Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 30. desember 1980

Ár 1980, þriðjudaginn 30. desember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs
               gegn
               eigendum Deildartungu III,
               Deildartunguhvers

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

I.

Málavextir eru þeir að með lögum nr. 57, 31. maí 1979 var ríkisstjórninni veitt heimild til að taka eignarnámi: landspildu úr landi Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum þinglesna eign Sigurbjargar Björnsdóttur (Deildartunguhver).

Segir í 1. gr. laganna, að lega lands þess sem taka skuli eignarnámi svo og mörk þess séu sýnd á uppdrætti sem fylgi lögunum og sé hluti þeirra.

Í 2. gr. laganna segir að um framkvæmd eignarnámsins og ákvörðun bóta skuli farið eftir ákvæðum laga um framkvæmd eignarnáms.

Verði reist jarðhitastöð á hinu eignarnumda landi skuldbindi eignarnemi sig til að láta eignarnámsþola í té við stöðvarvegg samtals 10 l/sek. af vatni úr hvernum án endurgjalds.

Með 3. gr. laganna er ríkissjóði heimilað þegar hann hefur tekið við hinu eignarnumda, að afhenda það Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar til afnota eftir því sem almenningsþörf krefji og um semst, enda verði þá m.a. höfð hliðsjón af hagsmunum íbúa Reykholtsdalshrepps. Þá segir í 3. gr. laganna að Hitaveita Akraness og Borgarness skuli greiða ríkissjóði eignarnámsbætur og allan kostnað af þessum aðgerðum.

Með bréfi Höskuldar Jónssonar, ráðuneytisstjóra, í fjármálaráðuneytinu, dags. 23. október 1979 var þess óskað, að Matsnefnd eignarnámsbóta taki til meðferðar og mats eignarnám ríkisstjórnarinnar á hluta jarðarinnar Deildartungu í Reykholtsdalshreppi ásamt jarðhitaréttindum, sem séu þinglesin eign Sigurbjargar Björnsdóttur.

Um heimild til þessa eignarnáms vísar matsbeiðandinn til laga nr. 57/1979. Á grundvelli þeirra laga hafi ríkisstjórnin ákveðið 31. júlí 1978 að til eignarnámsins skyldi gripið. Eignarnámi hafi síðan formlega verið lýst yfir með bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns eiganda Deildartunguhvers, Björns Fr. Björnssonar, hinn 19. okt. 1979.

Í ofangreindri matsbeiðni var þess jafnframt farið á leit með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, sbr. 13. gr., að ríkisstjórninni sem eignarnema verði heimilað að taka nú þegar umráð þess verðmætis, sem tekið er eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir sem séu tilefni eignarnámsins.

Með bréfi til Matsnefndarinnar dags. 12. nóv. 1979 dró ráðuneytið til baka þessa umráðabeiðni skv. 14. gr. eignarnámslaganna. Jafnframt var tekið fram að hún kynni að verða sett fram að nýju á síðari stigum undir rekstri málsins.

Í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 57/1979 er að finna greinargerð fyrir eignarnámsheimild eignarnema og þeim framkvæmdum sem eru tilefni eignarnámsins, tilgreiningu þeirra eigna sem eignarnámið lýtur að og lýsingu þeirrar eignarskerðingar, sem eignarnámið hefur í för með sér. Segir þar m.a. á þessa leið:

"Í nokkur ár hafa verið uppi um það ráðagerðir að koma á stofn hitaveitu fyrir Akranes, Borgarnes og Hvanneyri. Hitakostir eru víða í Borgarfirði og höfðu farið fram ýmsar frumathuganir.

Hinn 27. október 1976 fól dr. Gunnar Thoroddsen, þáverandi iðnaðarráðherra, Edgari Guðmundssyni, verkfræðingi, að kanna nánar þá kosti sem til greina koma við gerð hitaveitu fyrir Akranes, Borgarnes og Hvanneyri og ræða við rannsóknaraðila og framkvæmdaaðila.

Í september 1977 kom út áætlun um Hitaveitu Borgarfjarðar, gerð af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf., Fjarhitun hf. og Verkfræði- og reiknistofunni sf.

Sett var á fót samstarfsnefnd fyrir Akranes og Hitaveitu Borgarfjarðar.

Hinn 30. mars 1978 ritaði samstarfsnefndin dr. Gunnari Thoroddsen.

Í því bréfi telur samstarfsnefndin, að samningaviðræður við fulltrúa eiganda Deildartunguhvers, sem eru taldar hafa byrjað seint á árinu 1976 hafi ekki borið árangur. Fleira er tiltekið í nefndu bréfi og talið fullreynt, að samkomulag varðandi hverinn og vatn úr honum, takist ekki. Taldi samstarfsnefndin því óhjákvæmilegt að fara fram á eignarnám á hvernum og jarðhitaréttindum honum tilheyrandi, ásamt nauðsynlegu landi vegna virkjunarframkvæmda. Eftir að fyrrgreind eignarnámsbeiðni barst, lét iðnaðarráðuneytið gera ýmsar athuganir m.a. var aflað upplýsinga frá Orkustofnun og kannað, hvaða leiðir væru færar, ef til eignarnáms kynni að koma. Gerðar voru lögfræðilegar athuganir og m.a. rætt við lögmann samstarfsnefndarinnar. Þá var hinn 12. júlí 1978 farin vettvangsferð að Deildartunguhver. Í þeirri ferð voru fulltrúar frá iðnaðarráðuneytinu, fulltrúi eiganda Deildartunguhvers, fulltrúi samstarfsnefndarinnar og starfsmenn frá Orkustofnun.

Hinn 22. júlí 1978 var umboðsmanni eiganda Deildartunguhvers, Birni Fr. Björnssyni, formlega send eignarnámsbeiðnin til umsagnar, en hinn 12. maí hafði honum verið afhent beiðnin til kynningar. Í bréfi ráðuneytisins 22. júní 1978 var þess farið á leit að umsögn yrði látin í té fyrir 1. ágúst 1978. Umsögn umboðsmanna eiganda Deildartunguhvers er dags. 21. júlí 1978 og barst iðnaðarráðuneytinu 27. júlí s.á. Henni fylgdi ítarleg greinargerð "Um framvindu hitaveitumálsins varðandi Deildartunguhver". Í umsögninni kemur m.a. fram, að rökstuðning vanti fyrir eignarnámsbeiðninni. Þá kemur þar og fram, að sú staðhæfing samstarfsnefndarinnar, að fullreynt sé að samkomulag takist ekki, sé rakalaus fullyrðing og það sé álit umboðsmannanna, að reynt verði að stefna til samkomulags.

Hinn 1. september 1978 tók Hjörleifur Guttormsson við embætti iðnaðarráðherra. Þegar á fyrstu dögum mánaðarins var ráðherra gerð grein fyrir málinu. Fól ráðherra ráðuneytinu að gera yfirlit yfir málið. Jafnframt lét ráðherra taka málið til meðferðar að nýju og afla þeirra gagna sem nauðsynleg gætu talist til frekari upplýsinga í málinu.
..........................................................................................................................................
Markaðssvæði fyrirhugaðrar hitaveitu nær til Akraness (4751 íbúi, 1. des. 1978), Borgarness (1517 íbúar), Hvanneyrar (98 íbúar), svo og 20 býla í Reykholtsdalshr. og Andakílshr., húsa við Andakílsárvirkjun og 10 býla í Melasveit, Leirársveit og Skilmannahreppi. Samtals lætur nærri að markssvæðið nái til 6500 notenda, þannig að hitaveitan fullbúin yrði sú 4. stærsta á landinu. Í áætlun um hitaveituna er ekki gert ráð fyrir neinni meiri háttar notkun heits vatns til ylræktar eða iðnaðar ef frá er talin graskögglaverksmiðja. Sýnt þykir, að hitaveitan yrði aflögufær með vatn til verksmiðjunnar að sumri til, án þess að sérstök viðbótarvatnsöflun þurfi að koma til.

Vatnsþörf hitaveitunnar fyrir þennan markað hefur verið áætluð 169 l/s á árinu 1979, og er þá miðað við aðveituæðar úr asbesti í jarðvegsgarði.

Olíunotkun til húshitunar á væntanlegu markaðssvæði hitaveitunnar nam sem næst 700 millj. kr. á ársgrundvelli miðað við s.l. áramót.
..........................................................................................................................................
Hverasvæðin, sem ætlunin er að nýta fyrir Hitaveitu Borgarfjarðar, eru hluti af hinu víðáttumikla jarðhitasvæði í Borgarfirði, sem nær yfir Reykholtsdal, Stafholtstungur, Hvítársíðu og Bæjarsveit. Hér er um að ræða suðvestasta hluta jarðhitasvæðisins með þremur aðalhverasvæðum 1) kringum Bæ í Bæjarsveit, 2) milli Kletts og Runna í Reykholtsdal og 3) milli Deildartungu og Kleppjárnsreykja í Reykholtsdal.
..........................................................................................................................................
Heildarvatnsmagn sem tiltækt er í ofangreindum þremur hverasvæðum er sem hér segir:

   Bæjarsveit (ársmeðaldæling).........................   50 l/s   93° C
   Deildartunguhver.........................................   180 l/s   100° C
   Kleppjárnsreykjahver....................................   70 l/s   100° C
      Alls   300 l/s

Til frádráttar kemur það vatnsmagn, sem eigendur jarðhitans halda eftir til eigin ráðstöfunar.

Þess skal getið í sambandi við vatnsmagn í Bæjarsveit, að með frekari borunum og dælingu er áætlað út frá rennslismælingum, að fá megi til viðbótar 50 l/s.

Um hugsanleg áhrif vinnslusvæðanna hvers á annað við vinnslu heits vatns, er lítið vitað enn sem komið er. Þó virðist ljóst, að greitt samband er á milli tveggja vinnslusvæða innan sama hverasvæðis (sbr. Bæjarsveit), þannig að dæling á einu vinnslusvæði fellir þrýsting eftir endilangri hveralínunni og minnkar þar með rennsli til yfirborðs, á hverasvæðinu öllu. Hliðstæð áhrif milli hverasvæðanna gætu komið fram við langtímavinnslu heits vatns á einhverju einu þeirra, ef sú hugmynd er rétt, sem menn gera sér nú af rennsliskerfi jarðhitasvæðisins, þ.e. að heitavatnsstraumurinn liggi frá NA til SV. Aðeins reynslan fær úr því skorið, hvort slík áhrif koma fram og hversu mikil þau kunna að verða.

Hverasvæði í Bæjarsveit stendur eitt undir hitaveitu til Borgarness og Hvanneyrar, en eigi Akranes að fylgja með verður að sækja meginhluta vatnsins til hverasvæðanna austar, og yrði Deildartunguhver þá eðlilega meginstofn hitaveitunnar.

Engir hverir eru á landi Deildartungu (2) og á landi Deildartungu (1) eru tveir volgir blettir, en ekkert vatn.

Not vatns úr Deildartunguhver yrðu af sjálfrennandi vatni, og hefði það ekki áhrif á hveri á Kleppjárnsreykjum. Ef um eignarnám yrði að ræða yrði það síðan framkvæmt á eign Sigurbjargar Björnsdóttur".

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnema Gunnlaugur Claessen, hrl. Krafa hans í málinu er sú, að eignarnámsbætur fyrir hin eignarnumdu verðmæti verði ekki ákveðnar hærri en kr. 30.000.000, auk afhendingar til eignarnámsþola á 10 l/s virkjaðs vatns. Þá gerir eignarnemi áskilnað um það, að koma síðar að kröfu um umráðatöku eignarnema meðan á matsmálinu stendur á hinum eignarnumdu verðmætum, sbr. heimild í 14. gr. laga nr. 11/1973.

Varðandi aðild af hálfu eignarnámsþola í máli þessu bendir eignarnemi á, að skv. veðbókarvottorði dags. 4. jan. 1978 sé Sigurbjörg Björnsdóttir eigandi Deildartunguhvers ásamt landi umhverfis hann. Síðar hafi komið fram í málinu, sbr. veðbókarvottorð dags. 6. maí 1980 á mskj. nr. 27, að Sigurbjörg hafi afhent þessi verðmæti og séu þau nú þinglesin eign eftirgreindra aðila:

   Hannesar Jónssonar, Austurbrún 4, Reykjavík      1/7 hl.
   Vigdísar Jónsdóttur, Hjarðarhaga 38, Rvk.      1/7 hl.
   Soffíu Jónsdóttur, Kaplaskjólsvegi 65, Rvk.      1/7 hl.
   Andrésar Jónssonar, Deildartungu, Reykholtsd.      1/7 hl.
   Ragnheiðar Jónsdóttur, Hávallagötu 31, Rvk.      1/7 hl.
   Guðrúnar Jónsdóttur, Kaplaskjólsvegi 65, Rvk.      1/7 hl.
   Jóns Björnssonar, Deildartungu, Reykholtsd.      1/14 hl.
   Valgerðar Björnsdóttur, Steinum, Stafholtst.      1/14 hl.

Á eigninni eru ekki talin hvíla nein þinglýst veðbönd né aðrar kvaðir.

Framangreindir aðilar hafi tekið við málinu sem eignarnámsþolar og sé málinu nú beint að þeim og vörnum í málinu haldið uppi af þeirra hálfu.

Í greinargerð sinni bendir eignarnemi á, að skv. aðalmati fasteigna sem fram hafi farið á árunum `69-'70 sé verðmæti Deildartunguhvers ákveðið kr. 10.000. Fasteignamat Deildartunguhvers í dag sé kr. 158.000. Eignarnemi segir að hafa beri í huga hve sérstaks eðlis eignarréttindi sem þessi eru. Segja megi að í megin atriðum sé hér um að ræða óvirk eignarréttindi. Í þeim skilningi að óvíst sé að landeiganda hvað þá öðrum hefði nokkru sinni dottið í hug að meta þau til verulegs fjár nema vegna fyrirhugaðrar hitaveitu til þéttbýlisstaðanna á vesturlandi. Um aðra möguleika til nýtingar á eigninni að fullu sé alls ekki að ræða. Einnig sé það ljóst að landeigandi geti sjálfur ekki nýtt sér þessa eign sína nema að örlitlu leyti eða smám saman á mjög löngum tíma. Nýting þessara eigna hafi þess vegna verið órafjarlæg í raun og veru og slík réttindi sé ekki unnt að meta háu verði.

Eignarnemi tekur fram að eftir því sem best verði séð hafi eigandi hversins haft litlar sem engar nytjar af þessari eign sinni hingað til, ef undan séu skilin nýting til heimilisnota og leiga á tveim sekúndulítrum.

Eignarnemi leggur á það áherslu í greinargerð sinni, að eignarnámsbætur skuli miðast við tjón eignarnámsþola, en ekki þann hagnað, sem eignarnemi kunni að öðlast við eignarnámið. Sé hér um að ræða grundvallarsjónarmið í eignarnámsrétti sem ekki sé umdeilt. Í þessu máli sé það þess vegna tjón eignarnámsþola sem fyrir liggi að finna út og bæta.

Í greinargerð sinni bendir lögmaður eignarnema á þau þrenns konar sjónarmið er til greina komi í þessu máli.

Í 1. lagi sé það hugsanlegt söluverð eignarinnar.
Í 2. lagi að kanna notagildi eignarinnar í hendi eignarnámsþola.
Í 3. lagi að kanna hver kostnaður sé við útvegun sambærilegrar eignar (enduröflunarverð).

Eignarnemi bendir á, að í 1. gr. laga nr. 11/1973 sé m.a. gerð sú undantekning frá meginreglu 1. gr. þeirra laga, að um eignarnám vatnsréttinda og öflun aðstöðu til hagnýtingar þeirra skv. öðrum lögum en vatnalögum skuli fara eftir ákvæðum vatnalaga. Í þessu sambandi séu jarðhitaréttindi talin til vatnsréttinda, sbr. einnig 75. gr. orkulaga nr. 58/1967.

Eignarnemi bendir á, að í lögunum um framkvæmd eignarnáms séu ekki ákvæði um fjárhæð eignarnámsbóta og leiði af því, að við gildistöku þeirra laga hafi ekki verið hróflað við ákvæðum einstakra heimildarlaga um það ákvæði, sbr. t.d. 140. gr. vatnalaga nr. 15/1923, 59. og 61. gr. vegalaga nr. 6/1977 og 4. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

Eignarnemi tekur fram, að hér skipti meginmáli 2. mgr. 140. gr. vatnalaga. Þessi grein sé undantekningarregla í íslenskum rétti og geri ráð fyrir því að ekki sé ætlast til að í bótafjárhæðum beri að taka með almenna verðhækkun eigna af völdum eignarnámsframkvæmda. Telur eignarnemi þessa lagagrein eiga hér beint við og kveðst hann leggja á þetta atriði mikla áherslu. Að þessu leyti, segir eignarnemi, hafa íslensk lagaákvæði um ákvörðun eignarnámsbóta fyrir orkuréttindi algera sérstöðu, sem hér hafi grundvallarþýðingu.

Að því er varðar markaðsvirði þeirra gæða sem hér sér um að ræða, bendir eignarnemi á að allmargir samningar hafi verið gerðir um leigu á jarðhita í landi Kleppjárnsreykja. Þessir samningar hafa verið lagðir fram í málinu. Telur eignarnemi að verðmæti vatns frá Deildartunguhver hljóti að markast af verðlagningu samskonar verðmæta í grenndinni.

Niðurstaða af málaútlistun eignarnema í greinargerð hans er eftirfarandi: "Arðsemi eignarinnar í hendi eignarnámsþola er sáralítil. Arðsvon hans er litlu meiri. Hér hefur það meginþýðingu að vegna þess hvernig Deildartunguhver er í sveit settur eru kostir á hagkvæmari nýtingu afar litlir. Markaður fyrir nýtingu að því marki, sem Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar ráðgerir, er alls ekki til staðar í hendi eignarnámsþola.

Samningar um leigu á heitu vatni í landi Kleppjárnsreykja (og reyndar einnig Reykholts) gera það að verkum, að unnt er að ákvarða eignarnámsbætur á grundvelli nokkuð öruggs gangverðs slíkra réttinda á þessu svæði".

Þá segir í greinargerð lögmanns eignarnema:

"Varðandi efnislega niðurstöðu gerðardómsins um jarðhitann í Svartsengi, skal aðeins vakin athygli á einu atriði til viðbótar. Þar var um að ræða mat á háhita, en í því máli sem hér liggur fyrir er um lághita að ræða".

Lögmaður eignarnema telur að í heiti laganna um eignarnám á landspildu ásamt Deildartunguhver sé aðeins vísað til hins sýnilega hluta. Hins vegar beri í þessu mati að skilja lögin svo, að eignarnemi eigi alla orku sem þarna sé að fá m.a. við borun. Hins vegar muni ef til borunar komi þurfa að fara varlega í það, því að á geti vatn minnkað annars staðar.

Skv. því sé varlegt að reikna með að meira heitt vatn fáist þarna en þeir 180 l/s, sem rætt hafi verið um.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta 6. febr. 1980. Lögmaður eignarnema fékk síðan frest í málinu til 28. mars 1980, en vettvangsskoðun fór fram 14. júlí 1980. Málið var tekið til úrskurðar 30. sept. 1980.

II.

Mál þetta hafa flutt fyrir eignarnámsþolana þeir Björn Fr. Björnsson, fyrrv. sýslumaður og Helgi Þórarinsson fyrrv. forstj. Í upphafi greinargerðar sinnar segja þeir á þessa leið: "Það mál sem hér er fjallað um mun teljast einsdæmi að efni og umfangi.

Virðulegri Matsnefnd er fengið það verkefni að meta hið eignarnumda til fulls verðs sbr. 67. gr. stjórnarskrár.

Eignarnemi hefur þegar í upphafi greinargerðar sinnar sett fram óskilyrta kröfu um hámark bótafjárhæðar kr. 30.000.000. Í lok greinargerðarinnar krefst hann frádráttar á bótafjárhæð sem svarar virkjunarkostnaði og afhendingu til eignarnámsþola á 10 l/s frá hinu eignarnumda.

Eignarnemi hefur ekki fyrir því að rökstyðja þessar kröfur. Hverjum tilgangi slíkar kröfur eiga að þjóna í svo vandasömu og þýðingarmiklu máli, sem hér um fjallar er ekki vitað. Valdboð ráðuneytisins verður einskis virt þegar hér er komið".

Í greinargerð sinni hafa eignarnámsþolar rætt nokkuð aðdraganda þessa matsmáls. Þeir benda á að síðan lögin um eignarnámið voru samþykkt á Alþingi hafi orðið eigendaskipti á Deildartunguhver og landspildu við hverinn. Þeir telja að landspilda sú 16800 m² umhverfis Deildartunguhver sé hvergi nærri nógu skýrt afmörkuð á uppdrætti. Sýni uppdrátturinn ekki afstöðu landspildunnar til Reykjadalsár. Á landspildunni sé hverasvæði Deildartunguhvers og byggingarhæft nytjaland. Þar séu mannvirki af margvíslegu tagi, áveiturenna, framræsluskurðir, girðingar og hitaveitulagnir, sem flytji varma til heimilisafnota á býlunum Deildartungu I, II og Víðigerði.

Við skipti á dánarbúi Jóns Hannessonar 23. okt. 1953 hafi í skiptagerðinni verið ákveðið að jörðunum Deildartungu I og II skyldu fylgja ókeypis hitaréttindi úr Deildartunguhver til venjulegra heimilisnota. Ef kvöð þessi yrði látin niður falla við eignarnámið beri að bæta rétthöfum það tjón sérstaklega.

Þá segja þeir að hluti hinnar eignarnumdu landspildu falli undir leigusamning býlisins Víðigerði. Ennfremur sé um að ræða samningsbundna sölu á 2 l/s vatns úr Deildartunguhver til Víðigerðis. Sé vatnssalan undirstaða gróðurhúsarekstrar í Víðigerði.

Þá beri við mat eignarnámsbóta að taka tillit til skertra landnýtingarmöguleika á eign eignarnámsþola og skerts umferðarréttar hans um eignina.

Umboðsmenn eignarnámsþola taka fram, að það sé álit þeirra að eignarnumin jarðhitaréttindi taki aðeins til hins sjálfrennandi vatns úr Deildartunguhver og þeirrar vatnsgufu sem upp af því sjálfrennandi stígur. Til stuðnings þessari skoðun benda þeir á að innan sviga standi í lýsingu á hinu eignarnumda í heimildarlögunum og þeim til skýringar orðið "Deildartunguhver". Ef matsmenn líti svo á að önnur jarðhitaréttindi en sjálfrennslið og vatnsgufan frá því fylgi hinu eignarnumda beri að meta þau réttindi sérstaklega, enda þurfi þá skýrt að tilgreina hver þau séu. Umboðsmenn eignarnámsþola taka fram að alkunna sé, að Deildartunguhver sé vatnsmesti hver landsins og löngum talinn einn stærsti vatnshver í heimi. Jafnframt sé hverinn eins heitur og vatnshver geti orðið.

Deildartunguhver komi upp í mörgum misstórum opum á um 130 m. langri línu eða sprungu. Heildarvatnsmagn hans sé talið um 180 l/s og sé hitastig þess um 100°C.

Eignarnámsþolar segja, að verðmæti Deildartunguhvers felist fyrst og fremst í þeirri gífulegu orku, sem hið sjálfrennandi vatn hafi að geyma. Þá sé einnig mikils virði að þvílíkt orkumagn skuli saman komið á einum stað. Landkostir auki einnig á verðmætið. Hverinn sé staðsettur í blómlegu landbúnaðarhéraði og liggi vel við samgöngum. Vatnsmikill árfarvegur liggi að landi eignarnámsþola.

Þá heldur eignarnámsþoli því fram, að fullnýting orkunnar í þágu búrekstrar í heimahéraði og margvíslegs matvælaiðnaðar honum tengdan, svo sem frystingar, gerilsneyðingar, niðursuða og þurrkunar, væri ekki síður arðbær en fyrirhuguð notkun orkunnar. Þá beri einnig að hafa í huga raforkuframleiðslu, sem byggðist annarsvegar á jarðhitanum og hins vegar kælingu með vatni úr Reykjadalsá. Á öllum þessum sviðum fleygi nýrri tækni nú ört fram.

Eignarnámsþoli kveðst sannfærður um að eina réttlætanlega matið á verðmæti hversins sé að byggja á verðmæti þeirrar orku sem hann gefi af sér.

Eignarnámsþoli kveður það breyta engu um verðmæti hversins að eigandi hans hefur ekki nýtt orkuna frekar en nú sé gert. Frá árinu 1974 og til þessa hafi olíuverð á alþjóðamarkaði tífaldast í dollurum. Sé það því fyrst nú á síðustu árum að mönnum verði mikilvægi jarðvarma fyllilega ljóst og hafist sé handa við að finna nýjar leiðir og tækni til að nýta hann á sem hagkvæmastan hátt. Efnahagsástand á Íslandi þessi síðustu ár hafi hins vegar ekki gert eiganda hversins auðið að ráðast í frekari framkvæmdir svo sem vilji hans og hugur hafi ætíð staðið til. Hér sé því um virk eignarréttindi að ræða. Hið eignarnumda hafi sjálfsætt gildi og verði aðeins metið samkvæmt því. Þá segir eignarnámsþoli að verðmæti lands umhverfis Deildartunguhver verði að meta sérstaklega. Forsenda þess að unnt sé að nýta hverinn sé sú, að nægt athafnarsvæði sé fyrir hendi umhverfis hann. Slíkt land sé því verðmætara en annað land ræktað eða óræktað í nágrenni hversins.

Eignarnámsþoli segir að Deildartunguhver eigi sér enga líka. Þess vegna séu fyrri viðmiðanir við mat á hvernum ekki nothæfar í núverandi matsmáli.

Eignarnámsþoli kveðst geta krafist markaðsverðs eða lagt það til grundvallar kröfum sínum, þ.e., gangverðs í kaupum og sölum eða endurkaupsverð. Hins vegar verði eign sem Deildartunguhver ekki keypt annars staðar á markaði. Slá megi því föstu að söluverð sambærilegrar eignar sé ekki með neinu móti unnt að nota til viðmiðunar af þeirri ástæðu að engar slíkar eignir fyrirfinnist.

Eignarnámsþoli mótmælir því að sala jarðhitaréttinda í landi Kleppjárnsreykja sé hæft til viðmiðunar í þessu máli. Þar geti mörg sjónarmið komið til greina sem séu þessu máli algerlega óviðkomandi. Í þessu matsmáli skipti það engu máli með hvaða verði ríkið selur orku sína eða hvort það beinlínis gefur hana.

Eignarnámsþoli telur söluverð jarðhitaréttinda annars staðar hafa lítið sem ekkert viðmiðunargildi í þessu máli. Sé þar ýmist um að ræða réttindi til borunar eftir heitu vatni eða viss réttindi til afnota um styttri eða lengri tíma af sjálfrennandi heitu vatni. Sala borunarréttar sé aðeins sala á "vonarvatni" sem einvörðungu sé unnt að vinna með ærnum tilkostnaði svo sem dæmin sanni. Í því sambandi megi t.d. nefna borun og kostnað vegna hitaveitu Akureyrar en þar sé sagt að öflun 200 l/s heits vatns úr jörðu hafi kostað um 2000 milljónir króna. Auk þess sé í upphafi með öllu óvíst um eiginleika þess vatns eða gufu að efnainnihaldi og stöðugleikastreymis sem kunni að fást með borunum. Til samanburðar megi benda á, að í Deildartungu sé um að ræða stöðugt sjálfrennsli ómengaðs vatns, sem sé hið besta drykkjarvatn eftir kælingu.

Af þessum ástæðum telur eignarnámsþoli að hér komi aðeins til álita að því er Deildartunguhver varðar, að hafa almennt sjálfstætt notagildi hans (orkuverð) til viðmiðunar eignarnámsbóta.

Eignarnámsþoli segir að Deildartunguhver sé óþrjótandi orkulind með stöðugu orkumagni, sem haldi verðgildi sínu á hverjum tíma í samræmi við almennt orkuverð, hvort sem orka hversins sé nýtt eða ekki. Fyrir eigendur sína, hvort sem um sé að ræða eignarnámsþola eða eignarnema, gefi hverinn því arð hverju sinni fyrir þann hluta orkunnar sem nýttur sé, en sé að öðru leyti óbreytanleg eign, verðtryggð miðað við orkuverð. Fullt verð fyrir Deildartunguhver beri að miða við fyllstu nýtingu þeirrar orku, sem í honum felist. Slík nýting náist ekki á vegum HAB. Stafi þetta af því, að HAB hafi ekki þörf fyrir allt vatnsmagn hversins nema hluta á ári hverju. Mikið varmatap verði á flutningsleið vatnsins til neytenda, notkun vatnsins til að viðhalda rennsli og hitastigi á flutningsleið og loks sóun orkunnar á áfangastað. Sé því óraunhæft að miða eignarnámsbætur eingöngu við afnot HAB af hvernum.

Eignarnámsþoli segir að verðbólga, breytingar á orkuverði og ný tækni við öflun og nýtingu orku, sem fengin sé af jarðvarma geri allar fyrri mats eða samningsfjárhæðir ómerkar. Meðal þeirra vísbendinga um hvernig jarðhitaréttindi hafi verið metin til fjár á Íslandi megi nefna þær sem komi fram í gerðardómi um verðmæti jarðhitaréttinda að Reykjum á Reykjabraut og samninga Hitaveitu Húsavíkur við eigendur jarðhitaréttinda í Reykjahverfi. Í báðum þessum tilfellum sé verð á gasolíu til húshitunar lagt til grundvallar. Þá bendir eignarnámsþoli á að í samningum Hitaveitu Húsavíkur sé borunarréttur og réttur til afnota þess vatns sem kynni að fást við borun talinn jafngilda 10% vatnsmagni sem þannig fæst.

Að því er varðar svokallað Svartengismál, þá sé þar um að ræða borunar og vinnslurétt á háhitasvæði þar sem um mikla áhættu og not áður óþekktrar tækni hafi verið að ræða. Í Deildartunguhver sé ekki þörf á öðru en setja krana á vatnsuppsprettuna.

Eignarnámsþoli telur það skipta miklu máli við ákvörðun eignarnámsbóta hvaða vextir séu lagðir til grundvallar útreikningi á kostnaði, arðsemi og núvirði hugsanlegra framtíðartekna í tengslum við hið eignarnumda. Þá telur eignarnámsþoli nauðsynlegt að taka tillit til skatta þeirra er eignarnámsþoli þurfi að bera af bótafé sbr. 21. gr. laga nr. 40/1978.

Þá bendir eignarnámsþoli á, að honum séu settar ýmsar hömlur að því er nýtingarmöguleika Deildartunguhvers varðar. Þannig heimili lög og reglugerðir eignarnámsþola hvorki rekstur almenningshitaveitu né rafstöðvar, stærri en 2 MW, en rekstur stærri stöðvar en 200 KW sé háður leyfi ráðherra. Ekki megi líta svo á, að slíkar hömlur verði til þess að rýra verðmæti hins eignarnumda í höndum eignarnámsþola, enda væri þá um eignaupptöku að ræða.

Eignarnámsþoli kveðst hafa kosið, að bíða átekta með Deildartunguhver í þeirri von, að efnahagsástand þjóðarinnar batnaði og í þeirri vissu að eign hans ykist stöðugt í verðmæti með auknum umsvifum OPEC ríkja. Ekki mundi eignarnemi halda því fram, að um verðlausa eign væri að ræða, ef sama orkumagn í hráolíu rynni úr iðrum jarðar í Deildartungu, eins og nú gerir í formi heits vatns.

Kröfur eignarnámsþola í málinu settar fram í lok greinargerðar hans eru svohljóðandi: "Af hálfu eignarnámsþola er krafist ýtrustu eignarnámsbóta í samræmi við ákvæði 67. gr. stjórnarskrár "Að fullt verð" skuli koma fyrir hið eignarnumda. Þá er einnig krafist ýtrustu bóta fyrir það tjón, óhagræði og óþægindi, sem virkjun heita vatnsins og aðrar framkvæmdir á landspildunni eða utan hennar valda eignarnámsþola. Krafist er alls kostnaðar vegna rekstrar máls frá þeim degi 31. júlí 1979, er ríkisstjórnin samþykkti að nota heimild laga nr. 57/1979 til eignarnámsins".

III.

Talsvert miklar sáttatilraunir fóru fram milli aðila máls þessa áður en til þessa eignarnáms kom og segir svo um þær tilraunir í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 57/1979:

"Fulltrúar eigenda Deildartunguhvers höfðu mælst til þess við iðnaðarráðuneytið, að ef til samningaumleitana kæmi milli þeirra og fulltrúa samtaka um hitaveitu fyrir Akranes og Borgarnes þá hefði starfshópurinn milligöngu um sáttatilraunir. Fulltrúar hitaveitunnar (nú Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar) tóku undir þessi tilmæli fulltrúa eigenda.

Hinn 3. apríl fól iðnaðarráðherra starfshópnum að koma af stað sáttaumleitunum. Sáttafundir hafa stöðugt verið haldnir og voru þeir samtals 19, auk fjölda upplýsingafunda. Starfshópurinn hafði þann hátt á sáttaumleitun, að rætt var við fulltrúa aðila sitt í hvoru lagi og aðilum síðan kynnt mál hvors annars. Fulltrúa beggja aðila voru sammála um að sameiginlegir fundir væru tilgangslausir og var svo allt til loka sáttatilrauna. Lokasamningafundir voru haldnir miðvikudaginn 9. maí 1979 og lauk þeim laust fyrir miðnætti þann dag og voru sáttatilraunir árangurslausar.

Fyrstu verðhugmyndir komu fram frá fulltrúum eigenda Deildartunguhvers hinn 25. apríl 1979, kr. 48 millj. fast árgjald fyrir 150 l/s og ekki lægra en 30% af heildarábata væntanlegrar hitaveitu. Töldu fulltrúar eigenda þetta vera svipaðar verðhugmyndir og þeir höfðu, þegar upp úr slitnaði viðræðum á árinu 1978.

Fyrsta tilboð frá fulltrúum HAB kom fram 4. maí 1979 og var það í tvennu lagi, þannig:

Tilboð nr. 1
1. Deildartunguhver verði leigður gegn ársgreiðslu sem nemi kr. 18 milljónum fyrir ótakmörkuð afnot á 180 l/sek sjálfrennsli. Verði um leigu á minna magni að ræða allt að 150 l/sek, lækki leigan tilsvarandi. Leigutími hefst þegar veitan tekur til starfa og miðast við það vatnsmagn sem tekið er.
2. Samið verði til 10 ára og verði aðilar sammála um að áframhaldandi leigukjör verði háð úrskurði gerðardóms, ef ekki náist samningar um áframhaldandi leigu. Gert er ráð fyrir að á leigutímanum verði Alþingi Íslendinga búið að fjalla um eða setja lög er varða eignarrétt á lághitasvæðum og taki gerðardómurinn fullt tillit til þeirrar löggjafar eða þeirrar umræðu og vinnu sem liggur að baki væntanlegrar löggjafar.
3. Verðtrygging á leigusamningi verði mynduð úr 4 viðmiðunum sem vegi jafnt í grundvelli
   3.1.   Vísitala vöru og þjónustu
   3.2.   Vístala byggingarkostnaðar
   3.3.   Vísitala framfærslu
   3.4.   Útsöluverð á vatni frá Hitaveitu Reykjavíkur.
4.   Samningurinn verði gerður með fyrirvara um samþykki:
   4.1.   Stjórnar HAB.
   4.2.   Iðnaðarráðuneytis
   4.3.   Hreppsnefndar Reykholtshrepps.
5.   Verðlag miðast við 1. janúar 1979".

"Tilboð nr. 2
1.   Deildartunguhver verði leigður til 30 ára gegn ársgreiðslu sem nemur kr. 14 milljónum á ári miðað við 180 l/sek rennsli eða tilsvarandi fyrir minna vatnsmagn allt að 150 l/sek og verðlag 1. janúar 1979.

Það er mat okkar að tilboðið nemi um 8% af heildarhagnaði veitunnar sbr. lið 9, töflu 4 í skýrslu starfshóps iðnaðarráðuneytisins að því er hlutdeild Deildartunguhvers varðar í heildarvatnsöflun veitunnar.

Samningurinn framlengist sjálfkrafa um 10 ár í senn verði honum ekki sagt upp með a.m.k. þriggja ára fyrirvara".

Sömu ákvæði og í tilboði 1 um verðtryggingu, verðlag og fyrirvara.

Starfshópurinn skýrði aðilum frá því að ráðuneytið myndi ekki vilja stuðla að samningi til 10 ára með þeim fyrirvörum, sem þar koma fram og var tilboð þetta eigi frekar til umræðu.

Fyrsta formlega tilboð fulltrúa eiganda Deildartunguhvers kom fram 5. maí 1979, þannig:

"... upplýsti að fulltrúar eiganda hefðu orðið sammála um að bjóða fram til samkomulags 35 millj. króna árgjald er miðaðist við 150 l/sek og verðlag 1. janúar 1979 (byggingarvísitala 258 stig). Árgjald breytist með vísitölu byggingarkostnaðar eins og hún er á hverjum tíma.

Þetta verð er hugsað sem hlutfall af ábata eins og áður hefur komið fram í viðræðum, en það er til frekari umræðu. Þó ekki til lækkunar á árgjaldi.

Fulltrúar eiganda tóku fram að þeir væru reiðubúnir til að líta sérstaklega á fyrstu rekstrarár veitunnar, að því er % af ábata varðar, meðan hún er að komast yfir hugsanlega byrjunarörðugleika.

Tilboð eiganda á 150 l/sek miðast við gildistíma 25 ár og 3ja ára uppsagnarfrest.

Umframvatn verði samið um árlega til 1 árs í senn".

Á fundi 7. maí 1979 kom fram tilboð frá fulltrúum eiganda Deildartunguhvers þannig:

"Árgjald verði kr. 22 milljónir miðað við 150 l/sek frá 1982 að telja. Árgreiðsla fylgi byggingarvísitölu frá 1. jan. 1979 að telja. Eftir árið 1985 fylgi árgjald 20% af heildarábata veitunnar, eins og hann er á hverjum tíma (hvor talan sem er hærri).

Samningar verði til 20 ára. Sami uppsagnarfrestur og áður.

HAB greiði hugsanlega aukaskatta er á kynnu að verða lagðir vegna notkunar heita vatnsins utan sveitar, þ.e. Reykholtsdalshrepps (sbr. t.d. reglugerð um fasteignaskatt nr. 320 19. des. 1972).

Umframvatn verði selt hlutfallslega á sama verði.

Að við undirskrift samnings verði innt af hendi 10 millj. króna fyrirframgreiðsla er komi til lækkunar á fyrstu árgreiðslum".

Hinn 8. maí 1979 kom fram tilboð frá fulltrúum HAB, svohljóðandi:

"Vatn úr Deildartunguhver verði keypt gegn ársgreiðslu er nemi kr. 15 milljónum á árið miðað við 180 l/sek, eða hlutfallslega fyrir minna vatnsmagn allt að 150 l/sek. og verðlag 1. janúar 1979. Tilboð þetta samsvarar 12.5 milljónum króna fyrir 150 l/sek.

Tilboð þetta miðast við 30 ára samningstíma.

Verðtrygging miðast við vísitölu byggingarkostnaðar, vöru- og þjónustu, svo og framfærsluvísitölu".

Sama dag kom fram tilboð frá fulltrúum eiganda Deildartunguhvers, þannig:

"Árgreiðsla verði 20 millj. á ári miðað við 150 l/sek og verðlag 1. janúar 1979.

Önnur ákvæði sbr. tilboð í fundargerð mánudaginn 7. maí 1979 standi óbreytt".

Á fundi 8. maí 1979 létu fulltrúar HAB bóka svohljóðandi:

" að með tilboði sínu fyrr í dag hafi þeir, miðað við framkomin gögn og upplýsingar, meðal annars um arðsemi veitunnar, gengið eins langt og þeir geti réttlætt gagnvart stjórn HAB og væntanlegum neytendum á veitusvæði HAB. Benda þeir á, að það sem á milli beri síðustu tilboða séu ekki einungis mismunur 20 millj. króna árgreiðslu annars vegar og 12.5 millj. króna árgreiðslu hins vegar, þar eð tilboð fulltrúa eiganda Deildartunguhvers miðist við að eftir 1985 fylgi árgjald 20% af heildarábata veitunnar eins og hann er á hverjum tíma. Miðað við þær forsendur sem gengið var út frá í upphafi þessara viðræðna, þ.e. skýrslu starfshóps iðnaðarráðuneytisins, verða árgreiðslur ekki þannig 20 milljónir eftir árið 1985, heldur 72 milljónir árið 1994, svo dæmi sé tekið og kr. 108.4 milljónir árið 1999.

Yfir 20 ára tímabil verða heildargreiðslur HAB samkvæmt síðasta tilboði hennar kr. 250 milljónir en heildargreiðslur samkvæmt síðasta tilboði fulltrúa eiganda Deildartunguhvers um 1200 milljónir króna.

Þótt þessi dæmi séu nefnd um háar árgreiðslur vilja fulltrúar HAB taka fram, að þeir telja ekki grundvöll til samninga sem miðist við að árgreiðslur verði hlutfall af ábata veitunnar, eins og hann verður á hverjum tíma. Telja þeir eðlilegt að um árgreiðslu verði samið, sem haldi síðan raunvirði með viðmiðun við vísitölur.

Fulltrúar HAB harma að illa horfir um samkomulag. Þeir hafa lagt mikla áherslu á að samkomulag mætti takast. Vilja þeir því sem úrslitatilraun óska eftir því við starfshóp iðnaðarráðuneytisins, að hann leggi fram sáttatillögu ef hann telur grundvöll fyrir því. Fulltrúar HAB munu taka slíka sáttatillögu til vinsamlegrar athugunar".

Á fundi 9. maí lögðu fulltrúar eiganda Deildartunguhvers fram "gögn um skiptingu arðs skv. síðasta tilboði fulltrúa eiganda (8.5.1979). Þar kemur fram að arðskipting umreiknuð til jafnrar árgreiðslu með 6% vaxtakröfu nemur 197.7 millj. kr. á ári til HAB en 49.9 m.kr. á ári í hlut eiganda Deildartungu. Þess ber að geta að hlutur HAB er skattfrjáls en eigandi Deildartunguhvers þarf að greiða fulla skatta".

Deildartunga 20%,   HAB 80%

   Til   Til   6%   Núvirði   Núvirði
   Ár   Arður   D   HAB   Afvöxtun   D   HAB
               1982   1982

1982   93.8   20.0   73.8   0.943   18.9   69.6
1983   83.5   20.0   63.5   0.890   17.8   56.5
1984   97.6   20.0   77.6   0.840   16.8   65.2
1985   118.8   23.8   95.0   0.792   18.9   75.2
1986   129.6   25.9   103.7   0.747   19.4   77.5
1987   135.3   27.1   108.2   0.705   19.1   76.3
1988   168.3   33.7   134.6   0.665   22.4   89.5
1989   199.4   39.9   159.5   0.627   25.0   100.0
1990   233.4   46.7   186.7   0.592   27.7   110.5
1991   264.0   52.8   211.2   0.558   29.5   117.9
1992   292.2   58.4   233.7   0.527   30.1   123.2
1993   326.1   65.2   260.9   0.497   32.4   129.7
1994   359.5   71.9   287.6   0.469   33.7   134.9
1995   393.6   78.7   314.9   0.442   34.8   139.2
1996   430.0   86.0   344.0   0.417   35.9   143.5
1997   472.1   94.4   377.7   0.394   37.2   148.8
1998   498.5   99.7   398.8   0.371   37.0   148.0
1999   541.9   108.4   433.5   0.350   37.9   151.1
2000   589.3   117.9   471.4   0.331   39.0   156.0
2001   620.0   124.0   496.0   0.312   38.7   154.8
   6046.9   1214.5   4832.3      572.2   2268.0   =2840.2
               x0.08718   x0.08718
               =49.9   =197.7
               p.a.   p.a.
               á 6%   á 6%

Í framhaldi af þessu lækkuðu umboðsmenn eiganda Deildartunguhvers kröfuna um 20% af ábata veitunnar í 15% af heildarábata, eins og hann er á hverjum tíma. Fulltrúar HAB áréttuðu tilboð sitt frá 8. maí og kváðu það vera lokaboð.

Hinn 9. maí kom fram lokaboð frá fulltrúum eiganda Deildartunguhvers:

"Árgjald nemi kr. 18 milljónum miðað við 150 l/sek en frá og með árinu 1991 fylgi árgjald 15% af heildarábata veitunnar eins og hann er á hverjum tíma, hvor talan sem er hærri. Að öðru leyti er fyrra tilboð óbreytt. Fulltrúar eiganda taka fram að boð þetta gefi ekki vísbendingu um, hvað þeir telji verðmæti hversins, heldur er boð þetta eingöngu lagt fram sem tilraun til samkomulags. Verði tilboði þessu hafnað er það úr gildi fallið".

Lokaboð fulltrúa eiganda Deildartunguhvers var borið undir fulltrúa HAB sama dag, og svöruðu þeir því þannig:

"Fulltrúar HAB hafa fjallað um lokatilboð fulltrúa eiganda Deildartunguhvers. Við athugun á tilboði þessu kemur fram að miðað við 20 ára sölusamning nema greiðslur til eiganda Deildartunguhvers kr. 875 milljónum. Bil milli tilboða fulltrúa eiganda og fulltrúa HAB nemur því 625 milljónum á ofangreindu tímabili.

Í ljósi þessara staðreynda sjá fulltrúar HAB ekki tilefni til endurskoðunar á fyrra tilboði, sbr. bókanir frá í dag og í gær".

Sama dag var fulltrúum eiganda Deildartunguhvers kynnt framangreind afstaða HAB og var á þeim fundi bókað:

"Fulltrúar eiganda Deildartunguhvers vísuðu til fyrri afstöðu, og kváðu að ekki væri um neina breytingu að ræða".

. . . . . . . .
Lokatilboð aðila gera ráð fyrir eftirfarandi árgreiðslum miðað við kaup á 150 lítrum á sekúndu og verðlag 1. janúar 1979.

               Lokatilboð fulltrúa eiganda
   Lokatilboð HAB   Deildartunguhvers
   (30 ára samningur)   (20 ára samningur)

   Ár   millj. kr.   millj. kr.
   1982   12.5   18
   1983   12.5   18
   1984   12.5   18
   1985   12.5   18
   1986   12.5   18
   1987   12.5   18
   1988   12.5   18
   1989   12.5   18
   1990   12.5   18
   1991   12.5   39.6
   1992   12.5   43.8
   1993   12.5   48.9
   1994   12.5   53.9
   1995   12.5   59.0
   1996   12.5   64.5
   1997   12.5   70.8
   1998   12.5   74.8
   1999   12.5   81.3
   2000   12.5   88.4
   2001   12.5   88.4
      250   875

         o.s.frv. til
         ársins 2011.

Lokaboð HAB kr. 12.5 millj. á ári miðað við 150 l/sek svarar til afgjalds kr. 83.333 pr. sekúndulítra á ári.

Lokaboð fulltrúa eiganda Deildartunguhvers gerir ráð fyrir 18 millj. kr. árgjaldi eða 120.000 kr. afgjaldi pr. sekúndulítra á ári fyrstu 9 árin en stighækkandi úr því upp í 84.4 millj. kr. árgjald árið 2000 eða 589.333 kr. pr. sekúndulítra á ári.

Sé stighækkandi árgjaldi í lokaboði fulltrúa eiganda Deildartunguhvers breytt í jafngilda annuitetsröð með t.d. 6% vaxtakröfu svarar það til 35.8 millj. króna jafnrar árgreiðslu eða rúmlega 238.000 krónum pr. sekúndulítra á ári.

Það er skoðun starfshópsins að með lokatilboði sínu sé HAB komið það nærri þeim mörkum sem starfshópurinn að breyttu breytanda telur eðlilegt með tilliti til þeirra fordæma í samningum, matsgjörðum og dómum, sem honum eru kunn, að tilgangslaust sé, í ljósi hins djúpstæða ágreinings í millum aðila, að leggja fram sáttatillögu".

IV.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt umboðsmönnum aðila og skoðað Deildartunguhver og landið þar í kring. Hafði landspildan sem um ræðir verið afmörkuð með hælum og var farið á milli þeirra marka. Einnig kynnti Matsnefndin sér leiðina að hvernum og allar aðstæður á staðnum.

Aðilar hafa skýrt mál þetta fyrir nefndinni bæði í skriflegum greinargerðum og munnlegum málflutningi sem fram fór 30. sept. 1980 og var málið þá tekið til úrskurðar. Matsnefndin hefur leitað um sættir með aðilum en árangurslaust.

Eignarnámsheimildina er að finna í lögum nr. 57, 31. maí 1979 er áður hafa verið rakin. Viðfangsefni Matsnefndar í þessu máli er að meta til fébóta Deildartunguhver og landspildu umhverfis hann 16800 m² að flatarmáli.

Eignarnemi hefur gert þá kröfu, að eignarnámsheimildin verði talin ná til allra réttinda á staðnum og þar með til borunar eftir vatni. Að vísu telur hann að varlega þurfi að fara í það að bora eftir meira vatni því það gæti leitt til þess að vatn minnkaði annars staðar í landi eignarnema. Þegar litið er til orðalags eignarnámslaganna og tilgangs lagasetningarinnar svo og eðlis málsins verður fallist á þessa kröfu eignarnema og afstaða tekin til hennar við ákvörðun matsfjárhæðarinnar.

Þá heldur eignarnemi því fram, að hér sé um að ræða óvirk eignarréttindi í þeim skilningi að óvíst sé að landeiganda, hvað þá öðrum hefði nokkru sinni dottið í hug að meta þau til verulegs fjár nema vegna fyrirhugaðrar hitaveitu til þéttbýlisstaðanna á Vesturlandi.

Um aðra möguleika til nýtingar á eigninni að fullu sé alls ekki að ræða. Á framangreinda skoðun eignarnema verður ekki fallist. Eignarnámsþoli hefur eignarráð á þessari eign sinni og má hagnýta sér hana þegar hagkvæmast er fyrir hann.

Ekki verður sú krafa gerð til handhafa eignarréttinda, að öll eignarréttindi hans séu fullnýtt á hverjum tíma og því aðeins verðmæt að svo sé. Þá er það ljóst að stofna má til margskonar reksturs, mikils eða lítils, með þeirri miklu orku, sem þarna er um að ræða. Þótt gildandi lög svo og leyfafyrirkomulag kunni, eins og nú hagar til, að hindra slíkan rekstur að einhverju leyti, þá ræður það ekki úrslitum um verðgildi þessara eignarréttinda. Bæði geta lög breyst og nýir ráðherrar veitt leyfi, sem þeir fyrri hefðu ekki gert og auk þess á eignarnámsþoli rétt á að geyma eignarréttindi sín, eins og áður segir, til hentugasta tíma fyrir hann.

Vegna þess hvað nýting þessa jarðhita er auðveld og lítt kostnaðarsöm og ekki háð neinum sérstökum tæknilegum örðugleikum, þá þykir rétt við ákvörðun á mati þessara jarðhitaréttinda að hafa annarsvegar hliðsjón af líklegu söluverði þeirra og hins vegar arðsemi þeirra í höndum eignarnema. Einnig verður litið til þess að engin óvissa ríkir um magn og gæði þessa jarðhita.

Deildartunguhver er að því leyti frábrugðin olíulind, að hverinn er sístreymandi orkulind, sem telja verður með hliðsjón af aldagamalli reynslu að sé óþrjótandi.
Samkvæmt því sem upplýst er í athugasemdum við eignarnámslögin hefur olíunotkun til húshitunar á væntanlegu markaðssvæði þeirrar hitaveitu, sem hér um ræðir numið sem næst 700 milljónum króna á ársgrundvelli miðað við áramót 1978 og `79. Hefur þessi kostnaður vaxið mikið síðan.

Þá liggja fyrir í málinu talsvert miklar upplýsingar um tilboð eignarnema til eiganda Deildartunguhvers svo og gagntilboð eignarnámsþola til eignarnema. Upplýst er í málinu, að jarðhiti Deildartunguhvers verður fullnýttur strax frá byrjun.

Ekki er neinum vafa bundið, að jarðhitaréttindi séu samkvæmt núgildandi lögum verðmæt réttindi, sem bæta beri rétthöfum við eignarnám. Verðhækkun olíu á undanförnum árum hefur haft í för með sér mjög verulega hækkun á verði jarðhita, sem nýta má til húsahitunar. Verðmæti slíks jarðhita í einstökum tilvikum ræðst af ýmsum atriðum, en þó fyrst og fremst af legu við markaði, stærð markaðssvæðis og vatnsþörf, gæðum vatns, vinnslukostnaði svo og af því, hvort möguleikar séu á nýtingu jarðhitans með öðrum hætti.

Matsnefndin telur ótvírætt, að jarðhitaréttindi þau, sem mál þetta fjallar um, beri að meta á ofangreindum grundvelli. Verður ekki fallist á verðákvörðun í kröfugerð eignarnema, þar sem hvorki verður talið, að 2. mgr. 140. gr. vatnalaga nr. 15/1923 eigi við né að slík úrslitaáhrif, sem þar er haldið fram, verði rakin til þeirrar aðstöðu bæði að lögum og í raun, að ekki er til að dreifa nema einum kaupanda vatns til húsahitunar. Tiltölulega þrönga markaðsaðstöðu ber hins vegar að meta til lækkunar eignarnámsbótum, þar sem ekki verður séð, að um neina raunhæfa verðmætari hagnýtingarkosti aðra sé að ræða. Mat jarðhitaréttindanna í fasteignamati hefur ekki neina þýðingu þegar af þeirri ástæðu, að aðstæður eru gjörbreyttar frá því að aðalmat fasteigna fór fram.

Þannig háttar til um jarðhita þann, sem hér er um að ræða, að hann er auðvelt og hagkvæmt að nýta í þarfir hitaveitu til húsahitunar, þar sem virkjunarkostnaður er tiltölulega lítill og vatnið má nota beint til húsahitunar og heimilisþarfa.

Endurgjald fyrir landssvæði það, 16800 m², sem tekið er eignarnámi verður hér ákveðið sem þáttur í endurgjaldi fyrir hitaréttindin og innifalið í því og verður því landið ekki metið sér.

Í munnlegum málflutningi var því lýst yfir, að eignarnemi tæki að sér að "axla þá ábyrgð" að yfirtaka og svara til þeirra skyldna og kvaða sem Víðigerðiseigandi eða aðrir kynnu að setja fram. Ef um eignir annarra en eignarnámsþola í þessu máli sé að ræða, nái eignarnámið ekki til þeirra.

Matsnefndin hefur gert margskonar útreikninga á hagkvæmnisathugun þeirri, sem fram er lögð í málinu og endurmetið hana með hliðsjón af breyttu verðlagi og betri nýtingu vatnsins frá því sem gert er ráð fyrir í framlagðri athugun.

Matsnefndin hefir tekið tillit til óhagræðis við nýtingu landsins sem eignarnámsþolar halda eftir og að eignarnámsþolar fá 10 l/sek virkjaðs vatns við stöðvarvegg án endurgjalds, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1979.
Þegar það er virt, sem að framan er rakið, og einnig athuguð önnur atriði, sem máli skipta að áliti Matsnefndar, telst hæfilegt mat á hinu eignarnumda, sem áður er lýst, kr. 532.000.000.

Rétt þykir að eignarnemi greiði samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 eignarnámsþolum kr. 10.000.000 í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 17.000.000.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir, Gaukur Jörundsson, prófessor, Jóhannes Zoëga, verkfræðingur, Guðmundur Gunnarsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. mgr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, greiði eignarnámsþolunum þeim:

   Hannesi Jónssyni
   Vigdísi Jónsdóttur
   Soffíu Jónsdóttur
   Andrési Jónssyni
   Ragnheiði Jónsdóttur
   Guðrúnu Jónsdóttur
   Jóni Björnssyni og
   Valgerði Björnsdóttur

kr. 532.000.000 og kr. 10.000.000 í málskostnað og láti þeim í té við stöðvarvegg samtals 10 l/sek af vatni úr Deildartunguhver án endurgjalds.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 17.000.000.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta