Mál nr. 2/2010. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 2. mars 2010
í máli nr. 2/2010:
Logaland ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Hinn 8. janúar 2010 kærði Logaland ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboðum í útboðinu „14745: Rammasamningsútboð með heimild á örútboðum: Gips og fylgihlutir fyrir heilbrigðisstofnanir“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
„1. Að kærunefndin stöðvi þegar í stað innkaupaferli eða gerð samninga við einstaka bjóðendur á grundvelli ofangreinds útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
2. Að nefndin felli úr gildi ákvörðun kaupanda um val á tilboðum í útboðinu og leggi fyrir hann að auglýsa útboðið á nýjan leik.
3. Að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda.
4. Að nefndin ákveði að kaupandi og/eða Ríkiskaup greiði umbjóðanda mínum kostnað við að hafa kæruna uppi.“
Kærandi sendi viðbótarrökstuðning, með bréfum dags. 14. janúar og 11. febrúar 2010. Kærða var kynnt kæran og viðbótarrökstuðningur kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2010, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað og að kæranda yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.
I.
Í ágúst 2009 auglýsti kærði útboð nr. 14745: „Rammasamningsútboð með heimild á örútboðum: Gips og fylgihlutir fyrir heilbrigðisstofnanir“. Í upphaflegum kafla 1.2.3. í útboðslýsingu sem ber heitið „Val á samningsaðila“ sagði m.a.:
„Sérstakur faghópur skipaður sérfræðingum, sem hafa viðeigandi tæknilega og/eða lagalega sérþekkingu varðandi þetta útboð, mun yfirfara, bera saman og meta tilboð bjóðenda út frá gæðum, tæknilegum eiginleikum, notkunareiginleikum og vöruúrvali.
Faghópurinn mun fyrir hönd Ríkiskaupa:
(1) meta hvaða tilboð uppfylla lágmarkskröfur sem eru settar fram í þessari útboðslýsingu. Tilboð sem ekki uppfylla lágmarkskröfu verður hafnað.
(2) meta gild tilboð og gefa þeim einkunn.
(3) skila tillögu til Ríkiskaupa um við hverja eigi að semja og af hverju. Ríkiskaup munu láta bjóðendum í té rökstuðning verði eftir því óskað.
Eftirfarandi atriði verða höfð til hliðsjónar við mat á tilboðum og val á samningsaðila:
Nr Forsendur Stig
1 Gæði, tæknilegir eiginleikar og notkunareiginleikar 35
2 Vöruúrval 5
Samtals stig fyrir lið 1-2 40
Nr Forsendur verð Stig
3 Verð 60
Nr Forsendur Stig
1-3 Heildarstigafjöldi 100
I. Gæði og tæknilegir eiginleikar
Mat gæða og tæknilegra eiginleika boðinnar vöru er faglegt mat faghóps og sérfræðinga sem hafa þekkingu á vörunni.
Til tæknilegra eiginleika telst:
Vöruflokkur A gips úr gerviefni (plast gips)
· Hvernig gengur að leggja vöruna á og ná henni af aftur, þ.e. hversu auðvelt er að móta gerviefnið (plastgipsið) (12 stig)
· Ofnæmis valdandi viðbrögð (12 stig)
· Hentugleiki pakkninga og umbúða miðað við þarfir notenda (7 stig)
· Merking pakkninga. Betri merkingar gefa hærri einkunn (4 stig)
Vöruflokkur B gips úr náttúrulegum efnum (hvíta gipsið)
· Hentugleiki vörunnar við notkun. s.s. hve vel varan heldur náttúrulega gipsefninu í sér (11 stig)
· Hvernig gengur að leggja vöruna á og ná henni af aftur (8 stig)
· Ofnæmis valdandi viðbrögð (8 stig)
· Hentugleiki pakkninga og umbúða miðað við þarfir notenda (5 stig)
· Merking pakkninga. Betri merkingar gefa hærri einkunn (3 stig)
Vöruflokkur C fylgihlutir
· Hentugleiki vörunnar við notkun, auðvelt sé að leggja vöruna á. Gipsbómull og krepbindi leggist vel. (10 stig)
· Varan sé hentug til notkunar á sjúklinga með viðkvæma húð. (10 stig)
· Kantar á krepbindum séu vel ofnir og trosni ekki. (8 stig)
· Hentugleiki pakkninga og umbúða miðað við þarfir notenda (4 stig)
· Merking pakkninga. Betri merkingar gefa hærri einkunn (3 stig)
II. Vöruúrval
Því meira úrval, sbr. grein 2.1.1 því hærri einkunn (5 stig)
III. Verð
Mat á verði byggir á eftirfarandi: Lægsta verð skv. tilboði, fær hæstu einkunn eða 60 stig, eftir það ræður eftirfarandi reiknilíkan:
Einkunn = (lægsta verð / boðið verð) x 60
Tilboð sem fá minna en 30 stig af 40 stigum mögulegum skv. matsviðmiði nr. 1, verða talin ófullnægjandi og ekki skoðuð frekar. Tilboð sem fá minna en 50% fyrir einstaka liði í matsviðmiði nr. 1 verða talin ófullnægjandi og ekki skoðuð frekar.
Stigin sem fengin eru samkvæmt liðum 1-2 verða lögð saman við stigafjölda úr lið 3. Flest stig gefa hæstu einkunn.
Hinn 1. október 2009 voru gerðar breytingar á útboðsgögnum sem fólust m.a. í því að vöruliðir nr. 18 til og með 21 í vöruflokki C voru færðir í nýjan flokk, vöruflokk D. Þá var valforsendum í vöruflokki C einnig breytt og einkunnagjöfin eftir breytingar varð eftirfarandi:
Vöruflokkur C: fylgihlutir
· Hentugleiki vörunnar við notkun, auðvelt sé að leggja vöruna á. Gipsbómull og krepbindi leggist vel. (14 stig)
· Varan sé hentug til notkunar á sjúklinga með viðkvæma húð (14 stig)
· Hentugleiki pakkninga og umbúða miðað við þarfir notenda (4 stig)
· Merking pakkninga. Betri merkingar gefa hærri einkunn (3 stig)
Vöruflokkur D: Bindi, krep
· Hentugleiki vörunnar við notkun. Krepbindi sé ekki einungis teygjanlegt langsum, heldur einnig þversum og á ská og því auðveldara að leggja vöruna á (12 stig)
· Varan sé hentug til notkunar á sjúklinga með viðkvæma húð (10 stig)
· Kantar á krepbindum séu vel ofnir og trosni ekki. (8 stig)
· Hentugleiki pakkninga og umbúða miðað við þarfir notenda (3 stig)
· Merking pakkninga. Betri merkingar gefa hærri einkunn (2 stig)
Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og hinn 5. janúar 2010, tilkynnti kærði um val á tilboðum. Tilboði kæranda í vöruflokk A var vísað frá. Kærandi fékk 75 stig af 100 í vöruflokki B en tekið var tilboði sem fékk 100 stig. Tilboði kæranda var tekið í vöruflokk C. Tilboði annars bjóðanda var upphaflega tekið í vöruflokki D en hinn 1. febrúar 2010 tilkynnti kærði að við endurmat tilboða í vöruflokki D hefði komið í ljós að tilboð kæranda hefði verið hagstæðast en ekki það tilboð sem áður hafði verið tilkynnt um val á.
II.
Kærandi telur að rökstuðningur sem fylgdi með tilkynningu um val á tilboðum hafi verið ófullnægjandi og í ósamræmi við 3. málsl. 1. mgr. 75. gr. laga nr. 84/2007. Þá telur kærandi að meðferð valforsendna við mat kærða og faghóps hafi verið áfátt.
III.
Kærði segir að tilkynning um val tilboða í útboðinu hafi verið í samræmi við tilkynningar síðustu mánuði og að almenn ánægja hafi verið með það fyrirkomulag. Þá telur kærði að mat tilboða hafi verið vandað og lögmætt.
IV.
Kaupendum er almennt játað nokkuð svigrúm við ákvörðun um það hvaða forsendur þeir leggja til grundvallar mati á tilboðum. Hins vegar er sú skylda lögð á kaupanda að þeir tilgreini með eins nákvæmum hætti og unnt er hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar mati á tilboðum og hvaða upplýsinga er krafist, sbr. 38. og 45. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Forsendurnar eiga að vera hlutlægar og tengjast efnahagslegri hagkvæmni með einhverjum hætti en mega aldrei vera svo matskenndar að kaupendum séu í raun og veru litlar skorður settar við mat tilboða. Er það nauðsynlegt til að takmarka vald þeirra til að túlka tilboðin eftir eigin höfði eftir að tilboð hafa verið opnuð og er það jafnframt í samræmi við meginreglur útboðsréttar um gegnsæi og jafnræði bjóðenda, sbr. 1. og 14. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Eiga bjóðendur þannig að geta áttað sig á því fyrirfram hvernig staðið verður að mati á hagkvæmasta tilboði og hagað boðum sínum í samræmi við það.
Í þeim kafla útboðslýsingar sem kallast „val á samningsaðila“ segir að sérstakur faghópur meti tilboð og gefi þeim einkunn. Þau atriði sem faghópnum var ætlað að „hafa til hliðsjónar“ við mat á tilboðum eru sum hver verulega almennt orðuð þar sem útboðsgögn gera ekki skýrlega grein fyrir nánara inntaki almennt orðaðra matsþátta. Af gögnum málsins má þó ráða að faghópurinn hafi sjálfur, a.m.k. að einhverju leyti, farið eftir nánari greiningu á því hvernig meta skyldi tilboð. Má þar sem dæmi nefna að matsforsendan „vöruúrval” var í útboðsgögnum útskýrð þannig: „Því meira úrval, sbr. grein 2.1.1 því hærri einkunn (5 stig)”. Forsendur faghópsins voru aftur á móti þannig að 1 vörunúmer í a.m.k. 2 vöruflokkum gaf 2,5 stig, 2 til 5 vörunúmer í a.m.k. 3 vöruflokkum gáfu 4 stig en 6 og fleiri vörunúmer í a.m.k. 3 vöruflokkum gáfu 5 stig. Rétt hefði verið að kærði hefði tiltekið þessar nánari matsforsendur strax í útboðslýsingu.
Bjóðendum í hinu kærða útboði var ógerlegt að átta sig á því hvernig kaupandi hyggðist meta tiltekna þætti í tilboðum þeirra. Forsendur útboðsgagna fyrir vali tilboða gáfu kærða þannig of víðtækt mat við einkunnagjöf í þeim þáttum og fullnægðu ekki skilyrðum 45. gr. laga nr. 84/2007.
Af framangreindum ástæðum telur kærunefnd útboðsmála verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, og því sé rétt að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007.
Ákvörðunarorð:
Samningsgerð í kjölfar útboðsins 14745: Rammasamningsútboð með heimild á örútboðum: Gips og fylgihlutir fyrir heilbrigðisstofnanir er stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
Reykjavík, 2. mars 2010.
Páll Sigurðsson
Auður Finnbogadóttir
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, 2010.