Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 34/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

        

Miðvikudaginn 20. ágúst 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 34/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með bréfi, dags. 22. maí 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar á umsókn hennar um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir tímabilið janúar 2012 til desember 2013.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 24. janúar 2014, sótti kærandi um greiðslu húsaleigubóta hjá Reykjavíkurborg aftur í tímann fyrir tímabilið janúar 2012 til desember 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 12. mars 2014, með þeim rökum að umsóknin hafi ekki borist á tilsettum tíma, sbr. 10. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 14. maí 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur skal umsókn hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Vakin er athygli á að um húsaleigubætur gilda lög nr. 138/1997. Velferðarráð hefur ekki heimild til að víkja frá settum lögum.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. maí 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 22. maí 2014. Með bréfi, dags. 6. júní 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 12. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 13. júní 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi fyrst sótt um húsaleigubætur þegar hún hafi farið að leigja íbúð en láðst að endurnýja umsóknina árlega. Kærandi sé þroskahömluð og ekki alveg fær um að stjórna sínum eigin málum. Kæranda hafi aldrei verið boðin viðeigandi aðstoð fyrr en eftir að hún hafi lent í þessum vandræðum. Fjárhagsstaða kæranda sé bág og því myndi sú fjárhæð sem um ræðir muna miklu fyrir hennar fjárhag.   

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, þar sem fram komi að sækja þurfi um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og umsóknin gildi til ársloka. Þá komi fram í 3. mgr. 10. gr. laganna að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Framangreindar reglur séu einnig ítrekaðar í 4. gr. reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003. Umsókn kæranda um húsaleigubætur fyrir tímabilið 1. janúar 2013 til 31. janúar 2014 hafi ekki borist þjónustumiðstöð fyrr en 24. janúar 2014. Velferðarráð hafi talið umsókn kæranda of seint fram komna en eins og fram komi í 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur þurfi að sækja um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og þá gildi umsóknin til ársloka. Það sé mat Reykjavíkurborgar að orðalag 3. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur feli í sér að ekki sé heimilt að greiða húsaleigubætur aftur í tímann ef umsókn berist seinna en ákvæðið kveði á um. Ljóst sé að umsókn kæranda um húsaleigubætur fyrir tímabilið 1. janúar 2013 til 31. janúar 2014 hafi ekki borist fyrr en 24. janúar 2014 og því hafi ekki verið unnt að samþykkja umsókn kæranda. Í lögum um húsaleigubætur sé ekki að finna heimildir til undanþágu í tilvikum sem þessum og því sé ljóst að velferðarráð hafi ekki heimild til að víkja frá framangreindum ákvæðum laganna.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborghafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir tímabilið janúar 2012 til desember 2013.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, segir að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildi umsóknin til ársloka. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Með vísan til ákvæða tilvitnaðra lagagreina er ekki lagaheimild fyrir því að víkja frá skýrum ákvæðum laganna um að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár fyrir sig og að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 14. maí 2014, um synjun á umsókn A um greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann fyrir tímabilið janúar 2012 til desember 2013 er staðfest.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta