Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 98/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. febrúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 98/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 28. júlí 2009, var kærandi, A, beðin að skila skýringum vegna upplýsinga sem stofnunin hafði undir höndum þess efnis að hún hafi verið stödd erlendis í júlí 2009. Kærandi hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 2. desember 2008 og eftir að hún hafði skilað inn umbeðnum gögnum var umsókn hennar samþykkt á ný þann 14. ágúst 2009 en þeir dagar sem hún var erlendis dregnir frá. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 2. september 2009, og krefst þess að henni verði einnig greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma sem hún var erlendis. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. desember 2008 og fékk þær greiddar í samræmi við bótarétt sinn. Samkvæmt gögnum málsins var hún í Bandaríkjunum frá 13. júlí til 3. ágúst 2009. Hún kveðst hafa verið þar með ungan son sinn til lækninga sem ekki sé fyrir hendi hér á landi. Hún hafi verið með opinn miða og systur sína með í för þannig að hún hefði getað komið til Íslands með litlum fyrirvara hefði hún fengið atvinnutilboð.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. október 2009, kemur fram að í 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um markmið laganna. Í ákvæðinu segi að markmið laganna sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan sá tryggði leiti að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Í III. kafla laganna séu svo tilgreind almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Nánar sé kveðið á um það í a–h-liðum 1. mgr. 14. gr. hvað teljist vera virk atvinnuleit. Sé meðal annars gert ráð fyrir því að sá sem þiggi atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara og sé reiðubúinn að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 14. gr. Þá sé það gert að almennu skilyrði í 13. gr. að launamaður sé búsettur hér á landi. Þessi ákvæði er lúti að virkri atvinnuleit hafi verið túlkuð svo að þeim sem þiggi atvinnuleysisbætur sé ekki heimilt að dveljast erlendis enda komi það í veg fyrir að þeir fullnægi nefndum skilyrðum laganna. Þessi túlkun sé í samræmi við áralanga framkvæmd stofnunarinnar á þessu sviði. Vinnumálastofnun geri miklar kröfur um að umsækjendur um atvinnuleysisbætur séu í virkri atvinnuleit. Þrátt fyrir marga þá möguleika sem opnast hafi með tilkomu aukinnar tæknivæðingar verði því ekki haldið fram með fullri alvöru að atvinnuleit fari fram á rafrænan hátt. Vinnumálastofnun hafni því að atvinnuleitandi geti heils hugar sinnt virkri atvinnuleit, einvörðungu á rafrænan máta. Með tilkomu rafrænna staðfestinga á heimasíðu stofnunarinnar hafi ekki verið ætlunin að opna fyrir það að atvinnuleitendur færu til útlanda á meðan þeir þiggi atvinnuleysisbætur.

Það sé ljóst af skýringarbréfi kæranda og kæru til úrskurðarnefndar að hún hafi farið til útlanda vegna læknismeðferðar sonar síns. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að á meðan kærandi dveljist í útlöndum teljist hún ekki uppfylla skilyrði a-liðar 1. mgr. 13 gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysisbætur um að vera í virkri atvinnuleit. Þá vísi stofnunin á úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í samskonar máli nr. 30/2006 er hafi varðað skýringu á 1. mgr. 1. gr. eldri laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 en þar kom fram að það sé mat úrskurðarnefndar að á meðan kærandi dveljist erlendis teljist hún ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að vera í atvinnuleit.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. nóvember 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. nóvember 2009. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin hafði Vinnumálastofnun undir höndum gögn er bentu til þess að kærandi hafi staðfest atvinnuleit sína á rafrænan hátt frá Bandaríkjunum. Greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda voru stöðvaðar og henni tilkynnt það með bréfi.

Samkvæmt h-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst sá í virkri atvinnuleit sem er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Ber atvinnuleitanda án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt þessum málslið, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Það er tekið fram í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. laga nr. 97/2009, að sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar um slíkar bætur skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar skal tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og skal tilkynningin gerð með sannanlegum hætti og taka skal fram ástæður þess að atvinnuleit var hætt, sbr. 10. gr. laganna.

Það er óumdeilt að kærandi dvaldi erlendis á tímabilinu frá 13. júlí til 3. ágúst 2009 án þess að láta Vinnumálastofnun vita af því fyrirfram. Á þessu tímabili var hún því ekki lengur í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og hafði brotið þá skyldu sína sem atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytta hagi sína. Með hliðsjón af framanröktum ákvæðum 9., 10., 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 13. júlí til 3. ágúst 2009.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. ágúst 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta vegna tímabilsins 13. júlí til 3. ágúst 2009 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta