Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 604/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 604/2021

Miðvikudaginn 15. desember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. nóvember 2021, kærði A, Tryggingastofnun ríkisins til úrskurðarnefndar velferðarmála fyrir að fara ekki eftir 69. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar við tilhögun á greiðslu bóta almannatrygginga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fær greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. nóvember 2021. Með bréfi til kæranda, dags. 12. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum um hvort kæran varðaði einhverja ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins gagnvart honum og þá hvaða ákvörðun. Með tölvupósti 25. nóvember 2021 greindi kærandi frá því að hann hefði farið munnlega og skriflega fram á það við Tryggingastofnun að hann fengi greitt það sem á vanti fyrir árin 2019 og 2020, síðast eftir að hann hafi fengið erindi frá úrskurðarnefndinni og þá fengið að taka afrit af bréfinu með móttökustaðfestingu, en hann hafi ekki fengið nein svör.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi kæri Tryggingastofnun ríkisins fyrir að fara ekki eftir 69. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar við tilhögun á greiðslu bóta almannatrygginga. Kærandi telji að Tryggingastofnun skuldi honum 3.176 kr. fyrir árin 2019 og 2020 samkvæmt meðallaunaþróun sem Hagstofa Íslands hafi gefið út. Krafan sé byggð á 69. gr. laga um almannatryggingar þar sem tekið sé fram að greiðslur skuli hækka samkvæmt launaþróun.

III.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er almennt grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun.

Úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði eftir upplýsingum frá kæranda um hvort kæra varðaði einhverja stjórnvaldsákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins gagnvart honum. Með tölvupósti 25. nóvember 2021 greindi kærandi frá því að hann hefði farið fram á það við Tryggingastofnun að hann fengi greitt það sem á vanti fyrir árin 2019 og 2020 en hann hafi ekki fengið nein svör. Af framangreindu verður ráðið að engin stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir að svo stöddu heldur bíði kærandi eftir svörum frá Tryggingastofnun. Með vísan til þess að ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kæranda er bent á að hann geti lagt fram nýja kæru síðar fái hann einhverja stjórnvaldsákvörðun frá Tryggingastofnun ríkisins sem hann vilji fá endurskoðun á.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

                                                                                                                                                                                                                                                                     Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta