Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 1. júní 1982
Ár 1982, þriðjudaginn 1. júní, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:
Vegagerð ríkisins
gegn
Einari Jónssyni
Tannstaðabakka
Vestur-Húnavatnssýslu
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I.
Með bréfi dags. 11. júní 1981 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði lögboðnar bætur vegna lagningar Norðurlandsvegar um land Tannstaðabakka í Vestur-Húnavatnssýslu.
Viðræður um bætur hafi farið fram við Einar Jónsson, bónda, eiganda og ábúanda Tannstaðabakka og honum boðnar bætur með bréfi dags. 10.10.1980, sem hann hafi hafnað með bréfi dags. 25.4.1981.
Bætur þær sem eignarnámsþola hafi verið boðnar séu sem hér segir:
Ræktunarhæft, gróið land,
1050 m x 50 m = 52500 m² á kr. 10 pr/m² kr. 525.000.-
Gróið land óhæft til ræktunar,
225 m x 50 m = 11250 m² á kr. 2.50 pr/m² kr. 28.125.-
Bætur vegna breyttrar aðstöðu
við búrekstur kr. 250.000.-
Bætur vegna mölunar efnis á árinu
1979 úr mel neðan Heggstaðanesvegar kr. 100.000.-
Samtals kr. 903.125.-
Gamall vegur er ekki dreginn frá bótum vegna tímabundinna afnota af landi utan vegsvæðis.
Í bréfi eignarnámsþola, þar sem hann hafnar tilboði eignarnema, segir hann að það sé af fleiri en einni ástæðu að hann hafni bótatilboði eignarnema. Tekur hann fram að bætur vegna breyttrar aðstöðu við búskap, gkr. 250.000.- hefðu á verðlagi ársins á undan u.þ.b. dugað fyrir hálfum venjulegum skammti á tún af tilbúnum áburði í eitt skipti á jafn stórt land og Vegagerð ríkisins hafi tekið af Tannstaðabakkalandi undir Norðurlandsveg.
Mál þetta var fyrst tekið fyrir að Tannstaðabakka mánudaginn 22. júní 1981. Var eignarnámsþoli sjálfur mættur og var leitað um sættir með aðilum en árangurslaust. Var síðan gengið á vettvang og farið um landið og allar aðstæður skoðaðar. Á þessum fundi lagði eignarnámsþoli fram skýrslu, mskj. nr. 8, þar sem segir m.a. að Tannstaðabakkaland sé um 300 ha. (tún og beitiland). Áhöfn sé um 325 kindur og 5 hross.
Eignarnámsþoli telur beitilandið algjörlega takmarkandi fyrir bústærð. Ræktun sé meiri en nóg til fóðuröflunar fyrir þá áhöfn sem er á jörðinni og aukning hennar sé auðveld.
Nú liggi þvert í gegnum landið tveir vegir, Norðurlandsvegur og Heggstaðanesvegur, sem hluti landið í sundur í þrennt.
Ofan (austan) Norðurlandsvegar séu um 173 ha., eða tæpir 2/3 hlutar alls lands jarðarinnar.
Til þess að flytja eða sækja beitarfénað í þennan hluta landsins sé rétt um 1 km. frá túnhliði. Vegna þess hversu langt sé í landið ofan Norðurlandsvegar sé mjög fyrirhafnarsamt og tímafrekt að flytja og sækja beitarfénað þangað og telja megi útilokað að nýta það til vetrarbeitar sauðfjár. Sé hér um að ræða mikla skerðingu á búskaparaðstöðu. Landræman milli þjóðveganna sé 35 ha. Girðing umhverfis það sé um 2,8 km. Þar sem beitiland sé takmarkandi fyrir bústærð en rúmt um gott ræktunarland sé verðmat á ræktunarhæfu landi og grónu óræktunarhæfu landi fráleitt.
Byrjað hafi verið á vegalagningu í síðustu viku ágústmánaðar 1976. Jarðrask og efnistaka utan vegstæðis á grónu landi sé um 2,6 ha. Sáð hafi verið í hluta þess lands í júlí 1980 þannig að það hafi verið tæp 4 ár í flagi og sé rúmlega 1 ha. enn óuppgræddur.
Sumarið 1977 hafi bækistöð vegagerðarmanna verið ekki fjarri miðju beitilandi jarðarinnar. Af því hafi leitt mikið ónæði fyrir sauðfé. Lengd girðinga meðfram Norðurlandsvegi beggja vegna og Heggstaðanesvegi annars vegar í landi Tannstaðabakka sé um 3,6 km. Þessum girðingum beri ábúanda að sjá um og kosta viðhald á. Sama sé þótt þær séu honum fremur til bölvunar en gagns.
Land það sem Vegagerðin taki í landi Tannstaðabakka sé vegna Norðurlandsvegar 6,4 ha. og vegna Heggstaðanesvegar 2,4 ha., eða samtals 8,8 ha.
Til þess að halda svipaðri beitaruppskeru af beitilandinu við það að tapa til Vegagerðarinnar rúmum 8 ha. af því, muni þurfa að bera á tilbúin áburð á viðlíka stórt land, sem svarar hálfum venjulegum skammti á tún eða 44 poka.
Eignarnemi segir að sumarið 1976 hafi hafist endurlagning Norðurlandsvegar um land jarðarinnar Tannstaðabakka í Hrútafirði og lokið að mestu þar árið 1978. Sáningu hafi þó ekki lokið að fullu fyrr en sumarið 1981.
Gamli Norðurlandsvegurinn liggi ofar í landi Tannstaðabakka og séu um 66 ha. jarðarinnar ofan við gamla veginn. Við færslu vegarins neðar í landið verði um 173 ha. af landi jarðarinnar ofan við Norðurlandsveg.
Eignarnemi segir að undir vegsvæði Norðurlandsvegar úr landi Tannstaðabakka hafi farið 52.500 m² af ræktunarhæfu grónu landi og 11.150 m² af grónu landi óhæfu til ræktunar.
Vegsvæði gamla vegarins í landi Tannstaðabakka sé áætlað um 20.520 m², en ekki sé í málinu gerð krafa um það að það sé dregið frá bótum vegna tímabundinna afnota af landi, m.a. undir vinnubúðir og síðbúinnar sáningar. Ef Matsnefnd meti þessi atriði til fjár er gerð krafa um að gamli vegurinn verði dreginn frá bótum svo sem venja sé.
Í október 1979 hafi verið malaðir 7000 rúmm. af leirkenndu jarðefni í malarslitlag norðan heimreiðar að Tannstaðabakka upp við Heggstaðanesveg. Það landsvæði sem undir malarnámið fór hafi verið tæpir 10.000 m² og muni því landi verða skilað aftur sléttuðu og ísánu.
Eignarnemi segir að á undanförnum árum hafi verið stuðst við verðgrundvöll við uppgjör við landeigendur, sem saminn hafi verið og síðan árlega endurskoðaður í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Við upphaflega gerð þessa verðgrundvallar hafi verið leitað til hæfustu sérfræðinga í þessum málum hér á landi. Núgildandi verðgrundvöllur sé dags. í júní 1981 sbr. mskj. nr. 10 og muni hann væntanlega verða endurskoðaður í maí 1982. Gerir eignarnemi þá kröfu að nefnd orðsending nr. 7/1981 verði lögð til grundvallar við ákvörðun bóta til handa eiganda Tannstaðabakka fyrir land undir Norðurlandsveg. Þá krefst eignarnemi þess að við ákvörðun bóta fyrir efnistöku að hver rúmmetri verði ekki metinn hærra en á kr. 0.20 en það sé það verð sem til þessa hafi verið greitt fyrir venjulegt malarefni í dreifbýli sbr. mskj. nr. 12. Sú kvittun varði efni úr landi Bálkastaða í Hrútafirði, sem m.a. hafi verið malað og notað sem jöfnunarlag undir slitlag í Hrútafirði sumarið 1981.
Eignarnemi segir að eignarnámsþoli í máli þessu hafi ekki sýnt fram á að búskaparaðstaða hans sé verri eftir endurlagningu Norðurlandsvegar um land Tannstaðabakka heldur en almennt gerist, þar sem sambærilega háttar til. Eignarnámsþoli hafi ekki heldur sýnt fram á, að búskaparaðstaða hans hafi versnað við færslu vegarins. Að vísu þurfi nú um lengri veg að fara frá bænum til þess að koma búfénaði í stærri hluta landsins, en á móti komi að 66 ha. lands ofan gamla Norðurlandsvegar tengist nú landi, sem liggi nær og fáist þannig vafalaust betri nýting á þann hluta landsins heldur en áður var. Þá hafi búskaparhættir breyst þannig á síðari árum að vetrarbeit hafi að mestu verið hætt. Þá bendir eignarnemi á 3. mgr. 61. gr. vegalaga, sem segi að sérstaklega skuli taka tillit til, ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð. Landeigendur í Hrútafirði hafi á sínum tíma haldið því fram, að með því að færa Norðurlandsveg niður fyrir Laugastapa verði samgöngur innan Staðahrepps miklu mun auðveldari, öruggari og ódýrari vegna hæðarmismunar og styttingu vegarins.
II.
Matsnefndin hefur farið á vettvang og skoðað land það, sem hér um ræðir og allar aðstæður á staðnum. Leitað hefur verið um sættir með aðilum, en árangurslaust. Aðilar hafa skýrt mál sitt fyrir nefndinni í ýtarlegum greinargerðum.
Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977, sbr. lög nr. 66/1975.
Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og að álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.
Í 3. mgr. 59. gr. laganna segir að veghaldari skuli jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir.
Í 61. gr. vegalaga segir, að við matið skuli taka tilllit til árlegs afrakstrar af landi því er um ræðir svo og til þess hvort girðingar þurfi að flytja eða nýjar að setja og athuga vandlega allt það er geti haft áhrif á verðmæti þess er meta skuli. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef ætla má að land hækki í verði við vegagerðina. Nú leggst eldri stígur eða vegur niður við lagningu nýs vegar og fellur til landeiganda og skal þá við matsgerðina meta sérstaklega hið gamla vegarstæði eða götutroðninga og draga frá upphæð þeirri er landeiganda er metin fyrir eignarnám lands, fyrir nýjan veg eða jarðrask er leiðir af lagningu hans. Bætur fyrir átroðning skal ekki meta í slíkum tilfellum, nema sannað verði að meiri átroðningur stafi af hinum nýja vegi en af hinum eldri vegi eða stíg.
Eignarnámsþoli heldur því fram að við samkomulagsumleitanir milli Vegagerðarinnar og hans um bætur vegna lagningu nýja vegarins, hafi hann farið fram á að Vegagerðin græddi upp gamla vegstæðið og skilaði því í svipuðu ástandi beitarlega séð og það var áður en vegurinn var lagður. Hafi hann fallist á, að draga þá flatarmál þess frá bótaskyldu landi er undir nýja veginn færi. Þessu hafi verið hafnað af talsmanni Vegagerðarinnar.
Eignarnámsþoli mótmælir því alfarið að gamli vegurinn verði virtur til fjár. Það muni taka áratugi að þessi vegur, sem sé með þykku malarlagi grói upp af sjálfu sér, svo að nýtanlegt verði sem beitiland. Þá telur hann vitað að Vegagerðin hafi sumstaðar dregið gamalt vegstæði frá bótaskyldu landi en annars staðar ekki.
Matsnefndin telur ekki ástæðu til að virða gamla Norðurlandsveginn til verðs, en miðlína hans er á 980 m. kafla á mörkum Eyjaness og Tannstaðabakka, þar sem tilfærsla girðinga á rétt mörk og útjöfnun vegstæðisins svari ekki kostnaði.
Samkvæmt mskj. nr. 8 telur eignarnámsþoli landstærð Tannstaðabakka um 300 ha. Túnstærð Tannstaðabakka er skv. spjaldskrá Búnaðarfélags Íslands 27,1 ha. og ræktun úthaga 1,5 ha., ræktað 1978 með áburðardreifingu. Ekki er fjarri lagi að áætla að um 10 ha. lands fari undir opinbera vegi landi Tannstaðabakka, nýja Norðurlandsveginn og Heggstaðanesveginn.
Heimabeitiland jarðarinnar er því um 260 ha. á útjörð og er það mest allt afgirt.
Fyrir lagningu nýja Norðurlandsvegarins var landið hólfað í þrennt af vegum og verður svo enn með tilkomu nýja vegarins. Sú ein breyting verður á, að hólfið sunnan Norðurlandsvegarins sem var 66 ha. verður nú um 173 ha. Skákin vestan Heggstaðanesvegar verður nánast óbreytt. Svæðið milli Norðurlandsvegar og Heggstaðanesvegar er talið 35 ha. að stærð.
Beitiland jarðarinnar er breytilegt að gróðurfari eftir rakaástandi þess. Þar eru hallalitlir brokflóar, hallamýrar með mismunandi staragróðri, þurrlendari jaðar með blönduðum gróðri og valllendi í setruðningshólum og görðum. Land þetta er því með fjölbreytilegt gróðurfar, sem nýtist vel til sauðfjárbeitar. Með framræslu og áburði má stórauka og bæta gróðurfar lands þessa í búskaparlegu tilliti.
Tannstaðabakki á upprekstrarrétt á afrétt Staðarhrepps. Afréttur sá er talinn fullsetinn og til þess að létta á honum í framtíðinni er talið nauðsynlegt að bæta heimahaga jarða í Staðarhreppi með framræslu og áburði á þurrt land.
Á Tannstaðabakka var áður fyrr rekinn blandaður búskapur en eftir 1977 hefur nær eingöngu verið rekinn sauðfjárbúskapur með hrossahaldi til heimilisnota.
Skv. jarðaskrá hefur bústofn á eftirtöldum fardagaárum verið þessi:
1976/77 496 ærgildi
1977/78 308 "
1978/79 331 "
1979/80 315 "
1980/81 296 "
1981/82 320 "
Fjárhús er yfir 318 fjár. Heygeymslur eru fyrir 1100 rúmm. í þurrheyi og votheyi. Heyfengur á áðurgreindum árum um 900 rúmm.
Á meðan blandaður búskapur var rekinn á jörðinni var þó nokkur grænfóðurrækt, sem hefur lagst af. Haustbeit á tún virðist því fullnægja haustbeit lamba að mestu, þó benda hagabætur á árinu 1978 til þess, að auka þurfi gróður í úthaga vegna beitar sauðfjár.
Ljóst er, að Norðurlandsvegurinn nýi skerðir að nokkru athafnafrelsi á jörðinni, þó ekki það afgirta hólf, 66 ha., sem er sunnan gamla vegarins. Matsmenn telja að um sé að ræða breytta aðstöðu við búrekstur á jörðinni eftir lagningu hins nýja vegar og meta eignarnámsþola fébætur vegna þess.
Enginn ágreiningur er í málinu um þær tölulegu upplýsingar, sem koma fram í fébótakröfu eignarnámsþola á mskj. nr. 13.
Matsnefndin telur að í máli þessu beri að meta eftirtalin atriði til bóta:
1. Bætur fyrir 52500 m² af ræktunarhæfu grónu landi.
2. " " 11250 " af óræktunarhæfu grónu landi.
3. " " 7000 m3 malartöku.
4. " " afnot lands á tímabilinu 1976/1982.
5. " " breytta aðstöðu við búrekstur.
6. " " átroðning og ónæði vegna framkvæmda vegagerðar.
Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, upplýsingum og gögnum, sem Matsnefndin hefur undir höndum um sölur og möt á löndum og jörðum víðsvegar um land, og öðru því, sem nefndin telur skipta máli, telur nefndin hæfilegt að meta ofangreind atriði nr. 1-6, sem hér segir:
1. 52.500 m² á 0,21 kr. kr. 11.025.00
2. 11.250 m² á 0,07 " " 787.50
3. 7.000 m3 á 0.30 " " 2.100.00
4. Afnot lands á tímabilinu 76/82 " 2.100.00
5. Vegna breyttrar aðstöðu í búrekstri " 9.600.00
6. v/átroðnings og ónæði v/framkvæmdir " 3.887.50
Samtals kr. 29.500.00
og er þá miðað við staðgreiðslu.
Rétt þykir að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 8.000.00.
Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.
M a t s o r ð :
Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola, Einari Jónssyni, Tannstaðabakka, kr. 29.500.00.
Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 8.000.00.