftirliti með aðgangi heilbrigðisstarfsmanna að sjúkraskrá. Með úttektinni sjáist hvaða einstaklingar hafi „loggað“ sig inn í sjúkraskrár en sjúkraskrárupplýsingar sjáist ekki. Um sé að ræða nöfn viðkomandi heilbrigðisstarfsmanna, starfsstétt og tímasetningar.

Ef listi yfir uppflettingar teldist til sjúkraskrárupplýsinga, líkt og úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi komist að niðurstöðu um, telur embætti landlæknis nauðsynlegt að heilbrigðisstarfsmenn hefðu almennan aðgang að slíkum lista en svo sé hins vegar ekki. Listinn geti ekki talist til upplýsinga um heilsufar sjúklings eða verið nýttur í þágu meðferðar. Embætti landlæknis áréttar að tilgangurinn með rétti sjúklings til aðgangs sé til þess fallinn að hafa eftirlit með því hvort óviðkomandi fletti upp í sjúkraskrá sjúklings. Jafnframt er að mati landlæknis ljóst að réttur sjúklings til aðgangs að listanum eigi einungis við um sjúkling sjálfan en ekki aðstandanda en fjallað er um rétt aðstandenda til aðgangs að sjúkraskrá látins einstaklings í 15. gr. laga um sjúkraskrár.

Kærandi í máli nr. ÚNU 14100010 hafði samband símleiðis við ritara úrskurðarnefndarinnar og óskaði upplýsinga um stöðu málsins. Jafnframt kom fram að kærandinn teldi það vera tilgang LSH og embættis landlæknis með málinu að koma í veg fyrir að hún fengi aðgang að þeim gögnum sem hún sæktist eftir.

Niðurstaða

Fyrirmæli um endurupptöku stjórnsýslumála koma fram 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð og bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun skv. 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Beiðni LSH um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndarinnar nr. 607/2016 barst um tíu mánuðum eftir uppkvaðningu hans. Úrskurðurinn var tilkynntur með bréfi sem var póstlagt til beggja aðila samdægurs. Því verður lagt til grundvallar að beiðnin hafi borist að liðnum þeim þriggja mánaða fresti sem 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um. Jafnframt er ljóst að ekki liggur fyrir samþykki annarra aðila málsins, þ.e. kæranda máls nr. 14100010, fyrir því að málið verði tekið til meðferðar á ný. Brestur því skilyrði til að verða við beiðni LSH. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur einnig fram að ekki er hægt að líta svo á að beiðni LSH leiði í ljós að úrskurður nr. 607/2016 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvikum sem breyst hafi verulega frá uppkvaðningu, heldur snýr beiðnin að lögskýringum nefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan segir er hafnað beiðni LSH um endurupptöku máls ÚNU 14100010 sem lyktaði með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 607/2016.

Úrskurðarorð:

Beiðni Landspítala-Háskólasjúkrahúss um endurupptöku máls nr. 14100010 og endurskoðun úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 607/2016 er hafnað.


Hafsteinn Þór Hauksson

formaður


Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta