Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 637/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 637/2020

Miðvikudaginn 16. desember 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. nóvember 2020, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B, dags. 20. október 2020, varðandi umgengni hennar við D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn, D, er X ára gamall. Mál drengsins hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum frá árinu X. Barnaverndarnefnd B fer með forsjá drengsins. Hann var vistaður tímabundið á árunum X-X hjá föðurömmu og föðurafa í E og því næst á fósturheimili í F. Hann hefur verið vistaður á núverandi fósturheimili í um tvö ár.

Kærandi, sem er afasystir drengsins, óskaði eftir umgengni við drenginn einu sinni í mánuði og ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að á meðferðarfundi 27. apríl 2020 hafi verið fallist á að heimila umgengni drengsins við kæranda tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn á heimili hennar undir eftirliti. Kærandi felldi sig ekki við þessa niðurstöðu og var málið því lagt fyrir Barnaverndarnefnd B þann 18. ágúst 2020. Með bókun barnaverndarnefndarinnar var fallist á lengri umgengni í hvert sinn, fjórar klukkustundir í stað tveggja og að umgengni yrði án eftirlits. Þá var fallist á að kæranda væri heimilt að senda drengnum gjafir á jólum og afmælum hans. Kærandi féllst ekki á þessa niðurstöðu og óskaði eftir viðbótarumgengni um jól og á afmælum drengsins og að hún gæti fært honum gjafir í eigin persónu. Fósturforeldrar hafi ekki sett sig upp á móti umgengni en hafi hins vegar lýst yfir óánægju með gríðarlegt magn gjafa sem berast meðal annars. frá kæranda. Að mati fósturforeldra séu þær úr hófi og óheppilegar með tilliti til annarra barna á heimilinu.

Barnaverndarnefnd B kvað upp úrskurð varðandi umgengnina á fundi nefndarinnar þann 20. október 2020. Í niðurstöðu úrskurðarins segir meðal annars:

„Í ljósi forsögu málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi er það því niðurstaða barnaverndarnefndar B að umgengni hans við A, afasystur sína, verði tvisvar á ári í fjórar klst. í senn. Auk þess verði henni heimilt að senda honum gjafir í kringum afmæli og jól, eina í hvert sinn.“

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem bent er á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Drengurinn D, skal hafa umgengni við afasystur sína, A tvisvar á ári í fjórar klst. í senn. Þá verði afasystur heimilt að senda drengnum gjafir á jólum og á afmæli hans.“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. nóvember 2020. Þar kemur fram að kæran lúti einungis að þeim hluta úrskurðarins er snýr að gjöfum kæranda til drengsins. Gerð er krafa um að kæranda sé heimila að afhent drengnum fleiri gjafir og er meðal annars vísað til þess að hún sé að koma gjöfum til drengsins frá fleiri ættingjum. Þá er þess einnig krafist að kærandi fái að afhenda drengnum gjafir um jól og áramót í eigin persónu þar sem mjög ópersónulegt sé að senda gjafirnar og það eitt og sér valdi drengnum að öllum líkindum vonbrigðum.

Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 7. desember 2020, var óskað eftir skýringum lögmanns á því hvers vegna kæra hafi borist að kærufresti liðnum með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skýringar lögmanns bárust með tölvupósti, dags. 8. desember 2020, og kom þar fram að ekki hafi verið unnt að halda fund með kæranda til að kynna og fara yfir úrskurðinn og mögulega kæruleið fyrr en 10. nóvember síðastliðinn. Ástæður þess hafi verið ófyrirsjánleg atvik sem vörðuðu kæranda án þess að það væri skýrt nánar. Frekari gagna var ekki aflað vegna kærunnar.

II.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. bvl. geta aðilar barnaverndarmáls skotið úrskurði eða ákvörðun samkvæmt 6. gr. laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð eða ákvörðun. Þessi lagaákvæði eiga við um hinn kærða úrskurð. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.

Úrskurður Barnaverndarnefndar B var sendur með tölvupósti til lögmanns kæranda 22. október 2020. Kæran barst úrskurðarnefndinni 24. nóvember 2020. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða 22. október og lauk honum 19. nóvember 2020. Þegar úrskurðarnefndinni barst kæran voru því liðnir fimm dagar fram yfir kærufrest.

Að því er varðar 1. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, hefur lögmaður kæranda gefið þær skýringar að ekki hafi verið unnt að halda fund með kæranda til að kynna og fara yfir úrskurðinn og mögulega kæruleið fyrr en 10. nóvember síðastliðinn vegna ófyrirsjáanlegra atvika sem vörðuðu kæranda. Fresti til kæru í þessu tilviki ljúki því ekki fyrr en 8. desember 2020 og því sé krafist að úrskurðurinn verði tekinn til efnislegrar úrlausnar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga ofangreind sjónarmið lögmannsins sér ekki stoð í bvl. Í hinum kærða úrskurði segir: „Vakin er athygli á að skv. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er unnt að skjóta úrskurði þessum til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna.“ Þetta verður að skilja í samhengi við 51. gr. bvl. þar sem fram kemur að skjóta megi úrskurði til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurðinn. Er þannig ekki gert að skilyrði að aðili hafi kynnt sér efni úrskurðar. Á þetta sér einnig stoð í stjórnsýslulögum þar sem fram kemur í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði í þessu sambandi að ákvörðun sé komin til vitundar hans, en þetta kemur fram í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til stjórnsýslulaga.

Í samræmi við framanritað verður að telja að kæranda hafi verið tilkynnt um úrskurðinn í skilningi bvl. þann 22. október 2020 er lögmanni hennar var sendur úrskurðurinn með tölvupósti á uppgefið netfang lögmannsins. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu lögmanns kæranda að fyrrgreindur tölupóstur með hinum kærða úrskurði hafi borist lögmanninum þann 22. október 2020.  Óljósar skýringar lögmanns um að ekki hafi verið unnt að kynna úrskurðinn fyrir kæranda fyrr en 18 dögum eftir að lögmaður móttók úrskurðinn renna engum stoðum undir að afsakanlegt hafi verið verð að kæran barst að kærufresti loknum.

Samkvæmt því, sem rakið er hér að framan, hafa engar nægilegar haldbærar skýringar komið fram á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti og ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, vegna úrskurðar Barnaverndarnefndar B 20. október 2020, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta