Hoppa yfir valmynd

Nr. 423/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. desember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 423/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20110013 og KNU20110014

Kæra [...]

[...] og barns þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. nóvember 2020 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Gana (hér eftir K) og [...], fd. [...], ríkisborgari Gana (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 3. febrúar 2020 um að synja kærendum og barni þeirra, [...], fd. [...], (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þess er aðallega krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi, enda séu þær ógildanlegar, og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda og barns þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar á ný á grundvelli 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þess er krafist til vara að hin kærða ákvörðun K verði felld úr gildi, að K verði veitt alþjóðleg vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga samkvæmt stöðu hennar sem flóttamanns, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og að M og A verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Þess er krafist til þrautavara að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum og barni þeirra verði veitt alþjóðleg vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga samkvæmt reglum um viðbótarvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þess er krafist til þrautaþrautavara að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum og barni þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þess er krafist til þrautaþrautaþrautavara að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum og barni þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik

K sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. maí 2019 en M sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. júlí 2019. Kærendur komu í viðtöl hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 26. nóvember og 12. desember 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 3. febrúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 28. maí 2020 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar felldar úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kærenda og barns þeirra til meðferðar á ný. Með ákvörðunum, dags. 19. október 2020, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á ný. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 3. nóvember 2020. Kærunefnd barst greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum þann 17. nóvember 2020.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að K sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi og M sé í hættu í heimaríki sínu vegna ótta við mann sem hann kveður vera frænda látins föður síns og að honum sé lögregluvernd útilokuð í landinu. Þá sé umsókn A byggð á því að foreldrar hennar eigi hættu á að sæta ofsóknum í heimalandi þeirra.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kærenda, kom fram að það væri svo ungt að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við það. Fram kom að umsókn barns kærenda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að barni kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Barni kærenda var vísað frá landinu.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð fjalla kærendur um úrskurð kærunefndar útlendingamála í máli þeirra þar sem lagt var fyrir Útlendingastofnun að rannsaka nánar tvö atriði vegna umsókna kærenda og barns þeirra, þ.e. faðerni A og getu K til að styðja við A yrðu þau send aftur til heimaríkis. Með tölvupósti 2. júlí 2020 hafi kærendum verið tilkynnt um niðurstöður erfðafræðirannsóknar þar sem fram kom að hafið væri yfir allan vafa að M væri faðir A. Því teldist fyrra atriðið nægjanlega upplýst. Varðandi síðara atriðið sem kærunefnd útlendingamála taldi nauðsynlegt að rannsaka nánar í áðurnefndum úrskurði sínum, telja kærendur að Útlendingastofnun hafi ekki vandað nægjanlega vel til verka. Aðeins hafi verið óskað eftir sálfræðimati en ekki tryggt að spurningu nefndarinnar um getu K til að styðja við A væri svarað í því. Þá hafi ekki verið óskað eftir áliti frá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, sem hafi veitt K stuðning og þjónustu undanfarið, eða eftir atvikum frá barnaverndaryfirvöldum né var K veitt tækifæri á að koma á framfæri athugasemdum eða andmælum. Kærendur telja að brotið hafi verið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga sem og 13. gr. stjórnsýslulaga í málsmeðferð Útlendingastofnunar þegar stofnunin hafi tekið nýjar ákvarðanir án þess að upplýsa málin nægjanlega og án þess að veita kærendum tækifæri til andmæla. Kærendur telja gallana á málsmeðferð verulega og ákvarðanirnar því ógildanlegar. Kærendur vísa til þess að ekkert í mati sálfræðingsins bendi til þess að K sé fær um að annast barn sitt í Gana. Þvert á móti gefi ummæli í matinu sjálfu til kynna að hafi verið uppi vafi um getu hennar til að annast dóttur hennar hafi matið aðeins staðfest þann vafa. Þá vísa kærendur til þess að Útlendingastofnun taki undir þennan galla á mati sálfræðingsins í hinni kærðu ákvörðun en komist engu að síður að þeirri niðurstöðu að K sé kleift að annast dóttur sína. Þá byggja kærendur á því að þó K njóti stuðnings M segi það ekkert til um getu K til að annast dóttur sína. Þá telja kærendur að fyrst sálfræðingurinn sem Útlendingastofnun leitaði til hafi ekki getað svarað spurningu kærunefndar hafi stofnuninni verið nauðsynlegt að óska eftir frekari gögnum. Ljóst sé að slík gögn hafi verið aðgengileg í ljósi þjónustusamnings Útlendingastofnunar við Reykjavíkurborg, eða með aðstoð talsmanns og heimilda í lögum varðandi gögn frá barnaverndaryfirvöldum. Kærendur telja þennan vankant vera brot gegn 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Þá byggja kærendur á því að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi falið í sér brot á 13. gr. stjórnsýslulaga þar sem nauðsynlegt hafi verið að veita kærendum kost á að tjá sig um spurningu kærunefndar áður en Útlendingastofnun hafi tekið ákvarðanir í málum þeirra. Afstaða kærenda liggi hins vegar ekki fyrir. Kærendum hafi verið tilkynnt um að mat sálfræðingsins lægi fyrir 15. október 2020. Sama dag hafi talsmaður kæranda sent Útlendingastofnun fyrirspurn um næstu skref og fengið þau svör að ákvörðunar væri að vænta á næstunni. Meðan kærendur hafi lagt mat á þetta nýja gagn hafi Útlendingastofnun hraðað sér mjög við töku hinna nýju ákvarðana og kærendum tilkynnt um birtingu í málunum aðeins tveimur dögum eftir að sálfræðimatið hafi legið fyrir. Kærendur telja að um sé að ræða brot gegn 13. gr. stjórnsýslulaga, ágallinn sé verulegur og því séu ákvarðanirnar ógildanlegar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Með úrskurði kærunefndar þann 28. maí 2020 í málum nr. KNU20020055 og KNU20020056 voru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og A felldar úr gildi vegna annmarka á rannsókn málanna og var málunum vísað til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Beindi kærunefnd því til Útlendingastofnunar að framkvæma faðernispróf á barninu A þar sem nefndin taldi að eyða þyrfti vafa um skyldleika hennar við M. Jafnframt taldi kærunefnd að þar sem Útlendingastofnun hefði lagt frásögn K um atvik sem áttu sér stað í heimaríki hennar til grundvallar hefði átt að láta framkvæma sálfræðimat á K áður en niðurstaða lá fyrir í málinu, m.a. til að varpa ljósi á getu hennar til að styðja við barn sitt yrðu þau send aftur til heimaríkis. Þann 2. júlí 2020 var kærendum tilkynnt um niðurstöður erfðafræðirannsóknar þar sem fram kom að hafið væri yfir allan vafa að M væri faðir A. Þann 15. október 2020 barst Útlendingastofnun sálfræðimat frá Domus Mentis, Geðheilsustöð á andlegri heilsu K. Í matinu er ekki að sjá að tekin sé afstaða til getu K til að styðja við barn sitt verði þau send aftur til heimaríkis eins og kærunefnd nefndi sérstaklega í úrskurði sínum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þó ekki sé beinlínis tekið til umfjöllunar í sálfræðimatinu hvort K sé fær um að sinna dóttur sinni þá sé það mat Útlendingastofnunar að K sé engu að síður kleift að annast dóttur sína. Vísaði Útlendingastofnun til þess að K hefði stuðning M, sem væri líffræðilegur faðir dóttur hennar líkt og niðurstöður erfðarannsóknar sýndu fram á. Kærunefnd sendi fyrirspurn til Útlendingastofnunar þann 24. nóvember 2020 um það hvort kærendum hefði verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við sálfræðimatið. Í svari frá Útlendingastofnun þann sama dag, kom fram að kærendum hefði ekki verið gefinn kostur á því með eiginlegum hætti en talsmanni kærenda hefði verið sent sálfræðimatið með tölvupósti þann 15. október sl. Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli kærenda þann 19. október 2020 og var niðurstaða málsins birt fyrir kærendum daginn eftir.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Sambærileg regla kemur einnig fram í 12. gr. laga um útlendinga.

Eins og fram er komið var kærendum ekki veittur sérstakur frestur til að koma á framfæri athugasemdum við framangreint sálfræðimat sem framkvæmt var á K, en Útlendingastofnun tók ákvörðun í málunum fjórum dögum eftir móttöku þess. Kærunefnd telur að þeir annmarkar sem voru á sálfræðimatinu, þ.e. að ekki hafi verið tekin afstaða til færni K til að sjá um barn sitt í heimaríki líkt og nefndin lagði upp með í fyrri úrskurði sínum, hafi gefið sérstakt tilefni til að veita kærendum kost á að koma fram andmælum sínum áður en ákvörðun var tekin í málinu. Því er ljóst að að kærendum hafi ekki verið veittur fullnægjandi andmælaréttur í tengslum við sálfræðimatið áður en ákvörðun Útlendingastofnunar lá fyrir. Kærunefnd telur að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi því verið ábótavant hvað þetta atriði varðar og farið gegn 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar í málum kærenda. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu mála þeirra. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kærenda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til alls þess sem framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hinar kærðu ákvarðanir úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda og barns þeirra til meðferðar á ný.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child are vacated. The Directorate is instructed to re-examine their cases.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                     Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta