Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 10/2009, úrskurður 12. mars 2010

Föstudaginn 12. mars 2010 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 10/2009.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið

gegn

Sigurði Hauki Jónssyni og Fjólu Helgadóttur

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Ólafur Gestsson, lögg. endurskoðandi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 4. júní 2009 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 24. júní 2009 óskaði Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, Skúlagötu 4, Reykjavík (eignarnemi) eftir því við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur til handa þeim Sigurði Hauki Jónssyni, kt. 200365-3059 og Fjólu Helgadóttur, kt. 110165-3669, Skollagróf í Hrunamannahreppi vegna förgunar á fé frá bænum Skollagróf í desember 2007. Matið skal ná til þess sauðfjár sem fargað var, afurða- og rekstrartaps auk kostnaðar við hreinsun húsa á bænum og jörðinni Jötu sem eignarnámsþolar hafa til afnota fyrir búskap sinn.

III. Málsmeðferð:

Málið var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 24. júní 2009. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema.

Föstudaginn 4. september 2009 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

Fimmtudaginn 1. október 2009 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Málinu var að því búnu frestað til framlagninar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Föstudaginn 26. nóvember 2009 var málið tekið fyrir. Eignarnámsþolar lögðu fram greinagerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess fyrir nefndinni.

Föstudaginn 22. janúar 2010 var málið tekið fyrir. Áður hafði matsnefndin lagt til ákveðna sáttatillögu í málinu. Sættir voru reyndar án árangurs og var málið því flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því búnu.

Eignarnámið styðst við 8. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993 með síðari breytingum.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveður málsatvik þau að þann 14. nóvember 2007 hafi Landbúnaðarstofnun borist tilkynningu frá Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum um að riðuveiki af afbrigðinu NOR 98 hafði greinst í heilasýni sem tilraunarstöðin hafði rannsakað úr kindum frá Skollagróf, Hrunamannahreppi. Í framhaldi af þessu var öllu fé á bænum fargað þann 6. desember 2007. Eignarnemi kveður samtals 294 kindum hafa verið fargað, 140 lömbum og 154 fullorðnum kindum. Eignarnemi kveður að þrátt fyrir miklar viðræður milli eignarnámsþola og Matvælastofnunar af og til allt árið 2008 hafi ekki náðst samkomulag um fjárhæð bóta vegna förgunarinnar og því hafi verið nauðsynlegt að vísa málinu til Matsnefndar eignarnámsbóta til ákvörðunar bóta.

Af hálfu eignarnema er þess krafist að bætur til eignarnámsþola miðst við förgun á 294 kindum og afurðatjóni miðað við tveggja ára fjárleysi. Þess er krafist að við mat á hinum fellda bústofni verði miðað við að um sýktan stofn hafi verið að ræða. Þá er gerð krafa um bætur vegna hreinsunar húsa og umhverfis.

Eignarnemi kveður að í förgunarbætur fyrir hverja kind skuli greiða andvirði 16 kg. dilks í gæðaflokki DR2 auk gæru og sláturs skv. verðskrá sem gildir fyrir síðari hluta septembermánaðar á hverju fjárleysisári hjá þeim sláturleyfishafa sem viðkomandi framleiðandi leggi inn hjá, í þessu tilfelli Sláturfélagi Suðurlands svf. Um þetta vísar eignarnemi til 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar, með síðari breytingum. Sé lömbum fargað skuli þau bætt að fullu sem sláturlömb og frálag þeirra metið út frá meðalfallþunga og flokkun á viðmiðunarárum afurðatjónsbóta sbr. 3. mgr. 12. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Eignarnemi kveður því verðgildi afurða eignarnámsþola, bæði fullorðins fjár og lamba, miðað við ósýktan fjárstofn, eigi að reiknast á eftirfarandi hátt skv. 20. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, sbr. enn fremur ákvæði 12. gr. reglugerðar nr. 651/2001:

Fullorðið fé:

16 kg. x 381 kr./kg. x 60% álag = kr. 9.754 pr. kind.

Lömb:

Kr. 6.399 pr./lamb.

Förgunarbætur samtals:

Fullorðið fé 154 kindur x kr. 9.754 kr. 1.502.054

Lömb 140 lömb x kr. 6339 kr. 887.463

Samtals kr. 2.389.517

Eignarnemi bendir á að í bréfi Matvælastofnunar dags. 4. maí 2009 komi fram tillaga um fjárleysi á jörðunum Skollagróf og Jötu til 1. september 2009. Samkvæmt þessu voru fjárleysisárin 2008 og 2009. Afurðatjónsbætur vegna fjárleysis skuli reiknast skv. 13. gr. reglugerðar nr. 651/2001 með síðari breytingum, en þar komi skýrt fram að bæturnar eigi að miðast við meðalafurðir sauðfjár á viðkomandi jörð síðustu þrjú ár fyrir niðurskurð samkvæmt skattframtölum og innleggsseðlum. Eignarnemi kveður afurðatjónsbætur miðað við viðmiðunarárin 2004, 2005 og 2006 séu sem hér segir:

Afurðartjónsbætur fyrir fyrra fjárleysisárið (2008) kr. 1.076.511

Afurðartjónsbætur fyrir síðara fjárleysisárið (2009) kr. 739.080

Samtals kr. 1.815.591

Eignarnemi bendir á að skv. 17. gr. laga nr. 25/1993 beri ríkissjóði að greiða efniskostnað vegna nauðsynlegrar hreinsunar og sótthreinsunar sem ákveðin er til að hindra útbreiðslu riðuveiki. Eigendum búfjár sé skylt að leggja fram endurgjaldslaust alla ófaglega vinnu og aðstoð við hreinsun og sótthreinsun. Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram sundurliðun á þessum kostnaði en gert er ráð fyrir að skipta þurfi um jarðveg og malbera 4.012 ferm. skv. skýrslu héraðsdýralæknis. Eignarnemi bendir þó á að ekki liggi fyrir hvaða gólfefni verði notað í fjárhús að Skollagróf þar sem afstaða eignarnámsþola þar að lútandi liggi ekki fyrir. Kostnaður vegna gólfsins hefur því ekki verið reiknaður. Þá liggi ekki ljóst fyrir meðan ekki er enn búið að hreinsa húsin hvaða innréttingar er hægt að hreinsa og sótthreinsa og hverjar ekki. Þrátt fyrir framangreint telur eignarnemi hæfilegar bætur fyrir þennan þátt vera sem hér segir:

Áætlaður kostnaður vegna timburs kr. 1.227.652

Áætlaður kostnaður vegna jarðvegs kr. 934.200

Kostnaður vegna gólfs í fjárhúsi kr. 0

Samtals kr. 2.161.852

Samkvæmt því sem að framan greinir telur eignarnemi hæfilegar bætur til handa eignarnámsþolum vegna förgunarinnar og eftirfarandi hreinsunar vera samtals kr. 6.366.960.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að samtals 327 kindum hafi verið fargað, 180 lömbum og 147 fullorðnu fé en ekki 294 eins og eignarnemi heldur fram. Eignarnámsþolar kveða tilraunir til að semja um bætur hjá Matvælastofnun engu hafa skilað þrátt fyrir miklar tilraunir þar að lútandi. Svo hafi á endanum farið að þau hafi engan raunverulegan samningsvilja hafa verið fyrir hendi af hálfu stofnunarinnar og því hafi þau óskað eftir því að eignarnemi beindi máli þessu til Matsnefndar eignarnámsbóta. Eignarnámsþolar vísa því á bug að drátturinn sem orðið hefur á máli þessu sé þeim að kenna, enda hafi það verið Matvælastofnun sem ekki hafi svarað athugasemdum þeirra og beiðni þeirra um skýringar á þeim drögum að uppgjöri sem fyrir lá.

Eignarnámsþolar mótmæla því að við matið á hinni förguðu hjörð skuli miðað við sýkta hjörð, enda hafi ekki greinst riða í neinni af hinum förguðu kindum. Eignámsþolar benda á að við förgunina hafi farið fram inngrip í eignir og atvinnu þeirra og því skerðingu á stjórnarskrárákvörðuðum réttindum þeirra. Til slíkra skerðinga þurfi lagaheimild og fullar bætur að koma fyrir skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Eignarnámsþolar gera þá kröfur að bætur til þeirra vegna förgunarinnar verði ákvarðar ekki lægri fjárhæð en kr. 22.000.000. Eignarnámsþolar telja nálgun á útreikningi bótanna vera sem hér segir:

Bætur fyrir bústofn:

Eignarnámsþolar kveða bætur fyrir bústofn skiptast í tvennt. Annars vegar förgunarbætur, sem sé mismunur á því afurðaverði sem fæst fyrir hinn fellda fjárstofn, sem annars hefði lifað áfram, og kostnaði við að koma upp nýjum. Hins vegar séu það afurðatjónsbætur vegna þess rekstrartaps sem búfjáreigandinn verði fyrir á ákveðnu tímabili vegna þess að hann má ekki vera með sauðfé og fær þar af leiðandi ekki tekjur af afurðum en getur á móti sparað að minnsta kosti að hluta til rekstarkostnað sem annars félli til við framleiðsluna.

Förgunarbætur:

Eignarnámsþolar telja fjárfjöldann hafa verið staðfestan af héraðsdýralækni þ.e. fullorðið fé 147, lömb 180 og 20 ætluð til ásetnings. Starfsmenn Matvælastofnunar, höfðu samþykkt þennan fjárfjölda í samningaviðræðum við eignarnámsþola.

Förgunarbætur fullorðins fjár:

Eignarnámsþolar kveða bætur miðast við 16 kg. kjöts per kind og gæðastýringar álagi á sama kg. fjölda að við bættu 60 % álagi vegna minni afurða á fyrsta ári:

Kjöt. 16 kg. á 381 kr./kg.        kr. 6.096

Gæðast. 16 kg. á 97,23 KR/kg kr. 1.556

Samtals                                   kr. 7.652

60 % álag 7.652kr x 0.6          kr. 4.591

Samtals pr. kind                      kr. 12.243

 

167 ásetnings kindur x 12.243 kr/kind kr. 2.044.581

 

Eignarnámsþolar gera kröfu til þess að kynbótahrútar verði bættir sérstaklega sem hér segir:

3 Kynbótahrútar á 30.000 kr./stk                 kr. 90.000

Frá dragast grunnbætur 3 x 12.243 kr./kind kr. 36.729

Sérstakar bætur vegna kynbótahrúta er því kr. 53.271

Samkvæmt framangreindu telja eignarnámsþolar förgunarbætur fullorðins fjár eiga að nema kr. 2.097.852.

Förgunarbætur sláturlamba:

Gerð er krafa til að bætur miðist við meðalvigt lamba sem slátrað var af búinu í nóvember 2006 sem var 17.22 kg. og skal miða við verð per. kg. sem er reiknað út af Matvælastofnun. Eignarnámsþolar telja því hæfilegar bætur vegna sláturlamba vera sem hér segir:

160 lömb x 17.22 kg./lamb = 2755.2 kg

2755.2 kg x 385.83 kr/kg kr. 1.063.039

Fóðurkostnaður sláturlamba.

Eignarnámsþolar segjast hafa verið beðin um að hýsa allt sitt sauðfé þar til ljóst væri hvort og hvenær hægt yrði að fá slátrun á bústofninum. Var um að ræða 160 sláturlömb sem hýst voru í 14 daga. Héraðsdýralæknir setti sláturbann á búið sem undirmaður landbúnaðarráðherra. Eignarnámsþolar telja eignarnema eiga að bera ábyrgð á þeim kostnaði sem af þessu hlaust. Því er gerð krafa um fóðurkostnað sláturlamba í 14 daga og miðast bótafjárhæð við matsgerð Runólfs Sigursveinssonar, ráðunauts, dags. 7. október 2009. Eignarnámsþolar kveða kostnað vegna þessa vera sem hér segir:

160 lömb x 5.265kr./dag x 14 dagar kr. 73.705

Afurðatjónsbætur:

Eignarnámsþolar gera verulegar athugasemdir við útreikninga Matvælastofnunar á afurðatjónsbótunum. Telja eignarnámsþolar að miða eigi við 167 kindur í þessu sambandi. Þá er farið fram á afurðartjónsbætur vegna ársins 2010 þar sem töf á máli þessu hefur valdið því að 2010 er fjárlaust ár hjá þeim. Telja eignarnámsþolar að meta eigi bætur miðað við að ull hafi verið lögð inn öll árin.

Bætur vegna eyðingar húsa og hreinsunar húsa og umhverfis:

Eignarnámsþolar mótmæla sérstaklega umfjöllun af hálfu eignarnema um bætur vegna eyðingar húsa og kostnaðar vegna hreinsunar húsa og umhverfis. Ekki hafi verið gengið frá eyðingu húsa eða hreinsunar þar sem samkomulag hafi ekki tekist um bætur af þeim sökum. Því er sérstaklega mótmælt að eignarnámsþolar hafi í eingu sinnt fyrirmælum í tengslum við þetta eins og haldið er fram af hálfu eignarnema.

Bætur vegna mannvirkja:

Eignarnámsþolar benda á að þau hafi nýtt sér þau hús sem krafist er niðurrifs á við búskapinn og sá húsakostur sé þeim nauðsynlegur. Ljóst sé að við fjarlægingu þeirra þurfi þau að koma sér upp annarri aðstöðu. Mannvirkin beri því að meta með tilliti til kostnaðar við slíka mannvirkjagerð og í engu tilviki ætti mat húsanna að vera lægra en brunabótamat þeirra. Fjárhús byggt 1979 sé ekki skráð hjá Fasteignamati ríkisins og verði því að meta sérstaklega.

Kostnaður vegna jarðvegsskipta:

Af hálfu eignarnema er gert ráð fyrir samtals 4.012 fermetrum vegna jarðvegsskipta. Eignarnámsþolar gera athugasemdir við þá tölu. Telja þeir að í þá tölu vanti að gera ráð fyrir fermetrum er nemi gólffleti húsa 140 m2. Í Skollagróf vanti haughúsgólfið 162m2. Ef fylla á upp í það um meter þá séu það 162m3. Þá þurfi að malarbera þar sem hús verða rifin og þar í kring um 400m2. Undir flestum húsunum sé a.m.k. eins metra djúpur kjallari þannig að eðlilegt virðist að ætla í það meters þykkt lag sem geri 400m3. Ekki er gerður ágreiningur af hálfu eignarnámsþola um að verð á möl sé 1500kr/m3.

Eignarnámsþolar fara fram á bætur fyrir jarðvegsskipti, þ.e. uppmokstur og flutning kr. 800 á m3 miðað við 4152 m2 og 15 cm lag, sem geri 662.8 m3, er gerir kr. kr. 498.240. Jafnframt beri eignarnema að greiða fyrir rif á húsum alls 361 m2 kr 3000/m2 miðað við að efnið sé ekki flokkað, eða kr. 1.083.000. Einnig er gerð krafa til þess að eignarnemi kosti holur fyrir efni sem á að farga og frágang á þeim sem og afli allra leyfa fyrir þeim, ellegar flytji allt efni burt af jörðunum á sinn kostnað.

Dráttarvextir:

Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa um dráttarvexti af metnum bótum frá 6. desember 2007, þegar eignarnemi fyrirskipaði niðurskurð bústofns eignarnámsþola, og er byggt á þeirri grundvallarreglu að afhending hins eignarnumda og greiðsla bótanna eigi að fara fram samtímis, sbr. 13. gr. laga nr. 11, 1973 um framkvæmd eignarnáms.

VI. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Óumdeilt er að niðurskurðar var krafist hjá eignarnámsþolum og að eignarnema beri að greiða bætur vegna þessa.

Fallist er á það með eignarnámsþolum að miða afurðartjónsbætur til þeirra við að um þrjú frjáleysisár sé að ræða, þ.e. 2008, 2009 og 2010. Þá er við það miðað við ákvörðun bóta í máli þessu að samtals 294 kindum hafi verið fargað, þ.e. 154 ám og 140 lömbum. Er í þessu sambandi byggt á reikningi Sláturfélags Suðurlands sem sá um slátrunina og lagður var fram í málinu.

Fyrir liggur að nokkuð af húsakosti þarf að rífa. Annan þarf að hreinsa, annað hvort með sótthreinsun eða með því að skipta út innréttingum. Ljóst að bætur til handa eignarnámsþolum skiptast í raun í þrennt auk kostnaðar þeirra við rekstur matsmáls þessa, þ.e. förgunarbætur, afurðartjónsbætur og bætur vegna niðurrifs og/eða hreinsunar húsa og jarðvegsskipti.

Að áliti matsnefndarinnar eru hæfilegar bætur fyrir hvern þessara liða sem hér segir:

Förgunarbætur:

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 651/2001 skulu bætur fyrir hverja kind var andvirði 16 kg dilks í gæðaflokki DR2. öðrum verðflokki, að viðbættu 60% álagi. Bætur vegna fullorðinna kinda ákvarðast því sem hér segir miðað við verðlag í febrúar 2010:

16 kg. x 381 kr/kg x 60% álag = 9.754 kr. per kind

9.754 kr. * 154 kindur = 1.502.054

1.502.054 x 357,9/279,9 = 1.920.712.

Lömb skulu bætt skv. 3. mgr. 12. gr. reglugerðar 651/2001. Frálag þeirra skal metið út frá meðalfallþunga og flokkun á viðmiðunarárum afurðatjónsbóta, að viðbættu 3% álagi. Bætur vegna þessa ákvarðast sem hér segir miðað við verðlag í febrúar 2010:

Meðalþungi lamba viðmiðunarárin (2004-2006) er 15,83 kg.

Meðalverð per/kg viðmiðunarárin (2004-2006) með 3% álagi er 388,96 kr/kg

Meðalverð hvers lambs skv. ofanrituðu er því kr. 6.157,24

6.157 kr. x 140 lömb = kr. 861.980

861.980 x 357,9/279,9 = 1.102.189.

Samkvæmt framansögðu teljast hæfilegar förgunarbætur í máli þessu alls kr. 3.022.901.

Afurðartjónsbætur:

Af gögnum málsins verður ekki ráðið hver beinn kostnaður eignarnámsþola vegna sauðfjárræktarinnar var. Af þessum sökum er sú leið farin við ákvörðun bóta fyrir afurðartjónsbætur að hlutfalla kostnaðinn á móti tekjum. Miðað við þann útreikning er niðurstaðan 9,5% vegna ársins 2004, 10,47% vegna ársins 2005 og 9,3% vegna ársins 2006. Afurðartjónsbæturnar teljast því hæfilegar sem hér segir miðað við verðlag í febrúar 2010:

2004 548.809 x 357,9 / 234,5 = 837.607
2005 766.946 x 357,9 / 243,95 = 1.125.189
2006 804.260 x 357,9 / 257,55 = 1.117.626

Af þessu leiðir að meðaltalsframlegð per ár á verðlagi í febrúar 2010 eru kr. 1.026.807. Fyrir 3 ár teljast hæfilegar bætur því vera samtals kr. 3.080.422


Bætur fyrir niðurrif, hreinsun og jarðvegsskipti:
Að áliti matsnefndarinnar eru hæfilegar bætur vegna niðurrifs, hreinsunar og jarðvegsskipta sem hér segir miðað við verðlag í febrúar 2010:

Skollagróf:

Efniskaup

800.000

Innréttingar rif og förgun

400.000

Vinna fagmanns við innréttingar

800.000

Hreinsun kjallara, malarlag í gólf og stoðir klæddar

300.000

Gamalt hesthús og 3 gömul hús fargað merkt 4 og 5 á

skjali 30. Kostnaður við förgun húsanna og bætur vegna

förgunar 223 m2 á 10.000.-

2.230.000

Jarðvegsskipti 420 m3 á 1.500.-

630.000

Samtals vegna Skollagrófar

5.160.000

Jata:

Efniskaup

500.000

Innréttingar rif og förgun

250.000

Vinna fagmanns við innréttingar

500.000

Jarðvegsskipti 260 m3 á 1.500.-

390.000

Samtals vegna Jötu

1.640.000

Bætur vegna Jötu og Skollagrófar samtals

6.800.000

Samantekt:

Af framansögðu þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola í máli þessu vera sem hér segir:

Förgunarbætur                                                 kr. 3.022.901

Afurðartjónsbætur                                            kr. 3.080.422

Bætur fyrir niðurrif, hreinsun og jarðvegsskipti kr. 6.800.000

Samtals                                                            kr. 12.903.323

Að auki skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kr. 1.008.650 í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 1.600.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta.

Í framangreindum fjárhæðum hefur verið tekið tillit til eigin vinnu eignarnámsþola sem ekki er bætt sérstaklega sbr. 17. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, greiði eignarnámsþolum, Sigurði Hauki Jónssyni, kt. 200365-3059 og Fjólu Helgadóttur, kt. 110165-3669, Skollagróf í Hrunamannahreppi, kr. 12.903.323 í eignarnámsbætur og kr. 1.008.650 í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 1.600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

____________________________________

Helgi Jóhannesson

___________           ___________________________

Vífill Oddsson             Ólafur Gestsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta