Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                             

Miðvikudaginn 3. september 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 14/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Sveitarfélagsins Garðs

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

B hefur f.h. A, hér eftir nefnd kærandi, með kæru, dags. 6. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Sveitarfélagsins Garðs, dags. 21. janúar 2014, á umsókn kæranda um akstur fyrir fatlaða. Undir rekstri málsins tók C mál kæranda að sér.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um akstur fyrir fatlaða hjá Sveitarfélaginu Garði með umsókn sem móttekin var þann 10. janúar 2014. Í umsókn kæranda er óskað eftir akstri eftir klukkan fjögur virka daga og um helgar vegna tómstunda. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Félagsþjónustu Sandgerðisbæjar, Sv. Garðs og Voga, dags. 21. janúar 2014, þar sem fram kemur að fjölskyldu- og velferðarnefnd hafi tekið fyrir umsókn kæranda þann 16. janúar 2014 og samþykkt svohljóðandi bókun:

Bókun: Samkvæmt markmiðum reglna um ferðaþjónustu fyrir fatlaða á vegum Sandgerðisbæjar, Garðs og Voga (2.gr.) eiga þeir rétt á ferðaþjónustu sem eru með fötlun sbr. lög nr. 59/1992 og geta ekki nýtt sér almenningsfarartæki. Þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um að A geti ekki nýtt sér almenningsfarartæki með aðstoð persónulegra aðstoðarmanna sinna er umsókn synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 11. mars 2014 og með bréfi, dags. 14. mars 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Sveitarfélagsins Garðs vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 7. apríl 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 14. apríl 2014, var greinargerð sveitarfélagsins send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. maí 2014, og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. maí 2014. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 6. maí 2014 og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi, dags. 7. maí 2014. Frekari athugasemdir bárust frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 30. maí 2014, og voru þær sendar kæranda með bréfi, dags. 2. júní 2014. Með bréfi, dags. 16. júní 2014, bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda og voru þær sendar sveitarfélaginu með bréfi, dags. 19. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. júlí 2014, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda. Þann 10. júlí 2014 bárust viðbótarathugasemdir frá sveitarfélaginu og voru þær sendar lögmanni kæranda með bréfi, dags. 14. júlí 2014. Þann 30. júlí 2014 bárust frekari athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar sveitarfélaginu með bréfi, dags. 31. júlí 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er greint frá aðstæðum og fötlun kæranda. Kærandi þurfi að sækja alla þjónustu til Reykjanesbæjar en vegna fötlunar sinnar geti hún ekki nýtt sér almenningssamgöngur milli Sveitarfélagsins Garðs og Reykjanesbæjar. Kærandi njóti sólarhringsþjónustu frá sveitarfélaginu en hafi takmarkaða þjónustu til að fara ferða sinna. Kærandi fái þjónustu með ferðaþjónustu fatlaðra til og frá vinnu en þurfi sjálf að greiða starfsmönnum félagsþjónustunnar fyrir ferðir vegna tómstunda og annarra afþreyinga. Kærandi þurfi á sértækum tómstundatilboðum að halda sem sé ekki í boði í Garði og kærandi hafi aldrei getað nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar sinnar.

Í athugasemdum kæranda er greint nánar frá fötlun kæranda og að hún hafi aldrei getað nýtt sér almenningssamgöngur. Kærandi sé einhverf, með mjög alvarleg geðklofaeinkenni og árásarhneigð. Það sé því ekki hægt að setja hana í aðstæður sem gætu verið hættulegar fyrir hana og annað fólk. Niðurstaða fjölskyldu- og velferðarnefndar sveitarfélagsins um að kærandi geti nýtt sér almenningssamgöngur sé því ekki byggð á faglegu mati og fjarri því að vera raunhæf. Kærandi telur að sveitarfélagið hafi ekki rannsakað málið með fullnægjandi hætti og að það hafi sniðgengið lögbundnar skyldur sínar. Því beri að ógilda synjun sveitarfélagsins og þess krafist að kæranda verði veitt umbeðin þjónusta. 

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Garðs

Í athugasemdum sveitarfélagsins vegna kærunnar kemur fram að gerður hafi verið einstaklingssamningur við kæranda í apríl 2013 um sólarhringsþjónustu. Markmið samningsins hafi verið að kærandi fengi persónulega aðstoðarmenn og með því skapa henni tækifæri til að lifa eins sjálfstæðu lífi og kostur væri. Í samningnum hafi verið sérstaklega tilgreint að kærandi myndi greiða sjálf fyrir útgjöld sem sneru að henni sjálfri, til dæmis akstur umfram nauðsynlega ferðaþjónustu, sbr. 9. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, og tómstundir. Kærandi fái akstur á Hæfingarstöðina í Reykjanesbæ án kostnaðar. Þar sem markmið einstaklingssamningsins hafi verið að auka sjálfstæði kæranda hafi verið lögð áhersla á að aðstoðarmenn hefðu ökuréttindi svo kærandi hefði kost á að nýta eigin bifreið og hefði þá sama sveigjanleika og aðrir til að komast um. Stefnt hafi verið að því að kærandi festi kaup á bifreið með tímanum.  

Í nóvember 2013 hafi verið gert nýtt samkomulag við kæranda um sólarhringsþjónustu sem sé enn í gildi. Í samningum sé tilgreint að kærandi njóti áfram sértækrar ferðaþjónustu sér að kostnaðarlausu vegna nauðsynlegrar þjónustu en ferðist hún með aðstoðarmanni beri henni að greiða fyrir þann akstur. Með samningnum sé kæranda tryggð sambærileg lífskjör og jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna. Jafnframt séu henni sköpuð skilyrði til að lifa sem eðlilegustu lífi miðað við fötlun. Með nýjum samningi hafi verið ákveðið að auka sjálfstæði kæranda en hún sé nú flutt í eigin íbúð. Ljóst hafi verið að aðstoðarmenn myndu áfram sinna akstri á sínum bifreiðum og hafi verið tekið skýrt fram að kærandi myndi standa straum af þeim kostnaði. Samkvæmt 35. gr. laga nr. 59/1992 sé markmið ferðaþjónustu fatlaðs fólks að gera þeim, sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar, kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Samkvæmt þjónustumati félagsþjónustu sveitarfélagsins, fyrirliggjandi gögnum um fötlun kæranda, upplýsingum frá aðstoðarmönnum og niðurstöðu tryggingalæknis komist kærandi um án sérútbúinnar bifreiðar. Kærandi standi nú straum af kostnaði vegna eigin aksturs og hafi sveigjanleika til ferða sem ekki sé unnt að bjóða upp á með hefðbundinni sértækri ferðaþjónustu.   

Í athugasemdum sveitarfélagsins er því hafnað mál kæranda hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti. Það sé mat félagsþjónustunnar að þarfir kæranda hafi verið kannaðar til hlítar með tilliti til þjónustu og úrræða og í framhaldinu hafi verið gerður samningur um sólarhringsþjónustu. Því hafi sveitarfélagið uppfyllt lögbundnar skyldur sínar við að gera kæranda kleift að stunda atvinnu og njóta tómstunda.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, en í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að fötluðum einstaklingi sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Sveitarfélaginu Garði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um ferðaþjónustu vegna tómstunda.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar, heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðra til ferðaþjónustu en þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu en markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur einnig fram í 2. mgr. 35. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega. Ákvæði 1. mgr. 35. gr. laganna felur ekki í sér fortakslausa skyldu sveitarfélaga til að fullnægja þörfum einstaklings til ferðaþjónustu. Sú niðurstaða skýrist bæði af orðalagi ákvæðisins, „gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu“, en einnig af samanburðarskýringu við 2. mgr. 35. gr. um ferðir vegna nauðsynlegrar þjónustu, en samkvæmt því er lögð ríkari skylda á herðar sveitarfélögum til að fullnægja ýtrustu þörfum fatlaðs fólks. Hér er því í lögunum gerður greinarmunur á skyldum sveitarfélaga til að veita ferðaþjónustu vegna atvinnu og náms annars vegar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laganna, og nauðsynlega þjónustu fötluðu fólki til handa hins vegar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laganna. Sveitarfélög hafa því skv. 1. mgr. 35. gr. laganna umtalsvert svigrúm til að ákvarða í hve miklum mæli ferðaþjónusta vegna atvinnu, náms og tómstunda skuli vera. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir, þ.e. atriði sem byggjast á frjálsu mati sveitarstjórnar á viðkomandi málefni. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ef matið byggist á lögmætum sjónarmiðum og er í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um ferðaþjónustu vegna tómstunda var hafnað á þeirri forsendu að ekki lægju fyrir upplýsingar um að kærandi gæti ekki nýtt sér almenningsfarartæki með aðstoð persónulegra aðstoðarmanna sinna. Kærandi hefur byggt á því að málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar hafi verið brotnar við meðferð málsins, meðal annars rannsóknarregla stjórnsýsluréttar. Með bréfi til kæranda, dags. 9. júlí 2014, óskaði úrskurðarnefndin, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga, eftir læknisfræðilegri staðfestingu á því að kærandi gæti ekki nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar sinnar, sbr. 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks. Með bréfi kæranda, dags. 28. júlí 2014, var því mótmælt að sönnunarbyrðinni væri varpað yfir á kæranda. Slíkt væri í andstöðu við rannsóknarregluna og meginreglur stjórnsýsluréttarins. Úrskurðarnefndin tekur fram að beiðni nefndarinnar var liður í að upplýsa málið líkt og nefndinni ber skylda til að gera í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks að úrskurðarnefndin skuli fjalla um málsmeðferð, rétt til þjónustu og hvort þjónustan sé í samræmi við lögin, reglugerðir eða reglur hlutaðeigandi sveitarfélags.

Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi fór fram á að nefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að sveitarfélaginu bæri að veita kæranda umbeðna þjónustu. Að mati úrskurðarnefndarinnar lágu ekki fyrir fullnægjandi gögn til þess að hægt væri að meta hvort sú þjónusta sem kærandi fær frá sveitarfélaginu væri í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks. Af þeirri ástæðu óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá kæranda sem kærandi hafnaði að láta í té.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda sé ekki tækt til efnislegrar ákvörðunar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Kröfu kæranda er því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta