Hoppa yfir valmynd

Nr. 323/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 1. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 323/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070001

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. júlí 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2020, um að synja honum um vegabréf fyrir útlending.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að beiðni hans um útgáfu vegabréfs fyrir útlending verði samþykkt.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. ágúst 2016. Kæranda var veitt alþjóðleg vernd hér á landi þann 19. ágúst 2016 og dvalarleyfi frá 5. ágúst 2016 til 5. ágúst 2020. Kærandi lagði fram umsókn um vegabréf útlendings þann 14. apríl 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júní 2020, synjaði stofnunin beiðni kæranda. Þann 3. júlí 2020 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda og fylgigögn bárust þann 21. júlí 2020. Viðbótargögn bárust þann 3. september 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að umsókn kæranda um útgáfu vegabréfs fyrir útlending hafi verið synjað á grundvelli e-liðar 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Meðal gagna málsins sé skýrsla þar sem greint sé frá upplýsingaöflun íslensku lögreglunnar um auðkenni kæranda hjá stjórnvöldum í heimaríki hans. Þar komi fram að staðfest hafi verið að einstaklingur með nafn kæranda og fæðingardag sé ekki til. Að mati Útlendingastofnunar séu málsatvik með þeim hætti að vafi leiki á um hver kærandi sé, sbr. e-liður 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni til kærunefndar kveðst kærandi upphaflega hafa verið skráður í heimaríki sínu sem [...] og fæðingardagur hans hafi verið skráður [...]. Árið 2005 hafi dómstóll í Sarai Al angir fallist á kröfu hans um að fæðingardegi hans yrði breytt í [...]. Kveður kærandi ástæðu kröfu sinnar hafa verið að ekki sé hægt að fá útgefið vegabréf í heimaríki hans fyrr en viðkomandi sé orðinn 25 ára gamall. Hann kveðst hafa ætlað að heimsækja systur sína í Bretlandi og hafi því látið breyta fæðingardegi sínum. Á árinu 2014 hafi nafni hans og fæðingardegi aftur verið breytt hjá dómstólum og hefur hann frá þeim tíma borið nafnið [...] og fæðingardagur hans sé [...]. Meðfylgjandi greinargerð kæranda sé skjal frá dómstólnum þar sem þetta komi fram. Kærandi kveður að lög í heimaríki hans heimili breytingar á nafni og fæðingardegi en fara þurfi með slík mál fyrir dómstóla. Hann hafi m.a. þurft að breyta auðkenni sínu vegna ofsókna í heimaríki. Hann telji því alveg ljóst að hann sé sá sem hann segist vera.

Þá vísar kærandi til þess að undarlegt sé í alla staði að Útlendingastofnun telji fæðingarvottorð hans falsað en á sama tíma telji stofnunin að fæðingarvottorð stúlku að nafni [...], fd. [...] sé gilt. Í fæðingarvottorði stúlkunnar komi fram að kærandi sé faðir hennar en ljóst megi vera að það sé ómögulegt. Kærandi kveðst ekki hafa farið frá Íslandi á árinu 2019, enda hafi hann sætt farbanni á þeim tíma og þurft að skrá sig hjá lögreglunni með reglubundnum hætti. Þá hafi sú kona, sem sögð er móðir stúlkunnar, ekki komið til Íslands á árinu 2019. Kærandi segir þá konu sem nefnd sé á fæðingarvottorði stúlkunnar vera látna. Um sé að ræða fyrrum eiginkonu hans sem hafi látist fyrir nokkrum árum síðan. Kærandi segir því ljóst að fæðingarvottorð stúlkunnar sé efnislega rangt.

Kærandi bendir á að hann sé með gilt íslenskt ökuskírteini og íslenska kennitölu. Það sé óumdeilt að hið íslenska ökuskírteini sé ófalsað. Er hann sótti um hið íslenska ökuskírteini hafi hann lagt fram eldra ökuskírteini sitt sem hafi verið á gamla nafninu. Það sé í eina skiptið sem hann hafi notað eldra nafnið á Íslandi. Kærandi hafi fengið alþjóðlega vernd hér á landi og dveljist því löglega hér á landi. Hann hafi fengið útgefið íslenskt ökuskírteini sem staðfesti þar með auðkenni hans.

Í 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga sé skýrt tekið fram að veita skuli þeim sem njóta alþjóðlegrar verndar, og dveljast löglega í landinu, að fenginni umsókn, ferðaskírteini fyrir flóttamenn til ferða til útlanda. Þá sé einnig tekið fram að heimilt sé að synja um útgáfu ferðaskírteinis þegar a- til f- tölul. 1. mgr. 46. gr. laganna eigi við. Í þessu máli sé ekki að sjá að þeir töluliðir eigi við. Verði því ekki annað lesið úr lögunum en að kærandi eigi rétt á útgáfu ferðaskilríkja, enda njóti hann stöðu alþjóðlegrar verndar hér á landi og enginn vafi leiki á því hver hann sé, sbr. hið íslenska ökuskírteini. Þá líti löggjafinn svo á að það séu klár mannréttindi fólgin í því að fá að ferðast til og frá landinu, sbr. 66. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 ásamt lögum um vegabréf nr. 136/1998.

Ferðafrelsi einstaklinga eru stjórnarskrárvarin grundvallarmannréttindi sem kveðið er á um í 66. gr. stjórnarskrá Íslands nr. 33/1944. Í 3. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að engum verði meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómara en stöðva megi þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku. Með vísan til tilgangs ákvæðisins eins og honum er lýst í athugasemdum við frumvarp sem varð að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 um breytingu á stjórnaskrá lýðveldisins Íslands og tengsla ákvæðisins við 2. mgr. 2. gr. 4. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, um rétt til brottfarar úr landi, er ljóst að ákvæðinu er ekki ætlað að vera án undantekninga og að þær undantekningar sem útlistaðar eru í 3. mgr. 66. gr. séu ekki að öllu leyti tæmandi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu er m.a. vakin athygli á því að ekki sé ætlast til þess að orðalagið í ákvæði 3. mgr. 66. gr. verði skilið á þann hátt að ákvæðið útiloki að sett verði, í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar reglur, skilyrði í lögum fyrir brottför úr landi, svo sem um að framvísað sé gildu vegabréfi. Þá segir í 3. mgr. 2. gr. 4. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu að eigi megi leggja hömlur á vernd réttar til ferðafrelsis, umfram það sem lög standi til og nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi, m.a. í þágu allsherjarreglu.

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um vegabréf gefur Útlendingastofnun út vegabréf fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga skal að fenginni umsókn veita þeim sem nýtur alþjóðlegrar verndar eða dvelst löglega í landinu, ferðaskilríki fyrir flóttamenn til ferða til útlanda. Ákvæðið er í samræmi við 28. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.Í stafliðum a-f í 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga eru þær ástæður sem liggja þurfa til grundvallar synjunar tíundaðar. Í stafliðum ákvæðisins er því að finna undantekningar frá þeirri meginreglu að öllum sem dvelji löglega hér á landi skuli veitt ferðaskilríki. Í e-lið ákvæðisins segir að heimilt sé að synja um útgáfu ferðaskírteinis þegar ekki sé staðfest hver útlendingurinn sé eða vafi leiki á um hver útlendingurinn sé.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda synjað um útgáfu ferðaskírteinis á þeim grundvelli að vafi leiki á um hver kærandi sé, sbr. e-lið 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Er í því sambandi m.a. vísað til skýrslu flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum þar sem fram kemur að kærandi sé að öllum líkindum að villa á sér heimildir á Íslandi. Kærandi hafi þann 15. janúar 2018 lagt fram ýmis gögn vegna umsóknar um fjölskyldusameiningu sem stönguðust á við framburð hans við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun. Í skýrslu lögreglunnar vegna rannsóknar á þeim gögnum er m.a. vísað til skjals þar sem fram kemur að kærandi hafi hann þann 20. október 2014 breytt nafni sínu í [...] og fæðingardegi í [...]. Í framlögðu vegabréfi með gildistíma frá 1. janúar 2016 sé nafn kæranda skráð [...] sem sé í ósamræmi við upplýsingar um nafnabreytinguna þann 20. október 2014. Samkvæmt skýrslunni séu allar líkur á því að kærandi heiti í raun [...] og sé fæddur þann [...]. Þá liggur fyrir upplýsingaskýrsla norræna lögreglu- og tollasamstarfsins að beiðni íslensku lögreglunnar um auðkenni kæranda en í skýrslunni kemur fram að einstaklingur að nafni [...], fd. [...], sé ekki til í Pakistan en einstaklingur að nafni [...], fd. [...], sé til. Að auki liggur fyrir að til meðferðar hjá Útlendingastofnun sé mál um hugsanlega afturköllun á alþjóðlegri vernd kæranda.

Með tölvupósti, dags. 31. ágúst 2020, óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá Útlendingastofnun um stöðu mála kæranda hjá stofnuninni. Í svari frá stofnuninni, þann sama dag, kom fram að mál um hugsanlega afturköllun á alþjóðlegri vernd kæranda sé enn til meðferðar hjá stofnuninni.

Er það mat kærunefndar, með vísan til framangreinds, að fallast megi á með Útlendingastofnun að vafi leiki á því hver kærandi sé, sbr. e-lið 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga, og að stofnuninni hafi verið heimilt að synja honum um útgáfu ferðaskírteinis. Ekkert í rannsókn nefndarinnar eða gögnum málsins gefur ástæðu til þess að bera brigður á ofangreint mat Útlendingastofnunar hvað það varðar en kærunefnd hefur litið til þess að ákvörðun stofnunarinnar byggðist á ítarlegri rannsókn á auðkenni kæranda og þeim skjölum sem því liggja til grundvallar. Þá telur kærunefnd skýringar kæranda á ósamræmi tengdu auðkenni sínu vera ótrúverðugar.

Að mati kærunefndar er synjun Útlendingastofnunar í samræmi við lög og nauðsynleg í þágu allsherjarreglu. Kærunefnd lítur hins vegar svo á að synjun um útgáfu á ferðaskilríki sé tímabundin aðgerð og standi aðeins á meðan verið sé að ganga úr skugga um auðkenni kæranda og meta í því sambandi hvort rétt sé að afturkalla þá alþjóðlegu vernd sem honum var veitt árið 2016. Þá telur kærunefnd ekki unnt að ætlast til þess að íslenska ríkið gefi út skjal sem opinberlega staðfesti auðkenni kæranda gagnvart öðrum ríkjum á meðan óljóst sé hver hann sé í raun og fyrir liggur að nafn það sem hann notar hér á landi er ekki rétt og það sama eigi við um fæðingardag hans. Með vísan til ofangreinds og til þeirra sjónarmiða sem Mannréttindadómstóll Evrópu studdist við í dómi sínum í máli Ignatov gegn Búlgaríu nr. 50/02 frá 2. júlí 2009, telur kærunefnd að synjun stofnunarinnar gangi ekki gegn ákvæðum 3. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar eða 2. mgr. 2. gr. 4. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The Dicision of The Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                  Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta