Hoppa yfir valmynd

nr. 39/2018 - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 39/2018

Þriðjudaginn 14. maí 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 31. janúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi bar ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðarnefnd velferðarmála 31. janúar 2018 sem vísaði kærunni frá með úrskurði 26. apríl 2018 á þeirri forsendu að kærufrestur væri liðinn, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og í áliti umboðsmanns, dags. 19. desember 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurður nefndarinnar væri ekki í samræmi við lög. Þann 14. janúar 2019 barst nefndinni beiðni kæranda um endurupptöku málsins með vísan til fyrrnefnds álits umboðsmanns. Úrskurðarnefndin féllst á beiðni kæranda um endurupptöku og með bréfi nefndarinnar, dags. 15. janúar 2019, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna málsins. Svar barst frá stofnuninni með bréfi, dags. 19. febrúar 2019, og var það sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2019.

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2019, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna málsins. Sú beiðni var ítrekuð 19. mars 2019. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 16. apríl 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. apríl 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið á atvinnuleysisskrá á tímabilinu 1. febrúar til 12. mars 2014 og sinnt tilfallandi vinnu á sama tímabili. Í maí 2014 hafi kærandi fengið bréf frá Vinnumálastofnun þar sem henni hafi verið tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna febrúar 2014. Stofnunin hafi vísað til þess að kærandi hafi ekki tilkynnt um tekjur vegna febrúarmánaðar sem sé ekki rétt. Þegar kærandi hafi staðfest atvinnuleit 21. febrúar 2014 hafi hún einnig gefið upp heildartekjur fyrir febrúarmánuð. Vinnumálastofnun haldi því fram að sú tilkynning sé vegna tekna í janúar en hún hafi hins vegar ekki verið á atvinnuleysisskrá á þeim tíma og því ekki haft neina ástæðu til að gefa upp tekjur fyrir þann mánuð. Í bréfi Vinnumálastofnunar komi hvorki fram upphæð skuldar né hvernig kærandi geti greitt hana. Kærandi hafi brugðist við erindinu með því að senda tölvupóst á uppgefið netfang þann 13. maí 2014 og ítrekunarpóst 11. júlí sama ár þar sem hún hafi ekki fengið svör við fyrri tölvupósti. Aldrei hafi borist svör frá Vinnumálastofnun vegna tölvupósta kæranda og að hennar mati sé um að ræða tómlæti af hálfu stofnunarinnar.

Kærandi tekur fram að fjórum árum síðar, eða í janúar 2018, hafi hún séð tvær gjaldfallnar kröfur í heimabanka sínum vegna framangreindrar ofgreiðslu á árinu 2014. Þá hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og fengið þær upplýsingar að innheimtubréf hafi verið birt inni á „Mínum síðum“ hjá stofnuninni þann 26. september 2017, eða rúmum þremur árum og sjö mánuðum eftir að kærandi hafi verið á atvinnuleysisskrá. Kærandi líti svo á að rafræn birting með þessum hætti, þ.e. einhverjum árum eftir að atvinnuleitandi hafi verið á skrá, brjóti gróflega gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Í bréfi Vinnumálastofnunar frá 26. september 2017, sem kærandi hafi fyrst haft vitneskju um 23. janúar 2018, séu fyrstu upplýsingar sem hún hafi haft um ofgreiðslu atvinnuleysisbóta vegna mars 2014. Í skýringum sé tekið fram að ofgreiðslutímabilið sé 20. til 31. mars 2014 en þá hafi kærandi ekki verið á atvinnuleysisskrá og því ekki þegið bætur á þeim tíma. Þar sem kærandi hafi ekki haft vitneskju um rafræna birtingu eða stöðu mála fyrr en í janúar 2018 fái hún ekki lögboðinn 90 daga frest til að afla sér upplýsinga, gagna um málið né möguleika á andmælum áður en henni sé gert að greiða meinta skuld, áður en aðför verði gerð í eignum hennar. Kærandi vísar til þess að hún hafi greitt skuldina með fyrirvara vegna kærunnar. Í ljósi þess að Vinnumálastofnun hafi aldrei svarað tölvupóstum kæranda frá árinu 2014 (tómlæti), rafræn birting innheimtubréf sé mörgum árum eftir að hún hafi verið á atvinnuleysisskrá (regla um meðalhóf) og þeirri staðreynd að málið sé orðið of gamalt til þess að hægt sé að endurbirta innheimtubréfið með löglegum hætti, líti kærandi svo á að stofnunin hafi fyrirgert rétti sínum til innheimtu. Málið sé í raun fyrnt og því beri Vinnumálastofnun að endurgreiða henni hina meintu skuld.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur í byrjun febrúar 2014. Þann 21. febrúar 2014 hafi kærandi tilkynnt um tilfallandi tekjur frá tilteknu fyrirtæki að fjárhæð 143.388 kr. fyrir janúar 2014. Þar sem hún hafi tilkynnt um tilfallandi tekjur þann mánuðinn hafi ekki verið gerð tekjuáætlun fram í tímann, enda ekki unnt að ætla að kærandi væri í föstu hlutastarfi úr frá tilkynningu hennar um tekjur. Kærandi hafi hafið störf hjá nýjum vinnuveitanda þann 13. mars 2014 og þá verið afskráð af atvinnuleysisskrá. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 13. mars 2014 og daginn eftir hafi hún gengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1.  febrúar til 28. febrúar 2014. Þann 1. apríl 2014 hafi hún fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. mars til 12. mars 2014.

Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra í maí 2014 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með tekjur frá tilteknu fyrirtæki á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta. Í febrúar hafi tekjur hennar numið 143.388 kr. og 159.332 kr. í mars. Í kjölfarið hafi kæranda verið sent erindi, dags. 9. maí 2014, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um tekjur hennar. Svar hafi borist frá kæranda 13. maí 2014 ásamt launaseðli. Kærandi hafi jafnframt upplýst stofnunina um að hún hefði tilkynnt um tekjur í febrúar 2014. Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi tilkynnt um tekjur í febrúar 2014 en sú tilkynning hafi varðað tekjur í janúar þegar hún hafi ekki verið skráð atvinnulaus hjá stofnuninni og því hafi ekki komið til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Að auki hafi einungis verið um að ræða tilkynningu um tilfallandi tekjur og því hafi henni ekki verið gert að fylla út tekjuáætlun vegna hlutastarfs hjá fyrirtækinu. Tekjur kæranda hafi því komið til skerðingar eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Kæranda hafi verið tilkynnt um ofgreiðslu að fjárhæð 36.451 kr. á „Mínum síðum“ þann 16. júní 2014. Í september 2017 hafi skuld kæranda við Vinnumálastofnun enn verið ógreidd og með bréfi, dags. 26. september2017, hafi verið farið þess á leit að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins, ellegar yrði mál hennar sent í frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi.

Vinnumálastofnun tekur fram að í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið tekjur frá tilteknu fyrirtæki samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Þar sem engin tekjuáætlun hafi legið fyrir hafi greiðslurnar verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem greiðslur atvinnuleysistrygginga í máli kæranda hafi verið skertar afturvirkt hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar sem henni beri að endurgreiða í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Vinnumálastofnun hafi leiðrétt atvinnuleysisbætur kæranda í samræmi við framangreint ákvæði og skerðing á greiðslum hafi einungis tekið tillit til þeirra tekna sem kærandi hafi haft á þeim tíma sem hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Ítarlegri útlistun á skuldamyndun kæranda sé meðal gagna málsins. Útistandandi skuld kæranda við Vinnumálastofnun nemi 36.451 kr. sem henni beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Ekki hafi verið gerð krafa um greiðslu 15% álags samkvæmt ákvæðinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. september 2017 um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Óumdeilt er að kærandi fékk tekjur fyrir tilfallandi vinnu frá tilteknu fyrirtæki í febrúar og mars 2014 og að þær greiðslur höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem ekki lá fyrir tekjuáætlun í máli kæranda fékk hún greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði.

Kærandi telur að rafræn birting löngu eftir að kærandi hefur verið skráður atvinnulaus sé gróft brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 12. gr. stjórnsýslulaga er segir að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Í þessu felst að meðalhófsreglan kemur ávallt til skoðunar þegar efni ákvörðunar er að einhverju leyti undir mati stjórnvalds komið. Líkt og fram hefur komið er skylda til endurgreiðslu fortakslaus og kemur því til ekki mats stjórnvalds hvað þann hluta ákvörðunar varðar. Hins vegar er beiting álags háð mati stjórnvalds og því kemur meðalhófsreglan til álita hvað þann hluta varðar. Líkt og að framan greinir hefur ekkert álag verið lagt á skuld  kæranda.

Kærandi telur einnig að krafa Vinnumálastofnunar hafi verið fallin niður sökum fyrningar. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Kærandi kveður ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu framangreindrar skuldar hafa komið til hennar vitneskju 22. janúar 2018. Að framangreindu virtu hefði umrædd krafa þurft að myndast fyrir 22. janúar 2014 til þess að teljast fyrnd.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta