Mál nr. 89/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. febrúar 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 89/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, hafði verið skráður á atvinnuleysisbætur frá 12. desember 2008 þegar upp komst, þann 4. júní 2009, að hann var í starfi. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 30. júlí 2009, þá ákvörðun sína frá 22. júlí 2009 að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli 1. mgr. 60 gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og ákvað jafnframt að hann gæti ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrr en að einu ári liðnu frá ákvörðun stofnunarinnar þann 22. júlí 2009. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 12. ágúst 2009. Hann krefst þess að mál sitt verði kannað nánar og hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Eftirlitsmenn Vinnumálastofnunar komust á snoðir um það þann 4. júní 2009 að kærandi var við vinnu en var jafnframt á atvinnuleysisbótum og hafði verið það frá 12. desember 2008. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 8. júní 2009, þá ákvörðun sína að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfi kæranda sem barst Vinnumálastofnun þann 26. júní 2009 kemur fram að kærandi hafi starfað í nokkra daga og hafi hann síðan ekki fengið áframhaldandi vinnu. Kærandi ber í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar að hann hafi aðeins verið í starfi í einn dag og hafi síðan verið rekinn úr vinnunni. Hann kveðst ekki hafa fengið aðra vinnu og hafi enga framfærslu.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. október 2009, kemur fram að skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Kærandi hafi verið staðinn að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Engar tilraunir hafi verið gerðar af hálfu kæranda til að hafa samband við Vinnumálastofnun og gera grein fyrir því að kærandi væri kominn í launað starf, jafnvel þegar fulltrúar í eftirliti á vegum stofnunarinnar reyndu að ná tali af honum. Þvert á móti hafi kærandi reynt að leyna því fyrir starfsmönnum Vinnumálastofnunar að hann væri í vinnu hjá því fyrirtæki er eftirlit stofnunarinnar beindist að.
Kærandi heldur því fram í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að hann hafi einungis starfað í einn dag og hafi verið sagt upp störfum samdægurs. Í skýringarbréfi til Vinnumálastofnunar segist kærandi hins vegar hafa unnið nokkra daga þegar eftirlitsmenn á vegum Vinnumálastofnunar bar að garði. Hvort kærandi starfaði lengur eða skemur breyti ekki afstöðu stofnunarinnar.
Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta með svikum, misst rétt sinn samkvæmt lögunum í allt að tvö ár og mögulega þurft að sæta sektum. Sé gert ráð fyrir því samkvæmt greininni að sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta með því að leyna upplýsingum um hagi sína eða annars konar svikum, skuli missa rétt til atvinnuleysisbóta í allt að tvö ár. Enn fremur sé gert ráð fyrir að brotið geti varðað sektum. Eigi ákvæðið bæði við um fullframin brot og tilraunir til brots.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. október 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. október 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Hinn 4. júní 2009 flúði kærandi ásamt vinnufélaga sínum af vinnustað þegar eftirlitsmenn Vinnumálastofnunar komu á vettvang. Í kjölfarið öfluðu eftirlitsmennirnir eingöngu upplýsinga um nöfn þeirra manna sem horfið höfðu á braut. Þegar í ljós kom að kærandi hafði verið á atvinnuleysisbótum síðan 12. desember 2008 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, með bréfi dags. 8. júní 2009, að atvinnuleysisbætur til hans væru felldar niður. Með bréfi kæranda, sem barst Vinnumálastofnun 26. júní 2009, færði hann þær skýringar að hann hafi verið að vinna sem málari á reynslutímabili og hann hafi sem slíkur unnið eingöngu í nokkra daga. Þrátt fyrir þessi andmæli kæranda rannsakaði Vinnumálastofnun málið ekkert frekar áður en sú ákvörðun var kynnt kæranda, með bréfi dags. 30. júlí 2009, að hann væri ekki eingöngu sviptur atvinnuleysisbótum, heldur mætti hann ekki sækja um atvinnuleysisbætur fyrr en að einu ári liðnu frá og með 22. júlí 2009 að telja. Jafnframt var í bréfi Vinnumálastofnunar tekið fram að fjárhæð, sem samsvaraði ofgreiddum atvinnuleysisbótum, yrði komið í innheimtuferli. Í kæru kæranda er því haldið fram að hann hafi eingöngu unnið einn dag sem málari og hafi eftir þetta verið rekinn. Af þessum sökum ætti hann í fjárhagserfiðleikum.
Kærandi, sem er ekki íslenskumælandi, hefur haldið því fram að hann hafi eingöngu verið að vinna á reynslutímabili. Þessar fullyrðingar voru ekki hraktar með óyggjandi hætti áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Séu fullyrðingar kæranda réttar aflaði hann sér tekna með tilfallandi vinnu í skilningi 3. mgr. 9. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. júlí 2009, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 30. júlí 2009, var reist á þeirri forsendu að kærandi hafi svikið út atvinnuleysisbætur, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 13. og 14. gr. sömu laga. Þótt enginn vafi leiki á því að rétt hafi verið hjá Vinnumálastofnun að grípa til aðgerða í tilefni þess að kærandi flúði af starfsvettvangi sínum hinn 4. júní 2009, þá bar stofnuninni að vanda til rannsóknar málsins áður en sú íþyngjandi ákvörðun var tekin að svipta kæranda bótum og banna honum um að sækja um atvinnuleysisbætur í eitt ár. Miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu, og í ljósi þeirra takmörkuðu heimilda sem úrskurðarnefndin hefur til að afla gagna hjá öðrum opinberum aðilum, getur úrskurðarnefndin ekki kveðið á um það hvort kærandi hafi gerst brotlegur um svik í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginga eða hvort hann hafi verið að afla sér tekna með tilfallandi vinnu. Annmarkar á rannsókn málsins hjá Vinnumálastofnun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, eru þess eðlis að ekki er hægt að bæta úr þeim við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. júlí 2009 í máli A er felld úr gildi og er málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson