Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 18. desember 1981
Ár 1981, föstudaginn 18. desember, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:
Vegagerð ríkisins
gegn
Eigendum Bótar í
Hróarstungu
N-Múlasýslu
Hermanni Eiríkssyni og
Pétri Stefánssyni
og í því kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I.
Með bréfi dags. 20. ágúst 1981 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 og laga um framkvæmd eignarnáms farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði lögboðnar bætur vegna fyrirhugaðrar efnistöku Vegagerðar ríkisins úr landi jarðarinnar Bótar í Hróarstungu, Norður-Múlasýslu.
Var frá því skýrt, að farið hefðu fram viðræður við eigendur jarðarinnar, þá Hermann Eiríksson, Bláskógum 5, Egilsstöðum og Pétur Stefánsson, Markarflöt 24, Garðabæ, en ekki hafði náðst samkomulag um bætur og önnur atriði varðandi efnistökuna.
Var tekið fram í matsbeiðni, að efnistakan væri fyrirhuguð í svonefndum Börðum, þar sem séu tveir samliggjandi melar, sem afmarkist af þjóðvegi að austan, svonefndri Selmýri að sunnan, mýrarsundi að vestan og stökum steini í mólendi að norðan og að spildan öll sé um 1,4 ha. að stærð.
Jarðefnið úr Börðum var ætlað til þess að styrkja Austurlandsveg frá Hlaðþorpi að Ærlæk. Verkefni þetta var talið aðkallandi og hafi raunar staðið til að hefja það verk fyrr í sumar. Var talið brýnt að efni til þessa verks fáist sem fyrst og var þess því óskað að Matsnefndin heimilaði eignarnema, skv. 14. gr. laga nr. 11/1973, að taka nú þegar umráð ofangreinds svæðis og hefja þar umrædda efnistöku.
Í matsbeiðni er tekið fram, að eignarnemi hafi hafist handa við að styrkja Austurlandsveg áleiðis frá Egilsstöðum til vesturs sumarið 1981. Hagkvæmt hafi þótt að taka efni til þessara framkvæmda úr landi Bótar í Hróarstungu, enda sé þar um að ræða tvo efnistökustaði, sem liggi að Austurlandsvegi, annars vegar svonefnd Börð er liggi nær Hlöðum og svonefnda Fjármela hjá Rangá.
Landeigendur hafi fallist á að veita heimild til efnistöku úr Fjármelum en ekki úr Börðum nema með tilteknum skilyrðum. Eignarnemi hafi ekki getað fallist á framsett skilyrði fyrir efnistökunni og hafi einkum verið ágreiningur um það endurgjald, sem landeigendur vildu fá fyrir efnið.
Mál þetta var tekið fyrir á jörðinni Bót í Hróarstungu 9. september 1981 og var þá m.a. gerð svofelld bókun:
"Var nú gengið á vettvang og land það sem um ræðir skoðað og allar aðstæður. Einnig voru skoðaðir svokallaðir Fjármelar, en eignarnemi gerir kröfu til efnistöku einnig á þeim stað. Eignarnemi gerir kröfu um umráðarétt nú þegar á framangreindu svæði og heimildar til efnistöku á því, og umferðarréttar að efnistökusvæðunum.
Eignarnámsþolar eru sammála um að leyfa efnistöku nú þegar úr Fjármelum og umferðarréttar að þeim, en telja eðlilegt að láta reyna á andmælarétt sinn, að því er varðar efnistöku úr svokölluðum Börðum, a.m.k., að svo stöddu, sbr. mskj. 7.
Lögmaður eignarnema telur það umbj. sínum svo mikilvægt að fá leyfi til efnistöku úr Börðum nú þegar, að hann óskar úrskurðar nefndarinnar um það atriði skv. 14. gr. laga nr. 11/1973. Lögmaður eignarnámsþola ítrekar mótmæli umbj. sinna gegn efnistöku úr Börðum, fyrr en það sýnir sig, að að Fjármelum fullnýttum, sé þörf á því að taka efni úr Börðum og kveðst eigi hafa séð nein rök frá eignarnema, er mæli þessu í gegn. Hann leggur atriðið undir úrskurð.
Lögmaður eignarnema kveður hér vera aðallega um kostnaðaratriði að ræða vegna flutnings á efninu, en flutningskostnaður á efni úr Börðum sé verulega minni, en frá öðrum stöðum. Hann leggur atriðið undir úrskurð.
Aðilar véku frá.
Matsmennirnir ræddu nú málið og báru saman ráð sín og voru sammála um eftirfarandi:
Þeir telja það ekki á neitt hátt myndi torvelda mat á efninu né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola, þótt eignarnema verði leyfð efnistaka úr Börðum.
Matsmennirnir telja að ekki hafi komið fram nein sérstök eða haldbær rök gegn því að leyfa efnistöku úr Börðum, en hins vegar muni hún spara eignarnema verulegan flutningskostnað á efni, en þó því aðeins að efnið verði notað í styrkingu núverandi vegar, sem stendur fyrir dyrum.
Matsmenn voru því sammála um, að leyfa eignarnema nú þegar efnistöku úr Börðum, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms."
II.
Varðandi kröfur sínar í málinu bendir eignarnemi á 10. kafla vegalaga nr. 6/1977, sérstaklega 1. mgr. 59. gr. og 61. gr. laganna.
Eignarnemi tekur fram, að við ákvörðun skaðabóta vegna efnistöku til vegagerðar utan markaðssvæða, þar sem ekki hafi komið fram eftirspurn eftir efni, t.d. til gatna og húsagerðar, hafi verið sá háttur hafður á til skamms tíma, að kanna hver afrakstur sé af landi því sem efnistakan fari fram á, og verðmæti tjónsins að öðru leyti. Hafi eignarnemi í þeim tilvikum ekki getað komið auga á að landeigandi yrði fyrir öðru tjóni en jarðraski, sem skerti nýtingu á landinu eða möguleika á nýtingu þess til beitar eða ræktunar eða þess búskapar sem á því væri stundaður, ef um nytjar af því væri að ræða á annað borð. Hafi eignarnemi þá talið sig bæta að fullu tjón landeigandans með því að greiða fyrir hvern m² lands, sem nýttur hafi verið til efnistöku. Verðið hafi verið breytilegt og farið eftir því hve verðmætar nytjar landsins hafi verið. Hafi þá ekki verið tekið tillit til þess hve djúpt sé tekið. Sem dæmi um afgreiðslu mála í samræmi við framanritað bendir eignarnemi á mskj. nr. 6.
Eignarnemi kveðst hins vegar hafa haft þann hátt á þegar bætt hafi verið fyrir vegagerðarefni þar sem sölumarkaður sé fyrir hendi, að greiða fyrir magn tekins efnis. Slíkur markaður hafi nú á síðari árum myndast í vaxandi mæli í grennd við þéttbýlisstaði, þar sem eftirspurn hafi orðið til vegna nota jarðefnis til ýmiskonar byggingaframkvæmda. Verðlagning efnisins hafi verið nokkuð mismunandi eftir stöðum, að sjálfsögðu hæst þar sem eftirspurnin sé mest og takmarkað efnismagn fyrir hendi, en algengast sé að eignarnemi hafi greitt kr. 0,30-0,60 fyrir hvern rúmmetra. Sé það yfirleitt nokkuð lægra verð en aðrir aðilar hafi þurft að greiða og komi þá það til, að eigendur jarðefnisins viðurkenni þörf þjóðfélagsins og sitt eigið hagræði af bættum samgöngum og einnig það, að Vegagerðin sé í flestum tilvikum lang stærsti efnistökuaðilinn og megi því segja að um magnafslátt sé að ræða. Nú orðið hafi yfirleitt verið horfið að því ráði í flestum tilvikum að greiða fyrir magn tekins efnis, einnig í dreifbýli, þótt markaðsmöguleikar liggi ekki fyrir, en verðlagningin hafi þá verið miðuð við áætlað tjón viðkomandi landeiganda vegna þess jarðrasks og átroðnings, sem af efnistökunni hljótist. Hafi í slíkum tilvikum verið notað sem viðmiðunartala á þessu ári kr. 0,20 fyrir hvern rúmm.
Eignarnemi segir að jörðin Bót í Hróarstungu verði að teljast á mörkum þess, sem viðurkennt hafi verið sem markaðssvæði og ekki liggi fyrir að aðrir en eignarnemi hafi tekið þar efni. Með bættum samgöngum við þéttbýlissvæðin Hlaðaþorp og Egilsstaði sé hugsanlegt að ásókn skapist í efnið, en þó sé það ekki líklegt, þar sem gnótt jafn góðs og betra efnis sé í Þórsnesi og nær Egilsstöðum.
Eignarnemi segir að ef Matsnefndin telji rétt að meta efnið sjálft þá krefst hann þess, að matsfjárhæðin verði í neðri mörkum þess sem venja sé að greiða á markaðssvæðum með hliðsjón af staðsetningu efnisins, gæðum þess og þeirri ásókn sem í það er, þ.e. ekki hærra en kr. 0,30 pr. rúmm.
Eignarnemi bendir á atriði sem ekki hafi, að hans áliti, átt hvað minnstan þátt í því að hann hafi náð hagstæðari efnistökusamningum en aðrir aðilar, en stefnumörkun þessa atriðis komi fram í 3. mgr. 59. gr. vegalaga sem sé svohlj.:
"Veghaldari skal jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir."
Eignarnemi tekur fram, að á þeim stöðum sem efnistaka á vegum hans fari fram, sé það oftast svo að hann opni námur, oft með miklum tilkostnaði, t.d. vegna ofanafýtingar, slétti síðan landið þegar efnistöku lýkur og sái í það og nú sé svo komið að eignarnemi muni vera annar stærsti landgræðsluaðili á landinu. Heldur eignarnemi því fram, að þessi vinna hans sé í langflestum tilvikum umfram það sem aðrir efnistökuaðilar geri, en samningar við slíka aðila séu yfirleitt við það miðaðir, að þeir geti gengið í opið stálið eða jafnvel í uppýtta hauga og þurfi því hvorki að leggja í kostnað við opnun eða lokun náma. Hafi landeigendur kunnað vel að meta þessar snyrtingar og landgræðslustarfsemi eignarnema og þess vegna gefið kost á hagstæðari samningum. Þá hafi það ekki sjaldan komið fram hjá landeiganda, að þeir telji sig búa við öruggari magntalningu og meira greiðsluöryggi, ef samið sé við eignarnema og virt honum það til lækkunar á verði.
III.
Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþolana, Hermann Eiríksson og Pétur Stefánsson, Páll S. Pálsson hæstaréttarlögm. Hann bendir á, að umbj. hans hafi mótmælt sérstaklega efnistöku úr Börðum og tilgreint ástæður en þó ekki treyst sér til af þegnskylduástæðum að synja alfarið um efnistöku úr Börðum, ef það yrði talið mikið fjárhagslegt hagræði við efnistöku umfram efnistöku úr Fjármelum. Landeigendur hafi tilgreint lágmarksverð kr. 40.000.- miðað við verðlag 1. júlí 1980 er greiddist í einu lagi og yrði fjárhæðin látin fylgja lánskjaravísitölu til greiðsludags.
Vegagerð ríkisins hafi ekki haft áhuga á að ganga að þessum samningum og þess vegna snúið sér til Matsnefndar eignarnámsbóta. Vísar lögmaðurinn til bréfs umbj. sinna til sín á mskj. nr. 7. Þar sé gerð glögg grein fyrir málinu öllu frá þeirra sjónarmiði, svo sem aðdraganda eignarnámsins, hvernig jörðin Bót hafi verið setin og hvers sé að vænta í sambandi við búskap á jörðinni, hvernig Börðin séu sem byggingarland til framtíðar fyrir ábúendur jarðarinnar og hve hagstætt sé að taka ofaníburð til vegagerðar úr Fjármelum.
Að vísu hafi eignarnámsþolar með tilboði frá 10. ágúst 1980 látið tilleiðast að gera umdæmisverkstjóra eignarnema á Austurlandi boð um efnistöku úr Börðum, en tilboð þetta sé í engu samræmi við hagsmuni jarðarinnar og því hafi ekki verið svarað og skilji landeigendur því eignarnámsbeiðnina þannig, að Vegagerðin hafi hafnað þessu boði og forsendur séu því brostnar af hálfu landeigenda. Því sé þetta boð afturkallað.
Þar sem úrskurður Matsnefndar hinn 9. september 1981 hafi fallið á þá leið, að eignarnema hafi verið heimil efnistaka úr Börðum þá sé einungis eftir að kveða á um verðþátt eignarnámsins og hve mikið eignarnema beri að greiða eignarnámsþolum vegna kostnaðar þeirra af málinu í heild svo að þeir verði skaðlausir. Komi þar fyrst til álita greiðslan fyrir efnistökuna. Eignarnemi byggi heimild sína til eignarnáms á 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 en þar segi m.a. í 61. gr., að athuga beri vandlega allt það er geti haft áhrif á verðmæti þess sem meta skuli. Fyrirsögn 10. kafla laganna sé: Um eignarnám, jarðrask, átroðning o.fl. Þar sé talað um jarðrask sem sjálfstæðan lið við hlið sjálfs eignarnámsins. Þetta komi einnig víða fram í texta laganna sbr. orðalagið í 59. gr., bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi, bætur fyrir jarðrask og eignarnám vegna vegar teljast með kostnaði vegarins, bætur fyrir eignarnám, jarðrask og átroðning sbr. 60. gr., landeigandi eigi allar bætur fyrir eignarnám, jarðrask, átroðning o.s.frv. sbr. 62. gr. 1. mgr.
Telur lögmaður eignarnámsþola, að sérstaklega beri að hafa ofanritað í huga við ákvörðun eignarnámsbóta fyrir töku jarðefna til vegagerðar úr Börðum. Vegagerðin hafi átt þess kost að raska lítt eða ekki landi og taka möl úr Fjármelum, en Vegagerðinni hafi þótt hagkvæmara að taka mölina úr Börðum með tilliti til fjarlægðar og þess vegna hljóti Vegagerðin að standa andspænis þeirri staðreynd, að þurfa að greiða landeigendum bætur sem séu hærri en ef mölin hefði verið tekin úr Fjármelum vegna þess að landeigendum sé meira tjón að efnistöku úr Börðum.
Varðandi verðmæti sjálfrar malarinnar vísar lögmaðurinn til bréfs landeigenda á mskj. nr. 7. Þar sé m.a. rætt um malarþurrð í nágrenni Egilsstaða og Hlaða við Lagarfljót, og segja megi að orðinn sé tilfinnanlegur malarskortur um allt miðbik Fljótsdalshéraðs. Gerir lögmaður eignarnámsþola því þá kröfu, að greitt verði fyrir malartökuna hæsta verð sem Matsnefndin treystir sér til að ákveða. Þá fái landeigendur að fullu bætt, eftir því sem unnt sé með fjárgreiðslum, tjón sitt vegna lakari búskaparaðstöðu á jörðinni og vegna skerðingar á umhverfisvernd. Sé þessu þannig lýst á mskj. nr. 5, að staðurinn sé mjög áberandi í landinu og liggi fast við þjóðveg og sé einkar vel fallinn til bygginga og hafi mjög komið til umræðu í sambandi við framtíðaruppbyggingu á jörðinni.
Að lokum krefst lögmaður eignarnámsþola þess, að eignarnema verði gert að greiða umbj. hans kostnað af málinu skv. ákvæðum 11. gr. l. nr. 11/1973 um eignarnám.
IV.
Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt umboðsmönnum aðila og öðrum eiganda Bótar, Hermanni Eiríkssyni. Var landið skoðað, farið um Börðin og á Fjármelana og litið yfir landið og nágrenni þess.
Aðilar hafa skýrt mál þetta fyrir Matsnefndinni, bæði í skriflegum greinargerðum og munnlega, en málið var tekið til úrskurðar 9. des. 1981. Leitað hefur verið um sættir með aðilum en árangurslaust.
Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977. Ber að meta til fébóta efnistöku, sem eignarnemi hefur látið fara fram á árinu 1981 úr Börðum en það er talið vera 16.044 rúmm., svo og landspjöll og jarðrask vegna þessarar efnistöku.
Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar, breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl, eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.
Að því er varðar efni sem tekið er úr Börðum, þá verður að telja upplýst að það sé hentugt vegagerðarefni, svo sem það er notað og hafi þar með í eðli sínu verðgildi, þótt ekki hafi verið sýnt fram á í þessu máli að um aðra kaupendur sé að ræða nú en eignarnema. Að vísu er efnið í Börðum talið sandkennt og því bindingslítið og því ekki eins gott vegagerðarefni og á væri kosið, en er notað m.a. vegna hagstæðrar staðsetningar, enda varla annað efni að hafa í næsta nágrenni. Tekið er úr Börðum ca. 1,5 m. lag en undir því er talið stórgrýti og sandur. Þá er þess að geta að staður þessi er nálægt, eða ca. 4 km., frá Egilsstöðum og Hlöðum og þótt annar efnistökustaður sé nær, þ.e. í Þórsnesi, þá má ætla er fram líða stundir, að efnið verði eftirsótt líka frá þéttbýlisstöðunum, a.m.k. sem fyllingarefni.
Eignarnámsþolar hafa haldið því fram, að Börðin séu sérstaklega hentugur staður til framtíðaruppbyggingar á jörðinni. Ekki hefur verið sýnt fram á það í málinu, að neinar slíkar framkvæmdir séu á döfinni, enda þær taldar mjög kostnaðarsamar. Matsnefndin lítur svo á, að þessi staður sé ekki hentugri til byggingar húsa á jörðinni en ýmsir aðrir sem til greina gætu komið, auk þess sem efnistakan ætti ekki að útiloka það, að hægt væri að byggja á þessum stað.
Landið í Börðum er þurrlent leirmóaland og er hluti þess uppblásinn melur en annað land þýft og mosavaxið með nokkrum lynggróðri. Fjármelarnir eru ógrónir eða mjög gisgróið uppblásið holt með valllendis hvömmum í jöðrum þess.
Í 3. mgr. 59. gr. vegalaga segir, að veghaldari skuli jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir.
Í þessum úrskurði er reiknað með að eignarnemi fari að lögum að þessu leyti. Eignarnámsþolar hafa lagt á það mikla áherslu að þeir eigi rétt til bóta fyrir jarðrask er af efnistökunni kunni að stafa. Eins og áður segir fer efnistakan í Börðum fram á uppblásnu holti eða lítt grónu mosalandi. Skv. 61. gr. vegalaga skal við matið taka tillit til árlegs afrakstrar af landi því, sem um ræðir. Ekki verður talið að í þessu tilfelli sé um að ræða nema lítilsháttar beitarafnot, hvort sem er af Börðunum eða Fjármelunum. Sýnast ekki efni til að meta landeigendum bætur vegna þessa sérstaklega, þar sem fjárhagstjón þeirra virðist hverfandi lítið en tekið verður tillit til þessa við bætur vegna efnistökunnar.
Land það sem hér um ræðir, eða sérstaklega Börðin, liggja vel við til efnistöku, skammt frá þjóðveginum.
Fjármelarnir eru nokkru fjær, en ekki svo að verulegur munur sé þar á, og verður ekki í þessu máli gerður munur á verði efnis frá þessum tveimur námum.
Matsnefndin hefur undir höndum miklar upplýsingar um sölur og möt á svipuðu efni víðs vegar um land. Þegar þær upplýsingar eru hafðar í huga svo og verðbreytingar og annað sem Matsnefndin álítur að hér eigi að skipta máli, telur hún að verðmæti efnisins sé hæfilega metið á kr. 0.45 pr. rúmm. eða þeir 16.044 rúmm., sem tekið hefur verið samtals á kr. 7.219.80 og er þá miðað við staðgreiðslu.
Rétt þykir samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþolum fyrir lögfræðilega aðstoð við matsmálið og útlagðan kostnað kr. 4.066.-.
Þá þykir rétt, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs samkvæmt 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndar kr. 5000.-.
Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.
M a t s o r ð :
Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþolum eigendum Bótar í Hróarstungu, þeim Hermanni Eiríkssyni og Pétri Stefánssyni kr. 7.219.80 og kr. 4.066.00 í málskostnað.
Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 5000.00.