Hoppa yfir valmynd

Nr. 62/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 62/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010005

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. desember 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. desember 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hennar til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 1.-3. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 2. ágúst 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Þann 24. ágúst 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá dönskum yfirvöldum, dags. 5. september 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá var upplýsingabeiðni beint til danskra yfirvalda dagana 9. og 13. ágúst 2018, sbr. 34. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svörum danskra yfirvalda þar um, dags. 10. og 13. ágúst 2018, kom m.a. fram að kærandi hefði fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Danmörku þann 22. nóvember 2016 en biði nú niðurstöðu umsóknar um mannúðardvalarleyfi þar í landi. Útlendingastofnun ákvað þann 17. desember 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 18. desember 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 31. desember 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 11. janúar 2019, ásamt fylgigögnum. Í greinargerð lagði kærandi fram beiðni um öflun sérfræðimats, til að meta afleiðingar mögulegs flutnings á andlegt og líkamlegt heilsufar hennar, en að mati kærunefndar gáfu gögn málsins ekki til kynna að tilefni væri til að afla slíks mats í máli kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að dönsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Danmerkur.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi ekki lagt fram skilríki við komu sína hingað til lands en hafi sagst vera fædd þann [...]. Hins vegar hafi talsmaður hennar leiðrétt það síðar, að hennar beiðni, en fæðingardagur hennar sé raunar [...]. Hún hafi verið hrædd og óttast um líf sitt vegna veikinda sinna og því gripið til þess ráðs að gefa upp rangan fæðingardag.

Við komuna hingað til lands hafi kærandi greint lögreglu frá því að hún eigi við [...] að stríða og hafi hún óskað eftir því að fara á sjúkrahús. Tekin hafi verið ákvörðun um að fara með hana á [...] og hafi hún í kjölfarið verið lögð inn á [...]. Í framlögðum sjúkragögnum frá Landspítala komi fram að kærandi sé með [...] og þarfnist reglulegrar [...]. Meðferð hér á landi hafi hafist þann 2. ágúst 2018. Við komuna hingað til lands hefði hún hvorki farið í [...] né tekið [...] í u.þ.b. mánuð á undan. Kærandi hafi upphaflega farið í [...] tvisvar í viku en þann 20. ágúst hafi verið tekin ákvörðun um að auka [...] í þrjú skipti á viku.

Í framlögðu læknabréfi, dags. 9. ágúst 2018, komi fram að kærandi hafi ekki fengið [...] í [...] og hafi því farið til Tyrklands og fengið þjónustu þar. Hún hafi þurft nýtt [...] en ekki haft ráð á því. Hafi [...] í Tyrklandi verið hætt og hafi kærandi þá lagt á flótta til Evrópu. Í endurriti læknaviðtals í dagdeildarskrá, dags. 19. september 2018, komi fram að kærandi hafi greint frá höfuðverkjum og máttleysi sem hún fái eftir [...], svo og ógleði og lystarleysi. Enn fremur glími kærandi við kvíða og þreytu vegna veikinda sinna og hafi ítrekað þurft að leita [...] hér á landi vegna [...].

Kærandi kveður að hún hafi þurft að hætta í skóla í heimaríki vegna veikinda. Þá hafi hún ekki notið nauðsynlegrar læknisaðstoðar þar sem enga aðstoð hafi verið að fá og engin lyf á spítölum. Kærandi kveður að henni líði ekki vel, hún sofi illa, sé hrædd og viti ekki hvar fjölskylda hennar sé. Hún hafi þó kynnst [...] fjölskyldu hér á landi.

Í greinargerð kæranda kemur þá fram að hún hafi dvalið í Danmörku í þrjú ár ásamt eldri bróður sínum, en hann hafi látið sig hverfa um mánuði áður en hún hafi yfirgefið Danmörku. Kærandi hafi verið vistuð í blönduðum flóttamannabúðum í Danmörku og alls dvalið í fjórum flóttamannabúðum þar í landi. Aðbúnaður hafi verið slæmur og sambærilegur í þeim öllum. Hún hafi fengið heilbrigðisþjónustu en búðirnar hafi iðulega verið í nokkurra klukkustunda fjarlægð frá spítala. Loks, síðustu 5-6 mánuðina fyrir brottför, hafi hún dvalið í lokuðum búðum. Þar hafi verið sameiginleg salernisaðstaða og slæmur matur, sem hafi verið afar slæmt vegna veikinda hennar. Þá hafi kærandi óttast ónæði í flóttamannabúðunum og ógnandi hegðun annarra sem þar hafi dvalið. Læknar kæranda í Danmörku hafi skrifað vottorð til yfirvalda þar sem grein hafi verið gerð fyrir veikindum hennar en allt hafi komið fyrir ekki og umsókn hennar um alþjóðlega vernd í Danmörku hafi verið synjað. Synjunin hafi haft mjög neikvæð áhrif á hana, líkamleg og andleg heilsa hennar hafi versnað mikið og hún hafi [...]. Þá kveður kærandi að hún myndi heldur vilja deyja en að snúa aftur til Danmerkur. Hún hafi ekki getað sofið af ótta við að verða flutt úr landi, þá óttist hún að þurfa að ganga í gegnum þetta allt aftur, þ.e. langa bið og fyrirvaralausan brottflutning. Kærandi kveður enn fremur að hún eigi kærasta hér á landi sem hafi fengið stöðu flóttamanns hér árið 2016.

Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð byggir kærandi í fyrsta lagi á því að hún sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, vegna [...] hennar og andlegrar vanheilsu. Vísar kærandi í því sambandi til framlagðra heilsufarsgagna, þar sem m.a. komi fram að kærandi sé með [...] og þurfi á [...] að halda þrisvar í viku. Um sé að ræða [...]. Þá vísar kærandi til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, bréfs umboðsmanns Alþingis til forstjóra Útlendingastofnunar, dags. 5. ágúst 2016, og úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 59/2017 frá 31. janúar 2017.Kærandi kveður að aðstaða hennar í flóttamannabúðunum í Danmörku hafi verið ófullnægjandi, hún hafi upplifað fordóma og orðið fyrir endurteknum áföllum. Þá hafi dvöl hennar í Danmörku reynt verulega á líkamlega og andlega heilsu hennar. Um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku að öðru leyti vísar kærandi til umfjöllunar sinnar í greinargerð til Útlendingastofnunar, dags. 2. nóvember 2018.

Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi í öðru lagi til grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 42. gr. laga um útlendinga, einkum 2. mgr. ákvæðisins. Fyrir liggi að kærandi hafi fengið lokasynjun í Danmörku og standi því frammi fyrir flutningi til [...] verði hún endursend til Danmerkur. Vísar kærandi í því sambandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, svo og 33. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í ljósi yfirvofandi endursendingar kæranda til [...] og þess að meðferð vegna sjúkdóms hennar sé ekki aðgengileg þar telji kærandi að stjórnvöldum sé ekki stætt á því að vísa almennt til þess að í Danmörku sé veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda þangað sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað.

Til stuðnings kröfu sinni byggir kærandi í þriðja lagi á því að sérstakar ástæður séu uppi í máli hennar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í því sambandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu svo og laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga, og lögskýringargagna að baki breytingarlögunum. Þá gerir kærandi athugasemd við lagastoð og beitingu reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga. Reglugerðin geri kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika umsækjenda við mat á sérstökum ástæðum, þau gangi lengra en ákvæði útlendingalaga og gegn vilja löggjafans. Þá séu viðmið, sem sett séu fram í reglugerðinni, nefnd í dæmaskyni og því sé ekki um að ræða tæmandi talningu á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort uppi séu sérstakar ástæður. Um sérstakar ástæður vísar kærandi til viðkvæmrar stöðu sinnar, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, erfiðra aðstæðna sinna í Danmörku og úrskurða kærunefndar nr. 241/2016 frá 28. júní 2016, nr. 553/2017 frá 10. október 2017 og nr. 582/2017 frá 24. október 2017. Byggir kærandi m.a. á því að hún muni eiga erfitt uppdráttar í Danmörku.

Kærandi sé [...] vegna [...] og hafi verið á flótta frá því hún hafi verið ung stúlka. Með vísan til viðkvæmrar stöðu hennar í ljósi líkamlegra og andlegra veikinda, ungs aldurs og umdeildrar stefnu danskra yfirvalda í flóttamannamálum, sé byggt á því að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í málinu. Beri því að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Danmerkur á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja dönsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] ára kona sem er stödd ein hér á landi. Í framlögðum vottorðum sérfræðilækna á sviði [...] á Landspítalanum, dags. 8. október og 14. desember 2018, kemur m.a. fram að kærandi sé með [...] og sé háð [...]. Kærandi sé með svokallaðan [...] á [...] og sé í [...] sem sé veitt þrisvar í viku [...]. Þá glími kærandi við þrekleysi og ýmsa fylgikvilla [...], þ. á m. [...], [...] og [...] en við því fái hún [...]. Erfitt sé að meta hversu lengi kærandi geti verið án [...] en um sé að ræða í mesta lagi 3-4 vikur. Rof á [...] stefni lífi kæranda í hættu og útilokað sé að hún geti lifað án hennar. Í öðrum framlögðum heilsufarsgögnum þ. á m. frá Landspítala og Göngudeild sóttvarna, kemur auk þess fram að kærandi hafi glímt við [...], [...] og óþægindi við [...] og hafi greint frá höfuðverkjum, máttleysi, ógleði, lystarleysi og kvíða. Þá sé kærandi með vægar [...] í a.m.k. þremur [...] en í ljósi hættulegra afleiðinga [...] í tilviki kæranda hafi sérfræðilæknir óskað eftir fullri [...] fyrir hana. Þá liggur fyrir vottorð sálfræðings, dags. þann 1. nóvember 2018, um að kærandi hafi komið til hennar í sálfræðiviðtal.

Í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun kemur m.a. fram að kæranda líði ekki vel, hún sé hrædd, glími við svefnleysi og hafi á tilfinningunni að hún sé að fara að deyja. Þá hafi hún [...] og vilji fremur deyja en að verða send til Danmerkur. Síðustu 5-6 mánuðina í Danmörku hafi hún dvalið í lokuðum flóttamannabúðum en þar hafi maturinn verið slæmur fyrir veikindin, [...] hafi aukist og ástand hennar versnað mikið.

Að mati kærunefndar er ljóst, með vísan til fyrirliggjandi heilsufarsgagna, að veikindi kæranda séu þess eðlis að hún hafi sérþarfir sem taka þurfi tillit til. Það er því mat kærunefndar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Danmörku

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Danmörku, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• Asyl – Status 2018 (Institut for Menneskerettigheder, 22. júní 2018);

• Freedom in the World 2018 – Denmark (Freedom House, 28. maí 2018);

• Denmark 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018);

• Amnesty International Report 2017/18 - Denmark (Amnesty International, 22. febrúar 2018);

• Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2017 (European Asylum Support Office, 2018);

• ECRI Report on Denmark (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 16. maí 2017);

• Human Rights in Denmark – Status 2016-17 (Institut for Menneskerettigheder, 2017);

• The Asylum Procedure in Denmark (Dansk Flygtningehjælp, desember 2015);

• Upplýsingar af vefsíðum dönsku útlendingastofnunarinnar (www.nyidanmark.dk) og samtakanna Dansk Flygtningehjælp (flygtning.dk) og Refugees Welcome (refugees.dk og refugeeswelcome.dk).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að danska útlendingastofnunin (d. Udlændingestyrelsen) taki ákvarðanir varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd í Danmörku. Sé umsókn synjað eiga umsækjendur þess kost að bera synjunina undir flóttamannanefnd (d. Flytningenævnet). Hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd fengið lokaniðurstöðu í máli sínu getur hann lagt fram nýja umsókn, telji hann nýjar ástæður eða breyttar aðstæður vera fyrir hendi í máli hans, sem ekki voru fyrir hendi þegar mál hans var áður til meðferðar. Þá eiga umsækjandur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans. Umsækjendur njóta túlkaþjónustu við málsmeðferðina og er endurgjaldslaus lögfræðiaðstoð veitt á kærustigi. Þá veita frjáls félagasamtök umsækjendum lögfræðiaðstoð, þeim að kostnaðarlausu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á að dvelja í Danmörku meðan á málsmeðferð stendur. Dönsku útlendingastofnuninni ber að sjá umsækjendum fyrir húsnæði, alla jafna í þar til gerðum móttökumiðstöðvum, og samgöngum vegna funda á vegum hins opinbera, s.s. málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum eða heilbrigðisþjónustu. Þá er greiddur vasapeningur, fyrir mat og hreinlætisvörum, til umsækjenda sem ekki fá fæði í búsetuúrræðinu sínu. Sé umsækjandi ekki samvinnuþýður, s.s. við tilfærslu milli búsetuúrræða eða brottflutning, getur það þó orðið til þess að framangreind þjónusta sé skert að einhverju leyti. Af ofangreindum gögnum verður ráðið að búsetuúrræði fjölskyldna séu aðskilin frá búsetuúrræðum einstaklinga, en einstaklingar deili yfirleitt herbergi með 3-4 öðrum umsækjendum af sama kyni.

Sem fyrr segir ber danska útlendingastofnunin kostnað af dvöl umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku en heilbrigðisþjónusta við umsækjendur og aðra erlenda ríkisborgara er ekki hluti af danska sjúkratryggingakerfinu. Á ofangreindri vefsíðu stofnunarinnar kemur fram að hún standi undir kostnaði við brýna heilbrigðisþjónustu, sem ekki þoli bið, svo og verkjadeyfandi þjónustu. Meðferð sé talin brýn ef frestun gæti leitt til lífshættulegra áverka, hrörnunar, alvarlegrar hnignunar á heilsufari eða langvinns ástands. Umsækjendur á barnsaldri eiga rétt á sömu heilbrigðisþjónustu og önnur börn sem búsett eru í Danmörku.

Í ofangreindri skýrslu dönsku mannréttindastofnunarinnar frá 2018 kemur m.a. fram að á árinu 2016 hafi á degi hverjum að meðaltali um 138 umsækjendur um alþjóðlega vernd sætt varðhaldi eða annars konar frelsissviptingu en 81 umsækjandi árið 2015 og 92 umsækjendur árið 2014. Varðhald eða önnur frelsissvipting verður að eiga sér lagastoð og skal aðeins beitt að loknu einstaklingsbundnu mati, sé annað og vægara úrræði ekki tækt. Þá skal varðhald ávallt vera eins stutt og mögulegt er, málsmeðferð í varðhaldsmálum skal hafa forgang og taka skal tillit til viðkvæmra hópa, s.s. veikra, aldraðra, barna, ófrískra kvenna o.s.frv.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstólinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Framkvæmd brott- eða frávísunar veiks einstaklings getur talist ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er það einungis í afar sérstökum málum sem aðstæður veikra einstaklinga ná alvarleikaþröskuldi ákvæðisins, n.t.t. aðstæður þar sem sýnt hefur verið fram á að skortur á viðeigandi læknismeðferð í móttökuríki, eða skortur á aðgengi að slíkri meðferð, geri einstakling útsettan fyrir alvarlegri, hraðri og óafturkræfri hnignun á heilsufari sem leitt geti til mikillar þjáningar eða verulegrar skerðingar á lífslíkum, sbr. dóm Mannréttindadómstólsins í máli Paposhvili gegn Belgíu (mál nr. 41738/10) frá 13. desember 2016.

Með vísan til umfjöllunar kærunefndar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku, svo og framburðar kæranda um þá heilbrigðisþjónustu sem hún kveðst hafa notið þar, telur kærunefnd ljóst að ekki hafi verið sýnt fram á aðstæður þar sem skortur sé á viðeigandi læknisaðstoð henni til handa í móttökuríki. Það er því niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í Danmörku sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þess og frelsi sé ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess meðferð danskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra. Þótt fyrir liggi að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Danmörku, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hún verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf hennar eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu kemur 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki í veg fyrir að umsókn kæranda verði synjað um efnismeðferð.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Hefur hún m.a. borið fyrir sig að hún sé í viðkvæmri stöðu, vegna líkamlegrar vanheilsu sinnar og andlegra kvilla, og viðkvæm staða hennar valdi því að hún muni eiga erfitt uppdráttar í Danmörku verði hún send þangað. Kveður kærandi að í Danmörku verði henni komið fyrir í miðstöð fyrir brottflutninga þar sem hún muni njóta lágmarksþjónustu og verða fjarri lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Þá standi hún frammi fyrir brottflutningi frá Danmörku til [...] en með því sé lífi hennar og heilsu stefnt í hættu vegna skorts á aðgengi hennar að nauðsynlegri heilbrigðisaðstoð.

Af ofangreindum gögnum um aðstæður í Danmörku verður ráðið að kærandi eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna [...] sem hún glímir við, þ. á m. [...] þjónustu. Fær það mat kærunefndar stuðning í framburði kæranda, en í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 16. október sl. greindi kærandi frá því að hún hefði verið í [...] í Danmörku vegna veikinda sinna. Það er því mat kærunefndar að gögn málsins gefi ekki til kynna að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Ofangreind gögn um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku gefa til kynna að þeir sem hafi fengið synjun á umsókn sinni þar séu fluttir í brottflutningsmiðstöðvar þar sem fæði sé útvegað. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum á kærandi því rétt á fæði og húsaskjóli í Danmörku. Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hennar verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Gögn frá dönskum yfirvöldum benda til þess að kærandi sé með virka umsókn um mannúðardvalarleyfi til meðferðar í Danmörku. Þá áréttar nefndin að umsækjandi um alþjóðlega vernd í Danmörku sem hefur fengið lokaniðurstöðu í máli sínu getur lagt fram nýja umsókn, telji hann nýjar ástæður eða breyttar aðstæður vera fyrir hendi í málinu. Þá geta umsækjendur fengið endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð í gegnum frjáls félagasamtök, sem fyrr segir.

Í greinargerð kæranda er, til stuðnings kröfu hennar, m.a. vísað til úrskurða kærunefndar nr. 241/2016 frá 28. júní 2016, nr. 59/2017 frá 31. janúar 2017, nr. 553/2017 frá 10. október 2017 og nr. 582/2017 frá 24. október 2017. Það er mat kærunefndar að framangreindir úrskurðir nefndarinnar hafi ekki fordæmisgildi til stuðnings kröfu kæranda um efnismeðferð, m.a. vegna þess að í fyrstgreinda og síðastgreinda málinu voru kærendur ekki ferðafærir vegna veikinda á þeim tíma sem úrskurður var kveðinn upp í málum þeirra. Í ofangreindum málum er þá ekki um að ræða sömu viðtökuríki og í máli kæranda.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 16. október 2018 ekki hafa þekkt fólk hér á landi fyrir komu hennar hingað en nú hafi hún kynnst fólki hér. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hún eigi kærasta hér á landi. Að mati kærunefndar er þó ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík sérstök tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 2. ágúst 2018.

Athugasemd við rökstuðning Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda vísar stofnunin m.a. til þess að málsmeðferð danskra stjórnvalda sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sem Danmörk og aðrar Evrópusambandsþjóðir hafi gengist undir. Í því sambandi áréttar kærunefnd, líkt og fram kemur í úrskurðum nefndarinnar nr. 673/2017 frá 12. desember 2017 og nr. 105/2018 frá 6. mars 2018, að í 1. gr. 22. bókunar við sáttmálann um starfshætti Evrópusambandsins (SSESB) segir m.a. að Danmörk taki ekki þátt í upptöku ESB-gerða sem snúi að V. bálki þriðja hluta SSESB, en þar er m.a. fjallað um landamæraeftirlit og útlendingamál. Þá er ekki að sjá að Danmörk hafi tekið upp í landsrétt ESB-gerðir sem snúa að slíkum málefnum. Er rökstuðningur Útlendingastofnunar að þessu leyti ekki í samræmi við skýrleikareglu stjórnsýsluréttar, sbr. jafnframt 22. gr. stjórnsýslulaga, en að öðru leyti hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um málsmeðferð og aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku.

Athugasemd kæranda við beitingu 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemd við beitingu stjórnvalda á 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Að mati kæranda geti atriði sem þar séu talin upp í dæmaskyni ekki komið í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum hennar.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja henni um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Ráðstafanir vegna flutnings kæranda til Danmerkur

Eins og að framan er rakið hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu á grundvelli gagna málsins að að þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, einkum hvað varðar aðgang að heilbrigðiskerfinu þar í landi, séu fullnægjandi. Ljóst er þó að kærandi glímir við [...] og hefur þörf fyrir áframhaldandi [...], sbr. ofangreind vottorð sérfræðilækna, dags. 8. október og 14. desember 2018.

Við mat á því hvernig framkvæma beri flutning kæranda telur kærunefnd rétt að líta til þeirra viðmiða sem koma fram í dómi Evrópudómstólsins í máli C.K. og fleiri gegn Slóveníu (nr. C-578/16) frá 16. febrúar 2017. Þar komst dómstóllinn m.a. að þeirri niðurstöðu að þegar flutningur einstaklings til annars ríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar skerðir heilsu einstaklingsins verulega eða flutningur verði til þess að valda óafturkræfum skaða á heilsu einstaklingsins kunni það í sjálfu sér að teljast ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð. Skipti þá engu hvort umönnun í viðtökuríkinu uppfylli lágmarkskröfur sem Evrópusambandið gerir til móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í niðurstöðu dómsins að heimilt sé að flytja einstakling þegar hann geti ferðast en stjórnvöld verði að eyða öllum efasemdum um hvaða áhrif endursending hafi á heilsufar einstaklings með því að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir fyrir flutninginn þannig að flutningurinn fari fram á viðeigandi hátt og núverandi heilsa umsækjanda sé nægilega tryggð. Því sé samstarf við viðtökuríki vegna flutnings á veikum einstaklingi nauðsynlegt, t.d. til að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir, á meðan og eftir flutning. Aðildarríki þurfi því að skipuleggja flutning þannig að einstaklingurinn sé með lyf, búnað eða aðra heilbrigðisþjónustu sem komi í veg fyrir versnandi heilsu viðkomandi. Þá er skylt að tilkynna viðtökuríkinu um ástand þess sem fluttur er svo hægt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir og aðstoða einstaklinginn við málsmeðferð sína í viðtökuríkinu og veita nauðsynlega umönnun eftir flutninginn.

Í ljósi framangreinds og með vísan til þess að kærandi hefur þörf fyrir tiltekna meðferð samkvæmt áðurnefndum læknisvottorðum frá 8. október og 14. desember sl. telur kærunefnd nauðsynlegt að þau stjórnvöld sem annast flutning á kæranda miðli upplýsingum um heilsufar hans til danskra yfirvalda tímanlega áður en flutningur fer fram, svo þarlend yfirvöld hafi nægilegt ráðrúm til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana. Miðlun slíkra upplýsinga getur farið fram í samræmi við það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í 31. eða eftir atvikum 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og með notkun þeirra stöðluðu forma sem finna má í viðaukum VI. og IX. í innleiðingarreglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 118/2014 frá 30. janúar 2014.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 2. ágúst 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal flutt til Danmerkur eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa dönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Danmerkur með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                     Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta