Hoppa yfir valmynd

Nr. 182/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 182/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050001

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 573/2019, dags. 5. desember 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. september 2019, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 9. desember 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. desember 2019 var kæranda vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára. Ákvörðunin var birt kæranda þann 9. janúar 2020 og þann 16. janúar sl. kærði kærandi þá ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála ásamt því að óska eftir frestun réttaráhrifa skv. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fallist var á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa þann 5. febrúar 2020. Leyst verður úr kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. desember 2019, um brottvísun og endurkomubann í sérstökum úrskurði.

Þann 4. maí 2020 leiðbeindi kærunefnd kæranda, með vísan til þeirrar stöðu sem uppi sé vegna Covid-19 faraldursins, að óska eftir endurupptöku máls hans hjá nefndinni. Þann sama dag barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins.Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er vísað til þess að þann 4. maí sl. hafi lögmanni kæranda borist tölvupóstur frá yfirlögfræðingi kærunefndar útlendingamála þar sem kærandi telji að fram hafi komið að til stæði að endurskoða og eftir atvikum endurupptaka mál kæranda vegna heimsfaraldurs Covid-19. Með vísan til framangreinds er þess óskað að mál kæranda verði endurupptekið án tafar.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 5. desember 2019. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fái hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Af endurupptökubeiðni kæranda má ráða að hann byggi beiðni sína um endurupptöku á því að aðstæður í máli hans hafi breyst vegna heimsfaraldursins Covid-19.

Við úrlausn málsins hefur kærunefnd litið til hinna sérstöku aðstæðna sem eru uppi í ljósi Covid-19 faraldursins, þeirra áhrifa sem hann kann að hafa á aðstæður þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og þeirrar óvissu sem ríkir um framhaldið. Þá hefur kærunefnd jafnframt litið til forsendna í úrskurði kærunefndar nr. 573/2019 og málsins í heild. Með vísan til þess er það mat kærunefndar að aðstæður í Grikklandi hafi breyst verulega frá því að úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku máls hans.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Kærandi er með alþjóðlega vernd á Grikklandi og hefur m.a. greint frá bágum aðstæðum sínum þar í landi. Hann hafi t.a.m. haft takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu, félagslegri þjónustu og ekki fengið atvinnu. Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 5. desember sl., byggði kærunefnd á því að ekki væru forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi gæti leitað sér fullnægjandi og aðgengilegrar þjónustu þar í landi í samræmi við þarfir sínar, og var áréttað að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Grikklandi eigi að lögum sambærilegan rétt á félagslegri aðstoð og ríkisborgarar Grikklands, þó að þeir þurfi í einhverjum tilvikum að yfirstíga ákveðnar hindranir til þess að sækja þá þjónustu.

Frá því að kærunefnd útlendingamála úrskurðaði í máli kæranda þann 5. desember sl. hafa aðstæður breyst verulega í viðtökuríkinu með tilkomu Covid-19 faraldursins. Ljóst er að faraldurinn mun hafa verulegar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar sem og neikvæð áhrif á innviði ríkisins. Að mati kærunefndar getur þetta leitt til aðgangshindrana að þjónustu fyrir flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd, þ. á m. velferðarþjónustu.

Þá liggur fyrir að vegna útbreiðslu Covid-19 faraldursins hafa mörg ríki, þ.m.t. viðtökuríkið, sett á ferðatakmarkanir og mörg hver lokað tímabundið fyrir endursendingar, bæði einstaklinga með alþjóðlega vernd og á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, en óvíst er hvenær opnað verði aftur fyrir endursendingar.

Í ljósi þeirra áskorana sem viðtökuríkið hefur glímt við um nokkurt skeið í tengslum við aðgengi þeirra sem njóta alþjóðlegrar verndar að innviðum og lagalegum réttindum og með vísan til þeirra erfiðleika sem ætla má að Covid-19 faraldurinn leiði til í ríkinu telur kærunefnd, að svo stöddu, að ástæða sé til að ætla að ekki sé um að ræða svo tímabundið ástand að hjá því verði litið.

Að mati kærunefndar mæla því sérstakar ástæður, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, með því að mál kæranda verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, m.a. með vísan til samverkandi áhrifa stöðu kæranda í viðtökuríki, áhrifa Covid-19 faraldursins á innviði Grikklands og þeirrar óvissu sem af faraldrinum leiðir að öðru leyti.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á og í ljósi heildarmats á aðstæðum kæranda, að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans og leggja fyrir stofnunina að taka mál hans til efnislegrar meðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka mál hans til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The appellant‘s request for re-examination of his case is granted.The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Árni Helgason                                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta