Hoppa yfir valmynd

Nr. 444/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 444/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070011

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. júlí 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2019, um að synja henni um ótímabundið dvalarleyfi.

Af greinargerð verður ráðið að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt ótímabundið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara þann 26. september 2014 með gildistíma til 10. júlí 2015. Þann 13. júlí 2015 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á sama grundvelli og fékk útgefið leyfi 28. ágúst 2015 með gildistíma til 10. júlí 2016. Var það leyfi endurnýjað með gildistíma til 10. júlí 2017. Þann 13. júlí s.á. lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á sama grundvelli og var leyfið útgefið 30. ágúst s.á., með gildistíma til 10. júlí 2018. Var það leyfi svo endurnýjað með gildistíma til 10. janúar 2020. Þann 21. febrúar 2019 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2019, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 28. júní sl. og kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 8. júlí sl., en kæru fylgdi greinargerð og fylgigögn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að eitt af skilyrðum fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis skv. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga væri að útlendingur hefði dvalist hér á landi samfellt í fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem gæti verið grundvöllur ótímabundins leyfis. Ljóst væri að dvöl kæranda væri ekki samfelld enda hefði hún í tvígang sótt um endurnýjun á dvalarleyfi sínu of seint og því hefði stofnunin farið með þær umsóknir sem umsókn um nýtt dvalarleyfi. Að mati stofnunarinnar uppfyllti hún því ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laganna um fjögurra ára samfellda dvöl og ættu undanþágur 3. mgr. ákvæðisins ekki við. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún hefði sótt um endurnýjun á dvalarleyfi sínu of seint og að hvorki Útlendingastofnun né önnur stjórnvöld hefðu upplýst hana um stöðu mála. Jafnframt hafi hún fengið óljósar leiðbeiningar frá Útlendingastofnun sem þar að auki hefðu eingöngu verið á íslensku. Hafi hún alltaf staðið í þeirri trú um að dvalarleyfi hennar hafi verið í gildi samfellt frá árinu 2014. Vísar kærandi til þess að á dvalarleyfiskorti sem Útlendingastofnun hafi gefið út til hennar hafi alltaf komið fram að dvalarleyfi hefði upphaflega verið gefið út þann 26. september 2014.

Kærandi gerir athugasemdir við rökstuðning Útlendingastofnunar. Að mati kæranda verði ekki séð að ákvörðun stofnunarinnar feli í sér lögmæta synjun á umsókn hennar ef litið sé til markmiðs og tilgangs þeirra skilyrða sem fram koma í 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Það telur kærandi óumdeilt að hún hafi dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis allt frá 26. september 2014 og að hún uppfylli þau skilyrði sem talin séu upp í a - e-liðum síðastnefnds ákvæðis. Jafnvel þótt hún hafi skilað inn umsóknum um endurnýjun dvalarleyfis of seint telur kærandi að ekki verði litið fram hjá því að hún uppfylli skilyrði um fjögurra ára heildardvöl líkt og áskilið sé í ákvæðinu. Þá vísar kærandi til meðalhófsreglunnar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða verði ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga ekki túlkað á þá vegu að hægt sé, með vísan til þröngra formskilyrða að synja útlendingi; sem hafi dvalið á Íslandi á grundvelli dvalarleyfis í tæp fimm ár; sé í hjónabandi með íslenskum ríkisborgara og stundi vinnu og sérfræðinám á Íslandi, um ótímabundið dvalarleyfi sem hún nauðsynlega þarfnist til þess að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Loks kannast kærandi ekki við að hafa fengið leiðbeiningar eða upplýsingar þess efnis að umsóknir hennar árin 2015 og 2017 hefðu verið afgreiddar sem umsóknir um ný dvalarleyfi og vísar til þess að á núgildandi dvalarleyfiskorti hennar segi berum orðum að upphaflegt leyfi hafi verið gefið út þann 26. september 2014. Að mati kæranda verði því ekki annað séð en að afgreiðsla Útlendingastofnunar á umsóknum hennar í framangreindum tilvikum brjóti gegn þeirri leiðbeiningarskyldu sem fram komi í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a – e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi hafi verið synjað þar sem stofnunin hafi talið að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um að hafa dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi. Ástæða þessa er að þann 13. júlí 2015 hafi kærandi sótt um endurnýjun á dvalarleyfi sínu þremur dögum eftir að fyrra leyfi hans rann út og hafi umsóknin verið afgreidd af Útlendingastofnun sem umsókn um nýtt leyfi, sem hafi verið útgefið þann 28. ágúst 2015. Þann 13. júlí 2017 hafi kærandi jafnframt lagt fram umsókn um endurnýjun leyfisins þremur dögum of seint. Hafi umsóknin því verið afgreidd af Útlendingastofnun sem umsókn um nýtt leyfi og verið leyfið útgefið 30. ágúst s.á., með gildistíma til 10. júlí 2018.

Vegna tilvísunar Útlendingastofnunar til þess að stofnunin hafi tvívegis afgreitt umsókn kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi sem umsókn um nýtt leyfi, óskaði kærunefnd eftir ákvörðunum Útlendingastofnunar þess efnis og frekari gögnum frá stofnuninni, s.s. samskipti við kæranda við málsmeðferð þeirra umsókna kæranda sem bárust eftir áskilinn frest. Í svari Útlendingastofnunar til kærunefndar, dags. 27. ágúst 2019, kemur fram að umræddar leyfisveitingar hafi ekki verið geymdar sérstaklega. Frekari gögn bárust ekki frá Útlendingastofnun. Kærunefnd hefur því ekki undir höndum gögn stofnunarinnar varðandi umsóknir kæranda um endurnýjun dvalarleyfis, dags. 13. júlí 2015 og 13. júlí 2017.

Í 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis skuli sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi falli úr gildi. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé ekki sótt um endurnýjun innan gildistíma fyrra dvalarleyfis skuli réttur til dvalar falla niður og fara skuli með umsókn skv. 51. gr. laganna. Í 4. mgr. 57. gr. segir að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis sem borist hefur eftir þann frest sem um getur í 2. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Að mati kærunefndar kemur 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga ekki í veg fyrir að lagt sé mat á hvort ríkar sanngirnisástæður samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laganna eigi við í málinu þótt umsækjandi sæki um endurnýjun eftir að upphaflegur gildistími dvalarleyfis sé runninn út. Fallist stjórnvöld á að ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli umsækjenda ber því að fara með málið á þann hátt að um umsókn um endurnýjun dvalarleyfis umsækjanda sé að ræða en ekki setja umsóknina í farveg skv. 3. mgr. 57. gr., sbr. 51. gr. laganna.

Í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft.

Í 2. mgr. er kveðið á um að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita tilteknar leiðbeiningar, þ.m.t. um kæruheimild og rétt aðila til að fá ákvörðun rökstudda. Ekki þarf þó að veita leiðbeiningar þegar ákvörðun er tilkynnt hafi umsókn aðila verið tekin til greina að öllu leyti, sbr. 3. mgr. 20. gr. laganna.

Þegar umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi er samþykkt er Útlendingastofnun því ekki skylt að veita leiðbeiningar um heimild til að fá ákvörðun rökstudda og um kæruheimild. Þegar umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi er ekki tekin til greina að öllu leyti, þ.m.t. í þeim tilvikum þar sem farið er með umsókn um endurnýjun sem umsókn um „nýtt leyfi“ skv. 51. gr. af því hún barst of seint, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, er aftur á móti skylt að veita slíkar leiðbeiningar.

Í gögnum málsins liggur ekki fyrir hvort eða hvernig kæranda var tilkynnt um að henni hefði verið veitt dvalarleyfi á ný í kjölfar umsókna, dags. 13. júlí 2015 og 13. júlí 2017. Í það minnsta telur kærunefnd ljóst að kærandi fékk ekki leiðbeiningar um að umsóknum hennar um endurnýjun leyfanna hefðu ekki verið teknar til greina að öllu leyti með ákvörðununum.

Samkvæmt framansögðu varð kærandi af rétti til að fá ákvarðanir um að umsóknum hennar um endurnýjun á dvalarleyfum rökstudda og endurskoðaða. Meðal annars af þeirri ástæðu liggur ekki fyrir mat Útlendingastofnunar á því hvort ríkar sanngirnisástæður mæltu með því að henni yrði á þeim tíma veitt heimild til að dvelja áfram hér á landi á grundvelli fyrri leyfa, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þessarar málsmeðferðar er það mat kærunefndar að atvik málsins verði metin kæranda í hag að þessu leyti og að lagt verði til grundvallar við úrlausn málsins að umsóknir hennar um endurnýjun á dvalarleyfi, dags. 13. júlí 2015 og 13. júlí 2017, hafi verið teknar til greina að öllu leyti.

Af því leiðir að kærandi hefur dvalið hér á landi óslitið samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, og ekki tilefni til að synja umsókn hennar um ótímabundið dvalarleyfi á þeim grundvelli. Ákvörðun Útlendingastofnunar verður því felld úr gildi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi uppfyllir önnur skilyrða 58. gr. laganna. Verður því lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                   Ívar Örn Ívarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta