Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 95/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. febrúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 95/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. september 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi tekið þá ákvörðun að hafna greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar þar sem skilyrði 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, væru ekki uppfyllt þar sem hún væri með gildan ráðningarsamning við X. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 7. september 2009. Hún krefst þess að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júlí 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi hefur starfað sem baðvörður hjá X frá 1. september 2000 til 17. júlí 2009 samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 29. júní 2009. Samkvæmt vottorðinu er um tímabundna ráðningu að ræða. Samkvæmt upplýsingum í tölvupósti frá B, launafulltrúa hjá X, dags. 30. júní 2006, er kærandi með fastráðningu í íþróttahúsinu í Y en þar sem sumarlokunin þar er eins og í skólanum þá dugi orlofsdagar kæranda ekki til þess að dekka sumartímann. Hún hafi hætt starfi 9. júní og hafi verið í orlofi frá 10. júní til 17. júlí 2009. Í samskiptasögu segir að kærandi sé á launaskrá til 17. júlí 2009 og taki orlofsdagana út fram að þeim tíma.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 20. júlí 2009 en var synjað um bæturnar með vísan til þess að skilyrði 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, væru ekki uppfyllt. Enn fremur var vísað til a-liðar 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. sem og 2. gr. laganna. Ákvörðunin var tekin með vísan til þess að kærandi væri með gildan ráðningarsamning og teljist því ekki á vinnumarkaði á meðan. Kærandi kveðst ekki vera sátt við niðurstöðu Vinnumálastofnunar þar sem hún sé aðeins með ráðningarsamning frá 20. ágúst til og með 10. júní ár hvert en ekki með samning þess utan og því frjáls til þess að ráða sig í vinnu annars staðar. Hún kveðst alltaf síðan hún byrjaði í núverandi starfi hafa getað fengið vinnu á þessum dauða tíma. Kærandi var atvinnulaus í fjórar og hálfa viku og kveður hún það hafa haft afar slæm áhrif á sig fjárhagslega þar sem hún sé einstæð móðir. Hún vonast til þess að málið verði endurskoðað og hún telur að þó hún sé með ráðningarsamning hluta af árinu gildi hann ekki yfir sumartímann og því hafi hún verið atvinnulaus þó svo að það hafi aðeins verið í stuttan tíma.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. nóvember 2009, kemur fram að í 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að lögin gildi um þá sem verði atvinnulausir og í 2. gr. laganna sé tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Þá segi meðal annars í 1. mgr. 9. gr. laganna að launamönnum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Ljóst sé að ráðningarsamband sé til staðar milli kæranda og vinnuveitanda hans enda hafi kærandi aftur hafið vinnu sína hjá sveitarfélaginu.

Vinnumálastofnun telur að það sé ljóst að sá sem sé tímabundið frá vinnu sinni, líkt og hér um ræði, teljist ekki í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laganna, enda muni atvinnuleit kæranda að jafnaði aðeins ná til að gegna störfum innan þess tímaramma sem sumarlokun vari. Þá sé gert ráð fyrir því í f-lið 1. mgr. 13. gr. að umsækjandi leggi fram vottorð fyrrverandi atvinnuleitanda, sbr. 16. gr., og skuli þar meðal annars greina ástæður þess að launamaður hætti störfum hjá vinnuveitanda o.s.frv. Ekki verði ætlað að vinnuveitandi sá er hér um ræði geti talist fyrrverandi vinnuveitandi í skilningi laganna. Það er mat Vinnumálastofnunar að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki verið við störf vegna sumarlokunar þá hafi hún verið með gildan ráðningarsamning við X á því tímabili sem kærandi sótti um atvinnuleysisbætur. Kærandi sé því ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr., 2. gr. og 1. mgr. 9. gr. laganna. Þá uppfylli kærandi ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laganna. Stofnunin telji einnig að þó svo að áunninn orlofsréttur kæranda hafi verið minni en samsvaraði sumarlokuninni veiti það kæranda ekki rétt til atvinnuleysisbóta.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um þá sem verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna er tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geta þeir launamenn sem misst hafa starf sitt sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að sumarlokun sé á vinnustað kæranda frá 9. júní til 10. ágúst ár hvert og svo hafi einnig verið sumarið 2009. Greiðslum vegna áunnins orlofs lauk þann 17. júlí 2009. Kærandi var með gildan ráðningarsamning við X þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur og því ekki atvinnulaus í skilningi laganna. Þegar af þeirri ástæðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. ágúst 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta